mánudagur, 31. mars 2008

Tyrkir telja Íslendinga eiga möguleika

Athyglisverð fréttaskýring er birt í Turkish Daily News (http://www.turkishdailynews.com.tr/article.php?enewsid=99384) þar sem fjallað er um framboð Tyrklands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 2009-2010. Tyrkir keppa þar við Austurríkismenn og Íslendinga um tvö sæti. Athygli vekur að höfundur telur það Íslendingum til tekna í baráttunni að hafa ekki átt sæti í ráðinu hingað til en Tyrkir hafa þrívegis setið þar.

Höfundurinn Cengiz Aktar telur marga veikleika á framboði Tyrkja í grein sem birtist nýlega eða 19. mars. Hann nefnir fjögur atriði. Í fyrsta lagi telur hann vinskap Tyrkja við yfirvöld í Súdan veikja framboðið. Recep Tayyip Erdoğan, hafi í heimsókn til Súdans vísað því á bug að þjóðarmorð ætti sér stað í Darfur. Einungis Kínverjar hafi tekið þessa afstöðu á alþjóðlegum vettvangi. “Hvernig geta ríki Afríku gleymt slíkum hroka á sama tíma og við fölumst eftir atkvæðum þeirra á Allsherjarþinginu,” segir Aktar.

Í öðru lagi bendir höfundur á að Tyrkir hafi ekki viðurkennt Alþjóðlega glæpadómstól Sameinuðu þjóðanna (ICC).

Í þriðja lagi hafi Tyrkir ekki staðfest Kyoto-bókunina. “Almennt skortir ríkissjórnina áhuga á umhverfismálum, þrátt fyrir vitundarvakningu og áhyggjur alþjóðasamfélagsins.”

Í fjórða lagi er ástand mannréttinda Tyrklandi fjötur um fót. Landið hefur ekki staðið undir kröfum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) að ekki sé minnst á Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi Tyrkland verið gagnrýnt fyrir illa meðferð á flóttamönnum, einkum frá Írak.
Greininni lýkur Aktar með þessum orðum: “In order to deserve to have a seat on the U.N. Security Council, Turkey has to say “better to lose the saddle than the horse,” adopt proactive pro-U.N. policies and complete half-finished works in the course of this year.”

Á Ísland þá séns eftir allt?

Fljúga fiðrildi

Það er fyllsta ástæða til að óska UNIFEM á Íslandi til hamingju með frábæra fiðrildaviku á dögunum. Ég skrifaði mér til mikillar ánægju greinarkorn um söfnunina fyrir vefrit okkar hér á Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Brussel (http://www.unricmagazine.org/) og af viðbrögðunum að dæma er óhætt að segja að árangur íslensku kvennanna vekur athygli út fyrir landsteinana. Til gamans má geta þess að á vefsíðu UNIFEM.org má sjá að austurríska landsnefndin þóttist góð að afhenda UNIFEM tíu þúsund evrur á dögunum. Það eru um það bil 1.2 milljónir króna en íslensku stallsystur þeirra söfnuðu 92 milljónum króna. Glæsilegt!

föstudagur, 28. mars 2008

Ólöf Nordal: Velkomin í hóp Evrópusinna!

Ólöf Nordal, alþingismaður skrifar frábæra grein í Fréttablaðið í dag sem ég held að muni sæta miklum tíðindum. Þar lýsir hún því yfir að það sé tímaspursmál hvenær Ísland gangi í Evrópusambandið og rekur hvernig undirbúningur að því máli þurfi að vera.
Það eru út af fyrir sig tíðindi að þingmaður Sjálfstæðisflokksins gangi gegn flokksforystunni með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni. Engum blöðum er um það að fletta að Ólöf tekur upp þráðinn þar sem Björn Bjarnason sleppti honum og dregur augljósar ályktanir af máli hans.
Enda þótt velflestir helstu stjórnmálaskörunar síðasta aldarfjórðungs tuttugustu aldar hafi upphaflega verið á móti EES samningnum (Davíð Oddsson, Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Svavar Gestsson...) vilja þeir nú allir Lilju kveðið hafa. En það gleymist líka að Jón Baldvin Hannibalsson fór offari í málinu og sást ekki fyrir í málflutningi sínum.
Ólöf skrifar:
“Við gerð EES-samningsins átti að ganga frá ákvæðum stjórnarskrárinnar, t.d. hefði verið rétt að semja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur við vissar aðstæður, m.a. þegar kemur að valdaframsali í þá veru sem EES-samningurinn hefur í för með sér. Í mínum huga var gengið skarpt fram við gerð EES-samningsins og vel má vera að það hafi verið nauðsynlegt á þeim tíma. Hins vegar er staðreyndin sú, að áhrif samningsins inn í íslenska löggjöf hafa verið meiri en þorri manna gerði sér grein fyrir.”
Ég tel að Ólöf hitt naglann á höfuðið. Ísland hefur nú tekið upp að “minnsta kosti þrjá fjórðu hluta löggjafar Evrópusambandsins” að mati Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Ólöf þorir að nefna það sem enginn hefur þorað að taka á. Málflutningur Evrópusinna líður nefnilega fyrir hvernig staðið var að EES samningnum. Lögfræðiállit þess efnis að ekki fælist framsal fullveldis í því að afhenda Evrópusambandinu löggjafarvald um allan innri markaðinn – sem er ekkert smávegis- hefur komið óorði á íslenska lögfræði.
Hjörleifur Guttormsson og félagar höfðu nefnilega mikið til síns máls í sínum málfllutningi þótt þeir drægju ranga ályktun af gagnrýni sinni.
Ég býð Ólöfu Nordal velkomna í hóp Evrópusinna um leið og ég óska henni til hamingju með að hafa tekið fullorðinstennurnar í íslenskri pólitík.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Ágætis byrjun og rúmlega það

Á dögunum þegar ég var heima á Íslandi varð mér hugsað til þess hvaða diska ég hefði keypt upp á síðkastið: Crosby, Stills, Nash and Young, Joni Mitchell, Herbie Hancock og (the young Turk) Nick Cave. Já, ég er gamaldags og oftast nær stoltur af því en ákvað nú samt sem áður að labba mér inn í Skífuna og kynna mér nýjasta nýtt.
Ég bað afgreiðslumanninn um að hlífa mér við mestu krúttlegheitum íslenskra poppara en benda mér á það svalasta í íslenska bransanum.
Það er skemmst frá að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Celebrating life er víst fyrsti diskur Borko (Björn nokkur Kristjánsson að ég held) en það er óhætt að segja að það sé fyllsta ástæða til að mæla með honum, ekki síst við ellismelli eins og þá sem lesa Eyjan.is. Vissulega eru ákveðin krúttleg element á þessum disk og á köflum minnir tónlistin á Múm – en það er ekki leiðum að líkjast, öðru nær. Gott ef það eru ekki Mike Oldfield áhrif þarna líka. Gildir einu, þetta er sá íslenski tónlistarmaður sem ég er spenntastur fyrir þessa dagana ásamt Valgeiri Sigurðssyni og títtnefndum Múm-verjum.
Mér er svo ánægja að bæta við þennan hóp VilHelm sem betur er þekktur sem ljúfmennið Villi Naglbítur. Lágstemmd, tilgerðarlaus og persónuleg plata þar sem andi Nick Cave, Neil Young og Leonard Cohen, jafnvel Johnny Cash svífur stundum yfir vötnum en þó fyrst og fremst persónuleiki listamannsins. Ágætis byrjun og vel rúmlega það.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Capello kennir mannasiði

Enskir fjölmiðlar fara mikinn í gagnrýni sinni á Javier Mascherano og Ashley Cole sem báðir hafa sýnt dómurum dónaskap undanfarið í ensku knattspyrnunni. Framkoma þeirra var til skammar og vekur spurningar um hvers vegna verið er að veita tugmilljónum af almannafé í knattspyrnu.
Ætlar einhver að segja mér að knattspyrnumenn almennt séu góðar fyrirmyndir? Fyrir utan dónaskapinn á leikvellinum eru enskir knattspyrnumenn alræmdir fyrir sukksamt stóðlífi, hómófóbíu, landlægt kynþáttahatur og almenna siðblindu. Látum það liggja milli hluta en verra er að þeir eru þekktir fyrir að þykjast vera yfir það hafnir að fara á salerni til að kasta af sér vatni, heldur pissa í blómapotta í fjölmennum samkvæmum. (Þetta á ekki bara við um enska knattspyrnumenn.).
Mér þykir hins vegar miður að það gleymist hvers vegna Cole var bókaður í umræddum leik. Það var fyrir ruddalegt brot sem hæglega hefði getað kostað andstæðing hans beinbrot. Mér finnst það mun alvarlegra mál en hvimleitt tuð í dómurum. Cole fékk einungis gult spjald fyrir brotið en engu að síður réðust Terry, Lampard og Cole að dómaranum á sérlega ógnandi hátt. Tilviljun að þetta eru allt Englendingar?
Þetta atvik hefur þegar kostað Terry fyrirliðastöðuna í enska landsliðinu og hugsanlega Cole stöðuna. Það væri hið besta mál ef Capello hinn ítalski kenndi þeim mannasiði. Og gerði kannski kröfu um að landsliðsmenn væru klósettvanir. Síðan mætti gera þá kröfu líka í íslenska landsliðinu. Hver veit.

