föstudagur, 28. mars 2008

Ólöf Nordal: Velkomin í hóp Evrópusinna!

Ólöf Nordal, alþingismaður skrifar frábæra grein í Fréttablaðið í dag sem ég held að muni sæta miklum tíðindum. Þar lýsir hún því yfir að það sé tímaspursmál hvenær Ísland gangi í Evrópusambandið og rekur hvernig undirbúningur að því máli þurfi að vera.
Það eru út af fyrir sig tíðindi að þingmaður Sjálfstæðisflokksins gangi gegn flokksforystunni með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni. Engum blöðum er um það að fletta að Ólöf tekur upp þráðinn þar sem Björn Bjarnason sleppti honum og dregur augljósar ályktanir af máli hans.
Enda þótt velflestir helstu stjórnmálaskörunar síðasta aldarfjórðungs tuttugustu aldar hafi upphaflega verið á móti EES samningnum (Davíð Oddsson, Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Svavar Gestsson...) vilja þeir nú allir Lilju kveðið hafa. En það gleymist líka að Jón Baldvin Hannibalsson fór offari í málinu og sást ekki fyrir í málflutningi sínum.
Ólöf skrifar:
“Við gerð EES-samningsins átti að ganga frá ákvæðum stjórnarskrárinnar, t.d. hefði verið rétt að semja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur við vissar aðstæður, m.a. þegar kemur að valdaframsali í þá veru sem EES-samningurinn hefur í för með sér. Í mínum huga var gengið skarpt fram við gerð EES-samningsins og vel má vera að það hafi verið nauðsynlegt á þeim tíma. Hins vegar er staðreyndin sú, að áhrif samningsins inn í íslenska löggjöf hafa verið meiri en þorri manna gerði sér grein fyrir.”
Ég tel að Ólöf hitt naglann á höfuðið. Ísland hefur nú tekið upp að “minnsta kosti þrjá fjórðu hluta löggjafar Evrópusambandsins” að mati Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Ólöf þorir að nefna það sem enginn hefur þorað að taka á. Málflutningur Evrópusinna líður nefnilega fyrir hvernig staðið var að EES samningnum. Lögfræðiállit þess efnis að ekki fælist framsal fullveldis í því að afhenda Evrópusambandinu löggjafarvald um allan innri markaðinn – sem er ekkert smávegis- hefur komið óorði á íslenska lögfræði.
Hjörleifur Guttormsson og félagar höfðu nefnilega mikið til síns máls í sínum málfllutningi þótt þeir drægju ranga ályktun af gagnrýni sinni.
Ég býð Ólöfu Nordal velkomna í hóp Evrópusinna um leið og ég óska henni til hamingju með að hafa tekið fullorðinstennurnar í íslenskri pólitík.

Engin ummæli: