miðvikudagur, 19. mars 2008

Einu sinni fyrir langa löngu þegar Björn Bjarna var ekki orðinn ofboðslega frægur

Fyrir tæpum sex árum fjórtánda júní 2002 samþykkti borgarráð ályktun þar sem Jiang Zemin forseti Kína var boðinn velkominn til Reykjavíkur. S'íðan sagði:

"Jafnframt bjóða borgaryfirvöld félaga í samtökunum Falun Gong velkomna. Að gefnu tilefni vill borgarráð árétta að það samræmist ekki stefnu Reykjavíkurborgar að takmarka fjölda friðsamra mótmælenda í borginni. Ljóst er að tryggja verður öryggi erlendra gesta sem koma í opinberum erindagjörðum hingað til lands. Ríkar ástæður þurfa hins vegar að vera fyrir því að takmarka lýðræðislegan rétt fólks til að lýsa skoðun sinni eða afstöðu í tengslum við opinberar heimsóknir.Engin hætta stafar af friðsamlegum mótmælum. Þau eru þvert á móti eitt megin einkenni lýðræðislegs stjórnarfars sem byggist á virðingu fyrir mannréttindum. Í Reykjavík er baráttufólkið fyrir mannréttindum því ætíð velkomið að koma málstað sínum á framfæri með friði."

Undir ályktunina rituðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Vafalaust var óvenjulegt að borgarráð Reykjavíkur ályktaði um utanríkismál. Nú sex árum síðar er Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sem hefur lýst því yfir að mannréttindi skuli vera í fyrirrúmi í utanríkismálum. Þau tjá sig um alt sem nöfnum tjáir að nefna, stjórnmál í Afganistan og þjóðaratkvæðagreiðsu á Tævan, ættrækni undirritaðs og dagbók Egils Helgasonar en ekki Tíbet.
Af hverju ekki? Hvað hefur breyst frá því ályktunin djarfa var samin og Björn vakti aðdáun með því að standa upp í hárinu á forsætisráðherra sem ég þori varla að nefna á nafn af ótta við refsivönd dómsmálaráðherra.
Kannski að Björn er orðinn svo ofboðslega frægur að óknyttadrengir í útlöndum kenna Evrópuskýrslu við hann bara af því að hann var formaður nefndarinnar sem samdi hana?
Birni finnst við hæfi að líkja frægð sinni við Vanessu Redgrave sem er út af fyrir sig athyglisvert. Að mínu mati ætti Björn að hætta að barma sér yfir frægð sinni og skýra lesendum (og kjósendum sínum) sinnar ágætu heimasíðu frá því hvers vegna hann og ríkisstjórnin þegja þunnu hljóði um málefni Tíbet? Þetta er verðugra verkefni fyrir háttvirtan dómsmálaráðherra en að rita drambsfullar færslur til að lítilsvirða nafngreinda einstaklinga sem hafa sér eitt til sakar unnið að vera honum ósammála.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Heldurðu ekki að Björn Bjarnason hefði gott af því að fá sér súkkulaðiís?