mánudagur, 20. október 2008

Kominn í bindindi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sagði við mig í fjölmenni eftir fyrstu tvo Eyjupistlana mína: "Hvar ætlar þessi maður að fá vinnu?"

Þetta var sagt í grínu en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Nú er það svo að víða í hinum siðmenntaða heimi, þykir sjálfsagt að ráðamenn sæti gagnrýni. Heima kveinka menn sér yfir gagnrýni og enginn ber nokkurn tímann neina ábyrgð.

Viðbrögð við gagnrýni mína á viðtal við Dorrit Moussaieff hafa verið talsverð. Mikill meirihluti segir að þetta séu orð í tíma töluð. Aðrir telja hins vegar að forsetafrúin eigi að vera stikkfrí og forsetinn raunar líka.

En fúkyrðaflaumurinn og hótanirnar í minn garð vegna skrifa minna hér á Eyjunni, eru hins vegar með þeim hætti að ég sé mér engan hag í að halda þessu áfram.

Ég vil þakka lesendum lesturinn og óska útgefendum Eyjunnar til hamingju með vefsíðuna sem ég tel mikilvæga í íslenskri fjölmiðlaflóru.

PS

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa séð ástæðu til að leggja orð í belg um blogg-bindindi mitt í kommentunum. Mér finnst mjög vænt um margt sem þar hefur verið skrifað. Þeim sem finnst ég vera leiðinlegur er það guðvelkomið en hvers vegna voru þeir þá að lesa skrif mín? Nafnlausir ritsóðar dæma sig svo sjálfir.
Mér þykir hins vegar mikilvægt að leiðrétt tvennt. Mér hefur aldrei dottið í hug að taka orð Össurar bókstaflega, þetta var retórískt og meiningin einfalldega að það væri lítið á þessu að græða.
Össur er góður kunningi minn og hvarflar ekki að mér að hann vilji mér neitt illt. Og hann hefur aldrei kvartað yfir skrifum mínum enda er hann einn okkar besti Evrópusinni - og hlýtur því oft að hafa verið sammála mér.
Í öðru lagi er ég alls ekki kominn í blogg-bindindi útaf því sem skrifað er á kommentakerfinu. Mér gæti ekki verið meira sama og hárrétt sem einn bréfritari bendir á að það væri hin mesta hræsni að þola ekki slíkt.
Þær hótanir sem ég talaði eru annarar ættar og komu úr annari átt. Meira í ætt við að finna hestshaus á þröskuldinum en að vera vændur um fylleríi í kommentakerfi. (Skrifa raunar oftast á morgnana og er enn ekki farinn að drekka viskí með seríósinu.)

Og svo í lokin ég sagðist aldrei vera hættur að blogga að eilífu. Það hentar mér ekki í augnablikinu og mér finnst það ekki gaman í bili. Bindindið stendur þangað til það breytist. Þá kannski dettur maður í það aftur með stæl!

sunnudagur, 19. október 2008

Vertu heima að telja demantana

Eyju-bréf til Dorrit Moussaieff:

„ Ekki hefur verið eins mikil þörf fyrir mig hér, en ég hef samt lagt áherslu á að fá áhrifamikla útlendinga til landsins, einkum í markaðssetningu í hverri grein.“ Dorrit Moussaieff í sunnudags-mogganum í dag.

Dorrit, hvaða markaðssetning stjórnaði því að þú lést manninn þinn bjóða dæmda fjárglæfrakvendinu Mörthu Stewart til Íslands? Það er alkunna að öllu útrásarliðinu var boðið, en segðu mér var það vegna þess að þú taldir þau öll vera í svindlbransanum með Mörthu Stewart? Ef svo er, þá ertu klárari en ég hélt. Ef svo er þá ertu bara brilljant.

Því frómt frá sagt Dorrit þá finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar þú gagnrýnir efnishyggju Íslendinga og talar um að gildin hafi orðið “óljósari”. Segðu mér Dorrit er boðið ykkar Ólafs Ragnars ekki einmitt frábært dæmi um þetta? Um hrun þeirra gilda sem fólust í setningu Hávamála (spurðu manninn þinn hvað það er): “Deyr fé deyja ,frændur, deyr sjálfr et sama; ek veit einn, at aldri deyr: dómr of dauðan hvern”.

Að þjóðhöfðingi Íslendinga haldi konu sem er dæmd fyrir fjársvik boð? Sem ékk ekki vegabréfsáritun til Bretlands? Varst þú að reyna að bæta vinkonu þinni það upp? Ekkert mál á Bananaeyjunni!

Slepppum því.

Sennilega má líkja því að refsa ykkur Ólafi Ragnari fyrir ófarir okkar eins að hýða klappstýrurnar.

En þið hafið samt verið klappstýrur og ekkert annað og þið getið ekki slitið ykkur frá því. Þegar þú segir :”Bíll þarf bara að vera á fjórum hjólum til að komast á milli staða og tilgangur úrs er að mæla tímann.” Bíddu nú við. Finnst þér það ekki skjóta skökku við að fólk sem sníkir far í einkaþotum auðmanna, þegar það ferðst ekki á kostnað ríkissins á Saga classs og þarf hvorki að fjármagna sinn eigin bíl né keyra hann sjálf, tali svona niður til venjulegs fólks? Ég veit að þið látið yfirleitt eins og þið þekkið ekki fólk sem ekki ferðast á einkaþotu nema af afspurn. En þótt þiðu bjoðið slíku fólki ekki í partý á Bessastöðum: hvar er hugmyndaflugið?

Og þú kona sem fædd er með Rolex-úr um úlnlið, ekki tala svona niður ti lfólks sem ekki getur gefið Swatch úr til barnanna sinna í fermingargjöf.

Í Mogganum var haft eftir þér: “Forsetafrúin leggur ennfremur áherslu á nýtni og sparsemi: „Ég hef lagt áherslu á það hér á Bessastöðum að endurnýta allt sem hægt er, litla hluti eins og álpappír, og stundum er gert grín að mér fyrir vikið. En það er engin ástæða til að sóa peningum.”

Dorrit mín. Það vita allir sem vilja vita að öll einkaneysla eiginmanns þíns, eins hæstlaunaða íslenska launamannsins Íslandi auk þinnar- miljónamæringsins- er borguð af islenska ríkinu. Takk fyrir hugulsemina að hugsa um litlu hlutina . En af hverju borgið þið ekki sjálf fyrir ykkar einkaneyslu? Af hverju þiggur eiginmaður þinn himinháa dagpeninga í hvert skipti sem hann fer út fyrir landsteinana þótt skattgreiðendur borgi öll hans útgjöld?

Hvernig vogarðu þér að tala svona? Hefurðu enga sómatilfinningu?

Þú segir : “Ég hef lagt áherslu á að matreiddir séu íslenskir réttir á Bessastöðum, það hefur verið gert síðan ég kom hingað og ég held að Íslendingar eigi að gera það sama. Til dæmis er oft boðið upp á svið í boðum. Það er nauðsynlegt að hverfa aftur að grunngildunum, sem skipta svo miklu máli í þessu afskekkta og harðbýla landi.”

Þetta er íslenska nútímaútgáfan af þeim fleygu orðum:: “Af hverju borða þau ekki kökur?” Í þínum huga og fortíð þýðir að huga að grunngildunum sennilega að hætta að hugsa um hlutabréf og fara að hugsa um demanta.

Hrun Íslendingar er miklu meira en það. Ég held að þú hvorki getir né hafir neinn áhuga né skilning á því.

Ekki vil ég falbjóða þig Dorrrit, þeirri sómakonu sem mér sýnist þú vera, fallöxinni, því fer fjarri. Hins vegar held ég að ef ef það sé rétt að þú“elskir Ísland” einsg og þú segir, þá gerir þú landinu fremur gagn með því að halda þig heima og láta Ólaf Ragnar hjálpar þér eins mikið og hægt er við að telja demantana þína.

Og ég vona svo sannarlega að þeir séu rosalega margir svo hann hafi mjög lítinn tíma til að tala um Ísland erlendis því hann gerir sannarlega landið ekki "“stórara” í hvert skipti sem hann opnar munninn.

Og ekki þú heldur.

Samfylkingin: sofandi að feigðarósi

Nýjasta skoðanakönnun um fylgi við aðild að Evrópusambandinu vekur nokkra undrun því á sama tíma og ýmsir framsóknar- og sjálfstæðismenn og málsmetandi máttarstólpar samfélagsins hafa “komið út úr skápnum” í Evrópumálum, eykst fylgið ekki.

Gleymum því samt ekki að það er yfirburðafylgi við málstaðinn!

Ég veit að það er fátt leiðinlegra en “I told you so” en engu að síður ætla ég að taka saman nokkra punkta í pistlum mínum þar sem ég gagnrýni Samfylkinguna fyrir að taka ráðherrastólana fram yfir þjóðarheill.

Þessir punktar gætu kannski orðið einhverjum óbreyttum Samfylkingarmanni að liði á fundi flokksins með formanni sínum í dag.


Barbados eða Evrópa, 21. mars

“Ég er nýkominn frá Íslandi og heyrði marga málsmetandi Samfylkingarmenn setja spurningarmerki við ofuráherslu á framboðið til Öryggisráðsins. Eru heimsóknir til Afganistans og Barbados málið á meðan íslenska krónan hrynur til grunna? Hverju sæta máttleysisviðbrögð Íslands um Tíbet á tímum mannréttindaátaks ? Og fyrst og fremst: Hvers vegna heyrist ekkert í formanni Samfylkingarinnar þegar Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er loksins (loksins!) komin í forgrunn íslenskra stjórnmála?”

Sofandi Samylking, 21. apríl

“Sannast sagna hafa ráðherrar flokksins frekar vakið athygli fyrir ferðagleði sína en starfsgleði. Með fullri virðingu fyrir heita vatninu í Djibouti og ráðstefnu um þróun eyja á Karíbahafinu,er hætt við því almenningur hafi meiri áhyggjur af hruni krónunnar, hruni fasteignaverðs og okurvöxtum. Margir hafa óþægilega á tilfinningunni að Samfylkingarráðherrar séu svo ölvaðir af töfrum valdsins að þeir hafi gleymt því hvað þeir standa fyrir. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er brýnni en nokkru sinni fyrr og það er löngu kominn tími til að ráðherrar Samfylkingarinnar hætti ferðafylleríi sínu og taki til við að hrinda vilja næstum sjötíu prósent kjósenda í framkvæmd.Samfylkingin ætti að hafa byr í seglum í skoðanakönnunum miðað þetta mikla fylgi almennings við málefni sem hún ein flokka hefur barist fyrir.Hefur framboðið til öryggisráðsins villt formanni flokksins sýn? Er hún sofandi á vaktinni?Er ekki nær að auka áhrif Íslands á sín eigin málefni með því að ganga í Evrópusambandið en reyna að auka þau út á við með kosningu í Öryggisráðið? “


Ingibjörg Sólrún, laxinn eða teninginn, 2. júlí

“Prófessorinn (Robert Wade, professor við LSE) bendir á að vandi íslensks efnahagslífs snúist ekki síst um að Seðlabankinn og jafnvel íslenska ríkið séu ekki nægilega stór í sniðum til að vera bakhjarl fyrir fjármálageirann og skuldir landsmanna.Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur líka leynt og ljóst á stefnuskrá sini að Ísland taki upp Evruna sem ekki verður gert á annan hátt en með inngöngu í ESB. Með því að taka upp evruna myndi íslenskt efnahagslíf og þar með bankarnir sjálfkrafa fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl. Einhliða upptaka dollarans til dæmis hefði ekki þessi áhrif.”

Til hvers er Samfylkingin í pólitík?, 3 . júlí

“Til hvers er Samylkingin í pólítik? Til að vinna að framgangi hugsjóna sinna eða til að verma ráðherrastólana? Það má alveg saka mig um að vera naív en ég á enn pínulitla von um að það leynist kannski ekki hugsjónaglæður (það er til of mikils ætlast) heldur ábyrgðartilfnning hjá ráðamönnum flokksins.Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk. “

Þannig var ástandið fyrir hrunið; mér sundlar við tilhugsunina hve vont hefur versnað mikið. Samfylking flaut sofandi að feigðarósi. Ráðherar flokksins voru hver um sig uppteknir af gæluverkefnum hver á sínu sviði en á meðan gleymdist að gæta fjöreggs þjóðarinnar.

laugardagur, 18. október 2008

Svarið er iðjagrænt og evrópskt

Ég held að flestum sanngjörnum og skynsömum mönnum á Íslandi sé nú orðið ljóst að við getum ekki staðið utan Evrópusambandsins lengur. Eins og dæmin frá td. Ungverjalandi og Írlandi sýna, hefði aðild að ESB, að vísu ekki bjargað okkur frá hruni bankakerfisins en alveg örugglega frá því þjóðargjaldþroti sem nú blasir við.

Að því ógleymdu að Brown hefði aldrei hagað sér við ESB ríki eins og hann gerði við Ísland. Börn okkar og barnabörn munu gjalda fyrir skammsýni, heimóttaskap og ábyrgðarleysi Davíðs og Geirs, Björns og Hannesar og félaga. Að ekki sé minnst á bankana.

Hins vegar verðum við að horfa fram á veginn og fylgjast vandlega með þróun mála. Ýmsum kom á óvart hve afdráttarlaust Evrópusambandið var í yfirlýsingum sínum um að halda fast við fyrirætlanir um að skera niður losun gróðurhúsalofttegunda nú á krepputímum.

Ég hef lengi undrast hversu lítið er fjallað um þá staðreynd á Íslandi að auk þessa háleita markmiðs, hefur ESB sett sér annað markmið og það er að fimmtungur orkunotkunar komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Lengst af bjuggust menn við því að notkun lífræns eldsneytis væri helsta svarið, en tvær grímur hafa runnið á menn.

Nú virðist ljóst að aukin eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti hefur haft í för með sér hækkun matarverðs þegar maís og fleira er notað sem eldsneyti og þar að auki valdið skógareyðingu og þar með ýtt undir loftslagsbreytingar.

Það er alveg ljóst að staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu hefur snarversnað eftir að kreppan skall á.

Á sama tíma bendir margt til að Norðurlandasamstaðan haldi ekki lengur (Ekki bætir úr skák niðurstaðan í öryggisráðskosningunni þar sem við sem fulltrúar Norðurlanda vorum léttvæg fundin.)

Rökin fyrir Evrópusambandsaðild eru því þyngri en áður en aðstæður erfiðari.

Við verðum að skoða vel þau spil sem við höfum á hendi og hvernig við spilum þeim út. Þótt Nicolas Sarkozy, forseti Frakka sem eru nú um stundir í forystu ESB, hafi beygt Austur-Evrópuríki og Ítalíu, er alveg ljóst að nýju ESB ríkin í austri telja sig bera mjög skarðan hlut frá borði og vera í verri aðstöðu en aðrir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

En hér er sóknarfæri fyrir Íslendinga. Jarðhita er einmitt einna helst að finna í austurhluta Evrópu (og reyndar Ítalíu líka!) og miklir möguleikar á að nýta hann til raforkuframleiðslu. Íslenskir jarðhitavíkingar sem heimsóttu Slóvakíu fyrir nokkrum árum líktu landinu við svissneskan ost: landið var útúrborað í leit að olíu og gasi en alls staðar fundu menn aðeins heitt vatn og fussuðu og sveijuðu.

Á ráðstefnu sem Iðnaðarráðuneytið efndi til í samvinnu við ESB hér í Brussel kom fram að Slóvakía og fleiri lönd þar eystra gætu sótt fimm til tíu prósent orkuþarfar sinnar til jarðhita. Meira að segja Þýskaland og Ítalía gætu nýtt jarðhita til að fullnægja skyldum sínum um að nýta endurnýjanlega orku.

Ólafur Stephensen, nú ritstjóri Morgunblaðsins benti á þessa möguleika í viðtali við mig fyrir ritið Mótum eigin framtíð fyrr á þessu ári og sagði að orkulindir Íslands væru ofarlega á blaði í Brussel “ekki síst vegna þess að mönnum hugnast ekki að vera háðir orku frá Rússum. Ég held að við getum notað þessar orkulindir í samskiptum við ESB og jafnvel í aðildarviðræðum.”

Nú þegar öryggisráðsdraumurinn hefur breyst í martröð er ekki tími til kominn að sinna Evrópumálunum í stað þess að halda furðulegar ráðstefnur í Karíbahafinu?

Um leið er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við fetum einstigið á milli nýtingar orkunnar og umhverfissjónarmiða. Eftir að fjármálageirinn annars vegar og Davíð og Geir hins vegar eyðilögðu orðstír Íslendinga sem “óreiðumanna”, hefur aldrei verið eins mikilvægt að halda í ímynd hreinnar nátturu.

Björk, Sigur Rós og fleiri eru það eina sem við höfum eftir sem jákvæða ímynd erlendis auk hreina vatnsins og fjallanna. Ef okkur á að takast að nýta okkar sóknarfæri í orkumálum , verðum við að leggja Landsvírkjunar-tuddaskap á hilluna og móta stefnu sem víðtæk samstaðar er um.

Framtíðin er græn.Og evrópsk.

föstudagur, 17. október 2008

Ísland féll ekki vegna kreppu

Nú er kosningin í öryggisráðið yfirstaðin og niðurstaðan er vonbrigði. Ég tel hins vegar út í hött að telja að kosningabaráttan sem slík eða fjármálakreppan hafi haft áhrif. úrslitaáhrif. Svo virðist sem ákafur málflutnngur okkar á lokasprettinum um að við værum ekki gjaldþrota hafi virkað á marga í þriðja heiminum (65 prósent atkvæða) eins og maður á balli sem labbar að konu kortér í þrjú og segi :" ég er ekki nauðgari".

Hefði kannski verið betra að auka þróunaraðstoð einnar ríkustu þjóðar í heimi? Sem við erum þrátt fyrir allt og allt.

Hins vegar er ljóst að td. Gro Harlem Brundtland hefur sagt það á semi-opin berum vettvangi að Íslendingar væru hugmyndafræðilega (þróunaraðstoð og fleira) ekki í stakk búnir til að taka að sér að verja norræn gildi í öryggisráðinu og utanríkisþjónustan væri ekki nógu góð til þess.

Mér skilst að Svíinn Jan Eliasson, stjórstjarna hjá SÞ og fyrrverandi forseti Allsherjarþingsins hafi tekið þátt i framboðinu á vettvangi í New York á síðustu dögunum.

Það má vissulega deila um hvort framboðið hafi átt rétt hjá sér yfirleitt miðað við að Ísland virðist aldrei hafa hirt um stefnumótun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég held að orsökin liggi fyrst og fremst hjá því að Austurríki (Hitler, Mozart, Freud, Zweig, Beethoven) og Tyrkland (Ottóman heimsveldið, brúin milli Evrópu og Asíu, Orhan Pamuk) hafi þótt betri kostir en Ísland (Þorskastríðið, Davíð Oddsson, Björk ,Hallgrímur Helgason) hafi samanlagt þótt merkilegri á meðal þjóða en við.

Ég veit ekkert um hvort stuðningur Norðurlanda hefur brugðist. Það kann að vera. En allavega er undarlegt að norrænt ríki falli í þessari kosningu. Saga til næsta bæjar.

Lítið notað sæti til sölu

Vonandi vinnur Ísland sæti í Öryggisráðinu. Við gætum auglýst það til sölu "lítið notað". Nú eða veðsett það.

Grínlaust þá högnuðust ríkin sem sátu í ráðinu þegar Íraksstríðið var yfirvofandi, mjög á baráttu Bandaríkjanna og Frakklands.

Og það væri Íslandi mikil lyfistöng ef við næðum kjöri. Hins vegar virðist sem mikil áhersla Íslendinga á að verja sig gegn umtali um fjárhagsvanda, hafa komið mönnum mjög í opna skjöldu á Allsherjarþinginu. Í grein í New York Times furðuðu fulltrúar skítblankra Afríkuríkja sig á þessum málflutningi.

Það er mjög erfitt að átta sig á því hverjir muni styðja Ísland þegar til kastanna kemur því atkvæðagreiðslan er leynileg. Sjálfur heyrði ég eitt sinn íslenskan sendimann lofa tilteknum frambjóðanda til framkvæmdastjóra stuðningi Íslands. Þegar ég innti hann eftir því hvort þetta hefði verið ákveðið, svaraði hann: "Auðvitað ekki, en svona er diplómasían."

Þessi orð eru skrifuð þegar atkvæðagreiðslan er að hefjast. Ég vona svo sannarlega að Ísland nái kjöri, þótt ég sé ekki bjartsýnn. Er ekki allt hey í harðindum?

Ekki hægt að kenna EES um

Á dögunum vakti ég athygli á því hvernig Geir H. Haarde vísaði allri ábyrgð á gangverki fjármálakerfisins yfir á Evrópusambandið.

Sjálfum fannst mér þetta aðallega merkilegt sökum þess að forystumaður í stjórmmálaflokki sem reynt hefur að sýna fram á að EES löggjöf væri sáralítill partur af íslenskri löggjöf, skýrði nú þjóðinni frá því að Ísland hafi engu ráðið um löggjöf á sviði sem var amk. það mikilvægt að það hefur nú leitt til hálfgerðs þjóðargjaldþrots.

Ágætur maður sendi mér póst sem ég ætlað að spinna við hér á eftir til að vekja athygli á því að forsætis- og viðskiptaráðherra, hafa látið að því liggja að íslenskum stjórnvöldum hafi verið nauðugur einn kostur að leyfa Landsbankanum að setja þjóðina á hausinn með Icesave reikningunum.

Í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag sagði þannig forsætisráðherra Geir H. Haarde: “Þessir reikningar [Icesave] eru leyfilegir samkvæmt EES-reglunum, en tryggingin fer eftir því hvort starfsemin er rekin í útibúi eða dótturfélagi.” Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur tekið í svipaðan streng: að vegna EES hafi Landsbankinn getað farið sínu fram og ekki hafi verið við ráðið.

En íslenskum yfirvöldum var í lófa lagið að grípa í taumana. Fjármálaeftirlitið getur nefnilega bannað stofnun útibús banka erlendis á EES-svæðinu. Lesandi bloggsins bendir þannig á að tilskipun ESB um málið geri ráð fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir stofnun útibús á EES. Um það er fjallað í 4. mgr. 36. gr.laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ég vitna hér orðrétt í bréfið:

"Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Þetta ákvæði er í samræmi við 20. gr. tilskipunar ESB 2000/12/EB Íslenskur banki á ekki sjálfkrafa rétt til að stofna útibú Evrópska efnahagssvæðinu það er alveg kýrskýrt. Það var algjört glapræði og í raun stórkostlega vítavert að leyfa íslensku bönkunum að stofna útibú á tugmilljóna mörkuðum erlendi. Ástæðan fyrir því vitum við öll því hún er bæði einföld og augljós. Gífurlegur stærðarmunur er á Íslandi og öðrum löndum í öllu samhengi fjármálalegs eðlis. Á það bæði við um stjórnunalega þáttinn og þann fjárhagslega. "

En hvers vegna tók þá Landsbankinn þá örlagaríku ákvörðun að haga reikningum þannig að íslenska ríkið sat í súpunni við gjaldþrotið?

"Málið er að það er miklu ódýrara og fljótlegra að stofna útibú en dótturfélag eða kaupa banka sem verður síðan dótturfélag. Skýrir það að Landsbankinn var með útibú en ekki dótturfélag fyrir Icesafe. Allir sem að komu að málinu vissu eða áttu að sjá þessa augljósu staðreynd. Svo einfalt er það!"

Þetta eru mjög mikilvæg atriði: Fjármálaeftirlitinu var í lófa lagið að stöðva framgang Landsbankans. Eigum við að trúa því að ráðherrarnir hafi ekki vitað það? Mér þykir það með ólíklindum. Ríkisstjórnin ber því sjálf ábyrgð á þessu máli og getur ekki skýlt sér að baki EES. Hve miklu ætli Landsbankinn hafi tapað á því að reyna að spara smápeninga með þessum hætti? Hver bar ábyrgð á því?

PS Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað til þess, fyrr en ég fékk ábendingu í dag, að lesendur sendu mér póst í stríðum straumum á eyju netfang mitt. Hef semsagt ekki opnað það mjög lengi! Ég þakka sendingarnar og bið þá sem skrifa um að láta þess getið hvort ég megi vitna í skrif þeirra og þá hvort það skuli gert undir nafni.

miðvikudagur, 15. október 2008

Stjörnuspeking í Seðlabankann

Þessa stundina eru leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 að koma til fundar í húsakynnum ráðherraráðsins, við hliðina á vinnustað mínum hér í Brussel. Í þann hópi gætu Íslendingar löngu verið komnir. Afleiðingar þeirrar skammsýni að halda að við Íslendingar værum svo duglegir og gáfaðir að við þyrftum ekki að taka þátt í helsta samstarfsvettvangi vina- og nágrannaþjóða okkar blasa við öllum landsmönnum.

Svo undarlegt sem það kann að virðast eru orsakir þess hluta kreppunnar á Íslandi sem er séríslenskur, að verulegu leyti fremur pólitískar, jafnvel sálfræðilegar, en efnahagslegar.
Það hafa fjölmargir varað við hættunni af því að efnahagskerfi okkar gæti hrunið og stæðist ekki sem undirstaða átta sinnum stærra bankakerfis.

Skýrsla um ástæðurnar fyrir efnahagsvanda Íslands, sem unnin var fyrir Landsbankann, var til umfjöllunar í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi og hafa umræður um hana magnast að nýju í kjölfarið.

Það er fyllsta ástæða til krefjast skýringa á því jafnt frá forkólfum Landsbankans sem ríkisstjórnar og Seðlabanka hvers vegna sýrslu Willems Buiter og Anne Sibert var stungið undir stól.

Niðurstaða þeirra var að íslenskt hagkerfi væri of smátt fyrir umfang bankageirans. Ef Íslendingar ætluðu að halda bönkunum yrðu þeir að ganga í ESB og taka upp evru, ef Íslendingar ætluðu að halda í krónuna yrðu þeir að losa sig við hina alþjóðlegu bankastarfsemi.

Þetta var líka kjarni í ummælum manna á borð við Daniel Gros, forstjóra Center for European Policy Studies(CEPS) í sjónvarpsþætti sem ég gerði um Ísland og Evrópu síðastliðinn vetur en fékkst ekki sýndur í Ríkissjónvarpinu því dagskrárstjóranum hugnuðust ekki styrktaraðilar mínir.

Þetta eru kvistar á sama meiði. Allt þjóðfélagið hefur kóað með Sjálfstæðismönnum og öðrum einangrunarsinnum í því að mega ekki ræða hlutina. Þetta eru hinar pólitísk/sálfræðilegu skýringar kreppunnar: meðvirkni sem leiddi til þjóðargjaldþrots.

Nú eru Sjálfstæðismenn loks farnir að átta sig á því hvert Sirkus Geira smart fór með þjóðina og bæði Þorgerður Katrín og Eyþór Arnalds, einn af oddvitum Heimssýnar, félags ESB andstæðinga, eru nú til í að ræða aðild.

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og forsætisráðherra, forseti og seðlabankastjóri voru steinsofandi við stýrið spáði Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur því fyrir
síðustu áramót að ríkið þyrfti að hlaupa undir bagga með bönkunum á þessu ári.

Vonandi er Gunnlaugur eins sannspár í eftirfarandi orðum: “Ég held að við leggjum niður krónuna og göngum í Evrópusambandið. Ísland mun ganga til liðs við heiminn og nýtt fólk komast til valda."

Gunnlaugur stjörnuspekingur hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera hagfræðingur en ég er sannfærður um að það væri betur komið fyrir íslensku þjóðinni með hann við stýrið í Seðlabankanum en Davíð Oddsson.

þriðjudagur, 14. október 2008

Götustrákur gerist spakur seppi

Viðtal Helga Seljan við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands hefur eiginlega ekki fengið neina athygli í fjölmiðlum. Því miður er það sennilega dæmi um hversu forsetaembættið hefur hrunið í áliti á Íslandi frá því þessi pólitiski slagsmálahundur var kosinn forseti og tók við arfleifð menningarjöfra á borð við Kristján Eldjárn og Vigdísí Finnbogadóttur.

Helgi Seljan hefur verið kallaður “fífl og dóni “og oftar en ekki götustrákur í palladómum á netinu en í beina útsendingu frá Bessastöðum í gærkvöldi var mættur maður sem hefði getað verið fullsæmdur af því að vera hirðmaður í hirð Ólafs helga.

Hvar var ákafamaðurinn og siðbótarmaðurinn Seljan em slátraði Ólafi F. Magnússyni??


Ólafur Ragnar Grímsson er enginn aukvisi. Einungis pólitískt séní gæti nýtt sér tækfiæri (sem Davíð Oddsson gaf honum) til að breytast úr einum óvinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar í að vera forseti. Á það embætti ekki að vera sameiningartákn þjóðarinnar?

Hver nema pólitískt séní gæti fengið að sitja eins og páfinn í viðtali hjá kardínála í ríkissjónvarpi Íslendinga þegar fjármálakerfið hefur sett Íslendinga á hausinn? Meira að segja þótt Johnny Rotten Íslands tæki viðtalið. Og meira að segja eftir að viðmælandinn, sjálfur forseti Íslands hefði haldið því fram í ræðu og riti að Íslendingar væru svo snjallir í fjármálum að endurskoða þyrfti allar teóríur um bissness upp á nýtt?

Þetta sagði Ólafur Ragnar í ræðu yfir viðskiptajöfrum og blaðamönnum í Lundúnum fyrir 3 árum sem hann nefndi: “HOW TO SUCCEED IN MODERN BUSINESS:
LESSONS FROM THE ICELANDIC VOYAGE”

“Of course, many factors have contributed to the success of this voyage, but I am convinced that our business culture, our approach, our way of thinking and our behaviour patterns, rooted in our traditions and national identity, have played a crucial role. All of these are elements that challenge the prevailing theories taught in respected business schools and observed in practice by many of the big American and British corporations.”

Það var og.

Helgi Seljan benti réttilega á lof Ólaf Ragnars um skort á “skrifræði” á Íslandi og spurði á sinn nýlærða kurteislega hátt á hvort þetta hefði ekki verið skálkaskjól fyrir að fara á svig við lög og reglur.

Hann spurði hann hins vegar ekki um þessi ummæli:

“Ninth is the importance of personal reputation. This is partly rooted in the medieval Edda poems which emphasise that our wealth might wither away but our reputation will stay with us forever. Every Icelandic entrepreneur knows that success or failure will reflect not only on his or her own reputation but also on the reputation of the nation. They therefore see themselves as representatives of a proud people and know that their performance will determine their reputation for decades or centuries to come.”

Ertu ekki að grínast Ólafur Ragar?

Stór ástæða fyrir þvi að enginn vill koma okkur til hjálpar er hrokinn og stórmennskubrjálæðið sem felst í orðum forsetans og útrásarvíkinganna hans:


“The track record that Icelandic business leaders have established is also an interesting standpoint from which to examine the validity of traditional business teaching, of the theories and practice fostered and followed by big corporations and business schools on both sides of the Atlantic. It enables us to discuss the emphasis on entrepreneurial versus structural training, on process versus results, on trust versus career competition, on creativity versus financial strength…Let me leave you with a promise that I gave at the recent opening of the Avion Group headquarters in Crawley. I formulated it with a little help from Hollywood movies: "You ain't seen nothing yet.”

Takið eftir að hann lofar "creativity against financial strength.”

Er hægt að eiga glámskyggnari forseta? Ber hann enga ábyrgð? Hvers vegna er tekið á honum með þeim silkihönskum sem braun ber vitni í Kastljósi?

Ég hef áður sagt um viðtöl Gisla Marteins við Davíð Oddssson og Kjartan Gunnarsson á sama vettvangi að logísk niðurstaða hefði verið að hann hefði kysst þá á munninn. Ég er alltof kurteis til að segja að lógísk niðurstaða Helgja Seljan við forsetann hefði verið að hann hefði kysst hann á rassinn.

Á meðan við vinnum fyrir eftirlaunum þeirra

Góðu fréttirnar eru þær að Ingibjörg Sólrún er loksins komin aftur á sjónarsviðið og segir það sem undirsátar hennar í Samfylkingunnni hafa ekki sagt nógu skýrt: Við verðum að ganga í ESB, henda út Seðlabankastjórunum, lækka stýrivexti (sorrý of seint) og ganga án tafar til viðræðna við vini okkar á Norðurlöndum og í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Engar viðhlýtandi skýringar hafa fengist á því hvers vegna marg ítrekuð aðstoð Norðurlanda við Seðlabanka Íslands hefur ekki verið þegin.

Davíð Oddsson, nýtur einungis trausts eins manns í landinu: Hannesar Hólmsteins. Hvað sem Kjartan Gunnarsson mágur minn segir mér og öðrum er alveg ljóst að hann treystir Davíð ekki lengur.

Bankakreppan er vissulega ekki sér íslensk uppfinning. Langt frá því. Geir Haarde hefur hins vegar brugðist hroðalega illa í þessari kreppu. Ég gleymdi þvi´að Agnes Bragadóttir er enn í tveggja manna aðdáandaklúbbi Davíðs og hún skjallar Geir líka.

Sannleikurinn er þó einfaldlega sá að Davíð og Geir bera höfuðsökina á gjaldþroti íslensku þjóðarinnar. Annar með stórmennskubrjálæði og hinn með meðvirkni.

Dómur sögunnar verður harður. En því miður munm við og afkomendur okkar þurfa að gjalda fyrir það – ekki . Þeir hafa komið eftirlaunamálum sínum þannig fyrir að gjaldþrota þjóð þarf ekki aðeins að borga skuldirnar sem þeir með fyrirhyggjuleysi sínu bera ábyrgð á, heldur líka halda þeim og öllum hinum óhæfu stjórnmálamönnunum, uppi á ofur lífeyriskjörum á meðan fæstir Íslendingar geta séð fram á áhyggjulaust ævikvöld.

Davið og Geir: skammist ykkar.

mánudagur, 13. október 2008

Regluverkið kom frá ESB

“Regluverkið kringum fjármálamarkaðinn á nú mestanpart uppruna sinn innan Evrópusambandsins og er ekki nema að litlu leyti smíðað á Alþingi.“

Geir H. Haarde í viðtali við Morgunblaðið 12. október 2008.

Þessi setning háttvirts forsætisráðherra hefur ekki vakið þá athygli sem hún á skilið. Geir og skoðanabræður hans hafa um langt skeið leikið þá list að halda því fram að aðeins lítill hluti lagasetninga á Íslandi kæmi frá Evrópusambandinu.

Skyldi Geir hafa sagt Sigga Kára og Davíð Oddssyni frá þessari merku uppgötvun sinni að regluverkið kringum fjármálamarkaðinn komi mestanpart frá ESB?

sunnudagur, 12. október 2008

Tilfinningaleg útrás

Viðtal Egils Helgasonar við Jón Ásgeir Jóhannesson var frábært sjónvarpsefni. Tveir ljóngáfaðir menn nálguðust viðfangsefnið útfrá tveimur gjörólíkum sjónarhornum.
Egill réðst að Jóni Ásgeiri útfrá mjög pópúlísku sjónarhorni: “Þetta er allt ykkkur að kenna.”
Jón Ásgeir er karlmenni og lofsvert að hann standi fyrir máli sínu. Fjarvera Björgólfsfeðga er svo auðvitað ömurleg. Hans málstaður var: “Þetta var ekkert mér að kenna: heimskreppan drap okkur; leiðinlegt að aðrir hafi orðið fyrir skaða en ég á ekki bót fyrir boruna á mér.”
Tvennt vakti athygli mína í samtali þessara jöfra. Hvorki Davíð Oddsson né Evrópusambandið voru nefnd á nafn. Þó hefur Jón Ásgeir sakað Davíð um að bankarán aldarinnar þegar Glitnir var felldur og Egill haldið því fram beint og óbeint að staða okkar utan ESB og evru hafi orðið okkur að falli.
Viðtalið var tilfinningaleg útrás af beggja hálfu. Betra og kostnaðarminna en útrás peningamanna. Stundum er það nauðsynlegt.

föstudagur, 10. október 2008

Til hamingju Ahtisaari

Marttii Ahtisaari á sannarlega skilið að fá friðarverðlaun Nóbels. Það er svolítið skrýtin tilfnning að hér hjá Sameinuðu þjóðunum sjá margir ástæðu til að óska mér til hamingju þar sem ég fer fyrir Norðurlandaskrifstofu á mínum vinnustað.

Þetta er gott dæmi um hvernig litið er á Norðurlönd innan Sameinuðu þjóðanna til góðs eða ills.
Og við hjá Sameinuðu þjóðunum fögnum auðvitað verðlaunum Ahtisaari enda leynist engum að hann fær þau fyrir friðarviðleitni sína í Kosovo þar sem hann var sérstakur sendimaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ekki má heldur gleyma því að hann lék lykilhlutverk í að koma á friði í Aceh í Indónesíu 2005 og hann kom raunar líka við sögu í fyrra Íraksstríðinu.

Ahtisaari er formlegur í háttum en sagður launfyndinn og skemmtilegur. Það er fyllsta ástæða til að óska Ahtisaari og vinum okkar í Finnlandi til hamingju!

Þetta er annað árið í röð sem aðili tengdur Sameinuðu þjóðunum fær friðarverðlaunin. Í fyrra var það loftslagsnefndin. Mér fannst gleymast á Íslandi að talsvert margir íslenskir vísindamenn hafa unnið með nefndinni. Og svo fannst mér ég nú líka hafa fengið Nóbelinn því ég vann fyrir nefndina í nokkra daga á ráðstefnu í Brussel!!

Spurningin er sú hvort þetta hjálpi framboði Íslands í kosningunni til öryggisráðsins.

fimmtudagur, 9. október 2008

Rúv í góðum málum

Ég hef að undanförnu gagnrýnt fréttastofu RúV sjónvarps undir foryst Elínar Hirst sem ég hef talið vera býsna nálægt því að geta kallast "bláskjár". Sé þetta rétt sem ég sé á netinu fagna ég fyrstur manna, en ég er staddur erlendis og á bágt með að kveða upp dóma:" Ný sameinuð fréttastofa RÚV sýnir styrk sinn í umfjöllun um íslenska efnahagshrunið. Hún hefur átt mörg góð augnablik og nýtir nú vel það forskot að hafa fréttaritara í fullu starfi bæði í New York og í Lundúnum.
Sjónvarpsfréttastofan hefur stundum verið uppnefnd Bláskjár. Mér hefur persónulega alltaf fundist það ósanngjarn stimpill.
Fréttastofan hefur í þessum hamagangi öllum, sýnt vel fram á sjálfstæði sitt gagnvart ráðamönnum."

Ég vona að þetta sé rétt og óska þá öllum mínum gömlu samstarfsmönnum mínum á RúV og Stöð 2 sem þarna eru saman komnir til hamingju með nýfengið frelsi.

Þeir brugðust ekki aðeins Íslendingum

Við Íslendingar erum meðvirkir með yfirvöldum en svona líta Bretar á frammistöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart þegnum sínum og breskum ríkisborgurum. BBC segir:

"In an interview with BBC political editor Nick Robinson, Mr Brown said the government was talking with local authorities about what could be done and intended to recover as much money as possible.
He added: "What happened in Iceland is completely unacceptable. I've been in touch with the Icelandic prime minister. I said this is effectively illegal action that they have taken.
They have failed not only the people of Iceland; they have failed people in Britain
Gordon Brown on Icelandic authorities

"We are freezing the assets of Icelandic companies in the United Kingdom where we can. We will take further action against the Icelandic authorities wherever that is necessary to recover money."
He added: "This is fundamentally a problem with the Icelandic-registered financial services authority - they have failed not only the people of Iceland, they have failed people in Britain."

Og eigum við íslenskir kjósendur að taka þessu þegjandi? Það er öllum fyrir löngu ljóst að Davíð Oddsson verður að fara, en hvernig er Geir Haarde stætt eftir þetta?

If they fail the can always go back

Mér finnst færslan sem var hér ekki viðeigandi í ljósi frétta um veikindi forseta Íslands og hef því fellt hana niður tímabundið.

Steinunn bjargar heiðrinum

Þrír blaðamenn sem ég met alla mikils; ritstjórarnir Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson og aðstoðarritstjórinn Steinunn Stefánsdóttir hafa undanfarna þrjá daga ritað forystugreinar í Fréttablaðið.

Jón Kaldal reið á vaðið og réðist harkalega að ónefndum bloggurum; líkti þeim við kverúlanta í þjóðarsál Rásar 2. Uppgjörið segir Jón “bíður betri tíma”. Af skrifum Jóns er ekki ljóst hvort hann persónulega, Fréttablaðið eða ríkisstjórnin eigi að ákveða hvar, hvenær og hvernig umræður um málið eiga að fara fram og hverjum verði leyft að tjá sig. Jón segir að það sé ófrjó hugsun að velta sér upp úr fortíðinni og talar um markaðstorg hugmynda (!!!!).

Það er alveg rétt hjá mínum gamla kollega Jóni Kaldal að það væri miklu betra ef umræðan hefði farið fram fyrir þjóðargjaldþrot en eftir. Ef Fréttablaðið, til dæmis, hefði sinnt þeirri frumskyldu sinni í blaðamennsku að sýna útrásarvíkingum og stjórnvöldum aðhald, værum við ef til vill í skárri stöðu en við erum. Þess í stað voru viðskiptasíður blaðsins eins og vettvangur klappliðs útrásarvíkinganna.

Þorsteinn Pálsson vildi greinilega ekki leyfa Jóni starfsbróður sínum að sitja einum að “ábyrgum málflutningi” á viðsjárverðum tímum.
Þorsteinn skrifaði í gær:

“Þegar skriftin blasti við á veggnum tók ríkisstjórnin á tröllauknu viðfangsefni af mikilli ábyrgð. Örugg framganga forsætisráðherra hinn örlagaríka dag 6. október 2008 og agað samstarf ríkisstjórnarflokkanna réði miklu um markvissa framvindu hlutanna. Ábyrg afstaða stjórnarandstöðuflokkanna, og alveg sérstaklega Framsóknarflokksins, var nauðsynleg forsenda þess að mál réðust með þeim hætti sem nauðsyn krafði.”

Lýsing Þorsteins á frábærri frammistöðu Geirs er með þeim hætti að maður spyr sig hvort honum sé alvara eða hvort hér sé á ferðinni svartasti húmor sem um getur.

Smátt og smátt áttaði ég mig á að manninum væri alvara. Mín fyrstu viðbrögð voru að við þyrftum ekki Prövdu, við hefðum Fréttablaðið. Önnur viðbrögð voru að fyllast sorg yfir því að það skyldi vera sjálfur Þorsteinn Pálsson sem þarna stýrði penna. Þorsteinn hefur í forystugreinum sínum verið rödd hófsemi og skynsemi og hann hefur haft hugrekki til þess að lýsa yfir stuðningi við Evrópusambandsaðild.

En þegar maður hélt að Fréttablaðið hefði endanlega skorist úr leik og gerst málpípa stjórnvalda kom bjargvætturinn Steinunn Stefánsdóttir til skjalanna og skrifar nýjan leiðara í Fréttablaðið í dag. Hann ættu allir að lesa, en ég læt fylgja með góðan kafla og skora á lesendur að bera saman við skrif Þorsteins hér að ofan:

“ Alla síðastliðna helgi beið þjóðin í ofvæni eftir niðurstöðum raðfundarhalda í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Seint á sunnudagskvöld mælti svo forsætisráðherra af tröppum ráðherrabústaðarins og sagði að ekki væri þörf á „sérstökum aðgerðapakka". Það var niðurstaða fundahalda helgarinnar.
Næsti kapítuli var ávarp sama forsætisráðherra innan við sólarhring síðar þar sem hann greindi þjóðinni frá því að staðan væri gerbreytt og að hann hygðist leggja fram frumvarp um neyðarlög í landinu. Alþingi samþykkti neyðarlögin.
Nú varð atburðarás hröð og bankar voru yfirteknir. Einnig var ákveðið að festa gengi íslensku krónunnar en vegna skorts á gjaldeyri var aldrei hægt að framfylgja þeirri ákvörðun og gengi krónunnar í algerri óvissu. Hins vegar hefur ekki verið hreyft við stýrivöxtum Seðlabankans þrátt fyrir að skipbrot stýrivaxtastefnunnar sé löngu ljóst.
Yfirlýsing seðlabankastjóra um væntanlegt lán frá Rússum, áður en það var frágengið, ásamt því að gefa í skyn að Íslendingar hygðust brjóta lög á breskum sparifjáreigendum var heldur ekki til þess fallið að auka tiltrú almennings á því að þjóðarskútan væri undir styrkri stjórn, auk þess sem þessar yfirlýsingar hafa skaðað ímynd Íslands enn frekar en orðið var í alþjóðasamfélaginu.
Í gær beið þjóðin eftir blaðamannafundi meðan þess var freistað að slökkva þá elda sem seðlabankastjóri hafði kveikt. Þjóðin vænti þeim mun meiri tíðinda af fundinum. Þau komu ekki.”

Hvað varð um ábyrgð og örugga framgöngu? Hér er atburðarásinni lýst nákvæmlega eins og hún var og ekkert dregið undan.

Staðreyndin er sú að viðvörunarbjöllur um útrásarfylleríið heyrðust mjög óvíða í samfélaginu. Fréttablaðið getur vissulega bent á að það hafi birt skrif Þorvaldar Gylfasonar, en að öðru leyti voru það “kverúlantarnir” í bloggheiminum sem með “fúkyrðaflaumi” eins og Kaldarl orðar það, stóðu vaktina. Að ógleymdum Agli Helgasyni sem hefur undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir aðra í íslenskri blaðamennsku.

Steinunn líkir íslenskum ráðamönnum við strúta sem ekki vildu kannast við neina erfiðleika. En strúta tvo hefur hún við hlið sér í brúnni á Fréttablaðinu. Þorsteinn hefur gerst grúpía Geirs og Jón Kaldal hefur tekið upp merki Gísla Marteins og vill að öll dýrin í skóginum séu vinir. Hann krefst samstöðu en það er ekki skortur á samstöðu heldur systur hennar; þýlyndið og meðvirknin sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum.

Jón Kaldal má kalla okkur bloggara kverúlanta og arftaka þjóðarsálar Rásar 2 og taka með Þorsteini þátt í sirkus Geira Smart þar sem hvítt er svart.

En mín góða skólasystir Steinunn Stefánsdóttir hefur bersýnilega ákveðið að þiggja ekki boð um að ganga í þann sirkus. Býð ég hana fyrir hönd kverúlanta velkomna í okkar hóp um leið og ég óska Fréttablaðinu til hamingju með að orðstír blaðsins hefur verið bjargað, því nýjasti leiðarinn hlýtur að vera nýjasta stefna blaðsins.

miðvikudagur, 8. október 2008

Eigum við kost á ESB?

Eftir að Davíð Oddsson lýsti því yfir að Íslendingar myndu ekki tryggja innlán í íslenskum bönkum erlendis er ljóst að okkur eru allar bjargir bannaðar. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hefur nú í hótum við Íslendinga.

Yfirlýsing Davíðs jaðrar við að vera yfirlýsing um þjóðargjaldþrot. Þeir sem eiga ekki fyrir skuldum eru gjaldþrota er ekki svo?

Það er vandséð að Ísland geti sótt um aðild að Evrópusambandinu eftir þessa gjörninga. Við myndum tæpast hafa stuðning Breta og Hollendinga að minnsta kosti.

