fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Blaðamenn til sölu

Gamall félagi í blaðamennskunni sem hefur snúið sér að almannatengslum, ( líkt og ég) , Atli Rúnar Halldórsson fer mikinn á blogginu sínu.

Hann fylltist heilagri reiði yfir því að fjölmiðlamönnum hafi yfirsést að Sigmundur þingmaður Ernir hafi verið að snafsa sig í boði MP banka áður en hann steig hreyfur að víni- að þvi er virðist- í ræðustól á Alþingi.

Atli Rúnar skrifar:

"þykir nefnilega sjálfsagður hlutur að þingmenn séu á golfmóti banka eða hvað? Hvers vegna var Sigmundur Ernir þarna? Voru þingmenn úr fleiri flokkum á þessu bankamóti? Mig rámar í að Jóhanna Sigurðardóttir hafi mikið spurt um laxveiðiferðir á þingi hér á árum áður. Nú mætti spyrja um golf."

Nú vill svo til að Atli Rúnar var þingfréttaritari Ríkisútvarpsins hljóðvarps um árabil. Raunar svo lengi að hann var fastagestur í þingveislum sem var gagnrýnt harkalega innan stofnunarinnar.

Og ætlar Atli Rúnar að segja mér að hann hafi aldreis áður séð þingmann fullan í ræðustól?

Og ætlar almannatengillinn sem býður hverjum sem er þjónustu sína við vægu gjaldi, að hneykslast á þingmanninum?

Atli minn, við vitum ekki nema að einhver sé að borga þér fyrir að hamra á Sigmundi! Þú ert jú til sölu.

Við getum aldrei verið viss um að þú sért ærlegur í einu eða neinu, því einn daginn ertu á launaskrá Alcoa´og hinn á launaskrá einhvers þaðan af verri.

Atli Rúnar, ég held að þér farist ekki einu sinni að gagnrýna fulla þingmenn.

Og reyndar er það svo að það rifjast upp fyrir mér að það heyrðist hvorki hósti né stuna frá þér þegar Kaupþing og Stöð 2, stunduðu nornaveiðar sínar og leituðu að uppljóstrara í sínum ranni vegna frétta af laxveiðum Geirs Haarde í boði Kaupþings?

Hvers vegna þagði samviska íslenskrar blaðamennesku þá?

Simmi á 10. glasi væri betri

Öfugt við Björn Bjarna og Exista-Lýð hef ég ekkert á móti hálf eða alnafnlausum bloggurum og hér svara ég tveimur:

Teitur, Churchill vann síðari heimstyrjöldina sauðdrukkinn.

Fóstra, ég er ekki að segja hvað sé æskilegt, heldur einfaldlega hvernig raunveruleikinn er.

Ef þið viljið kjósa stjórnmálamenn sem ekki drekka, þá fáið þið Árna Johnsen og Kjartan Gunnarsson og í viðskiptalífinu Jóhannes í Bónus og Björgólf Guðmundsson.

Simmi á tíunda glasi væri skárri en þeir.

Eru það ekki bara rónarnir sem koma óorði á brennivíni?

Ótrúleg hræsni

Umræða um meinta ölvun Sigmundar Ernis Rúnarssonar í ræðustól á Alþingi einkennist af mikilli hræsni.

Gott og vel Sigmundur var ekki allsgáður en ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég frétti af þingmönnum og ráðherrum að skandalísera á fylleríum innanlands sem utan á mínum blaðamannaárum. Ég hef ekki tölu á þeim stjórnmálamönnum sem verið hafa undir áhrifum áfengis í viðtölum hjá mér.

Íslendingar eru drykkfelld þjóð og ekkert skrítið að þingmenn séu það líka. Margir þingmenn skreppa á Vínbarinn eða Borgina og hressa sig við fyrir kvöldumræður.

Einn fyrrverandi ráðherra var alræmdur fyrir að halda sér að mestu þurrum á Íslandi en var oftast fullur erlendis, lagðist þá í síma og skammaðist út í allt og alla – einkum blaðamenn sem hann vildi láta reka.

