mánudagur, 31. mars 2008

Tyrkir telja Íslendinga eiga möguleika

Athyglisverð fréttaskýring er birt í Turkish Daily News (http://www.turkishdailynews.com.tr/article.php?enewsid=99384) þar sem fjallað er um framboð Tyrklands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 2009-2010. Tyrkir keppa þar við Austurríkismenn og Íslendinga um tvö sæti. Athygli vekur að höfundur telur það Íslendingum til tekna í baráttunni að hafa ekki átt sæti í ráðinu hingað til en Tyrkir hafa þrívegis setið þar.

Höfundurinn Cengiz Aktar telur marga veikleika á framboði Tyrkja í grein sem birtist nýlega eða 19. mars. Hann nefnir fjögur atriði. Í fyrsta lagi telur hann vinskap Tyrkja við yfirvöld í Súdan veikja framboðið. Recep Tayyip Erdoğan, hafi í heimsókn til Súdans vísað því á bug að þjóðarmorð ætti sér stað í Darfur. Einungis Kínverjar hafi tekið þessa afstöðu á alþjóðlegum vettvangi. “Hvernig geta ríki Afríku gleymt slíkum hroka á sama tíma og við fölumst eftir atkvæðum þeirra á Allsherjarþinginu,” segir Aktar.

Í öðru lagi bendir höfundur á að Tyrkir hafi ekki viðurkennt Alþjóðlega glæpadómstól Sameinuðu þjóðanna (ICC).

Í þriðja lagi hafi Tyrkir ekki staðfest Kyoto-bókunina. “Almennt skortir ríkissjórnina áhuga á umhverfismálum, þrátt fyrir vitundarvakningu og áhyggjur alþjóðasamfélagsins.”

Í fjórða lagi er ástand mannréttinda Tyrklandi fjötur um fót. Landið hefur ekki staðið undir kröfum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) að ekki sé minnst á Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi Tyrkland verið gagnrýnt fyrir illa meðferð á flóttamönnum, einkum frá Írak.
Greininni lýkur Aktar með þessum orðum: “In order to deserve to have a seat on the U.N. Security Council, Turkey has to say “better to lose the saddle than the horse,” adopt proactive pro-U.N. policies and complete half-finished works in the course of this year.”

Á Ísland þá séns eftir allt?

1 ummæli:

Þráinn sagði...

Sæll Árni, og þakka þér fyrir þín frábæru blogg.
Þetta með Tyrkina og Öryggisráðið og að ýmislegt kæmi til greina - var nokkuð minnst á peninga í því sambandi, sbr. "You are my friend, so I give you the best price!"