Ekki gerumst við fimmtugasta og eitthvað ríki Bandaríkjanna. Einna helst að við gerumst að nýju fylki í Noregi eða göngum í rússneska sambandslýðveldið.

Það er athyglisvert eftir yfirlýsingar Jóns Kaldals ritstjóra Fréttablaðsins þar sem hann krafðist samstöðu með yfirvöldum, að visir.is segir aðsókn dræma á tónleika Bubba Morthens.

Mogginn segir aðsókn góða. Ég er ekki í aðstöðu til að meta hvað rétt er en mér finnst dapurlegt að þurfa að setja spurningamerki við umfjöllun minna gömlu félaga á Fréttablaðinu og visi.is - fyrir utan viðskiptasíðurnar auðvitað.

Vil að vísu taka fram að mér finnst Björn Ingi Hrafnsson öflugur blaðamaður, en það var hann líka áður en hann fór í pólitík. Margt sem hann skrifar er til fyrirmyndar eins og t.d. þetta:

sem er af endurnýjuðu bloggi hans http://blogg.visir.is/markadurinn/

"Og hver voru áhrif ummæla Davíð Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, sem féllu í Kastljósi gærkvöldsins? Að erlendir kröfuhafar fengju aðeins 5-15% upp í kröfur sínar, þeir yrðu með öðrum orðum steiktir en innlendum hluta skipt upp í klassísku kennitöluflakki. Og voru lög um bankaleynd brotin í viðtalinu þegar talið barst að Kaupþingi og Glitni?"

Björn Ingi tínir svo til ummæli af Marketwatch sem hníga mjög í sömu átt og það sem ég hef sagt um amateurshátt Davíðs í ummælunum um Rússagullið.

þriðjudagur, 7. október 2008

Davíð í leðjuglímu

Ég verð að viðurkenna að mig setti hljóðann eftir ágætt viðtal Sigmars Guðmundssonar við Davíð Oddsson í Kastljósi. Sigmar var vel undirbúinn, kurteis vel og varkár en þó lúmskt fylginn sér.

Frásögn Davíðs af símhringingu rússneska sendiherrans var slík að ég hélt á tímabili að þetta væri nýr dulbúinn skemmtiþáttur á vegum Sigmars. Það er jú háttur RÚV að eitt augnablik eiga menn að trúa Sigmari sem alvarlegum fréttaskýranda en næst er hann grínaktugur þáttastjórnandi.

Ekki það að hann gerir hvort tveggja nokkuð vel.

Nei þetta var ekki grín. Davíð lýsti hreinskilningslega hvernig hann hefði misskilið samtalið við Rússann; látið Seðlabankann gefa út tilkynningu sem minnti einna helst á fréttir sem íslenskar popphljómsveitir gáfu út um væntanlega heimsfrægð sína á þeim tíma sem Davíð var ennþá í Matthildi.

Ég ætla hins vegar að vona íslensku þjóðarinnar vegna að þetta sé bara fáránlegur klaufaskapur og ekki fari fyrir íslensku þjóðinni eins og Hljómum forðum. Vonandi fær Davíð skínandi Rússa gullið frá gamla KGB manninum, Vladimir Putin.

Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Davíð Oddssyni sem verkamanni í víngarði drottins og lengst af sem stjórnmálamanni. Mér hefði aldrei dottið í hug að hann klikkaði svona gjörsamlega í starfi.

Þótt Sigmar hafi staðið sig vel í þessu viðtali vantaði að mínu mati eitt í aðferðafræði hans. Hann spurði og þráspurði um óángæju Glitnis yfir aðgerðunum gagnvart bankanum.

Hins vegar spurði hann aldrei Davið um það sem Ricahrd Porter talar um í Guardian í dag (og annars staðar áður), það er að segja um “unwanted consequences” á la Lehman brothers. Með öðrum orðum að allt sem Davíð segir um Glitni geti verið rétt, en hann hafi með þessari aðgerð dregið allt íslenska efnahagslífið niður í svaðið.

Hugsanlega var staðan þannig að gætinn og hófsamur bankamaður hefði séð í hendi sér að það væri svo afdrifaríkt að ganga að Glitni að það hefði í raun átt að vera óhugsandi að gera það því afleiðingarnar fyrir fjármálalífið í heild yrðu svo alvarlegar. Að í þessu máli mætti einu gilda um Jón Hreggviðsson, svo vitnað sé í Nóbelsskáldið.

Vel má vera að Jón Ásgeir og félagar hafi allan tímann talið að Davíð væri nauðugur einn kostur að veita þeim lánið, því þeir sætu á fjöreggi íslensku þjóðarinnar.

Það væri vissulega blackmail, en ef tilgátan er rétt framdi Davíð harakiri fyrir hönd þjóðarinnar frekar en að sætta sig við það að til að afstýra almennri fjármálakreppu á Íslandi yrði hann að veita Jóni og félögum fáránlega rausnarlega aðstoð. Sem ég held að þeir hafi útaf fyrir sig ekki átt skilið eftir allt sitt rugl og óráðsíu. Það hékk bara miklu meira á spýtunni.

Ekki síður er athyglisvert að af viðtalinu er augljóst að Davíð leggur siðferðilegan og þar með pólitískan mælikvarða á hvaðeina í efnahagslífi landsins. Davíð ver framkvæmdina gagnvart Glitni með því að auðséð sé að hann hafi ekki látið persónulega heift ráða verkum sínum því Landsbankinn hafi verið næstur og ekki hafi verið tekið silkihönskum á honum.

En Sigmar spyr í rauninni ekki út í hvort örlög Landsbankans hafi verið óviljandi afleiðing af hörkuni gagnvart Glitni.

Það er ekkert að spurningum Sigmars, það vantaði hins vegar þettalykil atriði í þær.

Davíð gerir bersýnilega engan greinarmun á pólitískum ferli sínum og starfi sínu sem Seðlabankastjóra. Hann virðist alls ekki gera sér grein fyrir hve orð hans hafa mikla vikt á þessum tímum, til dæmis þegar hann segir stöðu Glitnis “miklu verri en talið hafði verið.” Svona talar stjórnmálamaður sem er að verja verk sín, ekki bankamaður að gæta þjóðarhags á viðsjárverðum tímum.

Davíð sagði :”Við borgum ekki skuldir óreiðumanna erlendis.” Svona talar ekki bankamaður; allra síst þegar verið er að biðja um aðstoð Breta, þar sem íslensku bankarnir eiga innisstæður. Eru Kaupþingsmenn líka óreiðumenn?

Í öllu viðtalinu talaði Davíð eins og hann væri að tjá sig fyrir hönd íslenska ríkisins. Þannig fullyrti hann að ef Kaupþing færi illa “yrði brugðist nákvæmlega eins við.” Hann uppnefndi veð sem Glitnir bauð “ástarbréf” og hefur þar með talið þau veð niður og gert að engu.

Hann gerði sjálfur að umræðuefni árásir eigenda Glitni á sig og að hann hefði ekki svarað. Hann sagði að frelsið væri ekki til að “svona menn höguðu sér svona.” Hann kallaði íslenska bankamenn “óreiðumenn” – og vitnaði í ömm sínar máli sínu til stuðnings.

Davið sagðist aldrei hafa borið lof á útrásina: “ég hef alltaf talið hana mikið furðuverk.”

Þá upplýsti Davíð að hann hefði sagt ríkisstjórnnni og bönkuum ítrekað frá því hvernig staðan væri og spáð nákvæmlega fyrir hvernig ástandið yrði fyrir ári en Geir H. Haarde og félagar hefðu “ekki hlustað.”

Ef Davíð vissi þetta allt saman; hvers vegna leyndi hann íslensku þjóðina því? Hvers vegna kom hann ekki í veg fyrir þetta? Hvernig gat hann verið svona ábyrgðarlaus? Ekki hikar hann núna við að tala um hvað sem er opinberlega ! Hvers vegna ekki að gera það á meðan hægt var að forða okkur frá þessum hremmingum sem hann segist nú hafa séð fyrir?

Það mætti draga þá fljótfærnislegu ályktun af þessu að Davíð Oddsson væri að stefna að póllísku sérframboði með þessu viðtali.

Það er því miður ekki málið; þetta er örvæntingaróp ráðvillts manns sem hefur orðið uppvís að því að vera fullkomlega óhæfur til að gegna starfi sínu og reynir að kenna öllum öðrum um. Ríkisstjórninni, útrásinni, fjölmiðlunum. Mest furða að hann nefni ekki Ólafi Ragnar Grímsson.
Svo illa er nú komið fyrir forsetanum að Davíð nennir ekki að skattyrðast við hann.

En fyrst og fremst aumingja Davíð Oddsson sem enn er í pólitískri leðjuglimu. Og aumingja íslenska þjóðin að þetta sé maðurinn sem haldi á fjöreggi hennar. Og ekki kusum við hann.

Bannað að gagnrýna

Nú þegar efnahagur þjóðarinnar er á heljarþröm og þjóðin bíður kvíðin og vonar að fyrrverandi KGB maður komi Davíð Oddssyni til hjálpar með skínandi Rússagulli, sýnir Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins bloggurum þann heiður að tileinka þeim forystugrein blaðsins.

Það er stutt í kennimanninn í Kaldal. Hokinn af lífsreynslu og snilldartilþrifum í blaðamennsku talar hann eins og sönnum ritstjóra og stórblaðamanni sæmir niður til þeirra sem leyfa sér að taka þátt í umræðunni á » ábyrgðarlausan hátt » . Látum vera að hann reyni að halda því fram að gagnrýni bloggara stafi af innibirgðri reiði og einhverjum öðrum sálrænum kvilllum.

En það fer blaðamönnum alltaf illa að heimta ábyrgð og auðmýkt af starfsbræðrum sínum og öðrum þeim sem kveða sér hljóðs. Í gær hló þjóðin að Gísla Marteini þegar hann bað þjóðina um að beygja sig í duftið. Á dauða mínum átti ég hins vegar von en ekki þessu frá Kalda kalda :

« Þótt forystumenn stjórnmála- og viðskiptalífsins séu kannski ekki að skapi allra þessa dagana, stendur upp á þjóðina að svara kalli þeirra um að sýna samstöðu. »

Það er makalaust að íslenskur ritstjóri skuli lýsa því yfir hann ætli að « svara kalli þeirra (ráðamanna) um að sýna samstöðu ».

Með því hefur hann lýst því yfir að hann og þá væntanlega Fréttablaðið ætli að víkja sér undan þeirri skyldu að sýna stjórnvöldum og öðrum valdhöfum aðhald, þangað til að einhverju óskilgreindu valdi þóknist að að segja að « nú sé tími til kominn. »

Sagan mun líka dæma íslenska fjölmiðla, ekki síst Fréttablaðið og 365 sem hafa amk. í viðskiptafréttum verið eins og klapplið og grúpíur mannanna sem sett hafa Ísland á hausinn.

Þarf að segja eitthvað meira um hvernig Jón Ásgeir lítur á fjölmiðla sína nú orðið en að hann skuli gera aðstoðarmann/upplýsingafulltrúa sinn að viðskiptafréttamanni Stöðvar 2 ? Finnst einhverjum það trúverðugt?

Ég tala ekki fyrir neinn annan en sjálfan mig en ég tek ekki þátt í þessu griðabandalagi þeirra sem í sameiningu bera ábyrgð á óförum Íslands.

Voru Svíar ekki beðnir um aðstoð?

Fréttaflóðið er svo mikið af fjármálakreppunni að eins víst er að ég hafi misst af einhverju.
Geir H. Haarde segir að vinaþjóðir hafi brugðist. Samkvæmt þessari frétt voru Svíar ekki beðnir um aðstoð. Er búið að fjalla um þetta í íslenskum fjölmiðlum? Getur einhver upplýst fávísan Eyjarskeggja í útlöndum um málið?

