mánudagur, 21. apríl 2008

Sofandi Samfylking

Á sama tíma og fylgi við að lagt verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið hefur aldrei mælst meira, minnkar fylgi Samfylkingarinnar umtalsvert. Varla verður önnur ályktun dregin af þessu en að flokkurinn hafi – í bili að minnsta kosti – misst af mikilvægu pólitísku tækifæri.

Sannast sagna hafa ráðherrar flokksins frekar vakið athygli fyrir ferðagleði sína en starfsgleði. Með fullri virðingu fyrir heita vatninu í Djibouti og ráðstefnu um þróun eyja á Karíbahafinu,er hætt við því almenningur hafi meiri áhyggjur af hruni krónunnar, hruni fasteignaverðs og okurvöxtum. Margir hafa óþægilega á tilfinningunni að Samfylkingarráðherrar séu svo ölvaðir af töfrum valdsins að þeir hafi gleymt því hvað þeir standa fyrir.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er brýnari en nokkru sinni fyrr og það er löngu kominn tími til að ráðherrar Samfylkingarinnar hætti ferðafylleríi sínu og taki til við að hrinda vilja næstum sjötíu prósent kjósenda í framkvæmd.

Samfylkingin ætti að hafa byr í seglum í skoðanakönnunum miðað þetta mikla fylgi almennings við málefni sem hún ein flokka hefur barist fyrir.

Hefur framboðið til öryggisráðsins villt formanni flokksins sýn? Er hún sofandi á vaktinni?

Er ekki nær að auka áhrif Íslands á sín eigin málefni með því að ganga í Evrópusambandið en reyna að auka þau út á við með kosningu í Öryggisráðið?

föstudagur, 18. apríl 2008

Egill Rex Islandicus

Sannarlega góður dagur í gær. Fyrst jókst stuðningurinn úr tveimur í þrjá þegar fyrsti ódrukkni og ógreindarskerti stuðningsmaðurinn gaf sig fram. Síðan bættist hinn huxandi Eyju-Pétur í hópinn og virtist hafa fulla trúa á að ég gæti vaknað fyrir hádegi á Nýjársdag. Hmmm that will be the day!
Mér þykir leiðinlegt að bregðast vonum þessarar miklu fjöldahreyfingar en hér koma tíu ástæður fyrir því að nú eins og svo oft áður hef ég ekki áhuga á forsetaframboði – jafnvel þótt vellaunuð róleg innivinna sé í boði:

1. Hef ofnæmi fyrir majónesi.
2. Hef ofnæmi fyrir þeyttum rjóma.
3. Hef ofnæmi fyrir kínverskum harðstjórum.
4. Hef ofnæmi fyrir mærðarfullum sveitaprestum.
5. Hef ofnæmi fyrir þjóðrembu.
6. Vakna aldrei fyrir hádegi á nýjársdag.
7-9 Vondur vínkjallari á Bessastöðum eftir tólf ára vanrækslu bindindismanns.
10. Sjá 7-9.


Sjálfur hef ég löngum verið andsnúinn íslenska lýðveldinu. Hefði verið fínt að hafa danskan kóng eða drottningu. Við hefðum sloppið við þann hrylling sem íslenska forsetaembættið hefur ætíð verið að ekki sé talað um forsetakosningar. Síðustu tvennar kosningar hafa verið ömurleg lágkúra. Var býsna ánægður þegar Sigga systir mín var nefnd sem forsetaefni (hún hafði engan áhuga) lét mig dreyma um að ég gæti orðið baldni forsetabróðirinn, svona eins og Billy Carter var á sínum tíma.

Fyrst danska kónginum var kastað fyrir róða illu heilli, hef ég viljað stefna að íslensku konungdæmi. Sveinn Björnsson sendiherra væri góður kostur. Hann er aristókratískasti maður sem ég hef hitt, ljúfmenni og húmoristi og sjálfur afkomandi nafna síns fyrsta forseta lýðveldisins. Og svo tæki sonur hans við með tíð og tíma: sjálfur söngvari og drifsprauta Singapore Sling. Gæti ekki verið betra.

Þó rennum við konungssinnar svo sannarlega hýru auga til Egils Helgasonar. Ef einhver er alþýðlegur og aristókrati að upplagi, þá er það hann. Svo kann hann dönsku. Og frönsku.

Og manni er ekki í kot vísað með Kára sem krónprins – að ekki sé minnst á Sigurlaugu drottningu. Viss um að Egill I, myndi fyrirgefa mér hvað ég flutti leiðinlega ræðu í þrítugsafmælinu hans og gera mig að barón eða greifa.

Ólafur Ragnar hvað!

Gjört í Brussuborg,

Árni Snævarr, verðandi greifi af Grímstaðaholti.

PS annars væri Ásgerður dóttir mín prýðileg krónprinsessa og/eða greifynja - að ekki sé minnst á son minn Þorgrím. Konunglega skemmtileg börn.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Yfirlýsing frá verðandi forseta

Ég vil taka skýrt fram að ég hef hvorki borið bjór né reiðufé á Eirík Bergmann Einarssyni sem kemur að máli við mig og hvetur til forsetaframboðs á Eyjunni í dag. Þar með hafa þrír menn hvatt mig til framboðs, þar af einn ógreindarskertur og ódrukkinn að því er best er vitað.

Gjört að Brusustöðum,

Árni Snævarr, verðandi forseti lýðveldisins

PS Mun hér eftir ekki láta svo lítið að svo mikið sem svara í síma ef ég er ekki kallaður herra verðandi forseti (Monsieur le futur Président de la République á frönsku) og er byrjaður að æfa í mig í mærð og hnallþóruáti. Hvað skyldi annars hnallþóra vera á frönsku?

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Frábært Ingibjörg Sólrún!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á heiður skilinn fyrir að láta rannsaka atvikið sem varð á Kjúklingastræti þar sem tvær manneskjur létu lífið í árás á íslenska friðargæsluliða.

Fram að þessu hafa íslensk stjórnvöld stungið hausnum í sandinn. Viðbrögð íslenska höfuðsmannsins urðu fleyg: “Shit happens”.

Þegar ég vann á Fréttablaðinu ráð ég afganskan blaðamann til starfa fyrir okkur og lét hann taka viðtöl við fjölskyldu afgönsku stúlkunnar sem lést. Kristinn Hrafnsson gerði síðan stuttan þátt um litlu stúlkuna fyrir Kompás á Stöð 2.

Það leikur enginn vafi á því að ákvörðunin um rannsóknina er gerð í kjölfar áhrifamikils og góðs innslags Kristins en ég hef áður sagt hér á þessum vettvangi að umfjöllun hans hafi verið á heimsmælikvarða.

Utanríkisráðuneytið hefur gert sitt til að þagga umfjöllun um þetta niður og ég hef fyrir satt að reynt hafi verið að leggja stein í götu Kristins í Kabúl. Sjálfur mátti ég þola köpuryrði á Rauðarárstígnum fyrir umfjöllun mína og félaga minna á Fréttablaðinu á sínum tíma um atvikið.

Það er því enn meira fagnaðarefni að utanríkisráðherra hafi nú snúið við blaðinu og fengið tvo mæta fyrrverandi hæstaréttardómara til að fara í saumana á málinu. Svona á að gera það Sóla!

PS Ég breytti pistlinum eftir að mér barst réttmæt og kurteislega orðuð athugasemd þar sem bent var á að eitthvað væri málum blandið þar sem ég hafði setningu eftir Geir H. Haarde- hann hefði augljóslega ekki verið utanríkisráðherra á þeim tíma sem um ræðir. Hafði sjálfur étið þetta upp eftir öðrum bloggara en dreg þetta tilbaka og biðst hlutaðeigandi afsökunar.

Þjóðviljaritstjórar í Eþíópíu

Össur Skarphéðinsson upplýsir okkur á Eyjunni um að þrír fyrrverandi Þjóðviljaritstjórar hafi verið saman komnir í Eþiópíu; hann, Einar Karl Haraldsson og Svavar Gestsson.

Skyldu þeir hafa rifjað upp hve blaðið þeirra var hrifið af marxistanum og fjöldamorðingjanum Mengistu sem hrakti Haile Selasse keisara völdum? Skyldu þeir hafa hugsað þá hugsun til enda hvernig Ísland væri í dag ef stefna blaðsins og Flokksins um að þjóðnýta hverja einustu sjoppu og útgerð hefði komið til framkvæmda?

Kannski væri ástandið svipað og í Eþíópíu.

En batnandi er mönnum best að lifa og Össur og Einar Karl hafa fyrir löngu gengið í lið með hófsömum jafnaðarmönnum og eru þar til hinnar mestu prýði.

Svavar ber hins vegar eins og flestir vita mesta ábyrgð á því að Dalakofasósíalisminn lifir enn góðu lífi á Íslandi og að ekkert varð úr sameiningu vinstrimanna.

Að vera eða ekki vera jómfrú

Kurteist fólk spyr mig stundum að því hvort ég hafi ekki áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Svar mitt er ævinlega það sama að ég geri það ekki af því ég hafi svo mikinn áhuga á stjórnmálum. Það hefur líka verið komið að máli við mig og skorað á mig að fara í forsetaframboð. En það eru hrein ósannindi að báðir sem það gerðu, séu vangefnir. Bara annar þeirra er vangefinn, hinn var bara blánkur og vantaði pening fyrir bjór.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa hins vegar fæstir nokkurn áhuga á stjórnmálum. Þeir hafa mikinn áhuga á bitlingum, utanlandsferðum og valdapoti en maður þarf ekki að taka þátt í pólitík til að svala slíkum þorsta ef hann er að kvelja mann á annað borð. Þótt pólitikusar séu á sífelldum ferðalögum sjást þess fá merki í þinginu, hvað þá borgarstjórn. Darfur, eitt helsta deiluefni samtímans, hefur verið nefnt ca. einu sinni á ári í þingræðum þau fimm ár sem þjóðarmorðið hefur staðið yfir.