Bófaflokkar slást um ránsfeng

Finnur Ingólfsson svarar skrifum Sigurðar G. Guðjónssonar þar sem hann er ásakaður um vafasama viðskiptahætti með orðagljáfri og skætingi á Visir.is. Segir hann að Sigurður G. ætti að “líta í eigin barm” þegar um umboðslaus viðskipti sé að ræða.
Fjölmiðillinn flytur þessi tíðindi athugasemdalaust, gerir enga tilraun til að útskýra ummæli Finns og alls enga til að setja málið í samhengi með því að rifja upp forsögu málsins, hvað þá að komast til botns í því. Vonandi kemur hins vegar að því að það verði gert.
Sigurður tæpir þarna á einum anganum af því máli hvernig nokkrir forkólfar framsóknar- og samvinnumanna náðu að sölsa undir sig “eigendalausum” leyfum af SÍS. Var þetta síðan notað til að fá Búnaðarbankann gefins með lygasögu um aðkomu erlends banka. Finnur Ingólfsson er vellauður maður eftir hans hlut af því sem kallað hefur verið “stærsta bankarán Íslandssögunnar”. Hann hefur hins vegar engan orðstír: myndi einhver kaupa notaðan bíl af þeim manni?
En “even the paranoid have enemies” og oft ratast kjöftugum satt á munn. Einhvern hlut hefur Sigurður G. Guðjónsson átt í baráttunni sem staðið hefur yfir um Sparisjóðina – ég þekki það þó ekki svo gjörla. Í raun er þar svipuð rússnesk einkavæðing á ferðinni og með eignir samvinnuhreyfingarinnar og ríkissjóðs.
Alkunna er að betri borgurum og starfsmönnum var boðið að gerast stofnfjáreigendur í SPRON á hreinum pólitískum forsendum. Nú lesum við fréttir um að enn einn stjórnarmaðurinn í fyrirtækinu hafi selt hlut sinn fyrir rúmlega hundrað milljónir. Hann lætur fjölmiðla ekki ná í sig, fer hlæjandi í bankann og gefur þjóðfélaginu langt nef. Fjölskylda núverandi fjármálaráðherra hefur einnig hagnast verulega á stofnfé sínu í Sparisjóði Hafnarfjarðar eða mun gera það. Borgarstjóri réð miklu um hverjum var boðað að gerast stofnfjáreigendur í SPRON. Fyrst voru það vinir Davíðs, síðan bætti Ingibjörg Sólrún sínum vinum í hópinn.
Mér dettur ekki í hug að bera saman þá sem gengust í ábyrgðir fyrir sparisjóði í árdaga við menn sem misnotuðu pólitíska aðstöðu og beittu blekkingum til að komast yfir tugi milljarða króna. En engu að síður er staðreyndin sú að ótrúlega margir hafa hagnast gríðarlega á pólítískum tengslum sínum. Ekki bara Finnur Ingólfsson, þótt hann beri höfuð og herðar yfir aðra bæði hvað varðar upphæðirnar og aðferðirnar. Stundum minna íslenskir stjórnmálaflokkar á bófaflokka sem slást um ránsfeng.

þriðjudagur, 25. mars 2008

Friðarstóll fyrir gamlar stjórnmálakempur

Stefán Þórarinsson, forstjóri Nýsis gagnrýnir íslenska þróunarsamvinnu harkalega í viðtali við Morgunblaðið sem vakið hefur minni athygli en skyldi. Stefán vann hjá stofnuninni um allangt skeið og hefur setið í nefnd til að vinna að úrbótum í þessum málaflokki. Hann sat eitt sinn í varastjórn stofnunarinnar en sat aðeins einn fund og var ekki boðaður á annan eftir að hafa gagnrýnd stefnu hennar!
“Mestu mistökin voru þau að gera stofnunina að einhvers konar friðarstóli fyrir gamlar stjórnmálakempur sem voru orðnar vígamóðar eftir átök stjórnmálanna. Ég er ekki að gagnrýna stjórnmálamennina sem þessari stöðu hafa gegnt en báðir eru dugnaðarforkar og góðir stjórnendur. Ég er að gagnrýna fyrirkomulagið því að með þessu er búið að taka þetta starf framkvæmdastjóra ÞSSÍ af vinnumarkaði og eyrnamerkja litlum hópi manna. Það er ekki gott fyrir ÞSSÍ og til lengdar mun þetta draga stofnunina niður og einangra hana frá þjóðinni eins og raunin hefur orðið að mínu áliti.”
Alkunna er að félag íslenskra stjórnmálaleiðtoga sló skjaldborg um Sighvat Björgvinsson þegar til stóð að reka hann í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur. Um frammistöðu gamla kratahöfðingjans segja gárungarnir: "Hann er bæði á móti þróun og samvinnu!"
Líkurnar á að Ingibjörg Sólrún stuggi við guðföður Samfylkingarinnar eru vitaskuld litlar, en almennt þykir vonlítið að nokkrar umbætur verði gerðar fyrr en gamli pólitíkusinn hverfi á brott.
En gagnrýni Stefáns snýr ekki aðeins að þessu:
„Verkefnaval ÞSSÍ ber æ meiri keim af friðþægingaraðstoð. Einkennin eru þau að um er að ræða lítil verkefni í félagslega geiranum sem hreyfa lítið við grundvallarþáttum mannlífsins. Þetta er fyrst og fremst nokkurs konar góðgerðarstarf fyrir litla hópa sem breytir litlu um þjóðfélagsþróunina hjá viðkomandi þjóð þegar til lengri tíma er litið.
Það sem við fáum út úr þessu er að við getum sagt á alþjóðavettvangi að við veitum þróunaraðstoð. Um leið sefum við huga okkar þrátt fyrir örbirgð þróunarlandanna og teljum okkur trú um að hafa lagt okkar að mörkum. En betur má ef duga skal því að við leggjum ekki nægilega orku og metnað í íslenska þróunarstarfið.“
„Yfirleitt eru þetta svo einföld verkefni að þau geta ekki mistekist. En þau hafa sáralítil áhrif og valda engum stórum breytingum í þjóðfélaginu en gagnast afmörkuðum hópum.
Það hefur litla þýðingu að gefa mönnum heilsugæslustöðvar ef þeir eru svangir og geta ekki aflað sér lífsviðurværis. Fólk verður að hafa vissu fyrir því að það eigi í sig og á áður en það fer að hugsa um önnur lífsins gæði.“
Stefán segir að Íslendingar geti komið að málum eins og orkuvinnslu úr jarðhita og fallvötnum, fiskveiðum, landbúnaði, flugmálum, ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu og almennri verslun, iðnaði og þjónustu. “Þetta hefði í för með sér meiri viðskipti við þróunarlöndin en þess óska þau helst. Kaupið framleiðslu okkar og þá vegnar okkur vel, segja menn þar. Ölmusur geta jafnvel komið í veg fyrir framfarir.“
Stefán leggur meðal annars til að bjóða út verkefni „ÞSSÍ lætur nú starfsmenn sína inna öll verk af hendi. Sárasjaldan er leitað til einkageirans. Þetta hefur leitt til þess að íslensk fyrirtæki hafa litla eða enga reynslu af verkefnum í þróunarlöndunum og eiga því mjög erfitt uppdráttar með að bjóða í verkefni sem boðin eru út af ýmsum alþjóðaþróunarbönkum svo sem NDF (Norræna þróunarsjóðnum).”
Niðurstaða Stefáns er: “Það er kominn tími til að Íslendingar hasli sér í alvöru völl á þessu sviði. Á þann hátt getum við orðið meðbræðrum okkar og -systrum í þróunarlöndunum að mestu liði.“

Barbados eða Evrópa?

Ónefndur tekur upp hanskann fyrir Morgunblaðið í athugasemd við skrif mín á þessari síðu um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og segir: “Staksteinar eru ekki einir um að finnast lítið til ISG koma. Þarf ekki annað en lesa ummæli hennar undanfarin ár og samþykktir Samfylkingar þegar hún var í stjórnarandstöðu, og bera saman við hegðun hennar núna, til að sjá að hún er með ómerkilegri populistum í íslenskri pólitík. Ég er ansi hræddur um að baklandinu sé að verða kalt. Að einkavinkonum hennar undanskildum sem kippt hefur verið inní velgjuna.”

Ég vil ítreka að þótt ég telji Styrmi Gunnarsson ráðast á Ingibjörgu Sólrúnu af ósanngirni, hef ég vissulega heyrt þær óánægjuraddir sem ónefndur nefnir. Ég er nýkominn frá Íslandi og heyrði marga málsmetandi Samfylkingarmenn setja spurningarmerki við ofuráherslu á framboðið til Öryggisráðsins. Eru heimsóknir til Afganistans og Barbados málið á meðan íslenska krónan hrynur til grunna? Hverju sæta máttleysisviðbrögð Íslands um Tíbet á tímum mannréttindaátaks ? Og fyrst og fremst: Hvers vegna heyrist ekkert í formanni Samfylkingarinnar þegar Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er loksins (loksins!) komin í forgrunn íslenskra stjórnmála?

Ofsóknir gegn utanríkisráðherra

Ég kenni í brjósti um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Morgunblaðið (les: Styrmir Gunnarsson) leggur hana í slíkt einelti að leita þarf áratugi aftur í tímann til að finna annað eins í íslenskum fjölmiðlum. Mér dettur einna helst í hug ofsóknir Vilmundar Gylfasonar gegn nágranna sínum af Aragötunni Ólafi Jóhannessyni.
Andstaða Styrmis og Morgunblaðsins við friðargæsluna í Afganistan er því undarlegri sem að blaðið fjallaði á sérstaklega jákvæðan hátt um friðargæsluna í Afganistan þegar strákaleikir Arnórs Sigurjónssonar og Halla höfuðsmanns stóðu sem hæst. Þá lutu íslensku friðargæsluliðarnir heraga, gerðu honnör gráir fyrir járnum íklæddir felulituðum einkennisbúningum og stunduðu skotæfingar.
Blaðið var líka býsna spennt fyrir Bílabúðar-Benna tímabilinu þegar íslenskir jeppagæjar lögðu sitt lóð á vogarskálar friðar og öryggis í heiminum með því að þeysast upp um fjöll og firnindi í Afganistan á upphækkuðum jeppum.
Staksteinar skifuðu á dögunum: “Í versta falli er utanríkisráðherrann að reyna að slá ryki í augu Íslendinga sem vitanlega eru mjög áhyggjufullir vegna veru íslenzkra „friðargæzluliða“ í landi blóðugra stríðsátaka, sem hvergi sér fyrir endann á..En spurningin er: Hvaða erindi eigum við Íslendingar yfirleitt í stríðið í Afganistan?” Í ljósi þess að blaðið hafði engar áhyggjur af stríðinu og studdi NATO sem endranær í nákvæmlega sama stríði, er engum blöðum um það að fletta að í þessu sem flestu öðru lætur blaðið stjórnast af persónulegri óvild Styrmis Gunnarssonar í garð Ingibjargar Sólrúnar.
Margt má vafalaust finna að embættisfærslu hennar enda er hún ekki fullkomin frekar en aðrir. En þetta á hún ekki skilið.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Loksins en ekki loksins, loksins

Það er fagnaðarefni að Ísland hefur gerst aðili að yfirlýsingu Evrópusambandsins “þar sem lýst er þungum áhyggjum yfir ástandinu í Tíbet og lýst yfir samúð með fjölskyldum fórnarlambanna.
Í yfirlýsingunni er þess krafist að allir aðilar sýni stillingu. Kínversk stjórnvöld eru hvött til að beita ekki valdi gegn þeim aðilum sem taka þátt í mótmælunum og mótmælendur sömuleiðis beðnir um að beita ekki ofbeldi.
Lögð er áhersla á mikilvægi tjáningarfrelsis og á réttinn til friðsamlegra mótmælaaðgerða, og kínversk stjórnvöld beðin um að bregðast við mótmælunum í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur lýðræðisins. Lýst er yfir eindregnum stuðningi við að friðsamlegar sættir náist milli kínverskra stjórnvalda og Dalai Lama og fulltrúa hans. Kína er einnig hvatt til að taka á mannréttindamálum í Tíbet.”
Þótt það sé ánægjulegt að íslenska ríkisstjórnin hafi vaknað upp af Þyrnirósarsvefni sínum er seinagangurinn hins vegar áhyggjuefni, fyrir alla þá sem tóku alvarlega þá yfirlýsingu utanríkisráðherra að mannréttindi skuli vera í forgangi í utanríkisstefnu okkar. Við látum nægja að taka undir frekar slappa yfirlýsingu ESB sem hefur verið harðlega gagnrýnd í mörgum aðildarríkjum.
Forvitnilegt væri að heyra viðbrögð við hugmyndum Bernards Kouchners, utanríkisráðherra Frakka um að ESB ríkin sniðgangi opnunarhátíð Ólympíuleikana. Munum við fara að fordæmi ESB eins og í yfirlýsingunni um Tíbet?
Auðunn Arnórsson, helsti fréttaskýrandi Fréttablaðsins um erlend málefni skrifar forystugrein sem ástæða er til að vekja athygli á.
Hann vekur athygli á herskáum yfirlýsingum á herskáum yfirlýsingum ráðamanna sem hafi lýst yfir „þjóðarstríði gegn aðskilnaðarhyggju" „upp á líf og dauða".
Auðunn kallar þessar yfirlýsingar hneyksli: “Aðalskýringin á því að fulltrúar kommúnistastjórnarinnar í „Ríki miðjunnar" skuli telja sig komast upp með þetta er sú, að þeir eru orðnir vanir því að ráðamenn erlendra ríkja stígi varlega til jarðar í samskiptum sínum við hið rísandi efnahagsundur og stórveldi.
Þróun fjölmennasta ríkis heims í átt að opnara og frjálsara samfélagi með virkari borgararéttindum er enginn greiði gerður með slíkri óttablandinni og skammtíma-viðskiptahagsmunastýrðri framkomu erlendra ráðamanna við fulltrúa hins miðstýrða kúgunarvalds í Peking, sem hikar ekki við að beita taumlausu valdi gegn vopnlausum mótmælendum og strangri ritskoðun frétta til að bæla niður óánægju með þessa sömu kúgunarstjórnarhætti.
„Sá sem ekki hefur döngun í sér til að standa fast með eigin gildum og sannfæringu, nýtur engrar virðingar í Kína," skrifar leiðarahöfundur svissneska blaðsins Neue Zürcher Zeitung um slíka framkomu vestrænna stjórnmálamanna við ráðamenn í Peking.
Þetta mættu fulltrúar íslenzka lýðveldisins líka taka til sín. Í þeim mörgu ferðum sem þeir hafa á síðustu árum farið til Kína hefur óneitanlega lítið farið fyrir því að þeir hefðu orð á mannréttindamálum eða öðrum „óþægilegum" umræðuefnum...Lærdómur stjórnmálamanna í okkar heimshluta af atburðarás síðustu daga í Tíbet ætti að vera sá, að þeim beri að standa betur í lappirnar þegar þeir hitta kínverska ráðamenn.”
Það hefði verið óskandi að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson hefði staðið í lappirnar gagnvart Hu Jintao, núverandi forseta og fyrrverandi flokksleiðtoga í Tíbet á fundi þeirra síðastliðið haust, þar sem samkvæmt fréttatilkynningu forsetaembættisins var ekki minnst á mannréttindamál. Enn er óupplýst hvort forsetinn spilaði hér sólóspil eða hvort ákvörðun var tekin um þetta í utanríkisráðuneytinu að þegja um mannréttindamál til að afla fylgis Kína við framboð Íslands til öryggisráðsins –lokahnykkinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að mati háttvirts forseta.
Þótt yfirlýsingin um Tíbet sé fagnaðarefni þarf utanríkisráðherra að bæta um betur ef stefna hennar um að setja mannréttindi í forgang í íslenskri utanríkisstefnu á að vera trúverðug. Ég treysti Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttur fyllilega til þess að leiðrétta kúrsinn og fylgja yfirlýsingunni eftir með ítarlegri hætti.
Um yfirlýsinguna segir maður, loksins með andvarpi en ekki loksins, loksins með upphrópunarmerkjum. En batnandi er mönnum best að lifa.

miðvikudagur, 19. mars 2008

Einu sinni fyrir langa löngu þegar Björn Bjarna var ekki orðinn ofboðslega frægur

Fyrir tæpum sex árum fjórtánda júní 2002 samþykkti borgarráð ályktun þar sem Jiang Zemin forseti Kína var boðinn velkominn til Reykjavíkur. S'íðan sagði:

"Jafnframt bjóða borgaryfirvöld félaga í samtökunum Falun Gong velkomna. Að gefnu tilefni vill borgarráð árétta að það samræmist ekki stefnu Reykjavíkurborgar að takmarka fjölda friðsamra mótmælenda í borginni. Ljóst er að tryggja verður öryggi erlendra gesta sem koma í opinberum erindagjörðum hingað til lands. Ríkar ástæður þurfa hins vegar að vera fyrir því að takmarka lýðræðislegan rétt fólks til að lýsa skoðun sinni eða afstöðu í tengslum við opinberar heimsóknir.Engin hætta stafar af friðsamlegum mótmælum. Þau eru þvert á móti eitt megin einkenni lýðræðislegs stjórnarfars sem byggist á virðingu fyrir mannréttindum. Í Reykjavík er baráttufólkið fyrir mannréttindum því ætíð velkomið að koma málstað sínum á framfæri með friði."

Undir ályktunina rituðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Vafalaust var óvenjulegt að borgarráð Reykjavíkur ályktaði um utanríkismál. Nú sex árum síðar er Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sem hefur lýst því yfir að mannréttindi skuli vera í fyrirrúmi í utanríkismálum. Þau tjá sig um alt sem nöfnum tjáir að nefna, stjórnmál í Afganistan og þjóðaratkvæðagreiðsu á Tævan, ættrækni undirritaðs og dagbók Egils Helgasonar en ekki Tíbet.
Af hverju ekki? Hvað hefur breyst frá því ályktunin djarfa var samin og Björn vakti aðdáun með því að standa upp í hárinu á forsætisráðherra sem ég þori varla að nefna á nafn af ótta við refsivönd dómsmálaráðherra.
Kannski að Björn er orðinn svo ofboðslega frægur að óknyttadrengir í útlöndum kenna Evrópuskýrslu við hann bara af því að hann var formaður nefndarinnar sem samdi hana?
Birni finnst við hæfi að líkja frægð sinni við Vanessu Redgrave sem er út af fyrir sig athyglisvert. Að mínu mati ætti Björn að hætta að barma sér yfir frægð sinni og skýra lesendum (og kjósendum sínum) sinnar ágætu heimasíðu frá því hvers vegna hann og ríkisstjórnin þegja þunnu hljóði um málefni Tíbet? Þetta er verðugra verkefni fyrir háttvirtan dómsmálaráðherra en að rita drambsfullar færslur til að lítilsvirða nafngreinda einstaklinga sem hafa sér eitt til sakar unnið að vera honum ósammála.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Súkkulaðiís á banabeðinu

Bandaríski blaðamaðurinn John Roderick er látinn 93 ára gamall. Hann varð frægur fyrir að dveljast á meðal skæruliða Maó í Kína frá 1945 til 1947 og skrifa fréttir fyrir AP fréttastofuna. Í minningargrein í Guardian segir að þegar honum var orðið ljóst að dagar hans væru taldir, hafi hann hætt að borða nokkurn annan mat en súkkilaðiís. Á banabeði sínu ákvað hann sín eftirmæli: “Fólk ætti að borða súkkulaðiís og hætta að drepa hvort annað.”
Ég von að ég kveðji þennan heim á jafn húmorískan hátt.

Meiri áhrif í ESB aðild, en veru í öryggisráðinu

Morgunblaðið skrifar athyglisverðan leiðara í dag um Kína:

“En það eru til fleiri hliðar á Kína. Það er Kína vinnuþrælkunar. Þótt í Kína ríki stjórn alþýðunnar að nafninu til er alþýðunni þrælkað út á vinnustöðum fyrir alger lágmarkslaun en ótrúlegan vinnutíma. Jafnvel forseti Íslands hefur farið til Kína og dásamað uppganginn þar án þess að líta til hægri eða vinstri og hafa orð á vinnuþrælkuninni, sem þar viðgengst.”

Þarna vitnar blaðið til heimsóknar forseta Íslands til Kína vorið 2005. Þá fór forsetinn til Kína í fararbroddi fjölmennrar viðskiptasendinefndar til landsins. Nú þremur árum síðar flytja Íslendingar minna út til Kína en til Argentínu, eins og fram kom í bloggi Andrésar Magnússonar blaðamanns á Viðskiptablaðinu.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti enn fund með Hu Jintao, forseta Kína þriðjudaginn 2. október 2007. Samkvæmt fréttatilkynningu forsetaembættisins (http://www.forseti.is/Forsida/Frettir/Ollfrettin/2374) voru mannréttindi ekki nefnd á nafn. Fyrir þremur árum lofaðist forsetinn til að ræða mannréttindamál í Kína og sagði í kjölfar fundar síns að Hu Jintao hefði boðið íslenskum almannasamtökum, stjórnmálaflokkum og verkalýðshreyfingu til Kína að ræða mannréttindamál. Hafa orðið einhverjar efndir?
Forsetinn virðist ekki hafa fitjað upp á þessu umræðuefni í viðræðunum í október. Hins vegar tryggði hann, skv. fréttatilkynningunni stuðning Kína við framboð til Öryggisráðsins. Í viðtali við Ríkisútvarpið sagði Ólafur Ragnar að framboðið væri lokaskref í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Hins vegar má færa rök fyrir því að Ísland hefði meiri áhrif sem fullgildur aðili að Evrópusambandinu en með því að vera óbreyttur félagi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í aðeins tvö ár. Ekki síst hefðum við meiri áhrif á eigin löggjöf. Er það ekki hin raunverulega nýja sjálfstæðisbarátta?

Tíbet: Ærandi þögn

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagðist í gær hafa “sívaxandi áhyggjur” af þróun mála í Tíbet, þar á meðal fréttum af ofbeldisverkum og mannfalli.
Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt kínversk yfirvöld til að virða tjáningar- og fundafrelsi.
Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins, hvetur þingmenn til að íhuga þann möguleika að sniðganga Ólympíuleikana í Peking og mótmæla þannig aðgerðum kínverskra yfirvalda gegn mótmælendum í Tíbet.
Utanríkisráðherra Íslands hefur hins vegar áhyggjur af þjóðaratkvæðagreiðlu á Tævan. Hún hefur einnig lýst yfir að mannréttindi séu hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands. Hafi hún eitthvað við framferði Kínverja í Tíbet að athuga hefur hún kosið að þegja þunnu hljóði yfir því. Ísland er í framboði til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

mánudagur, 17. mars 2008

Andrés góður

Andrés Magnússon sá góði og glöggi blaðamaður er sammála mér um að ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við kínversku fréttastofuna Xinhua hafi verið óheppileg og segir þetta"forkastanlegt í ljósi þeirra atburða, sem nú eiga sér stað í Tíbet."

Andrés segir að sér finnist "óskiljanlegt hvernig íslensk stjórnvöld láta ekkert tækifæri ónotað til þess að flaðra upp um blóði drifna einræðisstjórnina í Peking."

Andrés er kominn á flug og klikkir út með eftirfarandi: "Íslendingar flytja að sönnu mikið inn frá Kína, álíka mikið og frá Noregi, en útflutningur þangað er sáralítill, minni en til Argentínu, svo dæmi sé tekið. Skvaldrið um hinn mikilvæga markað fyrir íslenska útflutningsvöru í austurvegi er því fremur innantómt."

Sem kunnugt er tala Illugi Gunnarsson og Ólafur Ragnar Grímsson svo hlýlega um Kína að grunur leikur á að þeir vilji að Ísland gangi í Rauða Kína í stað þess að skipa sér í lið með nágrannaþjóðum okkar, rótgrónustu lýðræðisríkjum heims. (Ók, kannski vill ÓRG frekar ganga í Indland en það er raunar umhugsunarefni að eftir allar hans ferðir þangað er útflutningur okkar aðeins 79 milljónir á ári!)

Ég býð Andrés Magnússon hins vegar velkomin í hóp okkar sem erum andsnúin því að láta íslensk stjórnmál og íslenska utanríkisstefnu sérstaklega snúast sérstaklega um að "flaðra upp" "um blóðidrifna einræðisstjórnina í Peking." Hafðu þökk fyrir Andrés, ég gæti ekki orðað þetta betur.

Andrés vondur

"... þingmennirnir fái völdin tímabundið í hendur frá þjóðinni og hafi ekki leyfi til þess að afsala sér þeim til neins annars en þjóðarinnar. Þarna var þingið því að svíkja sjálft lýðræðið."
Svo mælti Andrés Magnússon, sá góði og glöggi blaðamaður. Hann er hins vegar ekki að tala um EES samninginn eins og ég hélt fyrst, heldur Evrópumál Breta.

sunnudagur, 16. mars 2008

Áfram Rauða Kína

Eftirfarandi frétt birtist hjá Xinhua - opinberri fréttastofu kínverska alþýðulýðveldisins:

Iceland, Bulgaria stress opposition to Taiwan's planned referendum on U.N. membership


BEIJING, March 15 (Xinhua) -- The governments of Iceland and Bulgaria said Friday that they are against the Taiwan authorities' plan to hold a referendum on U.N. membership in the name of Taiwan, reiterating their adherence to the One-China policy.
"We believe that a planned referendum on joining the United Nations in the name of Taiwan would be a mistake and therefore cannot support it," Iceland's Foreign Minister Ingibjoerg Solrun Gisladottir told Xinhua in an interview.
"Such a referendum would risk increased tension and instability in the region," she said.
Gisladottir added that her country, which established diplomatic relations with China in 1971, will continue to stick to the One-China policy.
She also expressed her satisfaction with the development of Iceland-China ties, saying there are broad prospects for further cooperation between the two nations.

