föstudagur, 25. júlí 2008

Evrópa er ekki eitt símanúmer

Björn Bjarnason er hróðugur á heimasíðu sinni þegar hann vekur athygli á því að Barack Obama hafi “sniðgengið” Brussel “höfuðborg Evrópusambandsins” í Evrópu heimsókn sinni.

Væntanlega er þetta sneið til Evrópusinna; les: ESB skiptir ekki máli.

Ef þetta er rétt túlkun hjá mér er þetta mikill misskilningur hjá Birni. Að mínu mati er þetta vatn á myllu okkar hógværu íslensku Evrópusinnanna því þetta undirstrikar að Evrópusambandið er bandalag 27 fullvalda þjóðríkja.

Barrack Obama hefur ekkert erindi til Brussel því þótt Bandaríkjamenn hafi margoft auglýst eftir því að einn maður svari í símann í Evrópu er það ekki raunin. Guði sé lof!

Á Íslandi er því enn þann dag í dag haldið fram að Ísland tapi fullveldi sínu við að ganga í Evrópusambandið. Þetta er makalaus málflutningur: telur Björn Bjarnason, til dæmis, að Þýskaland eða Malta, Frakkland eða Kýpur, Bretland eða Danmörk séu ekki fullvalda ríki?

Barack Obama veit sem er að Evrópusambandið er bandalag 27 fullvalda ríkja, en það er ekkert eitt símanúmer í Evrópu og verður vonandi ekki. Samvinna ríkjanna í utanríkismálum er að mörgu leyti til fyrirmyndar, til dæmis í umhverfismálum og þróunaraðstoð. Hún mætti reyndar vera meiri en hún er nákvæmlega þetta: SAMVINNA í tilteknum málaflokkum sem ríkjunum hugnast, en ekki ríkjaheild. Fullveldi jú deilt með öðrum þar sem það hentar; annars staðar ekki.

Kjósendur á Írlandi undirstrikuðu það með því að hafna Lissabon-samkomulaginu og það gerir gott Evrópusamband enn betra. Þeir höfnuðu því að minnka áhrif smáríkja og þeir vildu ekki að Evrópa talaði einni röddu í stóru sem smáu og kæmi fram sem ein heild útávið.

Við Íslendingar þurfum einmitt að hugsa Evrópu-hugsun okkar upp á nýtt, rétt eins og hugmyndir okkar um iðnvæðingu og umhverfismál. Enginn er eyland – ekki einu sinni Íslendingar- við erum hluti af umhverfi okkar og umheiminum og við verðum að nota þau spil sem við höfum á hendi eins vel og við getum.

Hvorki Evrópusambandsaðild né bygging álvera er í eðli sínu nein töfralausn. Við þurfum að halda haus og taka það besta sem boðið er upp á – óháð ofstæki annars vegar einangrunarsinna á borð við Björn, Davíð Oddsson, Árna Johnsen og Ögmund Jónasson og hins vegar federalista og umhverfisfasista hér heima og á meginlandi Evrópu.

Við getum nefnilega mótað okkar eigin framtíð.

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Einræðisherra herðir tökin

Athyglisverð úttekt á Hu Jintato, forseta Kína og gestgjafa Ólympíuleikanna birtist í Washington Post. Þar segir að Hu Jintao hafi hert mjög tök flokksins í Kina og skert málfrelsi.

Blaðið telur Hu vera harðlínumann: “There is a growing consensus inside and outside the government, however, that the 62-year-old former engineer believes the party should strengthen its rule by improving its traditional mechanisms of governance, not by introducing democratic reforms.”

Síðar í greininni segir:

“In his first major address to the 300-plus member Central Committee as the nation's undisputed new leader, Hu warned that "hostile forces" were trying to undermine the party by "using the banner of political reform to promote Western bourgeois parliamentary democracy, human rights and freedom of the press."

Hu said China's enemies had not abandoned their "strategic plot to Westernize and split China."
He blamed the fall of the Soviet Union on policies of "openness and pluralism" and on the efforts of "international monopoly capital with the United States as its leader." And in blunt language that party veterans said recalled Mao Zedong's destructive Cultural Revolution, he urged the leadership to be alert to the danger of subversive thinking.

"Don't provide a channel for incorrect ideological points of view," the person who had read some of the speech quoted Hu as saying. "When one appears, strike at it, and gain the initiative by subduing the enemy."


Er líklegt að þetta sé maður sem beri virðingu fyrir þeim sem skríða fyrir honum?

Sjá nánar: http://www.washingtonpost.com/ac2/wp-dyn/A12427-2005Apr23?language=printer

Á ríkið að borga boð fyrir vinkonu forsetafrúar?

Boð forseta Íslands fyrir helstu auðmenn Íslands en til heiðurs dæmdri fjársvikakonu bandarískri Mörthu Stewart, hefur vakið hörð viðbrögð almennings og skyldi engan undra. Stewart var fyrir fáum árum dæmd fyrir fjársvik en hefur þess utan aðallega gert sér það til ágætis að vera uppskrifta-drottning í sjónvarpi og tíður gestur í slúðurdálkum blaða, á borð við Hello og bandarískra systurblaða.

Sumir bera þó í bætifláka fyrir Ólaf Ragnar og segja ekki nema sjálfsagt að hann bjóði dæmda fjársvika-kvendinu Mörthu Stewart til kvöldverðar með helstu auðmönnum Íslands á Bessastöðum, enda sé hún gömul vinkona Dorrit Moussaief, forsetafrúr.

Ef það er raunin að hún sé boðin sem gömul vinkona, er það þá eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur borgi brúsann?

PS Eins og bent er á í athugasemd hér að neðan var Mörthu Stewart neitað um vegabréfsáritun til Bretlands fyrir örskömmu vegna sakaskrár sinnar, fyrir minna en mánuði. Ólíkt höfumst við að: Mörthu Stewart er tekið eins og þjóðhöfðingja á Íslandi en úthýst sem glæpamanni í Bretlandi. Sjá nánar: http://www.guardian.co.uk/world/2008/jun/21/usa1

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Forsetinn vildi á opnunina

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands verður viðstaddur lokahátíð Ólympíuleikanna. Forsetaembættið beitti hins vegar miklum þrýstingi til að forsetanum yrði boðið á opnunarhátíðina – sem þjóðarleiðtogar hafa margir hverjir sniðgengið.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamála – og þar með íþróttamálaráðherra hafði hins vegar þegar þegið boð á opnunarhátíðina. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði áður sagt opinberlega að ef einhver ráðamaður færi yrði það íþróttamálaráðherrann.

Ólafur Ragnar sætti sig hins vegar ekki við það en varð um síðir að láta sér lynda að sækja einungis lokahátíðina. Íslenska ríkið mun því borga undir tvo fulltrúa landsins, að ógleymdu fylgdarliði.

