laugardagur, 31. maí 2008

Stoltur faðir

Ég gæti skúbbað allan heiminn (elsku mamma), unnið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, gert tímamóta uppfinningar í læknisfræði, lagað gengi íslensku krónunnar, skorað úrslitamarkið í heimsmeistarakeppninni í fótbolta, unnið Maraþonið á Ólympíuleikunum, orðið Herra heimur, hægri hönd Bandaríkjaforseta, unnið Evróvisjon og verið falið að taka við af John Lennon í endurstofnuðum Bítlunum......en ekkert mun slá það út að vera pabbi barnanna minna Ásgerðar og Þorgríms. Ásgerður útskrifaðist úr MR í gær og er á mynd á baksíðunni á Mogganum að heilsa áttatíu ára stúdentnum! Til hamingju Ásgerður!! Ég er að rifan úr stolti!!!!

þriðjudagur, 27. maí 2008

Fyrsta mark mitt fyrir Ísland

Ég er kominn á blað. Ég er búinn að skora mark fyrir Ísland. Skoraði það í leiknum Ísland vs. Restin af heiminum sem háður var í Waterloo á laugardag. Mitt lið sigraði 6-3 en leikurinn var mitt Waterloo því ég skoraði nefnilega fyrir Ísland en lék með restinum af heiminum!

Við hjá SÞ í Brussel erum sem sé að æfa fyrir átök við hið marghöfða skrýmsli Evrópusambandið um Schuman bikarinn í júní og nú er æft grimmt. Njótum þess auðvitað að geta valið leikmaenn frá 192 aðildarríkjum eða þannig túlkum við reglurnar og höfum meira að segja komið okkur upp einum Brassa!

Fyrst ég er farinn að blogga um fótbolta á hinnni háæruverðugu Eyju, þá horfði ég með öðru auganu á Frakkland leika æfingaleik við Ekvador. Domenech þjálfari gaf nokkrum ungum leikmönnum síðasta tækifæri til að sanna sig áður en hópurinn fyrir EM verður tilkynntur á morgunn.

Henry, Vieira, Ribery og meira að segja ungstjarnan Benzema voru hvíldir. Þess í stað léku við hvern sinn fingur þrír strákar á aldrinum 20-22 ára sem allir leika með frönskum félagsliðum. Þeir Hatim Ben Arfa (21, Lyon) og Sami Nasri (20, Marseille) hafa þegar vakið athygli og sýndu að þeir gætu slegið í gegn á EM - verði þeir valdir.

Hins vegar var það mun minna þekktur maður sem kom sá og sigraði. Sumir sögðu að Bafetimbi Gomis (22, St. Etienne) hafði verið valinn í 30 manna hópinn til þess eins að fara í taugarnar á David Trezeguet markahróknum hjá Juventus sem ekki er fyrirgefið að hafa kostað Frakka heimsmeistaratitilinn með því að skjóta í slánna í vítakeppni við Ítali.

Aðrir sögðu að hann hefði verið valinn til þess að neyða hann til velja franska landsliðið fram yfir það senegalska en hann gat valið á milli.

Engum datt í hug að þegar hann kæmi inn á fyrir hinn slaka Djibril Cissé, myndi hann stimpla sig inn með tveimur frábærum mörkum. Stundum sagt að Nasri sé hinn nýji Zidane, Benzema arftaki Henry en Gomis minnir einna helst á Didier Drogba. Slíkan framherja hafa Frakkar aldrei átt.

mánudagur, 19. maí 2008

Óhamingju Íslands verður allt að vopni

O tempora! O mores! Maður hefur slett latínu af minna tilefni en nú þegar hvert reiðarslagið ríður yfir íslensku þjóðina.

Fyrst þetta: Eftir æsispennandi baráttu með hefðbundnu íslensku netsvindli reis stjarna fyrirsætunnar Ásdísar Ránar svo hátt að henni var boðið til veislu í þeirri höll sem hefur í klámheiminum svipaða stöðu og Vatikanið í kaþólskum sið og stóra Moskan í Mekka í Íslam. Við erum að tala um boð í sjálfu höfuðvígi kláms- og kynsvalls í heiminum; sjálfri höll glaumgosa allra glaumgosa Hughs Hefners.