Skrítið. Ég átti einhvern veginn von á því að utanríkisráðherra Íslands myndi mótmæla ofríki Kínverja í Tíbet. En kannski myndi það auka spennu og óstöðugleiki í þessum heimshluta ef Kínverjar virtu mannréttindi þar. Og kannski myndu þeir svo fara að dæmi Lúxemborgara og kjósa okkur ekki í öryggisráðið.

Kynferði - ekki hæfileikar

Mann setur hljóðan við að lesa röksemdir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir skipan Sigríðar Önnur Þórðardóttur í embætti sendiherra. Ingibjörg segir “að þetta snúist um að fjölga konum í utanríkisþjónustunni en af því að þær séu svo fáar þar starfandi þurfi að fara út fyrir hópinn til að sækja nýjar og þess vegna hafi Sigríður Anna orðið fyrir valinu.”
Ingibjörg Sólrun reynir ekki að halda því fram að Sigríður Anna sé skipuð vegna þess að hún sé svo hæf til að gegna embætti sendiherra. Sigríður Anna hafði mörg tækifæri til að sýna hæfileika sína í utanríkismálum sem formaður utanríkismálanefndar en nýtti þau ekki. Fjölmiðlar komu yfirleitt að tómum kofunum hjá henni enda virtist hún ekki hafa mikinn áhuga á málaflokknum. Með fullri virðingu fyrir Sigríði Önnu, held ég að flestum beri saman um að hæfileikar hennar njóti sín betur á öðrum sviðum en þessum.
Ég tel það beinlínis móðgun við konur að skipa í embætti eingöngu á grundvelli kynferðis enda mun þetta varpa skugga á komandi embættisveitingar, í hvert skipti sem kona er ráðin. Sá grunur mun ævinlega læðast að mönnum að konur séu skipaðar kynferðis sins vegna en ekki hæfileika. Gréta Gunnarsdóttir sem einnig var skipuð sendiherra verður þannig að sætta sig við að spurningamerki verður sett við ráðningu hennar.
Það er dapurlegt að sjá Ingibjörgu Sólrúnu láta kreddu villa sér sýn enda hefur hún löngum verið málsvari siðbótar í íslenskum stjórnmálum. Allir sem vilja vita að Valgerður Sverrisdóttir – einn besti utanríkisráðherra sem við höfum átt- neitaði að skipa Sigríði Önnu í þetta embætti en það gerir arftaki hennar nú og klæðir í femínískan búning. Sú smjörklípa blekkir engan. Þessi ráðning er pólítísk samtrygging.
Egill vinur minn Helgason fullyrti hér á Eyjunni um daginn að sendiherrar væru álíka nauðsynlegir og uxakerrur. Ég tel að það sé ofmælt. Ég hef á árum mínum erlendis og í starfi sem blaðamaður séð að margir íslenskir sendiherrar og aðrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru fyllilega starfi sínu vaxnir. Hins vegar segir það sig sjálft að þegar hvaða leikfimikennari sem er getur orðið sendiherra vegna pólitískra tengsla eða kona eingöngu vegna kynferðis, er ekki von á góðu.
Hins vegar skulum við ekki gleyma því að ef Ísland gengur í Evrópusambandið eignum við prýðilegt elliheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn. Þar má sjá gamalkunnug andlit úr pólítík á árum áður. Ég man eftir þremur fyrrverandi forsætisráðherrum evrópskra ríkja í svipinn Poul Nyrup Rasmussen Anneli Jaamtamaalike og Michel Rocard. Kannski bætist Davíð Oddsson í þennan hóp einn góðan veðurdag. Fín laun, róleg innivinna. How about it, Davíð?

föstudagur, 14. mars 2008

Óskalög auðkýfinga og fjölskyldukrísa hjá Snævarr-fjölskyldunni

Varð það á í pistli hér um daginn að segja að Dátar hefðu flutt lagið Glugginn þegar rétt er að aðalsprauta hljómsveitarinnar Rúnar Gunnarsson samdi lagið en Flowers fluttu. En ekki nóg með það nú fæ ég póst frá Stefáni bróður mínum Snævarr sem ásamt eldri sistkynum mínum ber ábyrgð á tónlistaruppeldi mínu. Þar Jesúsar hann sig yfir því að ég skuli kenna Bachman Turner Overdrive við Bandaríki Norður-Ameríku í stað Kanada og krefst leiðréttingar strax! Mea culpa Stebbi- leiðréttist hér með. Verra var þó að ég nefndi ekki lag kanadísku hljómsveitarinnar sem var að sjálfsögðu You aint seen nothin yet sem átti come back á Íslandi þegar Össur Skarphéðinsson lék það fyrir Jóhannes í Bónus hér um árið. Hefur það æ síðan verið vinsælt lag í þættinum Óskalög auðkýfinga, en það er annað mál.
Fyrst ég nefni Könödu, þá er makalaust hvað margir kanadískir tónlistarmenn eru í uppáhaldi hjá mér.
1. Leonard Cohen
2. Joni Mitchell
3. Neil Young
4. The Band
5. Arcade Fire
6. Oscar Peterson
7. Cowboy Junkies
8. Rufus Wainwright

Vil ekki nefna Celine Dion, en gaman væri að heyra fleiri nöfn!!! Góða helgi!

Velkomin til Brussel!

Hvar er RÚV?

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel þar sem ég starfa, er staðsett í hinu sögufræga húsi Residence Palace (Íbúðahöllinni!) beint við hliðina á aðsetri leiðtoga Evrópusambandsins, andspænis framkvæmdastjórninni og spölkorn frá íslenska sendiráðinu. Þessa stundina eru leiðtogarnir á fundi steinsnar héðan og ef vel er að gáð má sjá út um gluggann, Brown og Sarkozy, Merkel og Prodi skáskjóta sér út í svartar limmur bakdyramegin. Fyrir framan bygginguna hafa verið reistir pallar þar sem talandi höfuð BBC og CNN og þess háttar sjónvarpsstöðva mala daglangt. Þegar utanríkisráðherrar eru með í förinni má oft sjá kunnuglegan slána, skima yfir sviðið bláum augum: Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía er alltaf til í viðtal. Alþjóðlega blaðamannamiðstöðin í Brussel er staðsett í húsinu þar sem ég vinn. Þar hef ég rekist á blaðamenn frá Úsbekistan, Kirgistan og gott ef ekki Langtbortistan og meira að segja Færeying – en aldrei Íslending. Nú er það svo að í þessari borg er stór hluti þeirrar löggjafar sem tekur gildi á Íslandi samin og samþykkt og íslensk stjórnvöld í hlutverki þrýstihóps. Hér rekst maður á íslenska ráðherra og þingmenn úti á götu, fræðimenn og háskólanema. En íslenskir blaðamenn eru sjaldséðir hvítir hrafnar, að því undanskyldu að þeir heimsækja NATO annað slagið. Sagt er að ekki séu til peningar. Engu að síður hefur RÚV nýlega komið sér upp þremur starfsstöðvum erlendis. Við hjá Sameinuðu þjóðunum erum stolt og þakklát fyrir að New York þar sem höfuðstöðvar okkar eru, hafi orðið fyrir valinu og vafalaust er mikið verk að fylgjast með íslenskum auðmönnum í Lundúnum. Og í Kaupmannahöfn eru jú bæði Dóra Takefúsa og Frikki Weisshappel þannig að þar drýpur smjör af hverju strái. En með fullri virðingu fyrir okkur hjá Sameinuðu þjóðunum, Bjögga Thor, Dóru og Frikka: af hverju ekki Brussel? Héðan er stutt í allar áttir, klukkutíma og tuttugu mínútur til Parísar og tæpir tveir til London í lest úr miðbæ í miðbæ. Hér er aðgengi auðvelt að ráðamönnum – ég hitti sjávarútvegsráðherra Frakka í gær á blaðamannafundi og það hefði verið forvitnilegt að heyra í honum um Evrópumál Íslendinga. En það var enginn íslenskur blaðamaður til að spyrja. Það sem meira er ESB sér blaðamönnum oft og tíðum fyrir ókeypis sjónvarpsliði og “innklippsefni” – þannig að gera má ráð fyrir að rekstur “starfsstöðvar” hér væri ódýrari en annars staðar. Að því svo ógleymdu að hér í Residence Palace hefur Evrópusamband sjónvarpsstöðva (EBU) “feed point” sem þýðir að hægt er að koma efni hratt, örugglega og á ódýrari hátt en annars staðar um gerfihnött beint heim í Efstaleiti. Ég segi einfaldlega við mína gömlu samstarfsmenn Pál Magnússon, Elínu Hirst og Óðinn Jónsson á RÚV: Koma svo!, sendið fréttamann þangað sem hlutirnir eru að gerast jafnt í innlendum sem erlendum fréttum. Og það er hér í Brussel enda eru hvergi í heiminum jafn margir erlendir fréttaritarar. Velkomin til Brussel!

miðvikudagur, 12. mars 2008

Flutningsmaður tíðinda frá Peking, Moskvu og Washington?

Evrópuandstæðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir eftir viðræður við ótilgreinda sendimenn erlendra ríkja að það sé Íslandi í hag að vera Evrópuríki sem standi fyrir utan ESB. Hvaða ríki skyldu það hins vegar vera og hvaða ríkjum utan Evrópu stendur slíkur stuggur af ESB að þeir hafi sérstakar skoðanir á stöðu Íslands í okkar álfu? Ekki dettur mér í hug að væna forsetann um að toga slíkar yfirlýsingar upp úr viðmælendum sínum með töngum, hvað þá að segja ekki satt og rétt frá viðræðum við ókunna ráðamenn! Evrópusambandið þykir almennt til mikillar fyrirmyndar innan Sameinuðu þjóðanna. 40% útgjalda SÞ koma úr sjóðum ESB og aðildarríkja þess. Eru það þá þróunarríkin sem eru óánægð með að fá 56% þróunaraðstoðar frá Brussel? Og svo ljómandi ánægð með að Ísland stefni á að borga 0.35% af þjóðarframleiðslu í þróunaraðstoð frá og með næsta ári? Nú er það svo auðvitað að stórveldi út í heimi sjá ofsjónum yfir uppgangi Evrunnar á tímum hríðfallandi dollars. Bush-stjórnin er enn æf yfir því að Frakkar og Þjóðverjar skuli hafa haft rétt fyrir sér í Íraksstríðinu en þeir og Bretar rangt fyrir sér. Bush og Rumsfeld vildu deila og drottna í Evrópu en nú talar enginn lengur um “nýju” og “gömlu” Evrópu, frekar en freedom-fries. Hins vegar eru Rússar og Kínverjar æfir út í Evrópusambandið fyrir að standa vörð á mannréttindavaktinni, troða þeim um tær í Kosovo og í Darfur. Ólafur Ragnar segist hins vegar sjálfur hafa kríað stuðning út úr Kína á fundi með forseta landsins. Látum liggja milli hluta að sú yfirlýsing kunni að hafa verið málum blandið. Hitt er svo annað mál að því hefur ekki verið mótmælt af hálfu forsetaembættisins, svo mér sé kunnugt, að forsetinn nefndi ekki mannréttindamál. Var ekki Vígdís Finnbogadóttir nánast hrakin úr embætti fyrir að hafa sofnað á þeirri vakt í Peking? Merkilegt að það verður sífellt verður meiri samhljómur milli Ólafs Ragnars og fylgismanna Davíðs Oddssonar. sem kunnugt er gekk hnífurinn ekki á milli þeirra þegar líkamsræktar- og íhugunarhreyfingin Falun Gong var ofsótt að boði ráðamanna í Peking hér um árið. Viljum við láta Rauða Kína, Rússland Pútsins og Bandaríki George W. Bush ráða örlögum Íslands?
Ólafur Ragnar hefur fullt málfrelsi rétt eins og ég en það er í raun rannsóknarefni hvernig hann hefur komist upp með það að reka sína eigin utanríkisstefnu sem stundum og stundum ekki, samræmist utanríkisstefnu Íslands. Er Ólafur Ragnar ofur-utanríkisráðherra? Sættir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við að meints stuðnings Kína sé aflað með því að “gleyma” að tala um mannréttindamál?

A horse!, a horse! my Kingdom for a horse – Sjálfstæðisflokkurinn og ESB

Illugi Gunnarsson, alþingismaður hélt fróðlega ræðu á Iðnþingi á dögunum. Morgunblaðið segir að ræðan sæti miklum tíðindum og marki nýtt upphaf í baráttunni fyrir að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Ef þetta er rétt er sú barátta komin í öngstræti.
Það sem merkilegast var við ræðu Illuga er að í henni fellst fullkomið málefnalegt rökþrot. Enginn frýr Illuga þó vits – allra síst ég. Ef ræðan er á annað borð stefnumarkandi þá er hún það fyrir þær sakir að andstæðingar ESB hafa gefið upp á bátinn röksemdir um að með því að halda okkur við EES samninginn stöndum við vörð um fullveldi okkar. Ekkert er fjarri sanni enda höfum við nú þegar tekið inn 75% eða meira af löggjöf Evrópusambandsins að sögn Olli Rehn, stækkunarstjóra framkvæmdastjórnarinnar, án þess að hafa tekið nokkurn meiri þátt í mótun hennar en hvaða lobbýisti í Brussel sem er. Í þessu ljósi er bara broslegt að hlusta á Illuga bölsóttast yfir bannsettu skrifræðinu í ESB – við höfum semsé tekið það upp í okkar lög og reglugerðir fyrir löngu. Illugi minntist ekki á orðið fullveldi. Hann nefndi þó í framhjáhlaupi að “forræðið” yfir fiskveiðum flyttist til Brussel. Illugi eyddi ca. 20 sekúndum í 20 mínútna ræðu til að ræða þetta mál enda er honum mæta vel ljóst að þótt endanlegir kvótar séu ákveðnir í ráðherraráðinu, miðast þeir við veiðireynslu sem Íslendingar einir hafa.
Hvað var þá eftir í ræðunni? Jú, Illugi hefur áhyggjur af því að ESB búar eigi ekki nógu mörg börn og séu því farnir að reskjast. Nú get ég út af fyrir sig fallist á það með Illuga að það væri óskandi að Ítalir og Spánverjar og jafnvel Þjóðverjar njóti meira barnaláns en nú er. Ég get einnig fallist á það með Illuga að það væri ánægjulegt ef hagvöxtur væri meiri á meginlandi Evrópu. Hins vegar breytir það ekki legu og sögu landsins. Illugi teflir því fram að Ísland myndi fá svo miklu betri fríverslunarsamninga við hagvaxtarríkin Kína og Indland ef við stæðum utan ESB en framkvæmdastjórnin gerir slíka samninga fyrir hönd aðildarríkja. Illugi fullyrðir að ESB eigi sífellt erfiðara með að gera slíka samninga meðal annars vegna “stærðar sinnar” (svo!!!). Hann nefnir ekki eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings, en látum það vera í bili. Röksemdafærsla Illuga gengur sem sagt út á það að Ísland (300 þúsund íbúar) sé í betri samningstöðu en Evrópusambandið (500 milljónir íbúa) gagnvart ríkjum á borð við Kína og Indland. Með öðrum orðum að Kínverjar og Indverjar sjái sér svo gríðarlegan hag í að eiga viðskipti við Íslendinga að þeir vilji leyfa þeim að njóta betri kjara en ESB búum sem eru 1500 sinnum fleiri? Að Ísland sé áhugaverðara viðskiptaland en Þýskaland, Bretland og Frakkland?
Lítum á staðreyndir málsins: útflutningur Íslands til Kína á síðasta ári var 2.4 milljarðar en 240 milljarðar til EES svæðisins. Tollar munu að meðaltali vera um tíu prósent. Kínverjar fylltust slíkum áhuga á hinum galvösku, myndarlegu Íslendingum að þeir myndu fella niður alla tolla, græddu íslenskir útflytjendur 240 milljónir. Er það mikið? Ekki miðað við viðskiptin við ESB en vissulega mikið miðað við útflutning til Indlands sem nam 79 milljónum á síðasta ári – eða rétt skítsæmilegum starfslokasamning hjá íslenskum forstjóra.
Um gjaldmiðilsmálin sagði Illugi raunar margt skynsamlegt, meðal annars minnti hann á niðurstöðu Brussel-ferðar forsætisráðherra: Upptaka Evru án Evrópusambandsaðildar kemur ekki til greina. Engu að síður færði hann rök fyrir því að við gætum tekið upp Evruna á grundvelli EES aðilar!!! Er þetta ekki fullkomin þversögn? Eða er Illugi að viðurkenna að Ísland sé í rauninni komið inn í ESB að öllu öðru leyti en því að taka þátt í að taka ákvarðanir um löggjöf þess? Allavega deplar hann ekki auga yfir því að framselja fullveldið í peningamálastefnu okkar til Evrópusambandsins. Getur það virkilega verið að Geir hafi ekki fitjað upp á þessu máli í Brusselferðinni? Hafði Illuga ferðafélaga hans ekki dottið þetta í hug? Hvers vegna var ekki spurt? Eða var spurningin lögð fram? Var svarið hugsanlega:Nei til að taka upp evruna verðið þið að ganga í ESB.
Þegar vel er að gáð er ræða Illuga skipulagt undanhald í Evrópumálunum. Þegar Evrópunefndin sem hann stýrir með öðrum hefur farið í saumana á þeim kaupum sem gerast á eyrinni, getur Illugi sagt sínum gamla húsbónda, Davíð frænda mínumm á Svörtuloftum og öðrum sjálfstæðismönnum: Evrópunefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að enginn mun veiða kvóta hérlendis, ESB búar munu eldast hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við græðum of lítið á viðskiptum við Kína og Indland til að láta það ráða utanríkismálastefnu okkar. Það er staðfest að við höfum tekið upp 75% af reglum ESB og því halda rökin um skrifræðisbáknið ekki. Ef við bætum peningastefnunni við eykst þetta hlutfall verulega og enn eykst lýðræðishallinn. Við stöndum frammi fyrir því að setja þjóðina á hausinn með vaxtaokri. Þetta undanhald byrjaði í Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar sem afar fáir virðast hafa lesið en þar gáfu ESB andstæðingar þegar eftir í tveimur mikilvægum málaflokkum. Þar var viðurkennt að tollavernd landbúnaðar stæðist ekki til lengdar, atvinnulíf á landsbyggðinni og margar greinar landbúnaðar myndu jafnvel hagnast á inngöngu í ESB. Um sjávarútveginn gegnir sama máli og smjörklípuútreikningar Tryggva Herbertssonar um ofurkostnað við aðild að ESB voru slegnir út af borðinu.
Mín kenning er sú að hugmynd Illuga um að taka upp Evru á grundvelli EES sem og allur hans málflutningur sé tilraun til að fá gálgafrest til að skapa Sjálfstæðismönnum ráðrúm til að búa bakland sitt undir óhjákvæmileg sinnaskipti. Þeir hafa reynsluna af þessu samanber afstöðuna til EES 1991. Klisjan segir að sá sem hafi ekki verið kommúnisti á yngri árum hafi ekki hjarta en sá sem sé það ennþá hafi ekki heila. Ég ætla að snúa þessu við og segja að sá sem hafi ekki verið á móti ESB þegar það virtist stefna hraðbyri til federalisma og við áttum allt undir sjávarútvegi- hafi ekki haft heila. En á sama hátt segi ég að sá sem er tilbúinn að horfa upp á tugþúsundir landa sinna stefna í gjaldþrot út af vaxtaokri hafi ekki hjarta. Ég veit að menn á borð við Illuga Gunnarsson, Davíð Oddsson og Geir Haarde hafa bæði heila og hjarta. Við sem einu sinni vorum kommúnistar og þekkjum af eigin raun hvað það er erfitt að kyngja stolti sínu og viðurkenna að heimsmynd manns var röng, vitum að það tekur tíma að skynja “saung tímans” eins og Laxness orðaði það. En við verðum að vona að það taki ekki svo langan tíma að Ísland verði ein rjúkandi rúst þegar þeir hafa loksins áttað sig. Við inngöngu í ESB munu áhrif okkar á eigin mál aukast en ekki minnka – án þess að ég ætli mér þó að ýkja okkar áhrif á nokkurn hátt.
Ég vona að engum þyki það tilgerðarlegt að ég ljúki þessu dagbókarbroti með því að vitna í Ríkharð þriðja sjálfs Shakespeare (hef því miður ekki þýðingu Helga Hálfdanarsonar við höndina):”