Forsetaembættið vildi ekki svara því áður en framboðsfrestur fyrir forsetakosningar, rann út í vor, hvort Ólafur Ragnar myndi sækja opnunarhátíðina.

Í tilkynningu forsetaembættisins segir að hann verði í boði Hu Jintao, forseta Kína. Hann vann sig upp í kínverska kommúnistaflokknum með því að hafa yfirumsjón með kúgun kínverskra kommúnista í Tíbet.

Ástandið í Tíbet er einmitt ástæðan fyrir því að leiðtogar á borð við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands sniðganga leikana. Íslenskir ráðamenn hins vegar hópast þangað og forsetinn nú á leið þangað í þriðja skipti á afar skömmum tíma.

Í síðustu heimsókn Ólafs til Hu Jintao bar fréttatilkynningum embætta þeirra nánast ekki saman um neitt um efni funda þeirra, að því þó undanskildu að ekki hafi verið rætt um mannréttindamál.

þriðjudagur, 22. júlí 2008

Forsetinn móðgar ráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra var spurði í Kastljósi í vor um þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum. Hún svaraði efnislega:
1.) að ekki stæði til að utanríkisráðherra færi á Ólympíuleikana.
2.) að ekki hefði verið tekin afstaða hvort íslenskir ráðamenn sæktu ÓL í Peking.
3.) að ekki hafi tíðkast að íslenskir ráðamenn sæki ÓL.
4.) að "ef einhver fer þá verður það ráðherra íþróttamála."

Annað hvort er Ólafur Ragnar Grímsson ekki íslenskur ráðamaður eða að hann er ráðherra íþróttamála.

Ólafur Ragnar gefur með þessu fullkomin skít í ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherrann sérstaklega.

Það er hápólitískt mál að sækja Ólympíuleikana við þessar aðstæður enda hefur ekki "tíðkast að íslenskir ráðamenn sæki ÓL" eins og Ingibjörg Sólrún benti á.

Hafði forsetinn samráð við ríkisstjórnina þegar hann tók þessa ákvörðun? Eða rekur hann sína eigin utanríkispólitík án samráðs við til þess bæra kjörna fulltrúa þjóðarinnar?

Talnasnillingurinn Tryggvi

Tryggva Þór Herbertssyni, hagfræðingi hefur verið falið það verkefni að bjarga efnahagi íslenska lýðveldisins. Lítið hefur farið fyrir Tryggva í pólitískri umræðu undanfarin ár og er því ástæða til að rekja helsta afreksverk hans með reiknistokkinn sem hefur fallið óverðskuldað í gleymskunnar dá.

Tryggi var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þegar hún tók að sér fyrir sex árum síðan að beiðni Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra að gera úttekt á kostnaði við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Grípum niður í frétt Morgunblaðsins: “Hagfræðistofnun komst að þeirri niðurstöðu að hreint framlag Íslands myndi væntanlega meira en tvöfaldast við fulla stækkun ESB eða frá því að vera um 3,7 til 5,6 milljarðar á ári fyrir stækkun í 8,3 til 10,1 milljarð eftir stækkun.”

Fjórum árum eftir að Tryggvi Þór reiknaði út að aðild Íslands gæti kostað allt að tíu milljarða á ári var skipuð nefnd undir forystu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra til að gera úttekt á Evrópumálum.

Þar er komist að þeirri niðurstöðu að ef Ísland væri í hópi þeirra ríkja sem mest greiddu til sambandsins yrðu nettógreiðslur landsins um 5 til 6 milljarðar á ári. Síðan segir: “Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að hæt sé að rökstyðja að Ísland myndi greiða mest allra aðildarríkja til ESB sem hlutfall af vergum þjóðartekjum...”

Niðurstaða Björns og félaga: Útgjöld yrðu 2.5-5 milljarðar en þá á raunar eftir að draga frá 1.5 milljarða kostnað við EES sem myndi sparast. En sleppum því að sinni og berum saman sambærilegar tölur: kostnað áður en þessi upphæð er dregin frá.

Með öðrum orðum hefur Tryggvi Þór ofreiknað kostnaðinn við aðild um 5-6 milljarða á ári! Vonandi hefur hagfræðingurinn skánað aðeins í reikningi á síðustu sex árum – því ef hann er framlag Geirs Hilmars Haarde til að bjarga íslenskum efnahag – þá er úti um Ísland.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Írar ánægðastir með ESB

Ágætur maður og skemmtilegur penni sem skrifar undir nafninu Miðbæjaríhaldið sýnir mér þann heiður að senda mér tóninn og saka mig um “drottinsvik” fyrir að “vilja inn í hið nýja Kalmarsamband.” Látum drottinsvikin liggja milli hluta…

Sumir segja að ekki sé orðum eyðandi á málflutning af þessu tagi en ég held að slíkt sé hrokafull afstaða, enda verður aðild að Evrópusambandinu ekki samþykkt á annan hátt en með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þar hafa allir jafnan atkvæðisrétt.

Vandinn við umræðuna á Íslandi að hún er frumstæð og sífellt er verið að deila um staðreyndir. Tökum sem dæmi eina fullyrðingu Miðbæjaríhaldsins:
“Þið ESB sinnar eruð á hröðu undanhaldi á flestum stöðum á Nl-öndum, nema hér…Danir eru ekki par hrifnir, né Írar.

En hverjar eru staðreyndir málsins? Kannanir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lætur gera með jöfnu millibili eru almennt taldar áreiðanlegasti mælikvarðinn um vinsældir og óvinsældir ESB og stofnana þess hverju sinni. (Sjá: http://ec.europa.eu/public_opinion/index_en.htm)

Samkvæmt könnun sem gerð var strax í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Írlandi um miðjan júní , kom í ljós að 89% Íra styðja ESB aðild. Þeir hafa raunar lengi verið allra þjóða ánægðastir með sambandið og lái þeim hver sem vill: ESB-aðild er helsta ástæða ótrúlegs uppgangs þessarar ágætu frændþjóðar okkar á undanförnum árum.

Aðrir frændur okkar, Danirm eru þar oftast í öðru sæti en í Eurobarometer-könnun nú í vor sögðust 77% frænda okkar telja að Danmörk hafi haft hag af því að vera í ESB.
Rétt rúmur helmingur Svía er svo ánægður með ESB, en fimmti hver er óánægður – hinir taka ekki afstöðu. Því miður kann ég ekki finnsku og skildi ekki niðurstöður þeirrar ágætu þjóðar en Evrópumeðaltalið er 54% ánægja með aðild.

Hins vegar held ég að það sé óhætt að segja að ég hafi sýnt fram á að málflutningur Miðbæjaríhaldsins er staðlausir stafir sem byggjast á fordómum og óskhyggju eins og svo ótrúlega margt sem skrifað er um þennan málaflokk á íslensku.