Vandinn var hins vegar ekki sá að hann væri fullur, heldur hvað hann gerði þegar hann var fullur. Sama gildir um Sigmund. Ég get ekki annað en tekið undir orð Jónasar Kristjánssonar um meinta ölvun Sigmundar Ernis Rúnarssonar: “Tek einn drukkinn þingmann, sem fer með rök, fram yfir tíu þingmenn, sem flissa og skríkja eins og skólapíkur.”


Málið er nefnilega að margt var vel sagt í ræðum Sigmundar þetta kvöld, þótt vissulega hafi hann misst tökin á efninu þegar á leið. Áfengisneysla hefur vafalaust eitthvað spilað þar inn í.


Og gleymum því ekki að sá stjórnmálamaður á alþjóðavísu sem gagnrýndur hefur verið hvað harðast fyrir að koma fram opinberlega undir áhrifum er Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti.

Sarkozy er bindindismaður.

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Á miða aðra leiðina til Færeyja

Er í alvöru betra dæmi um geðbilun þess samfélags sem Davíð, Hannes og Kjartan stofnuðu en Magnús Kristinsson auðjöfur úr Eyjum?

Magnús fékk kvótann gefins. Hann fékk 50 milljarða lánaða hjá La ndsbankanum sem Davíð og Kjartan gáfu Bjöggunum. Það voru ekki einu sinni veð í gjafakvótanum.

Allan þennan tíma barðist Eyjamaðurinn Magnús fyrir því að ríkið léti grafa göng fyrir hann og aðra Eyjamenn, jafnvel þótt það kostaði tugi milljarða. Honum var svo misboðið þegar ekki þótt tilefni til að leggja í þá fjárfestingu að hann keypti sér þyrlu.Hann varð svo að skipta yfir í einkaflugvél í félagi við aðra, þegar upp komst um strákinn Tuma.

En það var ekki nóg til þess að hann sætti sig við hlutskipti annara Eyjamanna þegar að samgöngum kemur: Hann - nánast gjaldþrota fyrrverandi þyrlueigandinn- keypti sér flugvél eins og aðrir kaupa sér karamellur.

Maðurinn sem ekki þarf að leggja neitt af gjafakvótanum upp í 50 milljarða skuld sem núlifandi Íslendingar þurfa að borga fyrir hann. Og afkomendur þeirra.


Magnús barðist harðri baráttu í félagi við menn eins og Árna Johnsen fyrir því að boruð yrðu göng frá landi til Eyja.

Enda af hverju ætti honum að þykja sú fjárhæð há, þegar hann fékk svipaða upphæð lánaða í Landsbankanum þar sem hann var stór hlutfhafi, til kaups á einskisverðu drasli með ónothæfum eða engum veðum?

Mesta furða að hann hafi ekki fengið lán í Landsbankanum til að bora göng til Færeyja og ganga í það eyjasamband!! Og þó ekki sé hægt að kenna Magnúsi um allt, má spyrja þeirrar spurningar hvað hefði verið hægt að grafa göng langt fyrir alla peningana sem við Íslendingar þurfum að borga fyrir einkavæðingu bankanna?

Ég kann varla að reikna tvo plús tvo, en hefðum við getað grafið göng í austur frá Vestmannaeyjum, yfir Atlantshafið og Kyrrahafið og loks komið til Reykjavíkur vestanmeginn? Er þessi hugmynd eitthvað meira rugl en the KAUPTHINGKING?


Nú berst Magnús á tveimur vígstöðvum: annars vegar fyrir því að skuldir hans verði afskrifaðar eða fyrndar og hins vegar gegn því að kvótinn sem honum var gefinn fyrnist eða verði afskrifaður.

Það á sem sagt að afskrifa skuldirnar en ekki eignirnar. Sem hann fékk ókeypis.

Af hverju gefum við Magnúsi ekki bara miða aðra leiðina til Færeyja? Hann hefur áður fengið lánað álíka fé og myndi kosta að grafa göng þangað.