KING RICHARD III: A horse! a horse! my kingdom for a horse!CATESBY: Withdraw, my lord; I'll help you to a horse.

Ég eftirlæt lesendum að skipa í hlutverk Ríkharðs þriðja og Catesby.

mánudagur, 3. mars 2008

Brussel þarf burgermeister

Seint verður sagt að ég sé haldinn hreinlætisbrjálæði. Raunar hef ég búið í nokkrum afar skítugum erlendum borgum ig hingað til látið mér vel líka. Á enga er hallað þótt ég nefni Pristina, höfuðborg Kosovo sem óþrifalegasta stað sem ég hef búið á. Þar til að ég settist að í Brussel. Hvergi í heiminum þykir jafn sjálfsagt að hundar skíti á gangstéttir. Persónulega sé ég ekki mun á því að hundur kúki á gangstétt og því að eigandinn geri það. Samt sem áður eru reglur og viðurlög svipuð og víðast hvar annars staðar. París var reyndar slæm hvað þetta varðar en þar eru þó gangstéttir spúlaðar nánast daglega. Mér skilst raunar að ástandið fari batnandi þar því lögreglan framfylgi reglum og sekti grimmt.
Enginn einlægur áhugamaður um hundaskít ætti að láta götuna mína í Brussel, Rue de Venise , framhjá sér fara því gatan er sannkallað Mekka þessara fræða. Ég hef grun um að hundaeigendur komi sérstaklega þangað úr nágrannabyggðalögunum, ef ekki erlendis frá –einkum og sér í lagi ef einhver niðurgangspest herjar á meltingarkerfi kvikindanna. Svo vill til að skammt frá er lögreglustöð. Nýlega sá ég hvar leðjan streymdi úr afturenda sérstaklega ógeðfellds ferfætlings beint fyrir framan nefið á lögreglumönnum sem voru að reykja fyrir utan stöðina. Sem ábyrgur borgari klagaði ég lögbrotið en löggurnar hlógu að mér og skildu allt í einu ekki neitt annað tungumál en sitt flæmska móðurmál. Þótt ótrúlegt megi virðast má með vissum rétti rekja skítinn í Brussel til tungumálaerja landsmanna. Þótt níutíu prósent Belga í Brussel séu frönskumælandi er borgin sem höfuðborg tvítyngd. Flæmingjar eru upp til hópa tvítyngdir en frönskumælandi Belgum virðist upp til hópa fyrirmunað að læra flæmsku. Árangurinn er sá að löggurnar eru Flæmingjar sem fara heim í Flæmingjaland þegar vaktinni er lokið og finnst ágætt á helvítis “Frakkana” að stíga á hundaskít kvölds og morgna. Ég vona innilega að Belgíu heyri brátt sögunni til, Brussel verði sett undir alþjóðlega stjórn og ráðinn kattþrifinn burgermeister – helst svissneskur dr MÜLLER sem myndi hreinsa almennilega til. Ordnung muss sein. Maður hefur slett þýsku af minna tilefni.

Tíu óbrigðul ráð til að lifa af rigninguna í Brussel

1. Jackson Browne: Solo Acoustic, vol. 1 (Pínulítið gleymdur, en spáið í að hann samdi These Days 16 ára gamall!)

2. Herbie Hancock: The Joni Letters. Ég hef séð Herbie margoft á tónleikum síðast í Brussel fyrir rúmu ári. Sumar túlkanir hans á lögum Joni eru frábærar, en skil ekki alveg hvað Wayne Shorter lagið er að gera á disknum með fullri virðingu fyrir þeim frábæra saxaleikara.

3. Joni Mitchell: Eiginlega allt, en sennilega er Blue og Hejira bestu diskarnir. Ótrúleg söngkona og lagasmiður og vanmetinn gítarleikari.

4. Gotan Project: Lunatico. Mergjaður og dansvænn bræðingur af tangó og raftónlist. Dansaði eins og vitlaus maður á tónleikum þeirra í Brussel. Hlýtur að hafa verið skelfileg sjón.

5. Goldfrapp: Seventh tree. Enn að venjast henni en lofar góðu.

6. Keith Jarrett: Kölnarkonsertinn. Yndislegur spuni.

7. Grant Green: Idle moments. Besti rólegheita-rauðvíns-kertaljóss-það-jafnast-ekkert-á-við-jazz-helst-í-óveðri-í-íbúð-undir-súð-diskur allra tíma.