Enginn vill EES - nema Björn

Ólíkt hafast þeir að hægrimaðurinn Carl Bildt og hægrimaðurinn Björn Bjarnason. Bildt sem var forsætisráðherra Svía þegar þeir gengu í ESB hefur lagt allt í sölurnar til þess að Svíþjóð geti mótað eigin framtíð. Björn Bjarnason leggur allt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir að Ísland geti mótað eigin framtíð.

Þegar Finnar og Svíar gengu í Evrópusambandið voru helstu röksemdir stjórnmálamanna að það væri óásættanlegt fyrir þessi ríki að hafa engin áhrif á þá lagasetningu sem gilti á innri markaðnum. Þótt markaðsaðgangur væri mikilvægur væri það út í hött að sitja ekki við borðið þar sem ákvarðanir væru teknar sem hvort sem er myndu gilda í Svíþjóð og Finnlandi. Betra væri að deila fullveldi með öðrum þjóðum en að afsala sér því tili annara ríkja.

Svíar ákváðu hins vegar að taka ekki upp Evruna. Með því að taka hana upp án þess að ganga í Myntbandalag Evrópu, eykst enn sá hluti fullveldis Íslands sem framseldur er erlendum aðilum. Öll stjórn peningmála flyttst til Frankfurt – og þar mun enginn Íslendingur tala máli Íslands. Fullveldið skerðist enn frekar.

Ekkert ríki í Evrópu að Íslandi og Lichtenstein undanskildum hefur nokkru sinni talið hagsmunum sínum best borgið á evrópska efnahagssvæðinu. Frá því að Svíar og Finnar (og Norðmenn á þeim tíma) komust að þeirri niðurstöðu að samningurinn hentaði ekki fullvalda ríkjum, hafa alls fimmtán þjóðir gengið í Evrópusambandið.

Í sumum þessara ríkja hefur aðild verið mjög umdeild en enginn hefur nefnt EES samninginn sem valkost. Tyrkir brugðust ókvæða við þegar sá möguleiki var nefndur í þeirra eyru. Hvers vegna ætti nokkur þjóð að vilja fremur að taka upp stærstan hluta löggjafar ESB með ýmsum ókostum (td. skrifræði) án þess að njóta kostanna?

Í sumum Evrópuríkjum hefur aðildin að ESB verið nokkuð umdeild, þó alls staðar sé mikill meirihluti ánægður með aðild, þar á meðal á Írlandi. En ekki einu sinni “Eurosceptics” í breska íhaldsflokknum hafa nefnt EES samninginn sem valkost.

Bæði Björn Bjarnason og Davíð Oddsson voru í kringum 1990 tilbúnir að skoða ESB aðild. Til þess að skilja það sem síðan gerðist stoðar lítt að leita á náðir stjórnmálafræði til að finna lógík. Nær er að líta til sálfræðinnar eða einfaldlega að mannlegs eðlis. Svo virðist sem skýringanna sé miklu frekar að leita í sálarlífi alvalds leiðtoga Sjálfstæðismanna Davíðs Oddssonar og meðvirkra undirsáta. Andúðin á Jóni Baldvin réði alveg áreiðanlega miklu um að Davíð festist í feni eigin fordóma rétt eins og andúðin á Jóni Ásgeir leiddi flokkinn á glapstigu í Baugsmálinu.

Allir sem einhvern tímann hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir í lífi sínu hljóta að hafa samúð með Sjálfstæðismönnum. Það er mjög erfitt að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér og að maður hafi gert mistök.

Ég hef áður sagt það að hafi Sjálfstæðismenn hjarta, hljóta þeir að taka sönsum því það er ekki hægt að horfa upp á gjaldþrot þúsunda einstaklinga vegna okurvaxtanna sem þjóna einungis erlendum krónu-bréfa fjárfestum.

Hafi þeir heila hljóta þeir að viðurkenna að Evra verður ekki tekin upp á annan hátt með aðild að Evrópusambandinu og það er hvort sem er verk sem aðeins á eftir að reka smiðshöggið á.

Því lengur sem Sjálfstæðismenn draga þessa ákvörðun því meiri líkur eru á hruni íslensks efnahags, klofning Sjálfstæðisflokksins og að Samfylkingin taki stöðu hans sem helsta stjórnmálaafl Íslands.

Það væri of dýru verði keypt.

miðvikudagur, 16. júlí 2008

ESB andstaða vegna veðurs

Nú í dag fagna ég því að það eru nákvæmlega þrjár vikur upp á dag síðan framkvæmdum á móður allra sólbaðssvalna á íbúð minni við Feneyja-stræti í Brussel lauk.
Jafnframt fagna ég því að nú hefur rignt í nákvæmlega þrjár vikur upp á dag hér í borg, jafnt á sólbaðssvölum mínum sem annars staðar.
Hér koma tíu lög um rigningu, ef eyjarskeggjar hafa fleiri tillögur um lög fyrir mig til að syngja í rigningunni þá eru allar tillögur til að bæta geð guma hér í borg vel þegnar.
Hvenær fara Evrópusambandssandstæðingar að tala af viti og berjast gegn aðild Íslands vegna þess að Brussel er rigningarbæli dauðans?

Hér kemur topp tíu:

1. Eurythmics: Here comes the rain again
2. Trúbrot: Hlustaðu á regnið
3. Jarvis Cocker: Heavy weather
4. Bob Dylan: Hard rain´s gonna fall
5. Bob Dylan: Rainy day women
6. Gene Kelly: Singing in the rain
7. Grafík: Mér finnst rigningin góð.
8. The Commitments: I can´t stand the rain
9. Bítlarnir: Rain
10. Nick Cave and the Bad seeds: Ain´t gonna rain anymore

Nokkur til viðbótar:

Supertramp: It's raining again
Deep Purple: One more rainy day
Prince: Purple Rain
Creedence Clearwater Revival:Who Will Stop the Rain
Creedence Clearwater Revival:Have You Ever Seen the Rain.
Weather Girls: It´s raining man
Tom Waits: Rain dogs
Uriah heep: Rain
Travis: Why does it always rain on me?
Kinks: A Rainy Day in June
BJ Thomas: Raindrops Keep Falling on My Head
Move: Flowers in the rain
Electric Light Orchestra: Rain is Falling
Electric Light Orchestra: "Concerto for a Rainy Day".
Engilbert Humperdinck: Raindrops keep falling on my head

og á öðrum nótum: Albert Hammond: It never rains in southern California

PS Ég held að það sé hellirigning alla daga í helvíti og þar spili menn rigningarlög með ELO og Supertramp.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Timburmenn af reykingum

Fyrir nokkrum árum hitti ég ágætan vin minn venju fremur drukkinn í bænum snemma kvölds. Ég spurði hverju þetta sætti og hann kenndi því um að hann væri nýhættur að reykja og drykki því hraðar en ella. “Annars hætti ég bara að reykja því ég varð alltaf svo timbraður af reykingunum.”