Í Evrópumálunum hafa til dæmis allir stjórnmálaflokkar haft allar skoðanir einhvern tímann. Jón Baldvin var á móti ESB í gamla daga, síðan fann hann upp EES og snérist svo gegn því og gerðist fylgismaður aðildar. Davíð Oddsson var einna fyrstur til að ámálga aðild að ESB í aldamótaskýrslu Sjálfstæðisflokksins, hann vildi um tíma tvíhliðasamning við ESB og loks ærðist hann í andstöðu við allt sem evrópskt er nema EES sem hann þó var á móti - um tíma. Ólafur Ragnar hefur svo ekki bara haft allar skoðanir, verið með og móti hernum og allt það, heldur líka verið í velflestum stjórnmálaflokkum.

Svona mætti lengi telja.

Borgarstjórn Reykjavíkur er undir sömu sök seld bæði í flugvallarmálum og orku-útrásinni. Þar hafa allir haft allar skoðanir einhvern tímann. Skiptir fólk þar um skoðanir oft á dag? Oft á klukkutíma? Fer það eftir vindátt eða stöðu reikistjarnanna? Er kastað upp á það?

Hinn geðþekki borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna Kjartan Magnússon bætist nú í hóp flokkaflakkara og skoðanaskiptenda. Og gerir það með stæl að hætti góðra KR-inga og Vesturbæinga. Hann sem barðist manna harðast gegn orkuútrásinni hefur nú tekið slíkum sinnaskiptum að eftir er tekið jafnvel í því höfuðvígi hringlandaháttar sem borgarstjórnin er.

Nú er hann orðinn forframaður í Orkugeiranum og sjá! þá er hann ekki lengur á móti orkutútrás borgarinnar. Hún má bara ekki vera neitt voðalega mikil mikil.

Svo ég vitni í fleyg ummæli Gennadí Gerasimov, talsmanns Gorbatsjovs um allt annað mál: "You cannot be a little bit virgin."

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Þaggar Ingibjörg niður í Ólafi Ragnari?

Rauði þráðurinn í íslenskum stjórnmálum þessa dagana er klofningur á milli rauð-brúns bandalags sem hefur náin samskipti við Kína og andúð á ESB að leiðarljósi og hins vegar hófsamra miðjumanna sem vilja náin samskipti við lýðræðisríki, með inngöngu í ESB og öflugt samstarf innan NATO að leiðarljósi.

Fyrri hópurinn samanstendur af öflum yst á vinstri- og hægri væng íslenskra stjórnmála, fyrir þeim fara vinstri-grænir, íhaldsarmur Sjálfstæðisflokksins, og Ólafur Ragnar Grímsson. og sumpart Morgunblaðið.

Málflutningur þessa hóps gengur út á það að á viðskipti á milli ríkja á tuttugustu og fyrstu öld gangi út á viðskiptasamninga milli ríkja rétt eins og á tímum Sovétríkjanna. Þá eru forsendurnar þær að þrjú hundruð þúsund Íslendingar séu líklegir til að fá betri samning en fimm hundruð milljónir Evrópusambandsbúa. Sumir eins og forseti lýðveldisins virðast telja að þegja eigi þunnu hljóði um mannréttindabrot Kínverja í von um aukin viðskipti og stuðning við framboð í öryggisráð SÞ.

Í hinum hópnum eru stærstur hluti íslensku þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum, rúmur meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar eða lýðræðisflokkanna eins og þeir hétu einu sinni. Svo virðist sem flestir hófsamir menn á Íslandi hafi nú áttað sig á því að þótt EES samningurinn hafi markað tímamót, verður vart unað við það að Ísland taki upp hráa löggjöf ESB – nú síðast alla matvælalöggjöfina- án þess að hafa nokkuð um innihaldið að segja. Það er tímanna tákn að ESB andstæðingar nota æ sjaldnar þau rök að fullveldisafsal felist í aðild – flest bendir til að fullveldið aukist við aðild. Brottför Bandaríkjahers hefur sýnt að vinátta við Bandaríkin er ekki valkostur við Evrópusambandið – allra síst dettur Morgunblaðinu það í hug.

Útflutningur Íslands til Kína nema um tveimur og hálfum milljarði á ári. Útflutningur til Evrópu er hundrað sinnum meiri. Engu að síður telur hið vanheilaga bandalag Ólafs Ragnars og Illuga Gunnarssonar að þeir hagsmunir séu ríkari en aðrir hagsmunir, til dæmis hvað varðar vaxtastig, verðlag og lýðræðishalla. Þeir virðast á köflum telja að við eigum að leggja ríkari áherslu á samskipti við kínverska kommúnista en að rækta vináttu við bræðraþjóðir í Evrópu.

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins gerir ræðu forseta Íslands á smáríkjaráðstefnu í Andorra að umræðuefni í merkum leiðara í Fréttablaðinu á dögunum. Þar hélt forsetinn því fram að staða Íslands sé vel tryggð með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og þeim möguleika að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína.

Þorsteinn skrifar: “Þó að kínversk stjórnvöld vilji nú gera fríverslunarsamning við Ísland er ekkert sem bendir til þess að við munum til lengri tíma ná betri viðskiptastöðu á þeim markaði en Evrópusambandið. Líklegra er að pólitísk langtímasjónarmið fremur en viðskiptaleg búi að baki vilja stjórnvalda í Kína til þess að semja við Ísland á undan öðrum Evrópulöndum. Síðustu atburðir gefa fremur ástæðu til að skoða þau pólitísku sjónarmið en að draga þá ályktun að með slíkum samningi muni Ísland tryggja framtíðarstöðu sína í alþjóðasamfélaginu.”

Þorsteinn gagnrýnir forseta lýðveldisins harðlega en kurteislega í leiðara sínum og segir: “ Ef utanríkisstefnan á að byggjast á sveigjanleika sem gerir okkur kleift að gera tvíhliða fríverslunarsamning við Kína en útilokar upptöku evru er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Það væri léleg hagsmunagæsla sem bæri vott um utanríkispólitík í vegvillum."

Að lokum bendir Þorsteinn á eftirfarandi: “Eftir stjórnarskrá lýðveldisins er forseti Íslands æðsti handhafi framkvæmdavalds í utanríkismálum þó að öll raunveruleg völd og ábyrgð í þeim efnum hvíli á utanríkisráðherra. Í því ljósi verður að skoða ræðu forsetans á smáríkjaráðstefnu í Andorra í síðustu viku. Meðan utanríkisráðherra tekur ekki annað fram verður að líta á hana sem stefnu ríkisstjórnarinnar sem ráðherrann hefur ábyrgst.”

Engum dylst að í fjölskyldu Ingibjargar Sólrúnar er mikil og einlæg vinátta í garð Kínverja og mikill áhugi á kínverskri menningu. Ég ber fulla virðingu fyrir því og deili raunar þessum áhuga á Kína.

Það er hins vegar annað mál að Ingibjörg Sólrún hlýtur fyrr eða síðar að svara þeim stjórnskipunarlegu og hápólitísku spurningum sem brenna ekki síst á íslenskum jafnaðarmönnum og Þorsteinn Pálsson greinir skilmerkilega í leiðara sínum.

Er hún í Evrópuliðinu eða Kínaliðinu? Ef hún er í Evrópuliðinu hlýtur hún fyrr eða síðar að þagga niður í fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins og gera öllum ljóst að hún ræður utanríkisstefnu Íslands, ekki hann.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Einkaflug og þjóðaröryggi

"Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ritaði í gær bréf til formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi og tilkynnti um nýtt reglubundið samráð um þjóðaröryggismál."

Skyldu þeir ræða um einkaflug forsetans með auðmönnum? Því var jú hafnað af hálfu embættis hans að veita upplýsingar af "öryggisástæðum." Er öryggi forsetans ekki "þjóðaröryggismál?"

ÓL bann forseta og eitraður kaleikur

Ingibjörg Sólrún kom með snilldarleikfléttu í Kastljósi í gærkvöld. Þar sagði hún:
1.) að ekki stæði til að utanríkisráðherra færi á lÓlympíuleikana.
2.) að ekki hefði verið tekin afstaða hvort íslenskri ráðamenn sæktu ÓL í Peking.
3.) að ekki hafi tíðkast að íslenskir ráðamenn sæki ÓL.
3.) að "ef einhver fer þá verður það ráðherra íþróttamála."

Með þessu fríar hún sig í raun ábyrgð á ÓL málinu og hendir heitu kartöflunni í fangið á Þorgerði Katrínu. Og hún útilokar að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fari á opnunarhátíð ÓL nema hann kjósi að láta reyna á hálfsmíðaða kenningu sína um að hann sé yfir ríkisstjórnina hafinn.

Þorir hann? Vill hann? Það fer eftir því hver raunveruleg framtíðarplön ÓRG eru. Ætlar hann virkilega að halda áfram að borða hnallþórur og taka í hendurnar á borðalögðum sýslumönnum?
Eða hefur hann einhvern þann metnað þar sem mikilvægt er að styggja ekki Kínverja? Ef hann vill verða sendiherra á meðan Ísland er í öryggisráðinu sbr. orð hans um að framboðið sé "lokahnykkur í sjálfstæðisbaráttunni", má hann ekki móðga þá - í bili.

Spyr sá sem ekki veit.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Harkan sex: skýrslutaka

“Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur boðað Sturlu Jónsson, talsmann flutningabílstjóra, til skýrslutöku í fyrramálið vegna mótmælaaðgerða, sem bílstjórarnir hafa staðið fyrir undanfarna daga.”

Þvílík harka!! Þvílíkt hugrekki!! Þetta kallar maður að standa undir nafni: Með lögum skal land byggja. Flutningabílstjórar eru búnir að lama umferð í höfuðborginni, öllu venjulegu fólki til ama og leiðinda og valdið tjóni td. með því að raska flugumferð með því að hindra fólk að komast til starfa.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri var einn af arkitektum aðgerða gegn líkams- og íhugunarhreyfingunni Falun Gong um árið þegar ekki var hikað við að grípa til umfangesmikilla aðgerða og í sumum tilfellum ofbeldi til að hindra fólk í að tjá skoðanir sínar. Hvers vegna þessa linkind nú ? Hvers vegna ekki sömu hörku og gagnvart Saving Iceland?

Engar upplýsingar af öryggisástæðum

Ólafur Ragnar Grímsson, er eldri en tvævetur í pólitík og hann kann svo sannarlega þá list að hafa vaðið fyrir neðan sig. Engum heilvita manni dettur í hug að fara í framboð gegn sitjandi forseta Íslands – það er engin hefð fyrir því á Íslandi.

Enda á hvaða forsendum ætti slíkt framboð að vera? Embætti forseta Íslands er nánast valdalaust, nema við mjög sérstakar aðstæður. Forsetakosningar á Íslandi yrðu eins konar fegurðarsamkeppni fyrir fullorðna eða ræðukeppni í mærð. Hingað til hefur sá unnið sem hefur þótt líklegastur til að flytja innihaldslausustu og væmnustu ræðuna, plantað hríslum í ófrjóa mold án þess að springa úr hlátri og étið sjöþúsundir sortir af hnallþórum án þess að kasta upp.

En Ólafur Ragnar teflir ekki á tvær hættur og því nýtir hann sér þá kontakta sem hann óneitanlega hefur. Forsetinn er vissulega vel kynntur á Indlandi. Ég þekki ég af eigin raun því hann brást drengilega við beiðni minni um aðstoð þegar ég lenti í klóm skrifræðis á Indlandi áður en hann varð forseti. Hafði hann hinn mesta sóma af. Tímasetningin á Nehru verðlaununum er óneitanlega vel tímasett.

Ólafur ræktaði líka mjög tengslin við bandaríska demókrataflokkinn hér á árum áður og nú uppsker hann eins og hann sáði með heimsókn Al Gore tíu mínútum fyrir kosningar – ef til þeirra hefði komið.

Auðvitað væri það Ólafi Ragnari eitur í beinum ef eitthvert peð byði sig fram gegn honum því allt mínna en 95% stuðningur væri ósigur. Ég held að almenningur vilji ekki sjá forsetakosningar og raunar held ég að Ólafur njóti ótrúlega mikil stuðnings. Að minnsta kosti þekki ég engan sem hefur sérstakan áhuga á því að endurtaka skrípaleikina úr kosningunum 1980 og 1996.

En þótt engin ástæða sé til annars en að leyfa Ólafi Ragnari að halda áfram að leika kóng á Bessastöðum er ekki þar með sagt að ekki eigi að vera eðlilegt aðhald að forsetanum rétt eins og öllum öðrum kjörnum fulltrúum. Staksteinar Morgunblaðsins benda þannig á að Ólafur Ragnar gefi almenningi langt nef þegar farið er fram á upplýsingar um flug hans í einkaflugvélum. Blaðið leggst gegn flugi ráðamanna í einkaþotum:

“Það á líka við um forseta Íslands. Morgunblaðið hefur ekki getað fengið upplýsingar um ferðir forsetans í einkaþotum í eigu einkaaðila á skrifstofu forsetans og þau rök færð fram að ekki væri hægt að veita þessar upplýsingar „af öryggisástæðum“(!)”

Þessar röksemdir eru hlægilegar. Að sjálfsögðu mun blaðið fara fram á þessar upplýsingar í krafti upplýsingalaga ef einhverjar töggur eru í ráðamönnum þess. Og forsetinn mun veita þær. En ekki fyrr en öll hætta á mótframboði er liðin. Og ekki fyrr en Al Gore er farinn svo ekki sé hægt að spyrja óþægilegra spurninga um hvort samræmi sé á milli þess að boða baráttu gegn loftslagsbreytingum og fljúga eins og kóngur í mengandi einkaþotum.

