föstudagur, 14. mars 2008

Velkomin til Brussel!

Hvar er RÚV?

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel þar sem ég starfa, er staðsett í hinu sögufræga húsi Residence Palace (Íbúðahöllinni!) beint við hliðina á aðsetri leiðtoga Evrópusambandsins, andspænis framkvæmdastjórninni og spölkorn frá íslenska sendiráðinu. Þessa stundina eru leiðtogarnir á fundi steinsnar héðan og ef vel er að gáð má sjá út um gluggann, Brown og Sarkozy, Merkel og Prodi skáskjóta sér út í svartar limmur bakdyramegin. Fyrir framan bygginguna hafa verið reistir pallar þar sem talandi höfuð BBC og CNN og þess háttar sjónvarpsstöðva mala daglangt. Þegar utanríkisráðherrar eru með í förinni má oft sjá kunnuglegan slána, skima yfir sviðið bláum augum: Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía er alltaf til í viðtal. Alþjóðlega blaðamannamiðstöðin í Brussel er staðsett í húsinu þar sem ég vinn. Þar hef ég rekist á blaðamenn frá Úsbekistan, Kirgistan og gott ef ekki Langtbortistan og meira að segja Færeying – en aldrei Íslending. Nú er það svo að í þessari borg er stór hluti þeirrar löggjafar sem tekur gildi á Íslandi samin og samþykkt og íslensk stjórnvöld í hlutverki þrýstihóps. Hér rekst maður á íslenska ráðherra og þingmenn úti á götu, fræðimenn og háskólanema. En íslenskir blaðamenn eru sjaldséðir hvítir hrafnar, að því undanskyldu að þeir heimsækja NATO annað slagið. Sagt er að ekki séu til peningar. Engu að síður hefur RÚV nýlega komið sér upp þremur starfsstöðvum erlendis. Við hjá Sameinuðu þjóðunum erum stolt og þakklát fyrir að New York þar sem höfuðstöðvar okkar eru, hafi orðið fyrir valinu og vafalaust er mikið verk að fylgjast með íslenskum auðmönnum í Lundúnum. Og í Kaupmannahöfn eru jú bæði Dóra Takefúsa og Frikki Weisshappel þannig að þar drýpur smjör af hverju strái. En með fullri virðingu fyrir okkur hjá Sameinuðu þjóðunum, Bjögga Thor, Dóru og Frikka: af hverju ekki Brussel? Héðan er stutt í allar áttir, klukkutíma og tuttugu mínútur til Parísar og tæpir tveir til London í lest úr miðbæ í miðbæ. Hér er aðgengi auðvelt að ráðamönnum – ég hitti sjávarútvegsráðherra Frakka í gær á blaðamannafundi og það hefði verið forvitnilegt að heyra í honum um Evrópumál Íslendinga. En það var enginn íslenskur blaðamaður til að spyrja. Það sem meira er ESB sér blaðamönnum oft og tíðum fyrir ókeypis sjónvarpsliði og “innklippsefni” – þannig að gera má ráð fyrir að rekstur “starfsstöðvar” hér væri ódýrari en annars staðar. Að því svo ógleymdu að hér í Residence Palace hefur Evrópusamband sjónvarpsstöðva (EBU) “feed point” sem þýðir að hægt er að koma efni hratt, örugglega og á ódýrari hátt en annars staðar um gerfihnött beint heim í Efstaleiti. Ég segi einfaldlega við mína gömlu samstarfsmenn Pál Magnússon, Elínu Hirst og Óðinn Jónsson á RÚV: Koma svo!, sendið fréttamann þangað sem hlutirnir eru að gerast jafnt í innlendum sem erlendum fréttum. Og það er hér í Brussel enda eru hvergi í heiminum jafn margir erlendir fréttaritarar. Velkomin til Brussel!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú hefur augljóslega mikið að segja um bæði menn og málefni. En mikið óskaplega yrði það nú allt mikið læsilegra ef þú splæstir í eins og stöku greinaskil í skrifunum. Þið sjónvarpsfréttamenn ættuð nú að vita að umbúðirnar eru ekki siður mikilvægar en pakkinn.

Nafnlaus sagði...

nafnlaus ætti kannski að splæsa í eitt lestrarnámskeið ef hann ræður ekki við lestur á frekar stuttum texta án greinarskila.

RÚV ætti kannski að segja upp sínum mönnum í London, Köben og Osló og hafa 3-4 fréttamenn í Brussel sem væru eilítið hreyfanlegir. Með því mætti sjá um Evrópu eins og hún leggur sig.

Nafnlaus sagði...

Nei Baldvin, þetta er hárrétt hjá Nafnlausum. Þegar lesið er á netinu er auðvelt að missa sjónar á staðsetningu ef engin greinaskil eru í "löngum" texta. Þetta kemur að hluta til af skruni.