Þessi saga kom upp í hugann þegar ég las um vandræðagang Björns Bjarnasonar og Þórlinds Kjartanssonar með að taka upp evruna á grundvelli EES samningsins – fjórum mánuðum eftir "tímamótayfirlýsingu" Illuga Gunnarssonar þar að lútandi.

Rétt eins og vinur minn sem kenndi sígarettunum um timburmennina, eru þessi ágætu menn í afneitun og sorglegt að horfa upp á þá neita staðreyndum. Þeir eru að vísu búnir að átta sig á því að eitthvað er að en geta enn ekki viðurkennt að það er áfengið en ekki sígaretturnar sem valda timburmönnunum. Þessir þrír viðurkenna að krónan sé ónýt en Geir H. Haarde er allt í einu hættur við dollarann og telur nú gömlu kærustuna krónuna vera sætustu stelpuna á ballinu.

Hvers á færeyska krónan að gjalda? Af hverju vill enginn taka hana upp? Hvar er Vestnorræna ráðið núna? Árni Johnsen, halló!!

En á sama tíma skilur Geir H. Haarde ekki neitt í neinu og minnir sífellt meir á Mr. Chance í ógleymanlegri skáldsögu Kozinski og kvikmyndinni Being there.

“Crisis? What Crisis?” segir Geir eins og hljómsveitin Supertramp á sínum tíma. Krónan kostaði meðalskuldarann 1.7 milljónir á síðasta ári. Það er hætt við að skuldurunum þyki álíka leiðinlegt að hlusta á afneitun Sjálfstæðismanna og mér leiðist við að hlusta á Supertramp.

mánudagur, 14. júlí 2008

Dýr biðleikur Björns

Útspil Björns Bjarnasonar um að taka upp evru á grundvelli EES samningsins er engan vegin ný hugmynd. Illugi Gunnarsson, alþingismaður stakk upp á þessu í ræðu á Iðnþingi í byrjun mars sem sálufélagi Björns, Styrmir Gunnarsson, sagði að markaði tímamót í forystugrein í Morgunblaðinu. En það er kannski til marks um hve lítið mark var tekið á leiðurum Styrmis undir það síðasta að bæði orð Illuga og leiðarinn virðast fallin í gleymskunnar dá!

Orð Illuga á sínum tíma voru athyglisverð vegna þess að hann hafði sjálfur verið í fylgdarliði Geirs H. Haarde, forsætisráðherra þegar hann heimsótti Brussel og sagðist eingöngu hafa rætt við Barroso og Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB um inngöngu Króatíu í sambandið – eins og frægt var.

Geir ræddi sem sé að eigin sögn ekki neitt um hvaða skilmálar biðust Íslendingum hjá ESB sem er makalaust – ef rétt reynist. Hins vegar lýsti forsætisráðherrann því yfir að til þess að taka upp Evru yrði Ísland að ganga í Evrópusambandið, önnur leið væri ekki fær. Nú talar Björn Bjarnason, eins og Illugi samherji hans á sínum tíma, gegn formanni sínum. Geir hefur reyndar sjálfur helst viljað taka upp dollarann, en eftir stendur að stríðandi fylkingar í Sjálfstæðisflokknum eru sammála um eitt: að kasta íslensku krónunni fyrir róða.

Geir H. Haarde segist ekki hafa rætt við forystumenn ESB um inngöngu Íslands í sambandið en það gerði ég þegar ég tók mér frí frá störfum og vann mynd (sjá: http://www.visir.is/article/20080603/FRETTIR01/703892087/0/) og rit um þessi mál fyrr á þessu ári. Þar á meðal ræddi ég við Olli Rehn sem sér í framkvæmdastjórninni um aðildarviðræður nýrra ríkja í ESB:

--Árni Snævarr: Er aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu hugsanleg án aðildar að Evrópusambandinu? Olli Rehn: “Nei ekki fyrir þróaðan efnahag eins og er á Íslandi. Þess eru dæmi að evran hafi verið notuð sem gjaldmiðill utan ESB, í Kósovó og Svartfjallalandi en þar var þýska markið notað áður og því síðan skipt út fyrir evrur. Ísland yrði hins vegar að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og uppfylla efnahagslega skilyrði.” (Ísland og Evrópa: Mótum eigin framtíð, Samtök iðnaðarins, 2008, bls. 28-29)

Þetta er væntanlega það svar sem Geir og Illugi hefðu fengið ef þeir hefðu spurt um hvernig kaupin gerðust á eyrinni fyrir Ísland- en þeir segjast bara hafa rætt um inngöngu Króatíu í ESB. Hvers vegna beið Björn Bjarnason í meir en fjóra mánuði áður en hann tók undir hugmynd Illuga? Hvers vegna ætti hann að fá annað svar en ég fékk og Geir fékk eða hefði fengið ef hann hefði gefið sér tíma til að ræða um annað en Króatíu við Rehn og Barroso?

Mitt svar: vegna þess að hann er bara að kaupa sér tíma, að leika millileik og vonast til að staðan í refskákinni skáni af sjálfu sér. Á meðan blæðir íslenskum fyrirtækjum og almenningi út með handónýta mynt eins og Geir og Björn hafa nú viðurkennt og hæstu vexti í heimi.

Hve lengi eigum við Íslendingar að borga fyrir að forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki menn til að horfast í augu við staðreyndir?

Bronislaw Geremek: In memorian

Það eru víst liðin nítján ár frá því að ég kom móður og másandi inn í réttarsal í Varsjá. Ég var þá í framhaldsnámi í blaðamennsku við Fondation Journalistes en Europe í París og naut þeirra forréttinda að geta ferðast um Evrópu sem hluta af starfsþjálfun.

Ég var of seinn og þegar ég kom inn í réttarsal fullan af fólki var dómarinn að lesa úrskurð um að starfsemi verkalýðs- og stjórnmálahreyfingarinnar Samstöðu skyldi leyfð á nýjan leik.

Þetta voru mikil tímamót og viðstaddir gerðu sér mætavel ljóst að hér höfðu gerst söguleg tíðindi. Brautin hafði verið rudd fyrir hringborðs-samkomulaginu pólska sem fól í sér hálffrjálsar kosningar sem Samstaða vann með yfirburðum. Kommúnistar fóru frá völdum í Póllandi og kommúnisminn hrundi eins og spilaborg í Austur-Evrópu og loks Sovétríkjunum.