'Thomson Financial NewsSwedish c.bank-

Iceland has not asked about swap10.06.08, 6:20 AM ET

STOCKHOLM, Oct 6 (Reuters) - The Swedish central bank said on Monday it had not been contacted by its Icelandic counterpart over activating an agreed swap facility of as much as 500 million euros ($680 million).
'We have not had any request from the Icelandic central bank,' Riksbank spokesman Tomas Lundberg said.
In May, Iceland's central bank struck a deal with peers in Sweden, Norway and Denmark that allows it to buy euros with Icelandic crowns.
The deal involved swap arrangements each for as much as 500 million euros with the three Scandinavian countries' central banks.
Norway's central bank declined to comment when asked if it had been contacted by its Icelandic peer.
'That is something you have to ask Iceland about,' a Norges Bank spokeswoman said. ($1=.7358 Euro) Keywords: SWEDEN ICELAND/
tf.TFN-Europe_newsdesk@thomsonreuters.com

mánudagur, 6. október 2008

Afsakið meðan ég æli

"Iceland is on its own".

Þetta voru lokaorð fréttamanns BBC á Íslandi í fréttum í kvöld þegar hann lýsti efnahagskreppunni á Íslandi, eftir að hafa rakið uppgang, veldi og fall íslensku bankanna. Og hvernig landið hefði kosið að halda úti minnstu mynt í heimi í hagkerfi sem var tíu sinnum stærra en þjóðarframleiðslan. Og standa eitt í ólgusjó alþjóðlegra efnahags- og stjórnmála á þeim forsendum að "Við erum betri!".

____

Það er aumt hlutskipti að vera frjálshyggjumaður á Íslandi. Helsti talsmaðurinn Hannes H. Gissurarson er í þagnarbindindi og felum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra vill þjóðnýtingu bankanna. Og að við pössum börnin okkar. Davíð Oddsson er horfinn. Sennilega upptekinn við leynileg þjóðnýtingaráform. Passið ykkur á að hafa klink á ykkur og lenda ekki í tímabundnum greiðsluerfiðleikum úti í sjoppu, annars gæti Davíð frændi náð í skottið á ykkur!

Gísli Marteinn hefur ekki annað til málanna að leggja frekar en Bangsapabbi og Lilli klifurmús og félagar, en að nú eigi "öll dýrin í skóginum að vera vinir."

Og kapítalistarnir eru ekki mikið skárri . Jón Ásgeir Jóhannesson talar um "bankarán" og að það sé Davíð Oddssynni að kenna að enginn vildi lána Glitni pening. Er það trúverðugt?

Lárus Welding sem fékk 300 milljónir fyrir að taka við því glæsta búi sem okkur var sagt að annar þrjú hundruð milljóna maður, Bjarni Ármannsson, hefði skilið eftir sig, hafði sett bankann tæknilega á hausinn níu mánuðum síðar. Ekki bætti úr skák þegar í ljós kom að B-plan hans var að fá lán hjá Davíð. Var einhver að tala um að setja hausinn í gin ljónsins? Það var sko ekki boðið upp á tónik með til að deyfa bragðið í þeirri aftöku!

Franska ríkisstjórnin krafðist þess áður en fransk-belgíska bankanum Dexia var komið til hjálpar að bankastjórinn afsalaði sér strafslokasamningnum.

Afrakstur bankastjórnar Bjarna og Lárusar var að fara fram á lán sem fól í sér að hvert mannsbarn á landinu lánaði þrjú hundruð þúsund. Lítið miðað við þrjú hundruð millurnar þeirra; en er hægt að vera ósvífnari?

Að sjálfsögðu á að reka Lárus og leita leiða til að hann endurgreiði þetta fé. Sama máli gegnir um Bjarna Ármannsson. Það getur ekki verið allt með felldu í sjálftöku þessara manna.

But even the paranoid have enemies: Það versta er þó að Seðlabankinn hefði átt að koma til móts við þessa ósvífnu fjárglæframenn því hinn möguleikinn var sá sem við stöndum frammi fyrir: þjóðargjaldþrot með því að grafa undan trúverðugleika efnahagslífisins á viðsjárverðum tímum.

Min spá er sú að heimastjórnararmurinn og auðkýfingarnir nái sögulegum sáttum. Griðabandalagið á milli Bjögganna og Baugs verði látið ná til Ríkisfjölmiðlanna líka (Gísli Marteinn komdu heim! Mamma RÚV saknar þín! ....) og öll dýrin í skóginum verði vinir. Gagnrýnir verður óþjóðholl. Már Másson verður yfirmaður fréttaeftirlits ríksins.

Slagorðin: Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir!

Og svo bíðum við eftir hreinskilna viðtalinu við arineldinn þar sem Geir H. Haarde verður spurður: "Varstu ekki þreyttur og svangur, eftir allar vökurnar? Já, þetta var mikil reynsla... Eva María/Jóhanna Vigdís/ Fyrrverandi fegurðardrottning X/Sigmar Guðmundsson, veistu að ég var ekki búinn að borða morgunmat þennan dag? "

O tempora, o mores! Þvílíkir tímar, þvílíkir siðir! Við vitum nú hver niðurstaðan er: Við meðaljónarnir munum borga brúsann fyrir ofneyslu auðjöfranna og þrjósku Sjálfstæðismanna við að reyna að halda til streitu einangrunarhyggjunni. og vera utan ESB og evru. Nú sitjum við uppi með reikninginn vinalaus, skítblönk þjóð lengst norður í Ballarhafi.

Afsakið meðan ég æli!

Bregðumst ekki trausti Geirs!

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi og ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins telur ekki að forsætisráðherra eða seðlabankastjóri eigi að sæta ábyrgð fyrir hrun íslensks efnahagslífs. Hvað þá að íslenskir auðkýfingar eigi að borga brúsann fyrir áhættusækni sína sem nú er að stefna íslensku þjóðinni í þrot. Nei, Gísli Marteinn vill að öll dýrin í skóginum séu vinir.

Gísli Marteinn telur að nú ríði á að íslenska þjóðin bregðist ekki traustinu. Orðrétt:

"Framundan eru erfiðir tímar og ég vona svo sannarlega að forsætisráðherra haldi áfram að tala beint við okkur um ástandið og að við bregðumst ekki traustinu og gerum það sem í okkar valdi stendur til að þreyja þorrann og góuna. Svo komum við eldri og þroskaðri undan vetri, hvenær sem honum lýkur."

Jamm. Íslenska þjóðin á ekki að bregðast trausti Davíðs og Geirs. Gísli Marteinn getur að vísu ekki annað en elst og þroskast en ef við "bregðumst ekki traustinu" gæti farið illa fyrir okkur Íslendingum. Sporin hræða.

Þegar austur-þýska alþýðan reis upp gegn einræði kommúnisma á þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1953, fordæmdi stjórnarflokkurinn þjóðina og sagði að hún ætti ekki svona góða stjórn skilið.

Aldrei hefði ég búist við að Gísli Marteinn tæki upp merki Walters Ulbrichts en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Geir biður okkur að passa börnin

Ræða Geirs svaraði engum spurningum. Hann er búinn að fara í marga í hringi og fátt bendir til þess að hann valdi hlutverki sínu. Hvatningar hans um að við tölum við börnin okkar eru góðra gjalda verðar en þær leysa engan vanda og leysa hann ekki undan ábyrgð.

Geir lýsti því hvernig bankakerfið var orðið mörgum sinnum (8-10 sinnum) stærra en þjóðarbúið. Var hann að uppgötva þetta núna? Þetta hefur einmitt verið kjarninn í málflutningi evru-sinna að vöxtur bankakerfisins kallaði á bakhjarl í evrópska myntbandalaginu.

Aðalatriðið í málflutningi okkar, því ég er Evrópusinni í húð og hár, er að Íslendingum beri að vera í sem nánustu tengslum við bræðraríki okkar, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur í Evrópu allri.

Þegar leitað var til vinaríkja, virðist ekki einasta þeirra hafa orðið við beiðninni. Það eiga allir í erfiðleikum og hvers vegna á að bæta á vandann með því að koma Íslendingum til bjargar sem þar að auki eru annálaðir glæframenn í fjármálum?

Í þess stað hafa ráðamenn haft uppi gífuryrði um Evrópusambandið, hatast við Dani og sakað þá um nýlendustefnu þegar þeir hafa bent á veilurnar í fjármálalífi okkar. En það voru ekki Danir sem lágu í því heldur við Íslendingar, sem nú stöndum uppi skítblankir og einanagraðir.

Ekki vegna þess að vondir menn úti í heimi vildu okkur illt. Geir og forverar hans hafa hafnað ítrekað tilboðum Evrópusambandsins um aðild "og klæðskerasmíðaðar lausnir" eins og Olli Rehn orðaði það við mig í Evrópumyndinni sem ekki mátti sýna á RÚV.

Þetta er það hlutskipti sem Sjálfstæðisflokkurinn valdi okkur Íslendingum. Þetta eru þau örlög sem útrásarmennirnir (og viðhlæjandi þeirra á Bessastöðum) hafi skapað okkur

Heldur Geir að hann komist upp með að segja almenningi að éta kökur og passa börnin sín?

Það verður einhver að taka ábyrgð. Og það verður að taka ákvörðun sem verður ekki erfiði fyrir neinn nema Geir, Björn og Hannes. Og formanninn. Og þá á ég ekki við Geir smart sem segir að hvítt sé svart.

PS Fyrr í dag vék ég að Sigurði G. Guðjónssyni í pistli. Nú berast þær fréttir að Sigurður hafi hnigið niður á fundi og fengið vægt hjartaáfall. Sigurður er íþróttamaður góður og hefur klifið Kilimanjaro og ég veit að hann mun ná sér skjótt. Sendi honum mínar bestu kveðjur. Og hann ætti að geta huggað sig við það að enginn verður óbarinn biskup!

Þetta komst Glitnir upp með

Það er lærdómsríkt að horfa á viðtal NRK, norska ríkissjónvarpsins við Má Másson talsmann Glitnis. Hann harðneitaði að svara fullkomlega eðlilegum spurningum um bónusgreiðslur til ráðamanna bankans og beit svo höfuðið af skömmunni með því að heimta að atriðið yrði klippt út úr fréttinni.

Spurningin sem hlýtur að vakna hjá almennum áhorfenda er sú hvort þetta sé framkoma sem hann hafi vanist að komast upp með gagnvart íslenskum sjónvarps- og blaðamönnum. Ekki síst kannski vegna þess að aðaleigandi bankans á jú 365 og þar með Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylgjuna líka.

Sá sem þetta ritar getur að minnsta kosti staðfest að eitt sinn er hann tók viðtal við yfirmann Greiningardeildar Íslandsbanka eins og hann hét þá, kom sá ágæti maður út af skrifstofu þáverandi bankastjóra og hann og upplýsingafulltrúi fyrirtækisins lögðu honum lokalínurnar fyrir viðtalið í áheyrn fréttmanns.

Ég sé enn eftir því að hafa ekki gert sérstaka frétt um það hvernig stjórnendur bankans tróðu fótum svokallaða Kínamúra sem eiga að vera á milli greiningardeildar og bankastjórnar að ekki sé talað um áróðursmeistara.

Skýrt skal tekið fram að enginn þessara starfa lengur hjá Glitni en tvö þau síðastnefndu fengu gullin handtök og kauprétt á hlutabréfum fyrir hundruð milljóna króna. Greiningadeild Glitnis hefur hins vegar lengi stundað einhverja undarlegustu og skammsýnustu greiningu á íslensku efnahagslífi sem um getur. Mjög í takt við annað starf bankans og skylda engan undra. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Hvítt er svart í sirkus Geira smart

"Við í sirkus Geira smart
trúum því að hvítt sé svart..."
-- Spilverk þjóðanna


Fyrir viku þjóðnýttu Davið og Geir Glitni. Þeir gátu ekki staðist mátið að sparka af öllum kröftum lí iggjandi menn (Jón Ásgeir og félaga) sem gátu þó vissulega sjálfum sér um kennt hvernig komið var. Það var ekki fýsilegur kostur að lána ríkasta fólki Íslands 300 þúsunda á hvert mannsbarn en í stað þessa að knýja Baug og aðra hluthafa til að setja inn stórfé á móti var valin sú leið sem verst kæmi út fyrir eigendurnar. Sá galli var á gjöf Njarðar að með þessari aðgerð féll fjármálakerfið eins og spilaborg.