Fjölmiðlar hljóta líka fyrr en síðar að beina sjónum sínum að framgangi forsetans í málefnum Kína. Mun forsetinn taka þátt í opnunarhátíð Ólympíuleikanna? Munu forsetinn og ríkisstjórnin verða samstíga í ákvörðun um að taka þátt í athöfninni eða sniðganga hana? Hefur forsetinn einn vald til að ákveða þátttöku sína? Hefur forsetinn sína eigin utanríkisstefnu? Hann hefur sjálfur gefið til kynna að það séu ráðherrarnir sem eigi að hlíða forsetanum en ekki öfugt.

Ég sagði að fjölmiðlar hljóti líka að beina sjónum að forsetanum. Kannski er þetta oftrú á íslenskum fjölmiðlum. Í sannleika sagt er miklu sennilega að enginn segi múkk og hér eftir færist í vöxt að bera við þjóðaröryggi þegar farið er fram á upplýsingar sem stjórnvöldum er þvert um geð að veita.

Nixon og Kissinger stunduðu þann leik - og komust ekki upp um það fyrir rest. Washington Post er hins vegar ekki gefið út á Íslandi.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Eins og Andrés án Andar

Björn Ingi Hrafnsson hefur gengið til liðs við 365. Þar fyrir er hinn aðstoðarmaðurinn úr forsætisráðherratíð Halldórs Ásgsrímssonar, Steingrímur Ólafsson. Hann fór beinustu leið af biðlaunum sem blaðafulltrúi Halldórs í stöðu fréttastjóra Stöðvar 2.

Björn Ingi og Steingrímur án Halldórs eru eins og Gö án Gokke eða Andrés án Andar, Tinni án Tobba. Kannski er Halldór á leiðinni á Stöð 2 með grínþáttinn Segðu SÍS, eða nýja raunveruleik-útgáfu af “Viltu vinna milljón?” undir heitinu Finndu Finn! . Þar myndu keppendur bítast um bitlinga og skipta á milli sín samvinnufyrirtækjum og einkavæða banka á rússneskan hátt og enda svo á að græða helling á að skammta sjálfum sér kvóta.

Það má hugsa sér teningaspil þar sem maður gæti dregið spil : “Þú dettur í það og móðgar Finn Ingólfsson á Þorrablóti Framsóknar í Reykjavík Norður. Þú ferð beina leið í steininn og færð engin hlutabréf í einkavæddum ríkisfyrirtækjum á spottprís þegar þú ferð yfir byrjunarreitinn.”

En grínlaust er það hið besta mál að Björn Ingi snúi aftur í blaðamennskuna – það er kominn tími til að stjórnmálamenn viðurkenni að þeir eiga enga kröfu á sendiherradjobbum og öðrum bitlingum á ríkisjötunni, þótt þeim verði fótaskortur í pólitíkinni.

Og Nota bene: ég sé ekkert athugavert við að menn snúi aftur í blaðamennsku úr pólítikinni. Björn Ingi verður dæmdur af verkum sínum eins og aðrir og hann er óneitanlega reynslunni ríkari eftir dvöl sína í stjórnarráðinu og ráðhúsinu.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Fréttamennska á heimsmælikvarða

Afganistan er meðal helstu umræðuefni á leiðtogafundinum í NATO. Innslag Kristins Hrafnssonar í Kompás-þættinum sem sýndur var í gær (sjá: http://www.visir.is/article/20080402/FRETTIR04/80402015) er verðugt innlegg í þá umræðu sem verið hefur hérlendis um þátttöku okkar í því verkefni.

Mér fannst frásögnin af Feribu sem lést í sprengjutilræði við íslenska friðargæsluliða í teppakaupum á Kjúklingastræti vera átakanleg. Ég er ekki ókunnugur málinu því ég fékk á sínum tíma afganskan blaðamann til að taka viðtöl við fjölskylduna og skrifaði grein í Fréttablaðið. En það er mun áhrifameira að sjá fólkið ljóslifandi í sjónvarpi en lesa orð á prenti – þegar tilfinningar eru annars vegar, slær fátt sjónvarpinu við.

Innslög Kristins og félaga hans á Kompás eru kennslubókardæmi um hvernig góð fréttaöflun er á vettvangi erlendis. Hún felst ekki í því að feta í hvert fótspor ráðamanna, þótt það geti verið ágætt útaf fyrir sig, heldur að vinna efni á sjálfstæðan hátt útfrá eigin forsendum.

Þetta gerir Kristinn og á heiður skilinn. Innslagið um Feribu er í hæsta gæðaflokki –hreinlega á heimsmælikvarða.