Geremek átti stóran þátt í þessu samkomulagi ásamt öðrum manni sem ég kynntist í sömu ferð, Alexander Kwasniewski sem þá var æskulýðs- og íþróttaráðherra í stjórn kommúnista en varð síðar forseti Póllands.

Prófessor Bronislaw Geremek, fór fyrir Samstöðu á þessu augnabliki og tók strákhvolp frá Íslandi vel og tók ég viðtal við hann fyrir ríkisútvarpið og birti hluta af því síðan í Þjóðlífi heitnu. Hann var menntaður í París eins og ég og hafði lagt stund á miðaldasögu eins og ég hafði gert um tíma. Næst þegar ég sá Geremek var hann orðinn utanríkisráðherra Póllands.

Geremek talaði frönsku betur en Frakkar gera almennt og var mjög vinsæll í Frakklandi og ég sá hann oft í gegnum árin í umræðuþáttum í franska sjónvarpinu. Hann varð Evrópuþingmaður fyrir nokkrum árum og leiðir okkar lágu aftur saman hér í Brussel. Hann sótti fund sem skrifstofa mín hélt í samstarfi við Evrópuþingið sem fjallaði um skopmyndir og málfrelsi.

Franski skopteiknarinn Jean Plantu sem teiknar forsíðuteikningu Le Monde daglega var aðalmaðurinn á þeim fundi. Geremek lét til sín taka en fór áður en honum lauk. Plantu hafði séð mig á tali við Geremek og bað mig um að koma mynd sem hann hafði rissað upp af Geremek á meðan hann talaði til skila. Því miður lét ég þetta undir höfuð leggjast og af því verður ekki úr því sem komið er. Geremek lést í umferðarslysi í Póllandi um helgina 76 ára að aldri. Myndin horfir á mig á skrifborðinu mínu.

laugardagur, 12. júlí 2008

Minningar (Eyja)manns og fílósóf úr Arnarnesi

Vorskipið færði mér að þessu sinni alla leið heim á Feneyjagötu (Rue de Venise) nýjasta hefti Herðubreiðar. Ég skal svo sem viðurkenna að ég reifi ekki blaðið upp í neinum flýti en greip það með þér nokkru síðar til að lesa í lest.

Sú grein sem situr hins vegar mest í mér er lipurlega stíluð grein Róberts Marshalls þar sem hann tvinnar saman hönduglega æskuminningar sínar og máttleysi íslenskra embættis- og stjónrmálamanna þegar EES samningurinn er annars vegar. Áhrifaleysi Íslendinga er algjört: við sitjum við sama borð og hvaða lobbýistar sem er. Það er hreinlega dapurlegt að lesa um hvaða möguleikar standa einna helst til boða: kvöldverður með norrænu ESB ráðherrunum sem mæta síðan ekki. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa lesið slíka fyrstu persónu frásögn af reynslu Íslands af þessum samningi.

Róbert er með fæturna á jörðunni en sama verður ekki sagt um félaga hans, orðhákinn músíkalska Guðmund Steingrímsson. Hann er á miklu flugi og skrifar lærða ritgerð um áhrifaleysi almennrar þingmanna og nýtur sinnar góðu menntunar í hvívetna. Grípur niður í háskólaritgerð, tæpir á teóríum og færir snjöll rök fyrir máli sínu. Hvað eftir annað tekur maður andköf yfir snilli heimspekingsins úr Arnarnesinu. En að loknum lestrinum sótti að mér undarleg tilfinning.

Ég er alls ekki að gera lítið úr Guðmundi þegar ég bendi á að í því spili sem hann spilar á síðum Herðubreiðar er vitlaust gefið því hann gleymir mikilvægri frumforsendu.

Í raun er er engu líkara en að Guðmundur sé í leiknum frúin í Hamborg en að þessu sinni má ekki nefna EES. Fingralipri harmónikkuleikarinn, hugmyndafræðingurinn og húmoristinn gleymir því nefnilega að það er tómt mál að tala um afköst Alþingis, áhrif og áhrifaleysi stjórnar- og stjórnarandstöðu, ráðherra og fótgönguliða ef ekki er tekið með í reikninginn að stór hluti allrar íslenskrar löggjafar kemur frá Brussel. Vel má vera að formlega séu lögð fram frumvörp í nafni hinna vösku ráðherra en oft hafa þeir ekkert um innihald þeirra að segja, fremur en fótgönguliðarnir í þingsalnum. Ef þetta er ekki tekið með í reikninginn verður niðurstaðan skökk.

(Getur það verið að margir jafnaðarmenn eigi mjög erfitt með að viðurkenna að í EES samningi Jóns Baldvins var gengið alltof langt í að afsala fullveldi? )

Í mörgum málum hafa meira að segja varaþingmenn eins Guðmundur og Róbert þá sjaldan þeir mæta vígfúsir í leikhúsið niðri við Austurvöll jafn mikil áhrif og sjálfur forsætisráðherrann: sem sagt engin. .

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Eri Óli Steph sammála Óla Steph?

Margir töldu það tímanna tákn þegar Ólafur Stephensen, ritstjóri 24 stunda tók við af Styrmi Gunnarssyni sem ritstjóri Morgunblaðsins, ekki síst fyrir þær sakir að Ólafur er jafn eindreginn fylgismaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu og Styrmir er andsnúinn því.

Fyrir nokkrum mánuðum tók ég mér frí frá störfum og vann stuttan sjónvarpsþátt um Ísland og Evrópusambandið. Er óhætt að segja að af mörgum mælskum konum og körlum sem ég ræddi við voru fáir ef nokkrir jafn mælskir, rökfastir og raunsæir og Ólafur.

Sagt hefur verið um Ólaf og Styrmi að þeir eigi það eitt sameiginlegt að báðir skrifa þeir zetu – einir leiðarahöfunda Morgunblaðsins í seinni tíð. Af þessum sökum vöktu eftirfarandi Staksteinar um nýlega grein Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, athygli mína:

“Málflutningur Sveins Andra er hins vegar ekki sannfærandi þegar hann segist ekki sjá nokkra galla við ESB-aðild. Af lestri greinar lögmannsins að dæma virðist til dæmis svo auðvelt að laga íslenzkan sjávarútveg að sjávarútvegsstefnu ESB að furðu sætir af hverju íslenzkir útgerðarmenn eru ennþá með þetta píp um áhyggjur sínar af auðlindinni.”

Staksteinar eru að vísu nafnlausir eins og ritstjórnargreinar Morgunblaðsins eru almennt. Hins vegar berast böndin að Ólafi vegna zetunnar. Mér fannst þetta athyglisvert vegna þess að í viðtali við Ólaf, þá ritstjóra 24 stunda, í Evrópumyndinni minni sagði hann:

“Það er tómt rugl og búið að sýna fram á með gildum rökum að það er engin hætta á að íslensk mið fyllist af útlendum togurum. Spurningin um sjávarútveginn er miklu frekar tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál. Það myndi í reynd mjög lítið breytast í sjávarútvegsmálum á Íslandi. Það sem myndi fyrst og fremst breytast er að lokaákvörðun um heildarafla á Íslandi yrði formlega tekin í ráðherraráði Evrópusambandsins.”

No ifs and buts.

Margir urðu til þess að halda því fram að vatnaskil yrðu við ritstjóraskipti á Morgunblaðinu í stefnu blaðsins í Evrópumálum. Þess hafa vissulega sést nokkur merki, td. í einu Reykjavíkurbréfi en ekki verður annað sagt en málflutningurinn sé afar hógvær – enn sem komið er. Þegar ég bar þessi skrif saman rifjaðist upp fyrir mér pistill Björns Bjarnasonar, leiðtoga hægri arms Sjálfstæðisflokksins, erki-Evrópuanandstæðings og fyrrverandi innanbúðarmanns á Morgunblaðnu. Hann gerði lítið úr mikilvægi ritstjóraskipta hvað Evrópumálin varðar:

“ESB-aðild er hins vegar mál af þeirri stærð, að skoðun ritstjóra kann að mega sín lítils, þegar til kastanna kemur. Fjölmiðlaafstaða í Bretlandi til Evrópumála sýnir, að það eru að lokum eigendur fjölmiðlanna, sem ákveða, hvort þeir hallist að stuðningi við Brusselvaldið eða ekki...Afstaða Björgólfs (Guðmundssonar) til Evrópusambandsins mun að lokum ráða miklu um afstöðu Morgunblaðsins. Goðsögnin um, að eigendur ráði engu um ritstjórnarstefnu blaða, er ekki annað en goðsögn.”

(Látum liggja milli hluta hvað Björn gerir lítið úr Ólafi í þessum skrifum, enda talar hann oftar en ekki með fyrirlitningu niður til annars fólks.)

Þessi skrif Björns vöktu litla sem enga athygli en þau verður að skoða í ljósi þess að hann var aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins (og sonur ritstjóra). Þau verður líka að skoða í samhengi við drottnun Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu um ára og áratugaskeið.

Hugsanlega segja þau meira um innræti Björns en raunveruleikann. Ég ætla að hins vegar að vona að orð Björns séu óskhyggja og að Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins sé sammála Ólafi Stephensen, ritstjóra 24 stunda í Evrópumálunum. Reyndar hvarflar ekki annað að mér en að hann sýni í verki að hann er sjálfstæður í hugsun, skeleggur, góður penni og drengur góður - en hann þarf aðhald eins og aðrir. Og hananú!

mánudagur, 7. júlí 2008

Inn í mér syngur vitleysingur

Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá Sigur Rósar-flokkinn leika og syngja tvisvar á aðeins einni viku – og það eru sannkölluð forréttindi. Í fyrra skiptið léku þeir á Náttúru hátíðinni í grasagarðinum með Björk Guðmundsdóttur og í seinna skiptið á Werchter-hátíðinni hér í Belgíu með Radiohead. Ekki slæmt kompaní!

Sigur Rós er að þróast í mjög skemmtilega átt, ekki síst sem tónleikasveit. Það vildi svo heppilega til að þegar ég kom inn á tónleikasvæðið á Werchter, heyrðust fyrstu tónarnir í Svefn-g-englum og við blasti fiðraður Jónsi á risaskjá. Ég fékk gæsahúð þegar ég heyrði hljómborðið og röddina einstöku: “Ég er kominn aftur....”.

Tónleikarnir sýndu og sönnuðu að Sigur Rós er jafngóð ef ekki betri á útivelli en heimavelli og vissulega var hljómburðurinn talsvert betri en í rokinu í Laugardalnum. Strengjasveitin og blásararnir eru bæði góð viðbót við þétta sveit og þar að auki mikið augnayndi.

Sama má segja um lúðrasveitina Wonderbrass sem lék (blés) við hvern sinn fingur með Björk í Laugardalnum. Það var raunar kímið að fylgjast með sjónrænu samspili Jónasar Sen sem lítur út eins og strangur yfirkennari og skvísnanna (ó þér íslenskar beygingar!) í Wonderbrass með öllu sínu æskufjöri.

En þarna er einmitt snilligáfa Bjarkar. Hún er ekki einungis ein besta söngkona heims og performer af Guðs náð. Hennar nec plus ultra er einmitt að sækja hluti í ólíka menningarheima eða tónlistarstefnur og blanda þeim saman eða stilla þeim upp hlið við hlið.

Rétt eins og klassísk tilþrif Jónasar á píanóinu og harpsíkordinu, blönduðust raftónlistinni og Wonderbrassinu; var sjónræn útfærslan skemmtilegt sambland af suður-amerískum og jafnvel japönskum áhrifum. Eða er það út í hött að fánum prýdd Wonderbrössin hafi minnt á samuræja-riddara í myndum Kúrosava?

Björk endurnýjar sig stöðugt og sumar útsetningarnar á tónleikum hennar voru að mínu mati talsvert betri en á Voltu sem þó er aðeins eins árs gömul.

Björk og Sigur Rós eiga líka sameiginlega einlægni og augljósa ánægju af listsköpun sinni.
Sigur Rós var næst stærsta nafnið á laugardagskvöldi og lék á undan Radiohead á Werchter sem er ein af stærstu rokkhátíðum Evrópu.

Radiohead lék af miklum krafti, hljómburðurinn var eins og best verður á kosið og ljósasjóvið magnað. Mörg laganna betri en í original. En Radiohead skorti eitthvað sem íslensku sveitirnar höfðu. Var það einlægni og leikgleði?

Ég er vissulega hlutdrægur sem stoltur landi þessara ágætu listamanna. Og ég neita því ekki að það eru mikil forréttindi að geta sungið með Sigur rós af öllum lífs og sálar kröftum vitandi að að enginn skilur þegar ég æpi upp í eyrun á næsta manni í troðningnum fyrir framan sviðið: “Inn í mér syngur vitleysingur! ” Hættan væri nefnilega sú að fólkið í kring gæti verið mér hjartanlega sammála!

laugardagur, 5. júlí 2008

Guðfaðirinn og diplómatinn

Það sætir miklum tíðindum að þeir Einar Benediktsson og Jónas Haralz lýsi yfir stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er hins vegar ekki viss um að yngri lesendur Eyjunnar (innan við fertugt!!) átti sig á því hve mikla sögulega vigt þessir nestorar hafa.