Má ég leggja til að hann taki Árna Johnsen með sér – á þessum one way miða?

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Að mála bæinn rauðan eða húsin

Nýlegar frásagnir um að hús útrásarvíkinga hafi verið máluð rauð þykja eðlilega fréttnæmar. En er hin raunverulega frétt ekki sú að menn á borð við Sigurð Einarson og Björgólf Thor skuli enn eiga húsnæði og Hummer-bíla á Íslandi eftir að þeir hafa sett alla nágranna sína og afkomendur þeirra á hausinn?

Meiðar Hrár – afsakið Hreiðar Már, fyrrverandi Kaupþingsforstjóri komst upp með það í viðtali nýlega að segjast ekki þurfa að biðja neinn afsökunar, jafnvel þótt öllum sé ljóst (nema spyrlinum í sjónvarpsþættinum), að Kaupþing var ein allsherjar svikamylla þar sem allt gekk út á að kjafta upp gerfi gróða í formi útbólgins hlutabréfaverðs og þeim frændum öllum, EBITU, eigið fé og hvað allt þetta KAUPTHINKING hét á KAUPSPEAK.

Enda af hverju ætti Hreiðar að þurfa að biðjast afsökunar á hlut sínum í að setja íslensku þjóðina á hausinn?

Ó þetta fólk er svo móðgunargjarnt!

Er ekki Jonni á lyftaranum og almennir starfsmenn á gólfi ekki óþarflega hörundsárir út í hann fyrir að taka stöðu gegn krónunni á sama tíma og bankinn hans hvatti Jonna og Siggu í afgreiðslunni til að taka gengislán?

Eða ég meina orðstír Íslands sem hefur hvorki verið í Úrvalsvísitölunni né á Nasdaq? Altso, var þetta ekki bara deildin hans Ólafs Ragnars? Var ekki Örnólfur Thors búinn að teika kjer of ðis stöff? Þetta hvað það heitir.... eitthvað með Orðstír sem lifir að eilífu...

Að ekki sé minnst á ósvífnina í íslenskum blaðamönnum að fetta fingur út í að Kampavínsklúbbur the Icelandic Viking WAGS (Wifes- and-girlfriends) , skuli halda í sólarlandaferð til Arabaríkja til að fá sér afréttara eftir útrásarfylleríið?

Altso, þekkir íslenskur almenningur ekki hvað menn (konur) geta verið timbraðar eftir kampavínsdrykkju?

Má nú ekki mála barina í Dúbæ og allan þann bæ rauðan, á meðan eiginmennirnir eru uppteknir við að hylja slóðina, ha? Hvernig er þessi heimur að verða?

Og Björgólfur Thor þarf auðvitað ekki að biðjast afsökunar á að hafa farið ránshendi um sparisjóðsbækur Breta og Hollendinga og kært sig kollóttan um að íslenska þjóðin í þriðja lið þurfi að borga skuldirnar.

Honum til hróss má þó segja að hann sýndi þá þjóð(f)rækni að taka upp merki forfeðra okkar Víkinganna og fara rænandi og ruplandi um Bretlandseyjar og nágrannasveitir. Að mála Hummerinn hans rauðan, hvers lags fólk er þetta eiginlega? Hann sem setti bara íslensku þjóðina á hausinn?

Vissulega fór stór hluti þessa (ráns)fjár til Íslands, eins og gamli Bjöggi hefur hamrað á. Já það er rétt hjá gamla séntilmanninum og hvers manns hugljúfa að fénu var til dæmis varið í að fjármagna þyrlukaup og brask Magnúsar Eyjamanns Kristinssonar.

-Þvi hvað er sægreifi án þyrlu?

Nú veit ég ekki hvort hús (í fleirtölu) Magnúsar hafa verið máluð rauð. Hins vegar er staðreyndin sú að þessi ágæti sægreifi og máttarstólpi íslenskra útgerðarmanna er eftir öllum sólarmerkjum að dæma gjaldþrota persónulega og skuldar Landsbankanum 50 milljarða - í gegnum pappírsfélög- án þess að nokkrar eignir komi á móti.

Hugsið ykkur: Magnús getur enn farið til Reykjavíkur og eytt því fé sem hann fékk gefins í gegnum kvótann og margfaldaði í gegnum einkavinavæðingu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrimssonar, án þess að nota þær samgöngur sem Eyjamönnum standa til boða.

Gjaldþrota maðurinn gat sem sagt keypt sér einkaflugvél - í félagi við aðra. Þegar vondu kommarnir tóku af honum þyrluna. Hugsið ykkur mannvonskuna.

Niðurstaðan er hins vegar su að á meðan deilt er um hvað göng til Eyja kosta, þarf auðmaðurinn ekki að hafa neinar áhyggjur af því að fá far með stopulum ferðum flugfélagsins eða Herjólfs.

Bíddu, var þessi maður ekki kostunarmaður á bakvið bjartýnisspá Árna Johnsen og félaga um að það mætti bora göng til Eyja? (Af hverju geta þeir ekki bara borað göng til Færeyja?)

Allavega þegar Magnús fer til Reykjavíkur til að mála bæinn rauðan og eyða kvótagróða sínum sem liggur óhreifður í hans sægreifahirslum, þarf hann núorðið að - haldið ykkur fast-- að fljúga í einkaflugvél en ekki í einkaþyrlu!

O tempora O mores, þvilíkir tímar þvilikir siðir, sögðu latínugránar hér í eina tíð.

Er einhver furða að menn máli hús slikra manna rauð, sem mála bæinn rauðan eins og ekkert hafi í skorist, án þess að sæta ábyrgð?

Og í raun máluðu þeir ekki bara bæinn rauðan, heldur landið rautt og kannski heiminn líka í félagi við XIV. Alþjóðasamband braskara. Það verður langt þangað til – því miður – að einkaframtak njóti sannmælis hvort heldur sem er á Íslandi eða á alþjóðavettvangi, eftir einkavinavæðinguna og gróðærið sem sigldi í kjölfarið í boði Daviðs, Kjartans og Hannesar.

Einu sinni var sagt að sá sem væri ekki rauður á unglingsárum hefði ekki hjarta; en sá sem yrði ekki blár með aldri og reynslu, hefði ekki heila.

Ég veit ekki hvaða svar við höfum við þessu í dag; eina sem ég veit að það eru ansi margir landar mínir sem virðast hvorki hafa heila né hjarta.

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Að blogga eða grilla á kvöldin

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor hefur fyllst miklum áhuga á heimildanotkun bloggara og blaðamanna á síðustu misserum. Undanfarnar vikur hefur hann þrásinnis krafið Karl Th. Birgisson, ritstjóra Herðubreiðar um að hann sýni fram á með tilvitnun í heimildir að prófessorinn hafi sakað Samfylkinguna um að þiggja fé af Baugi.

Enn ryðst Hannes fram á ritvöllinn og vegur að meintum heimildafúskurum. Að þessu sinni er það Guðni Elísson sem Hannes beinir spjótum sínum að en þeir áttu í ritdeilu um loftslagsmál. Og síðan er það garmurinn ég.

Hannes virðist þurfa að sannfæra sjálfan sig og lesendur um að það sé orðum á mig eyðandi því hann skrifar: "Það er auðvitað ekkert stórmál, hvað Árni Snævarr bloggar á kvöldin og næturnar. En hann er þó aðsópsmikill í umræðum og einn af föstum höfundum á eyjan.is."

(Það er engu líkara en Hannes hafi farið í einkatíma hjá háttvirtum þingmanni Margréti Tryggvadóttur í að dylgja um mannlegan breyskleika hjá þeim sem hann telur andstæðinga sína, en sleppum því.) .

Nú er það svo að þótt sumir hafi hér í eina tíð, “grætt á daginn og grillað á kvöldin,” þá þurfa sumir að vinna launavinnu og hafa lítinn sem engan tíma til að skrifa á daginn og verða því að gera það á kvöldin.

Ég veit að þetta á ekki við um prófessorinn sem hefur getað skrifað sinn pólitíska boðskap undanfarna áratugi á daginn í boði íslenskra skattgreiðenda sem starfsmaður Háskóla ríkisins. Og væntanlega grillað á kvöldin - vonandi með betri árangri en einkavinir hans sem Davíð gaf bankana náðu í því að græða á daginn.

Ég taldi mig reyndar hafa svarað skrifum Hannesar, en finn þess ekki stað í athugasemdakerfi Eyjunnar og hlýt því að draga þá ályktun að ég hafi einungis skrifað á samskiptasíðuna facebook. Eða ég hafi ruglast og sent tölvupóst eitthvað allt annað í skjóli nætur eins og tíðkast nú um stundir.

Skiptir ekki öllu máli en ég biðst samt velvirðingar á því.

Ég skrifaði á Eyjuna: “Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu.”

Þetta var mín túlkun á orðum Hannesar þar sem hann sat einn fyrir svörum í sjónvarpsþættinum Silfri Egils fyrir alllöngu.

Það virðist hins vegar hafa farið framhjá mér (og öðrum) að Hannes hafði lætt inn í eina grein sína þar sem hann gagnrýnir málstað þeirra sem hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, eftirfarandi setningu. "Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá."

Og ekki nóg með það því hann skrifaði í Fréttablaðið 18. apríl 2008: “Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa.”

Það kom reyndar til tals um svipað leyti og Hannes skeggræddi við Egil að ég myndi rökræða við Hann um málið í sjónvarpi og minnir að ég hafi skorað á hann í kappræður. Ekki kom fram hjá neinum að það væri misskilngur hjá mér að Hannes efaðist um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Þar sem ég bjó og bý erlendis varð ekki við því komið að við tækjumst á um málið og eins gott því nú hefur Hannes tekið af öll tvímæli um það að hann viðurkennir – með semingi- hlýnun jarðar og að einhverju leyti sé um að kenna aukningu koltvíserings í andrúmsloftinu. Ekkert fútt í sjónvarpsþætti þar sem deilendur eru sammála!

Þótt Hannes segi það ekki beinum orðum að aukning koltvíserings sé af mannavöldum virðast orð mín um að hann tryði ekki á hlýnun jarðar af mannavöldum ekki eiga sér stoð.

Mér er mikil ánægja að biðjast afsökunar á því enda eiga sagnfræðingar eins og ég og Hannes að virða amk. trúnað við heimildir. En við Hannes erum ekki óskeikulir og stundum verður okkur fótaskortur á sleipu svelli heimildarýni. Ég á blogginu og hann í margra binda doðranti um Laxness.

Batnandi er manni best að lifa og vonandi rýnir Hannes betur í fræðin og þá ekki síst niðurstöður Loftslagsnefndarinnar sem hann vitnar í þar sem honum hentar. Hann sleppir að geta þess að nefndin telur einmitt möguleika á því að spyrna við fótum með breyttri hegðun okkar mannanna.

Hannes hefur áður sýnt að hann hefur þann hæfileika að geta lært af mistökum sínum og því hef ég tröllatrú á honum í þeim efnum, eins og glögglega má sjá af nýtilkomnum áhuga hans á heimildanotkun.

Betur hefði auðvitað farið á því ef Hannes hefði þegar fengið þennan áhuga á notkun heimilda þegar hann skrifaði Laxness doðrantana; því þá hefði hann ekki komist í kast við lögin og rýrt fræðimannsheiður sinn.

Það breytir því ekki að eins og Hannes sýnir fram á, þá hefur hann amk. í seinniu
tíð viðurkennt að það kunni að vera að loftslag jarðar hafi hitnað eitthvað örltíð og kannski þá pínu ponsulítið af mannavöldum. Hann vill bara ekki að neitt sé gert í málinu!

Og allt þetta gerir hann á daginn meðan aðrir verða að velja á milli þess að blogga eða grilla á kvöldin.

föstudagur, 14. ágúst 2009

Hvenær ná 3-menningarnir botninum?

Fullyrða má að aldrei hafi nýr stjórnmálaflokkur byrjað jafn illa og þrír fjórðu hlutar þingflokks Borgarahreyfingarinnar.

Svik þingmannanna þriggja við stefnu flokksins í ESB málinu var makalaus en nú bítur einn þingmannanna höfuðið af skömminni með því að verða uppvís að því að breiða út óhróður um geðheilsu andstæðings síns innan flokksins.

Framferði Margrétar Tryggvadóttur minnir einna helst á framferði repúblikana á borð við Nixon eða Bush yngri. Var þetta ekki umbótaaflið þarsem umburðarlyndi og grasrótin átti að njóta sín?

Ég held að annar eins hroki hafi ekki sést í íslenskri pólítik áratugum saman.

Margét á að biðjast afsökunar og segja þegar í stað af sér þingmennsku – eins og fordæmi eru fyrir.

http://www.dv.is/frettir/2009/8/14/thingmadur-vaenir-thrainn-um-alzheimer-og-thunglyndi/

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Vanur maður, vönduð vinna

Nýja Kaupþing hefur runnið á rassinn með sína fáranlegu lögbannstilraun á frétt Ríkisútvarpsins um lánabók gamla Kaupþingsins, enda er hún aðgengileg hverjum tölvulæsum manni.

Ef skilja má yfirlýsingar fyrirtækisins telur Kaupþing leka lánabókarinnar mikinn glæp og að lekandinn, “the whistleblower” verði fundinn og honum refsað.

Mér fannst sem ég væri að upplifa gamla tíma í boði Kaupþings þegar ég heyrði þessa frétt. Eins og dyggum lesendum eyjunar er kunnugt, rifjaði ég upp á dögunum hvernig ég mátti þola brottrekstur sem fréttmaður Stöðvar 2 í kjölfar frétta um laxveiðar Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra í boði Kaupþings í sumarlok 2003.

Ég ætla ekki að endurtaka þá frásögn en bendi á athugasemd Jóhanns Hlíðar Harðarsonar í athugasemdakerfinu þar sem hann segir vel og ítarlegar frá málinu en ég gerði. Þar endir hann á þá merkilegu staðreynd að ég hvorki samdi fréttina né var ég helsti andófsmaður í hópi fréttamanna sem á endanum knúðu Sigurð G. Guðjónsson forstjóra og Karl Garðarsson fréttastjóra til að birta fréttina.

En hvers vegna fékk ég þá hinn (núna) eftirsótta reisupassa í boði Kaupþings?

Fréttir bárust af andófi fréttamanna á netsíðunni frettir.com. Það voru hæg heimatökin því umsjónarmaður síðunnar var Steingrímur Sævarr Ólafssson, áður fréttamaður á Stöð 2 og síðar fréttastjóri.

Það þurfti ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að Steingrímur átti góða(n) heimildarmann/menn á fréttastofunni því fréttir birtust af málinu með stuttu millibili.

Sigurður G. Guðjónsson forstjóri boðaði fréttamenn á sinn fund og krafðist þess að heimildarmaður gæfi sig fram. Hann neyddi menn til að neita því í heyrandi hljóði að þeir hefðu skýrt Steingrími okkar gamla félaga frá gangi mála.

Ég hins vegar harðneitaði að svara þeirri spurningu játandi eða neitandi hvort ég væri uppljóstrarinn. Ég taldi að við sem fréttamenn gætum ekki sætt slíkum afarkostum. Stjöð 2 sem fjölmiðill gæti augljóslega ekki refsað heimildarmönnum og ætlast siðan til þess að fólk úti í bæ treysti miðlinum fyrir upplýsingum.

Ég er enn þessarar skoðunar og mun enn þann dag í dag fullyrða að það hafi verið í almannaþágu að skýra frá ritskoðun stjórnenda Stöðvar 2 á þessa frétt.

Ef ég var ekki heimildarmaðurinn, þá er skýringin einfaldlega sú að ég var ekki í jafngóðu talsambandi við Steingrím Ólafsson og aðrir fréttmenn.