En hvað gerist? Hálfníræði klámhundurinn Hefnar var eitthvað illa fyrir kallaður; kannski nýrnakast, fótafúi eða ristruflanir eða bara sloppurinn ekki kominn úr hreinsun - hver veit. Einmitt þegar við héldum að orðstír íslenskra kvenna hefði verið tryggður í eitt skipti fyrir öll! Þó huggun harmi gegn að Ásdís Rán getur skellt sér í gott partý í “mansioninu” hvenær sem er...

En sjaldan er ein báran stök. Eurobandinu var boðið heim til krónprins og
krónprinsessu Serbíu og þótti mörgum sem þetta væri fyrirboði um sigur í Evróvisjón eða að minnsta kosti konunglegt hjónaband. En hvað gerist: hvorki prins né prinsessa létu sjá sig. Þau voru veðurteppt, segir Fréttablaðið.

Óhamingju Íslands verður allt að vopni: Fyrst leggst níræði klámhundurinn í kör og getur ekki tekið á móti Ásdísi Rán; sóma íslenskra kvenna, sverði og skildi og svo verða krónprins og krónprinsessa Serbíu veðurteppt á fögrum vordegi í Belgrad. Og það örskömmu eftir að serbneska lýðveldið kaus sér nýjan forseta – rúmum sex áratugum eftir að konungdæmið var lagt niður.

Hvað næst, hættir Nancy Sinatra við að koma til að syngja með Geir Ólafs?

þriðjudagur, 13. maí 2008

Samúð með Kínverjum en engin með Myanmar

Forseti Íslands segir í yfirlýsingu að jarðskjálftarnir í Kína hafi “skapað öldu samúðar og stuðnings um allan heim.”

Þessi alda “samúðar og stuðnings” hefur bersýnilega riðið yfir forsetaskrifstofuna en hér á meginlandi Evrópu er lítil umræða um þetta mál enda er Kína stórveldi sem er fullfært um að fást við náttúruhamfarir. Vissulega eru mannskæðir jarðskjálftar í Kína hörmulegir atburðir og hver sæmilegur maður finnur til með fórnarlömbunum.

Alda "samúðar og stuðnings" hefur á hinn bóginn verið auðsæ hverjum manni sem fylgist með fréttum, þegar Myanmar er annars vegar. Engum dylst að þar beinlínis hindra stjórnvöld alþjóðasamfélagið í að koma til hjálpar. Hernum er beitt með ofurhraða þegar Búdda-múnkar mótmæla gerræði, en er hvergi sjáanlegur þegar tugþúsundir manna falla.

En hvers vegna sendir forseti Íslands slíka tilkynningu í nafni íslensku þjóðarinnar? Höfum við enga samúð með íbúum Myanmar? Mannfall þar er margfalt á við Kína og möguleikar landsmanna á að glíma við vandann mun minni. Ekki bætir úr skák að stjórn herforingjanna er ekki aðeins blóðug heldur óhæf og þvælist fyrir erlendri aðstoð. Raunar eru Kínverjar helstu vinir herforingjanna í Myanmar og gætu hæglega ýtt við herforingjunum ef þeir vildu en það er önnur saga.

Hvað ræður samúð forsetans með Kínverjum og skeytingarleysi um Myanmar? Er gróðavon í viðskiptum við Kína og ef til vill öryggisráðsframboðið mælistika á samúð Íslendinga í garð þeirra sem eiga um sárt að binda?

Verndarskyldan og Myanmar

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon er orðvar og varkár maður og sannarlega þekktari fyrir erindisrekstur á bak við tjöldin en glannalegar yfirlýsingar. En nú hefur Ban gagnrýnt stjórnina í Myanmar tæpitungulaust.

Vitað er að meir en þrjátíu þúsund hafa látist í Myanmar og enn fleiri er saknað. Ein og hálf milljón manna er í hættu. Á sama tíma neitar ríkisstjórn Mynmar hjálparstarfsmönnum um vegabréfsáritannir og flugvélar með hjálpargögn þurfa að treysta á duttlunga yfirvalda til að fá að lenda. Og erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum frá flugvöllum.

“Ég vil láta í ljós þungar áhyggjur mínar og mikil vonbrigði yfir óáættanlegum hægagangi við að bregðast við þessum alvarlega vanda,” sagði Ban á blaðamannafundi í New York. “Ef meiri hjálpargögn berast ekki, er hætta á útbreiðslu farsótta sem gætu verið enn mannskæðari en sjálfur fellibylurinn.” (sjá nánar: http://www.unric.org/index.php?option=com_content&task=view&id=17066&Itemid=111)

Sameinuðu þjóðirnar hafa aðeins náð til um þriðjungs þeirra sem eiga um sárt að binda eða 270 þúsund manns. Matvælaáætlun SÞ teldi að þær matvælasendingar sem þegar hefði verið leyft að senda til landsins væri um tíundi hluti þess sem nauðsynlegt væri. Hrisgrjónabirgðir landsmanna sjálfra væru nærri því á þrotum.
Ban sagðist hafa reynt þrotlaust að ná símasambandi við Than Shwe, oddvita herforingjastjórnarinnar undanfarna daga en án árangurs.

Við þessar aðstæður er ekki að undra að rætt sé í fullri alvöru um að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða og virði stjórnvöld í Myanmar að vettugi og komi aðstoð til skila, þótt beita þurfi valdi.
Í samþykktum alheimsleiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2005 samþykktu öll aðildarríkin, þar á meðal Myanmar, grundvallarregluna um verndarskyldu: að stjórnvöldum í hverju ríki bæri að vernda íbúana fyrir td. þjóðarmorði og stríðsglæpum en ef þau létu það undir höfuð leggjast, væri það skylda og réttur alþjóðasamfélagsins að bregðast við án tillits til fullveldis ríkja.

Einar K. Guðfinsson, ráðherra segir á bloggi sínu: “Verra er varla hægt að hugsa sér. Stjórnvöld sem gera sitt til að afstýra því að þegnum þess sé bjargað frá dauða, verða varla nefnd nema hinum hrikalegustu nöfnum... Hið umtalaða alþjóðasamfélag sem stundum er ákallað af minna tilefni er bjargarlítið og afskiptalaust þegar örlög manna í einhverju lokaðasta og versta samfélags heims á í hlut.”

En hver er stefna íslenskra stjórnvalda sem vilja setjast í Öryggisráðið? Viljum við að alþjóðasamfélagið víki fullveldi Myanmar-stjórnarinnar til hliðar með skírskotun til verndarskyldunnar?

Einar K. virðist ósáttur við afskiptaleysið en hver er stefna Ingibjargar Sólrúnar?

föstudagur, 9. maí 2008

Jón í járnum, ekki frétt?

Elín Hirst, fréttastjóri RÚV hefur kært DV fyrir að halda þvi fram að sjónvarpsfréttamenn hafi verið á staðnum þegar handtaka átti Jón Ásgeir Jóhannesson út af “Baugsmálinu.” Í fréttum má einu gilda hvort viðkomandi er sekur eða saklaus, atburðurinn er aðalmálið og ef mín gamla vinkona Ella vissi af þessu, var þetta að sjálfsögðu frétt. Ég skil ekki þann blaðamann sem ekki vildi hafa mynd af atburðnum. Þetta er að sjálfsögðu frétt og ef Ella hafði vitneskju um þetta, sem ég veit ekkert um, þá sýnir það bara að hún hafði fína kontakta, kannski hjá Ríkislögreglustjóra.

Og það hafði hún eða hennar vinnustaður að minnsta kosti þegar skatturinn gerði innrás á Stöð 2 til að tékka á skattamálum Jóns Ólafssonar og Stöðvarinnar. Kollegi minn á RÚV hringdi í mig þennan morgunn og spurði mig um viðbrögð þar sem ég var staddur úti í bæ. Ég vissi ekki nokkurn skapaðan hlut endavar innrásin var ekki gerð fyrr en hálftíma síðar. Menn RÚV voru að sjálfsögðu á staðnum.