Breskur hagfræðiprófessor hefur sýnt mjög rækilega fram á hvernig þessi aðgerð gróf undan tiltrú á íslensku efnahagslífi erlendis; stórskaðaði aðra íslenska banka að ekki sé minnst á íslensku krónuna.

Davíð Oddson, seðlabankastjóri taldi ástandið svo alvarlegt að hann taldi líkur á að þjóðnýta þyrfti hina bankana lika og síðan mynda þjóðstjórn allra flokka. Davíð lætur eins og leki af ríkisstjórnarfundi sé málið. Lekinn skiptir engu: málið sýnir að Davíð skortir trúverðugleika til að gegna sínu starfi. Allir gruna hann um græsku.

Alla vikuna hafa ráðamenn fundað enda ástandið alvarlegt: algjör gjaldeyris- og fjármagnsskortur. Gengi krónunnar í frjálsu falli og annað hvert heimili á barmi gjaldþrots.

Eftir fundi alla helgina tilkynnir Geir H. Haarde að ”ekki sé þörf” á neinum aðgerðum.

Yfirlýsingar Geirs eru út og suður og engin glóra í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fundahöldin út af fyrir sig eru yfirlýsing um að stórkostleg hætta stafi að íslensku efnahagslífi og sama máli gegnir um yfirlýsingar Seðlabankastjóra. Ef niðurstaðan er sú að ekkert verði gert; spyr maður sig, til hvers var þessi sýning? Margoft var boðað að niðurstaða væri á næsta leyti. Þegar hún kemur ekki hljóta það að vera vonbrigði jafnt fyrir markaðinn sem almenning.

Geir H. Haarde virðist ekki hafa dug í sér til þess að grípa til nauðsynlegra efnahagsaðgerða og annara aðgerða sem nauðsynlegar eru til að endurvekja tiltrú á íslensku efnahagslífi: að reka Seðlabankastjórann sem enginn treystir og lýsa yfir að Ísland muni sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Vandi Íslendinga er meðal annars sá að við höfum gráan skrifstofumann þar sem við þurfum vígreifan foringja, en við höfum slagsmálahunda þar sem við þurfum mannasætta. Með vígamennina Ólaf Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson á þeim stöðum þar sem sitja ætti vammlausir sómamenn á friðarstóli, þakkar maður bara Guði fyrir að Sigurður G. Guðjónsson skuli ekki vera biskup. Að biskupnum frátöldum höfum við menn sem gætu komið af stað rifrildi í tómu herbergi þar sem vera ættu menn sem bæru klæði á vopnin og væru öðrum fyrirmynd: þrautgóðir á raunastundu.

Geir H. Haarde hefur allaveg sýnt svo ekki verður um villst að ekkert er að marka yfirlýsingar hans; hann segir ósatt um efni funda og hefur tapað trúverðugleika sínum. Hann getur ekki slitið sig frá því að vera varaformaður Davíðs Oddssonar. Slíti hann sig ekki frá forvera sínum á hann ekkert erindi í forystu í íslenskum stjórnmálum á háskalegum tíma.

Íslendingar trúa því ekki lengur að hvítt sé svart í Sirkus Geira smart.

föstudagur, 3. október 2008

Ein leið út úr vandanum: ESB, núna!

Ég vildi mjög gjarnan geta orðað þetta öðruvísi en þetta er eingöngu að síður niðurstaða sem ég held að enginn skynsamur maður geti í raun mótmælt. Geir H. Haarde er nauðugur einn kostur: honum ber að lýsa því yfir að Ísland hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.

Þetta mun að vísu einungis hafa takmörkuð áhrif á núverandi vanda en engu að síður skapa sóknarmöguleika og bæta stöðu okkar gagnvart evrópska seðlabankanum. Umfram allt myndi upptaka evrunnar tryggja stöðugleika hér þegar fram í sækir og koma í veg fyrir að drykkjutúr auðkýfinga og forystumanna þjóðarinnar endi í slíkum allsherjartimburmönnum sem nú herja á þjóðina.

Umræður um evruna hefur skyggt svo mjög á aðra þætti Evrópumála, að fáir hafa tekið eftir því að Sjálfstæðismenn hafa hægt og bítandi verið að fikra sig nær fylgi við aðild.

Í Evrópuskýrslu nefndar undir forystu Björns Bjarnasonar, voru nefnilega slegnar út af borðinu í einu lagi nokkrar veigamiklar röksemdir gegn aðild að Evrópusambandinu, þar á meðal:


Reikningar Tryggva Þórs Herbertssonar um tugmilljarða króna aðildarmiða að ESB eru léttvægir fundnir og komist að niðurstöðu sem þýðir að árgjaldið yrði 0.2 til 0.8% af útgjöldum ríkissjóðs eða 1 til þrír og hálfur milljarður króna, þegar dreginn hefur verið frá kostnaður við EES samninginn sem félli að sjálfsögðu niður.

Viðurkennt er að hlutfallslegur stöðugleiki tryggi að erlend ríki hafi ekki veiðireynslu af Íslandsmiðum.

Viðurkennt er að sumar greinar landbúnaðar gætu hagnast af aðild, þótt vissulega muni td. kjúklinga og svínarækt hreinlega leggjast af. Núverandi ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytis hefur viðurkennt að miðað við að samkomulag náist í Doha-samningalotunni kunni að vera meira skjól fyrir íslenskan landbúnað innan en utan ESB.

Við þetta má bæta:

Ísland fær aukinn áhrif á lagasetningu sem við verðum að taka upp óbreytta í gegnum EES. Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB segir að við höfum þegar tekið upp 75% af lagasetningu ESB.

· Með EES samningnum höfum tekið upp svo stóran hluta laga og regluverks ESB að allt tal um að við flækjumst í reglugerðafargani, eru út í hött: Við erum það nú þegar, að landbúnaðinum þó slepptum.

Sóknarfæri eru í byggðamálum, þám. samgöngumálum á landsbyggðinni við aðild að ESB.
Kostnaður hverrar fjögurra manna fjölskyldu við að halda úti evrunni var 1.7 milljónir árið 2007 miðað við þáverandi gengi eða alls 130 milljarðar.

Rannsóknir benda il að matvæli gætu lækkað um 25% í verði og föt og skór um 35% við inngöngu í ESB og upptöku evru. Útgjöld venjulegrar fjölskyldu myndi lækka um 215 þúsund á ári eða 18 þúsund á mánuði. Þetta er 5% aukning ráðstöfunartekna.

Vextir myndu sjálfkrafa lækka til samræmis við það sem gilti á evrusvæðinu, vaxtamunurinn er nú yfir tíu prósent.


Til að taka upp evruna þurfum við vissulega að laga til í efnahagslífi okkar, en það þurfum við hvort sem er að gera. Það verður sársaukafullt en það er nauðsynlegt og betra að taka út þjáningarnar strax en að fá sér efnahagslegan afréttara.


Erfiðasta atriðið fyrir Ísland að kyngja verður væntanlega að endanleg ákvörðun um heildarkvóta á Íslandsmiðum verður tekin formlega í ráðherraráði Evrópusambandsins. Flestir sérfræðingar eru þó sammála um að mjög fátt breytist í íslenskum sjávarútvegi við inngöngu í ESB ,annað en skuldir útgerðarinnar og landsmanna verða í heimamynt!


Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins sagði í viðtali sem ég tók fyrir Iðnþing í lok febrúar á þessu ári að hægt væri að hefja viðræður hálfu ári eftir að sótt hefði verið um aðild og viðræðurnar tækju 9-12 mánuði en því næst tæki við staðfestingarferlið. “Þannig að það ættu að líða um tvö ár frá því umsókn væri lögð fram þar til Ísland yrðir formlega aðildarríki ESB. Þannig að það er enn hugsanlegt að Ísland verði tuttugasta og áttunda aðildarríki Evrópusambandsins, ef til vill um leið og Króatía. Ég vona að þið takið þessu sem hvatningu!”

Ég ætla að gera þessi orð Olli Rehn að mínum. Eftir hverju erum við eiginlega að bíða?

Mesta eignatilfærsla frá siðaskiptum

Davíð gaf og nú vill Davíð taka.

Hugmynd Davíðs Oddssonar um þjóðnýtingu alls íslenska bankakerfisins felur í sér mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar að minnsta kosti frá siðaskiptum.

Athyglisvert er að ráðherrar Samfylkingarinnar virtust telja fullkomlega eðlilegt að ókjörinn fulltrúi kæmi á ríkisstjórnarfund, læsi þeim pistilinn um hvaða flokkar skyldu skipa ríkisstjórn og leggja síðan til mestu þjóðnýtingu Íslandssögunnar. Þeir sögðu ekki orð. Þeim fannst ekkert athugavert við að Seðlabankastjóri talaði á þann hátt sem vart verður kallað annað en grímulaust valdarán – ef það er þá hægt að tala um rán þegar honum eru beinlínis afhent völdin.

Seta Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hefur ekkert með stjórnmálaskoðanir hennar að gera heldur eingöngu vilja ráðherranna til að sitja í ríkisstjórn. Hvernig ætla þeir líka að borga evru-lánin sín á venjulegum íslenskum launum?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur að mestu hætt afskiptum af stjórnmálum frá því hún varð UNIFEM ráðherra. Hugurinn leitar óneitanlega til hennar í veikindum hennar sem koma upp á versta tíma. Vinur er sá sem til vamms segir og ég segi hreint út að við söknum okkar sköruglega borgarstjóra. Ég held að kjósendum hennar (fyrir utan miðaldra háskólakonur í 101 og 107) sé ekki skemmt.

Þögn Össurs Skarphéðinssonar er svo æpandi. Hann hefur ekki bloggað eða sagt orð síðan gamli vinur hans einkavæddi Glitni. Þegar Össur þegir er það eins og þúsundir málleysingja standi upp og hrópi á torgum.

Samfylkingin á þegar í stað að krefjast þess að Seðlabankastjóra verði vikið úr starfi. (Myndi Þorgerður Katrín styðja það?)

Geir mun hafna því og ég hef ekki trú á að samstarf takist við vinstri vænginn enda sé ég ekki að atvinnurekendur í flokknum myndu kyngja því.

Niðurstaðan verður því þingrof og kosningar þar sem Samfylkingin setur aðild að Evrópusambandinu á oddinn. Sjálfstæðisflokkurinn mun ganga lamaður til kosninga eða jafnvel klofinn enda ábyrgur fyrir efnahagsástandinu og hruni krónunnar og algjörlega hugmyndalega gjaldþrota eftir síðustu þjóðnýtingar hugmyndir.

Samfylkingin gæti meira að segja gengið til kosninga sem helsti talsmaður markaðshyggju í íslenskum stjórmálum enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið gamaldags sósíalisma á hönd. Hún gæti svo kannski lagt til að Hannes Hólmsteinn yrði einkavæddur. Það yrði álíka róttæk einkavæðingar hugmynd og þjóðnýtingar hugmyndir Davíðs Oddssonar.

fimmtudagur, 2. október 2008

Besti vinur aðal og vopnið sem hverfur

Ég verð að viðurkenna að mér brá í brún þegar Sindri Sindrason hætti að vera aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og gerðist viðskiptafréttamaður Stöðvar 2. En kannski var það ekkert ólíkt því þegar blaðafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar settist í fréttastjórastól sömu stöðvar. En ég hugsaði með mér veldur hver á heldur.

Stöð 2 virðist hins vegar hafa fallið rækilega á prófinu undanfarna daga fyrst með Drottningarviðtali allra Drottningarviðtala sem Sindri tók við Jón Ásgeir og síðan með viðtali þar sem ráðist var á Agnesi Bragadóttur.

Ekki það að slík viðtöl séu neitt nýnæmi. Ég minnist þess að þegar Gísli Marteinn ræddi við Davíð Oddsson og Kjartan Gunnarsson hélt ég í bæði skipti að viðtalið myndi enda með kossaflensi.