Búkarest, Evrópa og Afganistan

Það er hárrétt hjá Agli Helgasyni að umræðan um leiðtogafund NATO á Íslandi hefur verið skammarlega lítil. Ég hef að vísu skrifað um einn anga dagskrár fundarins sem eru deilur Grikkja og Makedóna en fyrst fáir taka til máls ætla ég að leggja örlítið í púkkið.

Tvennt skiptir okkur Íslendinga þó talsvert meira máli. Bandaríkjamenn þrýsta mjög á NATO ríki, ekki síst Frakka, Ítali og Spánverja að taka meiri þátt í hernaði í Afganistan. Engum blöðum er um það að fletta að helsta ástæða þess að Ísland hefur styrkt “friðargæslu” sína í Afganistan, er einmitt þessi þrýstingur Bandaríkjamanna. Þeir hafa beint og óbeint í hótunum við NATO ríkin um að þau verði sniðgengin hér eftir, ef þau leggja ekki sitt af mörkum. Tæpast er deilt um það að það er herlausu Íslandi í hag að NATO styrkist fremur en veikist. Það kann því að vera skammsýni hjá leiðarahöfundum Morgunblaðsins að mótmæla veru Íslands í Afganistans að hætti Þjóðviljans því í stað þess að grafa undan Ingibjörgu Sólrúnu kunna þeir að vera grafa undan Íslandi í NATO.

Forvitnilegt er að fylgjast með utanríkisstefnu Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands þessa dagana. Hann reynir ákaft að vingast við Breta og hann hefur margoft lýst yfir áhuga sínum á að bæta samskiptin við Bandaríkjamenn. Sarkozy hefur tekið vel í að auka herstyrk Frakka í Afganistan og verður athyglisvert að sjá hvað kemur út úr fundinum í Búkarest að þessu leyti.

Bandaríkjamenn geta að vísu að hluta til sjálfum sér um kennt um hvernig málum er komið því þeir afþökkuðu þátttöku NATO á sínum tíma í Afganistan. Það hefur síðan ýtt undir þá skoðun að stríðið þar sé einkastríð, ekki bara Bandaríkjamanna, heldur Bush forseta sjálfs.

Hitt atriðið sem skiptir Ísland máli eru hugmyndir um aukið hlutverk Evrópusambandsins í varnar- og öryggismálum. Margt bendir til að framtíð Íslands í þeim efnum liggi í tengslum við Evrópusambandið. Nú þegar erum við aðilar að Schengen og færa má rök fyrir því að stærstur hluti öryggismála okkar (“soft security”) við núverandi aðstæður flokkist undir samstarf af því tagi.

Engu að síður er eðlilegt að Ísland leiti til lengri tímar litið eftir “hörðu öryggi” – eða hefðbundnum landvörnum þótt ekkert ríki ógni okkur. Bandaríkjamenn eru á braut og þótt öryggistrygging NATO sé í gildi er ekki óeðlilegt að horfa til Evrópu og fylgjast með gangi mála. Öllum má ljóst vera að Bretar og Frakkar eru einu umtalsverðu herveldi Evrópu.

Jean-Pierre Jouyet, Evrópuráðherra Frakka segir í viðtali í tilefni Búkarestfundarins að jarðvegurinn sé nú orðinn frjór fyrir auknu hlutverki ESB í varnarmálum. Jouyet segir að Bandaríkjamenn séu nú opnari en nokkru sinni áður fyrir sérstöku hlutverki ESB í varnarmálum utan ramma NATO. Jafnframt að ríki Austur-Evrópu séu farin að ljá máls á þessu. Ein af ástæðunum er áhugi á að ESB taki alfarið að sér hlutverk alþjóðasamfélagsins í Kosovo en vissulega eru mótív Frakka dýpri. Jouyet segir: “Ef maður er Evrópusinni og vill að Evrópa leiki hlutverk á heimsvísu, verður maður að sjá til þess að hún hafi bolmagn til þess. Ef við tökum ekki ábyrgð á Balkanskaga, verður Evrópu aðeins stærri útgáfa af Sviss.”

Frakkar taka við formennsku í ESB til hálfs árs 1. júlí.

Ólafur Ragnar fann upp heita vatnið

Allir aðdáendur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands hljóta að fagna því mjög að fréttavefur CNN útnefnir hann "Frumkvöðul í orkuhagfræði". Ég birti pistilinn orðréttan og óþýddan því hér má ekki hagga orði:

(CNN) -- Ólafur Ragnar Grímsson is currently enjoying a third term as President of the Republic of Iceland. Since first being elected in 1996, Grímsson has been a passionate advocate of international cooperation in combating climate change.

During his time in office he has overseen a transformation of the energy market in his homeland changing it from an economy mostly powered by coal and gas to one which is almost exclusively powered by renewable energy -- namely hydroelectric and geothermal technologies.
In his youth, Grímsson studied Economics and Political Science at Manchester University, gaining a B.A. and a Ph.D before returning to Iceland to take up a post as a professor of Political Science at the University of Iceland.
He entered Althingi, the Icelandic parliament in 1978 (SVO!) , served as minister of finance between 1988 and 1991 and was leader of the Peoples' Alliance from 1987 to 1995.
Grímsson's pioneering efforts to transform energy supplies are providing world leaders with an invaluable insight into how their own economies might make the switch to more renewable sources of energy.

Bandaríkjamenn eiga Al Gore sem fann upp internetið.
Við Íslendingar eigum Ólaf Ragnar sem fann upp heitavatnið.

Eða er þetta Aprílgabb CNN?


http://www.cnn.com/2008/TECH/science/04/01/olafur.grimsson/

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Einkaflug á tímum loftslagsbreytinga

Andrés Jónsson, bendir á hér á Eyjunni að forsætis- og utanríkisráðherrar setji slæmt fordæmi með flugi sínu á einkaþotu til Búkarest. Hann lýkur greininni með þessum orðum: "Fyrir utan það að stjórnmálamenn geta eiginlega ekki verið þekktir fyrir að fljúga með einkaþotum í dag. Hlutfallsleg loftmengun af slíku flugi er svo mikil að fólk sem vill vera fyrirmyndir, getur ekki gert svona."

Íslendingar virðast mun minna uppteknir af loftslagsmálum en flestar aðrar þjóðir. Með þeirri undantekningu þó að Ólafur Ragnar Grímsson talar mikið um þau á alþjóðavettvangi. En hann sýnir tæplega gott fordæmi með því að sníkja far með einkaþotum hvort heldur sem eigendurnir eru Abramovisj, Bjöggarnir eða Baugur. Eða hvað skyldi Al Gore finnast?

Makedónía til mæðu

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún eru farin á leiðtogafund NATO í Búkarest. Þar mun Bush, Bandaríkjaforseti reyna að tryggja Úkraínu og Georgíu og síðan Albaníu, Króatíu og Makedóníu aðgöngumiða að NATO.
Sjálfsagt mál? Ó nei, Grikkir hóta að beita neitunarvaldi. Þeir féllust á það seint og síðar meir þegar Júgóslavía splundraðist að það lýðveldi sambandslýðveldisins sem kennt var við Makedóníu fengi að halda því heiti sem sjálfstætt ríki.

Makedónía, vagga veldis Alexanders mikla, náði yfir samnefnt norðausturhérað Grikklands og inn fyrir landamæri gömlu Júgóslavíu. Grikkir muna enn að skæruliðar grískra kommúnista herjuðu á heimaland sitt eftir síðari heimsstyrjöld frá griðastöðum innan landamæra Júgóslavíu Títós marskálks. En það hérað hét Vardar Banovina þangað til 1944 þegar Makedóníu nafnið var tekið upp. Annars vegar til að pirra Grikki, að þeirra eigin sögn og hins vegar til að réttlæta sókn suður Slava til Eyjahafsins.

Dora Bakoyannis, utanríkisráðherra Grikkja skrifar grein í Herald Tribune í dag og sakar Makedóna um óbilgirni. Þeir ýji sífellt að því að samnefnt hérað í Grikklandi sé hersetið slavneskt land þótt Grikkir hafi byggt það í 3500 ár. Grikkir hafi allra náðarsamlegast fallist á að þeir notuðust við heitið Fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu, Makedónía (FYROM) til bráðabirgða á meðan leitað væri að nýju nafni. Gríski ráðherrann bendir á að fylki í Bandaríkjunum heiti Nýja Mexíkó og virðist opna á einhverja slíka lausn. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til að ríkið verði kallað Lýðveldið Makedónía (Skopje).

En er þetta ekki deila um keisarans skegg? Jú, en sagan hefur kennt okkur að taka þjóðernisdeilur á Balkanskaga alvarlega. Skemmst er að minnast upplausnar Júgóslavíu en á fyrstu áratugum tuttugustu aldar börðust hreinlega allir við alla og Grikkir létu sitt ekki eftir liggja. Ástæðan fyrir að nú hefur soðið upp úr er vitaskuld NATO aðildin. En grísk stjórnvöld hafa líka barið í bumbur vafalaust til að hressa upp á vinsældir Karamanlis forsætisráðherra. Og vitanlega fékk hann gullið tækifæri þegar Makedónar skýrðu flugvöllinn í Skopje, Flugstöð Alexanders mikla.

Eitt er svo víst að gríski utanríkisráðherrann er varla hress með það grein hans í Herald Tribune er birt með tveimur öðrum undir yfirfyrirsögninni: "Makedónía og Grikkland."

Slíkt þykir ekki góð látína í Aþenu.