mánudagur, 19. maí 2008

Óhamingju Íslands verður allt að vopni

O tempora! O mores! Maður hefur slett latínu af minna tilefni en nú þegar hvert reiðarslagið ríður yfir íslensku þjóðina.

Fyrst þetta: Eftir æsispennandi baráttu með hefðbundnu íslensku netsvindli reis stjarna fyrirsætunnar Ásdísar Ránar svo hátt að henni var boðið til veislu í þeirri höll sem hefur í klámheiminum svipaða stöðu og Vatikanið í kaþólskum sið og stóra Moskan í Mekka í Íslam. Við erum að tala um boð í sjálfu höfuðvígi kláms- og kynsvalls í heiminum; sjálfri höll glaumgosa allra glaumgosa Hughs Hefners.

En hvað gerist? Hálfníræði klámhundurinn Hefnar var eitthvað illa fyrir kallaður; kannski nýrnakast, fótafúi eða ristruflanir eða bara sloppurinn ekki kominn úr hreinsun - hver veit. Einmitt þegar við héldum að orðstír íslenskra kvenna hefði verið tryggður í eitt skipti fyrir öll! Þó huggun harmi gegn að Ásdís Rán getur skellt sér í gott partý í “mansioninu” hvenær sem er...

En sjaldan er ein báran stök. Eurobandinu var boðið heim til krónprins og
krónprinsessu Serbíu og þótti mörgum sem þetta væri fyrirboði um sigur í Evróvisjón eða að minnsta kosti konunglegt hjónaband. En hvað gerist: hvorki prins né prinsessa létu sjá sig. Þau voru veðurteppt, segir Fréttablaðið.

Óhamingju Íslands verður allt að vopni: Fyrst leggst níræði klámhundurinn í kör og getur ekki tekið á móti Ásdísi Rán; sóma íslenskra kvenna, sverði og skildi og svo verða krónprins og krónprinsessa Serbíu veðurteppt á fögrum vordegi í Belgrad. Og það örskömmu eftir að serbneska lýðveldið kaus sér nýjan forseta – rúmum sex áratugum eftir að konungdæmið var lagt niður.

Hvað næst, hættir Nancy Sinatra við að koma til að syngja með Geir Ólafs?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú eki svo slæmt. Mér skilst að gömul og alveg rosalega heimsfræg kerling hafi verið flutt hingað inn til að klæmast á Bessastöðum.
Það er ennþá smá líf í þessu.

Nafnlaus sagði...

Er alveg útséð með það að gamli klámkóngurinn geti ekki gagnast stúlkunni "okkar"?

Hefur hann ekki heyrt um Viagra?