miðvikudagur, 2. júlí 2008

Ingibjörg Sólrún: laxinn eða teninginn?

Breski hagfræðiprófessorinn Robert Wade dregur upp dökka mynd af Íslandi í hinu virta dagblaði Financial Times. Um efni greinarinnar mætti fara mörgum orðum en ég held að greining hans sé í stórum dráttum rétt. Því miður hefur hann þó rangt fyrir sér í því að stjórnarslit séu í sjómáli.

Því miður, því Samfylkingin hefur ekki döngun í sér til þess að standa við þá stefnu sem flokkurinn hefur boðað. LSE prófessorinn segir réttilega að Samfylkingin fitni nú eins og púki á fjósbita því henni sé kennt í minna mæli um ófarir fjármálageirans en Sjálfstæðisflokknum.

Prófessorinn bendir á að vandi íslensks efnahagslífs snúist ekki síst um að Seðlabankinn og jafnvel íslenska ríkið séu ekki nægilega stór í sniðum til að vera bakhjarl fyrir fjármálageirann og skuldir landsmanna.

Samfylkingin hefur haft á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samfylkingin hefur líka leynt og ljóst á stefnuskrá sini að Ísland taki upp Evruna sem ekki verður gert á annan hátt en með inngöngu í ESB. Með því að taka upp evruna myndi íslenskt efnahagslíf og þar með bankarnir sjálfkrafa fá Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl. Einhliða upptaka dollarans til dæmis hefði ekki þessi áhrif.

Þótt fyrst þyrfti að taka til í íslensku efnahagslífi -sem þarf að gera hvort sem er- myndi yfirlýsing um að Ísland hygðist sækja um aðild að Evrópusambandinu strax hafa áhrif, eins og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs hefur bent á.

Fylgi við aðild að ESB hefur farið vaxandi og sama máli gegnir um upptöku Evrunnar. Samfylkingin græðir á ógöngum Sjálfstæðisflokksins en ekki VG eða Framsókn jafnvel þótt flokkurinn sé í ríkisstjórn. Það skyldi þó ekki vera samhengi?

Væri amalegt að fara í kosningabaráttu og bjóða almenningi upp á að leysa með einu pennastriki gengisvandann, lækka vexti um tíu prósent og losna við verðtrygginguna í leiðinni, með inngöngu í ESB? Að ekki sé minnst á verðlagið...

Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar hefur bent á að staða Íslands utan ESB hafi “þvingað okkur til stóriðjustefnu og torveldað atvinnuþróun okkar.” Væri það vond málefnastaða að geta boðið umhverfisvinum upp á aðild að forystuafli umhverfisverndar í heiminum?

Hvarvetna í Evrópu styður ESB við bakið á atvinnuþróun í dreifbýli með myndarlegum byggðastyrkjum meðal annars til samgöngubóta og jafnvel gangnagraftar, eins og lesa má um í Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar. Eru hér ekki sóknarfæri?

Og talandi um háttvirtan dómsmálaráðherra. Væri það Samfylkingarfólki mjög á móti skapi að efna til kosninga., ekki aðeins með stórsigur í sjónmáli, heldur hugsanlegan klofning Sjálfstæðisflokksins?

Egill Helgason segir hér á Eyjunni (á brúðkaupsdegi sínum!) að eftir kosningar hefði Samfylkingin aðeins möguleika á samstarfi við VG eða Framsókn sem væri vissulega blindgata. Brúðguminn Egill gleymir því hins vegar að ef kosið yrði um ESB myndi Sjálfstæðisflokkurinn nánast örugglega klofna.

Mér er raunar til efs að flokkurinn hefði burði til að reka kosningabaráttu eins og hann hefur gert hingað til með andstöðu við ESB að vopni á meðan nær öll samtök atvinnurekenda eru fylgjandi aðild? Hver ætti að borga brúsann?

Við Samfylkingunni blasir stórkostlegt tækifæri til að verða meginafl íslenskra stjórnmála og leika svipað hlutverk og jafnaðarmannaflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa gert um árabil.

Ingibjörg Sólrún stendur við Rúbíkó-fljót eins og Sesar forðum. Rithöfundurinn André Malraux sagði um meistara sinn De Gaulle að eitt sinn þegar hann stóð frammi fyrir stórri ákvörðun hefði hann fyllst efasemdum og rennt fyrir laxi í stað þess að leggja í ánna.

Mín skoðun er sú að teningnum sé þegar kastað, spurningin er hver ætlar að standa uppi með pálmann í höndunum.

Hvort velur Ingibjörg Sólrún laxinn eða teninginn?

5 ummæli:

Magnús Þór sagði...

Hún tekur laxinn því hann getur hún étið...!

(frábær grein)

Nafnlaus sagði...

Er Gissur jarl ekki betri líking. Þau tækifæri sem þú listar upp, voru öll í Gamla sáttmála líka (styrkir, samgöngur, stuðningur etc.). Að það að standa utan ESB þvingi okkur til stóriðju!!! Give me a f*** break einsog krakkarnir segja.
Þórður

Nafnlaus sagði...

Eihver sagði forðum ,,Þetta mun ég allt gefa þér, ef þú aðeins leggst a´hnéin og tilbiður mig einusinni"

Við sannir íslendingar förum EKKI á skeljarnar og krjúpum einhverjum víxlurum í Evrópu, mis miklum Júðum.

Lestu maður minn sálma Hallgríms sæla.

Svo þetta með vexti, vertryggingu og annað. Það er hægt að gera með einu pennastriki, með lagasetningu og þannig föstum vöxtum og banni við verðtryuggingu. Allt er þetta í okkar eigin höndum, þurfum ekki skítugar krumlur útlendra til að afnema vaxtaokur.

Miðbæjaríhaldið

Bjössi sagði...

Stafsetning!!!

Nafnlaus sagði...

Hun er sennilega of mikil skraefa til ad leggja a vadid.

Enda yrdi rikisstjorn undir hennar forystu jafnspillt og vanhaef eins og stjornir Davids, Halldors og Geirs. Munurinn yrdi adallega sa ad nyjir einkavinir kaemust ad bordinu.

sveinn