Ég tel að menn vaði í villu og svima ef þeir gagnrýna RÚV og Elínu Hirst fyrir að hafa fréttanef, hafa kontakta og fylgjast með. Menn ættu að beina gagnrýninni að ríkislögreglustjóra sem eins og dæmin sanna hefur dregið fjölmiðla heldur betur í dilka, enda veit hver heilvita maður hverju hann má þakka upphefð sína: Morgunblaðinu.

Elín Hirst er fagmður sem hefur fínt fréttanef og hefur góða kontakta. Ég hefði líka sem fréttastjóri gert mér mat úr handtöku Jóns Ásgeirs. En einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að í þessu tilfelli hafi hún betri kontakta en ég. Hvers vegna skyldi það nú vera?

mánudagur, 5. maí 2008

Pottþétt þunglyndi

Vorið er loksins komið. Undanfarnir dagar hafa verið sólríkir og hitinn yfir 20 stig. Með hækkandi sól fjölgar líka tónleikunum. Flestir betri listamenn halda tónleika í Brussel eða Antwerpen og vorboðinn ljúfi að þessu sinni var sjálfur Nick Cave og hljómsveit hans the Bad Seeds.

Ég fór á tónleikana með hálfum huga því nýjasta plata hans Dig Lazarus Dig er að mínu mati ekki með hans sterkustu. Reyndar hefur mér ekki fundist hann hafa fundið fjölina sína að undanförnu þótt það séu fínir sprettir td á þarsíðustu plötu hans Abbatoir blues.

Til að gera langa sögu stutta var Cave í fínu formi og Bad Seeds sömuleiðis. Mörg laganna nutu sín betur í tónleikaútgáfunni og hreinlega spurning hvort Lazarus-diskurinn sé ekki full óslípaður og hrár. Ég held að Cave hafi spilað hvert einasta lag Lazarusar og marga gamla smelli.

Það vakti þó athygli mína að hann lék ekkert lag af No more shall we part. Tvö lög voru spiluð af Let love in; Nobody´s baby og Red right hand sem var sennilega hápunktur kvöldsins. Gríðarlega kraftmikil útsetning. Aðrir hápunktar voru Into my arms, Deanna og skemmtileg útsetning á Lýru Sísífusar – mun betri en originalinn.

Nick er snarvitlaus á sviði, hann sparkaði oftar en einu sinni í afturendann á Warren Ellis sem er að mestu búinn að leggja fiðluna á hilluna og spilar þess í stað á ýmsa furðugítara. Tveggja manna trommu- og slagverkssveit tryggir þétt sánd.

Daginn fyrir Cave hitti ég gamla kunningja á borð við Einar Örn og Sjón sem skipulögðu Smekkleysukvöld á Bozar. Aðsóknin var slök en ég hreifst af leik Steintryggs með Sigtrygg Baldursson í broddi fylkingar.

Maður getur ekki farið á Nick Cave og séð Tindersticks daginn eftir – maður yrði lagður inn á hæli með heljarinnar þunglyndi þannig að ég sleppti þeim að sinni. Það skemmtilega við það er hins vegar að ef maður leggur Cave og Tindersticks saman fær maður út Leonard Cohen en sá gamli verður hér í júlí. Ég er löngu búinn að kaupa miða! Dylan er hér fljótlega en ég er búinn að fá nóg af því að heyra hann misþyrma eigin snilldarlögum á tónleikum og ætla að sitja heima.

Hins vegar er ljóst að Cave, Tindersticks og Cohen myndu eiga mörg lög ef gefin væri út safnplatana Pottþétt þunglyndi.

En Bruce Springsteen verður svo hér í júní. Sá hann í Antwerpen fyrir jól. Gamli maðurinn rokkaði eins og vitlaus væri og E Street bandið var svakalega þétt. Steve van Zandt (sem lék í Sopranos) virðist aðallega gegna því hlutverki að vera almennur stuðbolti frekar en hann hafi mikilvægu tónlistarhlutverki að gegna.

Bestu tónleikar sem ég sá hins vegar á síðasta ári voru auk Brúsa gamla, Arcade Fire, Marisa Monte og Gotan Project. Gleðilegt rokk-sumar!