En þetta voru hins vegar dægurmálatengd viðtöl, en ekki fréttaviðtöl og þótt brotavilji Gísla Marteins hafi verið einlægur, er hlutur Sindra sínu verri.

Það ætti hver maður að sjá í hendi sér að besti vinur aðal á ekki að taka aðal-viðtalið. Hann hefur hvorki hlutlægni né trúverðugleika til þess.

Ágætur fyrrverandi yfirmaður minn á ljósvakamiðli sagði mér eitt sinn að það ætti enginn að velkjast í vafa um hverjar hvatir auðmanna sem eignuðust fjölmiðla væru. Þeir sæu í hillingum þvílíkt vopn fjölmiðlarnir væru. Hins vegar áttuðu þeir flestir á því fyrr en síðar að það vopn hyrfi í höndunum á þeim um leið og þeir reyndu að beita því.

Ég held að það sé nokkuð til í þessu.

miðvikudagur, 1. október 2008

Láki litli og vopnabrakið

Palladómar mínir um persónur og leikendur í Glitnisharmleiknum (tagíkómedíunni?) hafa vakið nokkur viðbrögð, bæði í athugasemdakerfinu og eins í persónulegum tölvupóstum til mín.

Mér líður svolítið eins og Láka litla í barnasögunni sem alltaf var að gera eitthvað af sér....og hafði frekar gaman af því. Ég skal játa að ég hef verið býsna ljótur strákur en auðvitað skemmti ég mér svolítið yfir því að hreyfa við fólki og heyra vopnabrak í fjarska eins og Egill þegar þingheimur barðist um silfrið á Þingvöllum forðum.

Sumum finnst ég vera dómharður og kann það vel að eiga við rök að styðjast. Ég lít svo á að hlutverk bloggara sé mjög mikilvægt í okkar fjölmiðlaumhverfi þar sem hóparnir sem eiga bankana þrjá eiga hver sinn fjölmiðil og bláa höndin hefur lengst af haldið RÚV í heljargreipum.

Að sjálfsögðu verður maður að krydda matinn vel og bjóða upp á safaríkar steikur. Ekki síst við sem skrifum langhunda. Vonandi hef ég ekki sært neinn um of með þessu skrifi mínu, en sannleikanum verður jú hver sárreiðastur.

Mér hefur til dæmis verið bent á að Geir H. Haarde hafi haft samband við Ingibjörgu Sólrúnu og sett Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson inn í málin. Gott og vel orðalag mitt um að Björgvin hafi verið sniðgenginn fæst ekki staðið – og biðst ég afsökunar á því. Á hinn bóginn virðist málið ekki hafa verið á forræði bankamálaráðherra og forsætisráðherra nýtt sér út í æsar að formlega heyrir Seðlabanki Íslands undir forsætisráðuneytið.

En bankamálaráðherra virðist ekki hafa ráðið ferðinni í málinu þótt málefni viðskiptabanka séu á hans könnu heldur verið furðu passívur sem og öll Samfylkingin. Sumum kann að þykja það nastý ályktun af þessu að Björgvin hafi brugðist sem foringjaefni. Það má kannski til sanns vegar færa og skal ég taka þá fullyrðingu til baka.

En ég fæ þó ekki betur séð en hann og hans flokkur hafi að mestu verið þolandi og látið Geir og Davíð vaða yfir sig. Það er t.d. ofar mínum skilningi að Davíð Oddsson ákveði hverjir séu stjórnendur bankans. Hver kaus hann?

Ég fer síðan heldur ekki ofan af því að Inigbjörg Sólrún hafi staðið sig frábærlega í málefnum UNIFEM en virst full áhugalítil um efnahagsmál sérstaklega Evrópumálin. Að ekki sé minnst á gengismálin. Þar hefur Björgvin G. Sigurðsson hins vegar staðið vaktina og eins staðið sig mjög vel í málefnum neytenda. Og gerir vonandi áfram.

Þetta tengist hins vegar því að það er afar óheppilegt að oddviti stjórnarflokks sé í utanríkisráðuneytinu og langdvölum erlendis. Væri því vel til fundið að Ingibjörg Sólrún hefði stólaskipti við td. Össur Skarphéðinsson í næstu hrókeringum á stjórnarheimilinu. Össur hefur að því best verður séð frekar gaman af því að vera í útlöndum. Hér kæmu Þórunn og Björgvin líka til álita enda sá síðarnefndi sláandi líkur David Milliband, utanríkisráðherranum breska!

Loks hefur verið bent á að ég hafi látið hjá líða að nefna Árna Mathiesen og Þorgerði Katríni. Því er til að svara að Árni var í aftursætinu hjá Davíð sem er þó skárra en að vera í skottinu eins Samfylkingin. Þorgerður Katrín var svo eina ferðina enn á íþróttaleik í útlöndum og fer engum sögum af því að það hafi verið talað við hana.

Enginn hefur hins vegar nefnt Guðjón Friðriksson og Ólafs sögu helga sem hann hefur í smíðum. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að nú verið handritið lesið yfir og dregið úr mestu gífuryrðum forsetans um að Íslendingar væru öðrum þjóðum snjallari í viðskiptum og útrásarvíkingarnir verðugir arftakar Leifs heppna.

Fundur Vínlands varð held ég engum til skaða nema nokkrum skrælingjum, en margt bendir til þess að farið hafi líkt með útrásarvíkingunum okkar og Íkarusi sem flaug of nálægt sólinni með þeim afleiðingum að vængirnir brunnu og hann steyptist í sjóinn. Vonandi eru Íkarusar okkar Íslendingar syndir.

Sá weldur sem á heldur

Það eru áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar en miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir Íslendingi í útlöndum sem treystir á netsambandið eitt, virðist þó eftirfarandi blasa við um síðustu wendingar í í Glitnismálinu:


Eftirfarandi sitja uppi með Svartapéturinn:

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ég bið vinkonur mínar afsökunar en ég finn ekkert betra orð en kellingavæl yfir ramakvein Jóns Ásgeirs. ” Davíð gerði Glitni ekki gjaldþrota. Það voru ráðamenn bankans, sem gerðu það. Þeir fóru of geyst og biluðu…,” skrifar Jónas Kristjánsson og hittir naglann á höfuðið. Áhættusæknir fjárfestar gera út á að græða meir en aðrir á góðum tímum en fall þeirra er hraðar og skellurinn harðari þegar á móti blæs. Þetta er ekkert nýtt.

Í rekstri Glitnis var teflt á tæpasta vað og ekkert B-plan virtist vera fyrir hendi. Bankinn féll eins og spilaborg við fyrstu ágjöf og þá var hlaupið til mömmu ríkissjóðs.

Ég ber virðingu fyrir Jóni Ásgeiri en það fer honum illa að vera pilsfaldakapítalisti. Og hvers vegna í ósköpunum bjóst hann við tekið yrði á honum með silkihönskum hjá Sjálfstæðisflokknum eða –for crying out loud- í Seðlabankanum. Jón Ásgeir talar um að stjórn Glitnis hafi samþykkt bankarán. Pétur Tyrfingsson orðar þetta skemmtilega: "En - mínir ágætu herrar! Það þarf ekkert að ganga að þessu tilboði ríkisins. Það hlýtur að vera hægt að snúa sér eitthvað annað og selja eitthvað úr þessu gríðarlega verðmæta eignasafni. Ef það er ekki hægt - nú þá er það einfaldlega verðlaust og þar með er ríkið ekki að gjaldfella neitt né stela neinu."

Þrjúhundruð milljóna maðurinn Lárus Welding: Fékk þrjú hundruð milljónir fyrir það eitt að ráða sig til starfa hjá Glitni. Setti bankann á hausinn innan við ári síðar. Sagði allt í góðu lagi viku áður en hann fór á hausinn. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að endurráða hann sem bankastjóra? Er ekkert sendilsstarf laust hjá bankanum, sennilega myndu hæfileikar hans njóta sín þar betur. Mun sitja uppi með skömmina það sem hann á eftir ólifað.

Ofdramb og græðgi varð þrjú hundruð milljóna manninum að falli. Ef greiðslan hefur ekki verið innt af hendi, ætti ríkið annað hvort að leita leiða til að rifta samningnum eða borga honum með því að keyra vörubílshlass með 300 millum í smápeningum og sturta á stéttina hjá honum. Sá weldur sem á heldur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi vegna veikinda og verður því ef til vill ekki hægt að leggja mat á hennar hlut. Hún hefur staðið sig prýðilega í málefnum UNIFEM síðan hún varð utanríkisráðherra og unnið vel að framboði Íslands til öryggisráðsins. Hún hefur nánast ekkert skipt sér af efnahagsmálum þótt hún sé oddviti annars stjórnarflokksins og verið áhugalaus og steinsofandi á vaktinni í Evrópumálunum.


Björgvin G. Sigurðsson lítur út eins og smástrákur með tertu í andlitinu. Geir H. Haarde virti hann ekki viðlits að því er best verður séð. Björgvin hefur staðið sig að mörgu leyti best Samfylkingarráðherra hingað til og litið hefur verið til hans sem framtíðarleiðtoga. Björgvin hefur brugðist vonum aðdáenda sinna – og ég er í þeim flokki. Niðurstaðan af þessu máli er sú að hann hafi enn ekki reynslu né styrk til að takast á við mál af þessu tagi. Í glímunni við Davíð og Geir reyndist hann efnilegur nýliði. En samt bara nýliði.

Varaformaður Samfylkingarinnar fær einkunnina AWOL. Ágúst Ólafur who?

Aðrir Samfylkingarmenn virðist vera í felum eða í útlöndum eða hvort tveggja. Málið er flokknum mikill álitshnekkir.

Flokkurinn þarf að útskýra rækilega hvers vegna hann var ósýnilegur í þessu máli og lét Sjálfstæðisflokknum ákvarðanatöku eftir, enda þótt bankamálin séu á könnu Samfylkingarinnar.

Geir H. Haarde: plúsar hans eru að hafa komið höggi á Jón Ásgeir sem hefur tekið stöðu Sovétríkjanna í heimsmynd Sjálfstæðisflokksins. Mínusarnir eru að hann lítur út eins og skósveinn Davíðs Oddssonar og lætur hann niðurlægja sig á ljósmyndinni þar sem gamli formaðurinn situr við stýrið. Geir sýnir í þessu máli að hann er meiri klækjarefur en margur hugði en spurningin hvort það er honum til framdráttar til lengri tíma litið að niðurlægja Samfylkinguna með þeim hætti sem raun ber vitni.

Geir þarf að útskýra á hvaða forsendum hann virðist hafa afsalað sér stjórn landsins í hendur Seðlabankans, sem meira að segja ákveður hverjir skipi bankaráð Glitnis eftir þjóðnýtinguna!!

Í fljótu bragði virðist blasa við að sigurvegari málsins sé Davíð Oddsson: Hann sýndi hver hefur valdið, setti Geir í farþegasætið og settist við stjórnvölinn. Um fram allt hefndi hann sín á Sovétríkjunum nýju Baugi. Það er hins vegar enn óljóst hvort Glitnir hefði ekki átt að fá lánafyrirgreiðslu fremur en að sæta þeim afarkostum að sæta þjóðnýtingu sem er jú upptaka eigna. Varla í anda Sjálfstæðisstefnunnar.

Vandi Davíðs er að hann þarf ekki að sanna neitt sem stjórnmálamaður og hefði aldrei átt að fara í Seðlabankann. Orðistír bankans er í molum.

Mér segir svo hugur að sigur Davíðs reynist vera Pyrrhosar – sigur: Að í sögulegu samhengi verði litið á Glitnismálið sem lokapunktinn í Baugsmálinu.

Og það var síður en svo óumflýjanlegt. Stjórnlist Napóleons fólst í því að trufla andstæðinginn ekki á meðan hann var að gera mistök. Enn er of snemmt að sjá fyrir lokaniðurstöðuna en í bili að minnsta kosti hefur Davíð með ofsa sínum og óbilgirni tekist að láta það líta svo út sem Jón Ásgeir sé fórnarlamb ofsókna. Í raun gróf hann sína eigin gröf en Davíð tókst ekki að stilla sig um að sparka í liggjandi mann.