Rétt eins og nú þegar RÚV gleymir upphaflega málinu og sökkvir sér í lögbannsmálið, var fjallað um brottrekstur minn í einn eða tvo daga (eða bara hálfan?) en ekki um það sem hékk á spýtunni.

Hvers vegna var Kaupþing að bjóða fjármálaráðherra í lax og hvers vegna var svo mikið pukur í kringum það? Og hvernig mátti það vera að fjölmiðill hæfi nornaveiðar gegn uppljóstrara? Hvaða trúverðugleiki gat slíkur fjölmiðill haft? Seinna hefði svo mátt spyrja Geir H. Haarde af því hvort han n hefði talið laxveiðiferðina fram til skatts. Kannski að það sé ekki of seint að spyrja.

Enn þann dag í dag skil ég ekki hvers vegna Blaðamannfélag Íslands greip ekki í taumana yfir þessari skoðanakúgun og raunar varð þetta seinna til þess að ég sagði mig úr félaginu.


En aftur að nútímanum:

Er ekki upplagt fyrir Kaupþing að fá Sigurð G. til að draga uppljóstrarann fram í dagsljósið? Vanur maður, vönduð vinna; maður með reynslu bæði af rekstri og brottrekstri.

Hvort rétti maðurinn fær að taka pokann sinn eftir að rannsóknarréttur Sigurðar G. hefur kafað ofan í málið, er svo annað mál.

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Vanur rekstri; aðallega brottrekstri

Kristinn Hrafnsson, fréttamaður hóf störf á Ríkisútvarpinu eftir alllangt hlé fyrir þremur dögum, að ég held. Hann hefur engu gleymt og hefur átt sannkallaðan stórleik enda löngu ljóst að hann er í framvarðasveit íslenskrar blaðamennsku.

Það er hins vegar umhugsunarefni að fréttamaður af kalíber Kristins hefur svo oft verið rekinn af íslenskum fjölmiðlum að í eina tíð hugleiddi hann að auglýsa eftir vinnu: “Blaðamaður óskar eftir starfi, er vanur rekstri, einkum brottrekstri.”

Kristinn er sem sagt kominn aftur á þrælavaktina hjá Páli Magnússynim að þessu sinni á RÚV. Síðast þegar fundum þeirra bar saman á Stöð 2 lauk þeim leik með þeim hætti að Páll lýsti yfir í heyranda hljóði að Kristinn væri leiðinlegasti maður sem hann hefði unnið með og ég næstleiðinlegasti.

Ég var grænn af öfund út í Kristin.

Ef farið er yfir listann yfir bestu blaðamenn Íslands 40 plús, er ljóst að ótrúlega margir hafa fengið reisupassann og það oftar en einu sinni. Við skulum láta nægja að nefna Egil Helgason, og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur , margverðlaunaða blaðamenn sem þekkja á eigin skinni að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki þegar íslensk blaðamennska er annars vegar.

Sjálfur stenst ég ekki samanburð með aðeins einn brottrekstur á ferilskránni. Hann var hins vegar í boði Kaupþings sem stöðvaði eftirminnilega fréttaflutning um laxveiðar Geirs H. Haarde fjármálaráðherra á kostnað bankans.

Lauk þeirri rimmu á milli fréttamanna Stöðvar 2 og stjórnenda og eigenda með því að Sigurður G. Guðjónsson, síðar stjórnarmaður í Glitni, rak mig úr starfi á Stöð 2. Honum var vafalaust nauðugur einn kostur enda hafði Sigurjón Sighvatsson lýst því við mann og annan að Kaupþing myndi gera út af við stórskuldugt fyrirtækið ef ekki yrði þaggað niður í fréttamönnunum.

Útaf fyrir sig var það óverðskuldað að mér skyldi hlotnast sá heiður að vera rekinn úr starfi – því ég átti minni þátt en margur annar í andófi fréttamanna gegn ofríki Sigurðar og félaga.