Er ofmælt að kalla Jónas guðföður íslenskrar frjálshyggju? Ég held ekki. Hann var róttæklingur og handgenginn helstu leiðtogum Sósíalistaflokksins á fjórða áratugnum hvort sem hann taldi sig kommúnista eða ekki. Það er í rauninni áfall fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að Jónas skuli ganga Evrópusinnum á hönd því fyrst guðfaðir frjálshyggjunnar gerir þaðm, er ljóst að það er hlaupinn flótti í liðið. Big time.

Jónas og Einar eru auðvitað báðir hluti af embættismanna elítu Íslands. Það kætir mig reyndar mjög að í grein þeirra félaga i Morgunblaðinu skuli skuli varnarsamstarf Íslands og ESB tíundað sem rök fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Þannig vildi nefnilega til að fundum okkar Einars bar saman í fyrsta skipti ef ég man rétt í Brussel 1987 eða 88, allavega fyrir rúmum tveimur áratugum. Hann var þá sendiherra hjá NATO en ég hálfþrítugur blaðamaður með rauð gleraugu. Ég var í svokallaðri NATO ferð undir styrkri stjórn NATO-Manga Magnúsar Þórðarsonar heitins ásamt núverandi ritstjóra Eyjunnar og fleiri góðum mönnum.

Þá höfðu Frakkar eins og svo oft áður eitthvað verið að rifja upp gamlar hugmyndir um að efla evrópskt varnarsamstarf innan Vestur-Evrópusambandsins. Bar ég upp fyrirspurn við NATO hershöfðingja um þetta en þá bar svo við að NATO sendiherrann Einar greip fram í og sagði eitthvað á þá leið að spurning mín væri óviðeigandi því Íslendingar vildu ekkert gera sem gæti orðið til þess að brúin yfir Atlansthafið á milli Bandaríkjanna og Evrópu gliðnaði. Varð úr þessu mikil rimma.

Ég hef oft nefnt þetta sem dæmi um viðhorf elítunnar til utanríkismála. Engar umræður voru leyfðar því þær gátu ekki orðið neitt annað en vatn á myllu kölska; kommúnista og herstöðvaandstæðinga. Ef vel er að gáð hefur þetta verið leiðarljós Sjálfstæðisflokksins alla tíð eins og Íhaldsflokka alla tíð: má ekki, má ekk, má ekki. Blaðamaður mátti ekki einu sinni spyrja spurningar sem ekki var RÁÐUNEYTINU þóknanleg.

Ég tek það fram að þetta atvik hafði engin eftirmál og við Einar höfum verið góðir kunningjar síðan. Sjálfur hef ég fylgst með störfum hans í forystu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi með aðdáun. Þegar ómálað málverk eftir Hallgrím Helgason var selt á uppboði UNICEF fyrir stórfé, var það fyrsta sem mér datt í hug: Kippir Einar i kynið enda seldi nafni hans og afi eins og kunnugt er útlendingum norðurljósin!

Jónas Haralz þekki ég ekki persónulega en þekki vitaskuld orðstír hans sem bankastjóra, efnahagsráðunauts og hugmyndafræðings. Bráðum verður enginn eftir nema Davíð, Björn, Kjartan og Ragnar Arnalds auðvitað. Veit ekki um Hannes því hann hefur ekki verið jafn mikið fjarverandi í íslenskum stjórnmálum nema síðustu mánuðina fyrir kosninga en þá er hann jafnan sendur til útlanda til að fæla ekki í burtu kjósendur.

Einar og Jónas: velkomnir um borð!

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Óbreytt ástand er ábyrgðarleysi

Gamall og góður kunningi minn skrifað mér lítið bréf og fann að skrifum mínum þar sem ég hvatti til stjórnarslita og kosninga. Mæltist honum vel að flestu leyti enda sjóaður í ölduróti stjórnmálanna.

Gagnrýni hans fólst í því að þingrofsheimildin væri í höndum Geirs H. Haarde. Í stað þess að uppskera kosningar með Evrópu-andófi gæti Samfylkingin hrökklast úr ríkisstjórn með stimpilinn "ábyrgðarlaus" á enninu og endað í stjórnarandstöðu. Geir gæti svo kippt VG upp í til sín eða frjálslyndum og jafnvel framsókn líka.

Ég var hins vegar ekki að skrifa pólitíska fréttaskýringu og minni líka á að ég sagðist telja ósennilegt að þetta gerðist.

Ég tel að hins vegar að Samfylkingin eigi að vinna að því öllum árum að knýja fram yfirlýsingu um aðild að Evrópusambandinu og nýta sér stuðning afla í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni sem leynt og ljóst styðja ESB aðild. Flokkurinn verður þó að vera undir það búinn að slíkt endi með stjórnarslitum/kosningum/nýrri stjórn.

Til hvers er Samfylkingin í pólitík? Til að vinna að framgangi hugsjóna sinna eða til að verma ráðherrastólana? Það má alveg saka mig um að vera naív en ég á enn pínulitla von um að það leynist kannski ekki hugsjónaglæður (það er til of mikils ætlast) heldur ábyrgðartilfnning hjá ráðamönnum flokksins.

Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk.

Þegar varað er við því að Samfylkingin geti hrökklast úr ríkisstjórn með stimpilinn "ábyrgðarlaus" á enninu og farið í stjórnarandstöðu, kann það vel að vera rétt og sama máli gegnir um möguleikann á að Geir slíti stjórnarsamstarfinu og biðli til stjórnarandstöðuflokkanna. Og vissulega er þingrofsheimildin i höndum Geirs.

Þetta er rétt til skamms tíma litið.

Minn góði gamli kunningi segir í bréfi sínu að Samfylkingin gæti farið halloka í stjórnarandstöðunni. Ég lít þvert á móti svo á að möguleikinn á stjórnarslitum án kosninga sé eitraður kaleikur sem Geir H. Haarde er réttur.

Geir þyrfti hins vegar að huga að eftirfarandi:

1. Gæti hann tekið á efnahagsmálum af nokkru viti með VG í ríkisstjórn og Ögmund Jónasson á handbremsunni? Hvað með álverin sem leysa eiga öll vandamál?

2. Hve lengi myndi slík ríkisstjórn halda? Eða öllu heldur hve lengi myndi Geir halda út að vera gísl Steingríms og Ömma?

3. Þætti Geir skemmtilegt að sitja uppi með ábyrgðina á landsstjórninni álverslaus á krepputímum með VG í óþökk atvinnulífsins, en Samfylkingin yrði með öll tromp á hendi í stjórnarandstöðu, fitnandi eins og púki á fjósbita?

4. Myndi Sjálfstæðisflokkurinn fara heill út úr slíku vonlausu stjórnarsamstarfi? Myndi draumur vinstri manna um klofinn Sjálfstæðisflokk og sterkan íslenskan jafnaðarmannaflokk að norrænum hætti rætast?

