þriðjudagur, 25. mars 2008

Barbados eða Evrópa?

Ónefndur tekur upp hanskann fyrir Morgunblaðið í athugasemd við skrif mín á þessari síðu um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og segir: “Staksteinar eru ekki einir um að finnast lítið til ISG koma. Þarf ekki annað en lesa ummæli hennar undanfarin ár og samþykktir Samfylkingar þegar hún var í stjórnarandstöðu, og bera saman við hegðun hennar núna, til að sjá að hún er með ómerkilegri populistum í íslenskri pólitík. Ég er ansi hræddur um að baklandinu sé að verða kalt. Að einkavinkonum hennar undanskildum sem kippt hefur verið inní velgjuna.”

Ég vil ítreka að þótt ég telji Styrmi Gunnarsson ráðast á Ingibjörgu Sólrúnu af ósanngirni, hef ég vissulega heyrt þær óánægjuraddir sem ónefndur nefnir. Ég er nýkominn frá Íslandi og heyrði marga málsmetandi Samfylkingarmenn setja spurningarmerki við ofuráherslu á framboðið til Öryggisráðsins. Eru heimsóknir til Afganistans og Barbados málið á meðan íslenska krónan hrynur til grunna? Hverju sæta máttleysisviðbrögð Íslands um Tíbet á tímum mannréttindaátaks ? Og fyrst og fremst: Hvers vegna heyrist ekkert í formanni Samfylkingarinnar þegar Evrópusambandsaðild og upptaka Evru er loksins (loksins!) komin í forgrunn íslenskra stjórnmála?

Engin ummæli: