fimmtudagur, 22. október 2009

Björn il-sung

Fyrir nokkrum árum kynntist ég ágætum skopteiknara þegar ég var við störf í Kosovo. Ég bað hann að gamni mínu að teikna skopmyndir af nokkrum Íslendingum með það fyrir augum að virkja hann á íslensku blaði.

Skemmst er frá því að segja að hann hafði ekkert nema ljósmyndir til að fara eftir og því var árangurinn misjafn. Honum yfirsást grallarinn og spéfuglinn sem bærist í Össuri, Steingrímur Joð leit út eins og páfinn og teiknarinn taldi Davíð Oddsson bersýnilega vera kandídat í að leysa Michael Jackson af hólmi í Jackson five!

Í fyrstu fannst mér honum ekki takast vel upp með Björn Bjarnason, því ég sá ekki betur en hann hefði farið mannavillt og teiknað mynd af Kim Il-Sung.

En því lengri tími sem líður, því betur sé ég að skopteiknarinn Spendh vinur minn Kadar hitti beint í mark.

Í Birni bærist nefnilega Kim.

Björn mótast af sínum aðstæðum og rýkur ekki upp til handa og fóta og smíðar kjarnorkuvopn og handtekur andstæðinga. Að sjálfsögðu ekki. Hann er lýðræðisútgáfan af Kim.

Kim Il-Bjarnason er mótaður af sínu nánasta umhverfi og verður því að láta sér nægja að horfa með flokksgleraugum á mannlífið og sjá fjandann í hverju horni og ráðast af heift og ósanngirni á alla þá sem hafa minnstu tilburði til að hafa aðrar skoðanir en hann.

Og hann og félagr hans í svörtu klíkunni kunna þá list manna best að hóta mönnum, refsa og hræða. Þjóðhagsstofnun steig feilspor og var lögð niður. Eru allir búnir að gleyma þvi rökstuðningurinn var ma. sá að greiningardeildir bankanna hefðu tekið við hlutverki henni.

Það voru ár óttans þegar svartaklíkan var við völd.

Það er nefnilega sama eðli í öllum ofstækismönnum þótt stigsmunurinn kunni að vera mikill.

Davíð vinur hins íslenska Kims var nýverið skipaður ritstjóri Morgunblaðsins. Persónulega hef ég ekkert við það að athuga. Eigendur Morgunblaðsins hafa fyllsta rétt til þess að fara með eign sína eins og þeim sýnist. Þeir hafa engum lagalegum skyldum að gegna við almenning í landinu.

Útaf fyrir sig má hins vegar setja pólitísk og siðferðileg spurningarmerki við ráðningu Davíðs, en í mínum huga er aðalatriðið viðskiptalegs eðlis.

Er það skynsamlegt bisnessmódel að þrengja markhóp blaðsins úr því að vera blað allra landsmanna í að vera blað flokksbrots lengst á hægrivæng Sjálfstæðisflokksins?

Hvort var betri söluvara Mogginn eða Þjóðviljinn?


Björn krefst þess að Agli Helgasyni, virtasta og vinsælasta sjónvarpsmanni Íslendinga á síðari árum verði sagt upp störfum.


Nú er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því að Davíð Oddsson fái á seinustu árum starfsævi sinnar að kynnast því hvernig er að starfa hjá einkaaðila. Verst að Hannes Hólmsteinn hefur aldrei kynnst því.

Morgunblaðið hefur fyllsta rétt til að ráða Davíð Oddsson.
Ríkissjónvarpið hefur líka fyllsta rétt til að ráða Egil Helgason.

Davíð Oddsson hefur fyllsta rétt til að tjá skoðanir sínar.
Það hefur Egill Helgason líka.

Munurinn á þeim tveimur er hins vegar sá að Egill er betri markaðsvara en Davíð.

Ég hélt að markaðurinn hefði aldrei rangt fyrir sér. Eða var það ekki Hannes?

Það hentar andstæðingum Sjálfstæðismanna vel að reyna að gera sem mest úr markaðshyggju þeirra. Staðreyndir um skattlagningu og - vel að merkja - útgjöld til velferðarmála segja hins vegar aðra sögu.

Ég held að þegar upp er staðið muni sagan ekki minnast svörtu klíkunnar fyrir ómengaða frjálshyggju heldur fyrir stjórnlyndi, spillingu, sérgæsku, handahófskennda ákvarðanatöku og svo hóflausa foringjadýrkun að fá dæmi eru um í lýðræðislegum þjóðfélögum.

Það bærist nefnilega lítill Kim í fleirum en Birni Il-Sung.