Auðvitað var ég sár. Það lagaðist hins vegar þegar ég fékk þrisvar sinnum betur borgað starf skömmu síðar.

Nú er svo komið að ég faðma Sigga G. sem velgjörðamann minn þá sjaldan að ég hitti hann á götu og er stoltur af skófarinu á rassinum á mér með innsigli Kaupþings.

En þarna er hundurinn grafinn: íslensk blaðamennska er svo illa borguð að það eru einungis örfáir hugsjónamenn sem endast fram yfir fertugt, einmitt þegar blaðamenn eru komnir með þá reynslu og sjálfsöryggi sem nauðsynleg er.

Og ég held að við Íslendingar væru betur staddir ef leiðindaseggir (að mati yfirmannanna) á borð við Kristinn Hrafnsson fengju að leika lausum hala og fengju greitt með þeim hætti að þeir geti lifað mannsæmandi lífi.

Helst án þess að fjárglæframenn geti gripið inn í og gert þá atvinnulausa, hvenær sem þeim hentar.

Það er einlæg von min að Kristinn Hrafnsson haldi áfram að vera öllu yfirvaldi til umtalsverðra ama og leiðinda. Og það er reyndar von mín að íslenskir blaðamenn haldi áfram að vera alveg drepleiðinlegir, því það er þeirra (okkar) hlutverk.

Lengi lifi leiðindin!

Búlgaría norðursins, nei takk

Evrópusambandið er með alvarlega timburmenn eftir að hafa opnað gáttir sínar fyrir ríkjum á borð við Búlgaríu og Rúmeníu. Í skýrslu sem birt var fyrir tveimur vikum sagði að ríkin spilling, svindl og skipulögð glæpastarfsemi réði ríkjum.

Þegar ég las frétt þessa efnis í dagblaði um það leyti sem Ísland sótti um aðild að ESB, hélt ég mér til mikillar skelfingar að fréttin fjallaði um okkur.

Frakkar hafa farið framarlega í flokki þeirra ríkja sem eru ófúsir á að samþykkja frekari stækkun fyrr en Lissabon samkomulagið hefur tekið gildi. Þjóðverjum er lika farið að ofbjóða það sem þeir kalla ofriki smáríkja.

Um Breta þarf ekki að fara mörgum orðum. Flestir Íslendingar telja að við höfum sem þjóð verið hlunnfarin i viðskiptum okkar við Breta út af Icesave. Menn segja sem svo að fjárglæframenn hafi farið of geyst en Bretar (og Hollendingar) hljóti að deila ábyrgðinni með okkur. Margir taka svo undir málflutning Breta og Hollendinga um að íslenskir aðilar hafi hreinlega stolið sparifé í löndunum tveimur.

Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að uppruni bankasvindlsins á Íslandi verði kannað og þeir dregnir til ábyrgðar sem eiga sök. Dómstólar munu á endanum úrskurða en það er óþolandi hve mikið rannsókn hefur dregist á langinn.

Ég hef lengi hallast að því að stærsta brotalömin í íslensku réttarkerfi sé saksókn. Vitaskuld á ekki að gera yfirvöldum auðvelt fyrir að skipta um saksóknara að eki sé talað um dómara. Þess vegna er það því dapurlegra að Ríkissaksóknari skuli ekki hafa beðist lausnar eða tilfærslu í embætti vegna augljósra tengsla hans við stærsta eiganda Kaupþings. Í sumum tilfellum verður að treysta á dómgreind manna, en í þessu tilfelli brást einstaklingurinn.

Hættan er sú að litið verði á Ísland sem Búlgaríu norðursins. Það er ekki bara sspurning um réttlæti að hinn langi armur laganna grípi fjárglæframennina hreðjataki, heldur hreinlega spurning um orðstír og efnahagslega framtíð íslensu þjóðarinnar.

Ein gleðilegasta frétt undanfarinna vikna var að Icelandair ætlaði að taka upp beint áætlunarflug til Brussel. Ef svo fer fram sem horfir væri nær lægi að taka upp beint flug til Tortola.