8. PJ Harvey White Chalk (þunglyndi á borð við Leonard Cohen.

9. Crosby, Stills og Nash: samnfefnd. Englaraddir og flottasti hippi allra tíma: David Crosby.

10. Keren Ann: Dimanche en hiver – besti vetrardiskur sem til er.

sunnudagur, 2. mars 2008

Mér þykir það leitt en Björn Bjarna er að senda mig í fangelsi

Mér urðu á slæm mistök í fræðigrein sem birtist hér á eyjan.is undir fyrirsögninni
“Laugardags(bjór)lögin”. Þar hélt ég því fram að Dátar hefðu flutt lagið “Glugginn” – sem ég mælti með fyrir plebba til að bæta gráu ofan á svart. Þetta er rangt – auðvitað voru það Flowers. (Gæti verið að Rúnar Gunnarsson hafi samið lagið? Eins og mig minni það. ) En hvernig er hægt að ruglast á auðþekkjanlegri rödd Jónasar R. Jónssonar og nokkurs annars manna af dýrategundinni Homo Sapiens? Ég þekki Jónas að vísu ekki persónulega en tel mér þó til tekna að hafa reykt vindil með honum og Bo Halldórs – geri aðrir betur. Ég reykti tipparillo (tók ekki ofan í mig) en þeir reyktu Kúbuvindla á stærð við hrossatyppi i fullri reisn.
En mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds við að hugsa um mögulegar afleiðingar. Ég sé fyrir mér að á mánudagsmorgunn hlammi Jónas R.sér niður í Chesterfieldsófa hjá ónefndum lögmanni í Reykavíkurborg (köllum hann Copy-Paste for arguments sake) og þeir kveiki sér í hálfsmetra vindlum og hlæi hrossahlátri yfir fyrirfram unnu meiðyrðamáli gegn vesælum bloggara. Er það ekki unnið mál þegar sjálfur dómsmálaráðherra landsins hefur hvatt til þess að farið sé í mál við bloggara? Spyr sá sem ekki veit. Ég held ég fari beinustu leið á Hraunið og fái ekkert fyrir að fara yfir byrjunarreitinn. En hei! horfum á björtu hliðaranar. Ég gæti lært að steypa kantsteina.

laugardagur, 1. mars 2008

Laugardags(bjór)lögin

Bestu bjórlögin:

Mjög hentugt fyrir plebba og fólk á öllum aldri:

1. Boston (Bandaríkin, Norður-Ameríku): More than a feeling. Á meðan frúin er í sturtu og hvorki heyrir þig né sér taka fyrsta luftgítarsóló kvöldsins.

2. Spencer Davis Group: ( Bretland, Evrópu): Gimme some lovin. Steve Winwood var sextán þegar hann söng þetta. Brjálað bít.

3. Bruce Springsteen (New Jersey, Norður-Ameríku): Badlands. Svei mér þá ef maður verður ekki að fá sér Miller eða Bud – og bara fyrir menn í gallabuxum og bol enda þjóðskáld bandaríska bolsins.

4. Dátar (Ísland, EES): Glugginn.Tekið upp léttara hjal, konan er komin úr sturtu.

5. Trúbrot: Án þín (Keflavík, Bandaríkin, Norður-Ameríku) Gott með rakstrinum – plús smá metrosexúelt element fyrir bjórbumbuna.

6. Led Zeppelin: Immigrant song (Loftleiðir, Ísland) Sömdu þetta í vélinni, þjóðlegt og gott.

7. Sex Pistols (Lýðveldinu Stóra-Bretlandi): God Save the Queen. Voru ekki konungssinnar 1977 en segi þeim til varnar að Camilla Parker Bowles var auðvitað ekki komin í konungsfjölskylduna þá. Nú verður ekki aftur stuðið.

8. Deep Purple: Smoke on the water (Bretland, Evrópu en í fýlu yfir því) Þú ert búinn að drekka sixpakk og þú heldur að sjálfsvirðing sé borg í Síberíu. Annað lúftgítarsóló kvöldsins er staðreynd. Ef þú ert úti á svölum er skemmtanagildið fyrir nágrannana ótvírætt.

9. Icy hópurinn: Gleðibankinn (Björgvin, Noregi) Gleymdi ég að segja að þú ert búinn að vera að drekka Elefant og ert búinn að missa ráð og rænu?

10. Bachman Turner Overdrive (Lúðistan, Bandaríkin Norður-Ameríku) Nú byrjar stuðið, Össur og frú eru komin í mat!

Tíu lög með kampavíni

Tíu pottþéttar aðferðir til að koma sér í stuð á meðan fordrykkirnir flæða og par er að klæða sig fyrir laugardagskvölds-fárið.

I. Kampavín:

Miðað er við að par deili með sér kampavínsflösku. Ekki fyrir plebba og fólk fyrir innan þrítugt. .

1. Marisa Monte (Rio de Janeiro, Brasilíu): Infinito particular. Seiðandi og draumfögur.

2. Waldemar Bastos (Angóla, Afríku): Pitanga Madurina. Jafnvel dauðir dilla sér)

3. Santana (Bandaríkin, Norður-Ameríku): Evil ways. Þeir hefðu sjálfir fengið sér í pípu en eyjan.is mælir ekki með lögbrotum.

4. Pink Martini (Oregon, Hippistan, Ameríku) Amado Mio. Ekkert hass, en meira kampavín og dansa við frúna.

5. Roxy Music: Dance away (Bretland, oftast í Evrópu ekki alltaf) Sefur ekki Bryan Ferry í smóking?

6. Khaled: Didi (Alsír, Arabaheiminum) Araba-stuð eins og það gerist best. Khaled er ekki í alveg eins smoking og Ferry, held ég....

7. Keren Ann: Decrocher les etoiles (Paris, Frakkland) Gott singalong er aldrei ofmetið og aldrei að vita nema maður gangi í augun á hinu kyninu með því að vera svona góður í frönsku. Þú ert búinn að drekka svo mikið kampavín þegar hér er komið við sögu að þú ferð létt með það!

8. Páll Óskar (Samtökin 78 Laugavegi): Stanslaust stuð. Bara spurning hvenær textinn verður tekinn upp í Sýnisbók íslenskra bókmennta. “Hamingjan er úr plasti, ef hún er spiluð á fullu blasti”, Jónas Hallgrimsson hvað!!

9. Carla Bruni (Elysée höll, París): Samlede værker. Allir diskarnir hennar. Forsetafrúnni er ekki alls varnað sem tónlistarmanns. Þarf samt ekkert endilega að hafa hljóðið á, en áreiðanlega hægt að eiga góða kvöldstund með umslögunum og því litla sem eftir er af kampavíninu þegar hér er komið við sögu. Þeir sem voru komnir hálfa leiðina út úr skápnum eftir Stanslaust stuð eru komnir á bólakaf inn í hann aftur.

10. Ex-aequo: Carlhinos Brown (Salvador, Brasiliu): Carlito Marron/ St. Germain: Rose rouge (Latínuhverfið, París) Stuð eins og það gerist m best. Enginn þarf prósak. Allir elska náungann. Lífið er gott. Allir dansa. (tjaldið)

Ekki einu sinni Lúx

Lítil frétt sem vakti ekki almenna athygli á Íslandi, vakti undrun mína. Ekki einu sinni Lúxemborg styður framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna! Þetta vekur nokkurn ugg enda Lúxemborg í hópi þeirra ríkja sem Ísland hefur átt mest samskipti við í áranna rás og oft vitnað til svipaðra hagsmuna ríkjanna sem smáríkja. Sjálfur hef ég undrast að varla er hægt að tala um eitt einasta dæmi um stefnumörkun þar sem reynt er að koma til móts við sjónarmið meirihluta aðildarríkjanna – þróunarríkjanna. Að þessu leyti hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir valdið miklum vonbrigðum sem utanríkisráðherra. Hún hefur ekki staðið við fyrirheit sín um að auka þróunarraðstoð en engu að síður marggefið í skyn á alþjóðavettvangi að Íslendingar séu á hraðferð í áttina að því að ná 0.7% marki SÞ. Það er rangt; það hefur ekkert nýtt verið gert í þessum efnum í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Mér er spurn hvort Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur imprað á þessu við hana? Eða hefur Þórunn gleymt tilfinningaþrunginni ræðu sem hún flutti í þinginu þar sem hún hvatti stjórnvöld til að ná þessu marki? Eða er allt gleymt sem gert var í stjórnarandstöðu? Þetta er ekki síst dapurlegt vegna þess að hækkandi orkuverð og baráttan gegn loftslagsbreytingum hefur fært Íslendingum upp í hendurna tækifæri. Talið er að öll aukning á þróunaraðstoð í heiminum frá aldamótum hafi étist upp vegna olíuverðshækkunar. Með því að gefa þróunarríkjum þekkingu okkar í að framleiða raforku úr jarðhita, gætum við haft veruleg áhrif til góðs. Slíkt yrði ekki gert á annan hátt en með því að leggja fram sannfærandi áætlun sem síðan ef rétt væri á spilunum haldið, yrði tromp í framboðinu til öryggisáðsins.

Þess í stað hafa íslenskir stjórnmálamenn- þar á meðal sumir oddvitar Samfylkingarinnar- haldið áfram að þusa um milljarðagróðavon opinberra fyrirtækja í þróunarríkjunum. Sú staðreynd að ekki einu sinni Lúxemborg ætli að kjósa Ísland í öryggisráðið er ekki góðs viti. Og málefnaleg staða okkar gagnvart þróunarríkjunum er ekki góð – níski maður Evrópu á fremur von á fylgi í furstadæminu en í bláfátækum ríkjum Afríku.