5. Skyldu spor Villa Vill ekki hræða? Er það víst að Samfylkingin yrði sökuð um ábyrgðarleysi?

Þetta er sú hætta sem blasir við Geir. Ef hann færi í stjórn með VG sem virðist nú meira að segja á móti EES! væri Geir að leika á fiðlu á meðan Reykjavík brynni.

Ég tel því að jafnvel að teknu tilliti til þess sem minn ágæti gamli kunningi bendir réttilega á, eigi Samfylkingin að keyra á Evrópumálinu nú í haust en hún verður að hafa í huga að slíkt kann einungis að skila árangri til lengri tíma litið þ.e. í næstu kosningum. Þrjú ár er þó ekki langur tími í pólitík.

Hinn kosturinn er sá að sitja í ríkisstjórn og aðhafast ekki neitt. Ég átta mig vel á því að það er gaman að ferðast til Dúbæ á fullum dagpeningum og láta einkabílstjóra skutla sér í vinnuna. Það er freistandi að gera ekki neitt.

Og ég skal í lokin viðurkenna að ég býst við að það verði niðurstaða málsins - í bili.

Eftir að ég skrifaði þessi orð las ég á Eyjunni að Björgvin G. Sigurðsson, sá öndvegishöldur, hefði verið í viðtali á Rás 2 í gær. Þótt ég hafi ekki hitt Björgvin í heilt ár að ég held, virðumst við vera mjög á sama máli.

Kannski að það sé ljós í myrkrinu!

Björgvin sagði samkvæmt Eyjunni. "Hann hefur trú á því að undirbúningur aðildar verði samstarfsverkefni núverandi ríkisstjórnarflokka innan skamms tíma. Þó forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi lýst sig andvíga aðild, þá hafi t.d. varaformaður hans opnað á málið með sínum hætti. Björgvin sagði þetta brýnasta verkefni stjórnmálanna. “Framtíðinni verður ekkert frestað lengi enn í þessum málum” Hvort það taki eitt, tvö eða þrjú ár að ná pólitískri samstöðu um málið þyrfti síðan að koma í ljós.
“Óbreytt ástand kann að reynast okkur erfitt innan nokkurra mánaða eða missera verði róttæk skref ekki tekin í þessu máli,” sagði Björgvin."

Svo mælir Björgvin samkvæmt Eyjunni – eins og talað út úr mínu hjarta. Og Eyjan lýgur ekki!!

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Ingibjörg Sólrún: laxinn eða teninginn?

Breski hagfræðiprófessorinn Robert Wade dregur upp dökka mynd af Íslandi í hinu virta dagblaði Financial Times. Um efni greinarinnar mætti fara mörgum orðum en ég held að greining hans sé í stórum dráttum rétt. Því miður hefur hann þó rangt fyrir sér í því að stjórnarslit séu í sjómáli.

Því miður, því Samfylkingin hefur ekki döngun í sér til þess að standa við þá stefnu sem flokkurinn hefur boðað. LSE prófessorinn segir réttilega að Samfylkingin fitni nú eins og púki á fjósbita því henni sé kennt í minna mæli um ófarir fjármálageirans en Sjálfstæðisflokknum.

Prófessorinn bendir á að vandi íslensks efnahagslífs snúist ekki síst um að Seðlabankinn og jafnvel íslenska ríkið séu ekki nægilega stór í sniðum til að vera bakhjarl fyrir fjármálageirann og skuldir landsmanna.

Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur líka leynt og ljóst á stefnuskrá sini að Ísland taki upp Evruna sem ekki verður gert á annan hátt en með inngöngu í ESB. Með því að taka upp evruna myndi íslenskt efnahagslíf og þar með bankarnir sjálfkrafa fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl. Einhliða upptaka dollarans til dæmis hefði ekki þessi áhrif.

Þótt fyrst þyrfti að taka til í íslensku efnahagslífi -sem þarf að gera hvort sem er- myndi yfirlýsing um að Ísland hygðist sækja um aðild að Evrópusambandinu strax hafa áhrif, eins og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs hefur bent á.

Fylgi við aðild að ESB hefur farið vaxandi og sama máli gegnir um upptöku Evrunnar. Samfylkingin græðir á ógöngum Sjálfstæðisflokksins en ekki VG eða Framsókn jafnvel þótt flokkurinn sé í ríkisstjórn. Það skyldi þó ekki vera samhengi?

Væri amalegt að fara í kosningabaráttu og bjóða almenningi upp á að leysa með einu pennastriki gengisvandann, lækka vexti um tíu prósent og losna við verðtrygginguna í leiðinni, með inngöngu í ESB? Að ekki sé minnst á verðlagið...

Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar hefur bent á að staða Íslands utan ESB hafi “þvingað okkur til stóriðjustefnu og torveldað atvinnuþróun okkar.” Væri það vond málefnastaða að geta boðið umhverfisvinum upp á aðild að forystuafli umhverfisverndar í heiminum?

Hvarvetna í Evrópu styður ESB við bakið á atvinnuþróun í dreifbýli með myndarlegum byggðastyrkjum meðal annars til samgöngubóta og jafnvel gangnagraftar, eins og lesa má um í Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar. Eru hér ekki sóknarfæri?

Og talandi um háttvirtan dómsmálaráðherra. Væri það Samfylkingarfólki mjög á móti skapi að efna til kosninga., ekki aðeins með stórsigur í sjónmáli, heldur hugsanlegan klofning Sjálfstæðisflokksins?

Egill Helgason segir hér á Eyjunni (á brúðkaupsdegi sínum!) að eftir kosningar hefði Samfylkingin aðeins möguleika á samstarfi við VG eða Framsókn sem væri vissulega blindgata. Brúðguminn Egill gleymir því hins vegar að ef kosið yrði um ESB myndi Sjálfstæðisflokkurinn nánast örugglega klofna.

Mér er raunar til efs að flokkurinn hefði burði til að reka kosningabaráttu eins og hann hefur gert hingað til með andstöðu við ESB að vopni á meðan nær öll samtök atvinnurekenda eru fylgjandi aðild? Hver ætti að borga brúsann?

Við Samfylkingunni blasir stórkostlegt tækifæri til að verða meginafl íslenskra stjórnmála og leika svipað hlutverk og jafnaðarmannaflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa gert um árabil.

Ingibjörg Sólrún stendur við Rúbíkó-fljót eins og Sesar forðum. Rithöfundurinn André Malraux sagði um meistara sinn De Gaulle að eitt sinn þegar hann stóð frammi fyrir stórri ákvörðun hefði hann fyllst efasemdum og rennt fyrir laxi í stað þess að leggja í ánna.

Mín skoðun er sú að teningnum sé þegar kastað, spurningin er hver ætlar að standa uppi með pálmann í höndunum.

Hvort velur Ingibjörg Sólrún laxinn eða teninginn?