mánudagur, 7. júlí 2008

Inn í mér syngur vitleysingur

Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá Sigur Rósar-flokkinn leika og syngja tvisvar á aðeins einni viku – og það eru sannkölluð forréttindi. Í fyrra skiptið léku þeir á Náttúru hátíðinni í grasagarðinum með Björk Guðmundsdóttur og í seinna skiptið á Werchter-hátíðinni hér í Belgíu með Radiohead. Ekki slæmt kompaní!

Sigur Rós er að þróast í mjög skemmtilega átt, ekki síst sem tónleikasveit. Það vildi svo heppilega til að þegar ég kom inn á tónleikasvæðið á Werchter, heyrðust fyrstu tónarnir í Svefn-g-englum og við blasti fiðraður Jónsi á risaskjá. Ég fékk gæsahúð þegar ég heyrði hljómborðið og röddina einstöku: “Ég er kominn aftur....”.

Tónleikarnir sýndu og sönnuðu að Sigur Rós er jafngóð ef ekki betri á útivelli en heimavelli og vissulega var hljómburðurinn talsvert betri en í rokinu í Laugardalnum. Strengjasveitin og blásararnir eru bæði góð viðbót við þétta sveit og þar að auki mikið augnayndi.

Sama má segja um lúðrasveitina Wonderbrass sem lék (blés) við hvern sinn fingur með Björk í Laugardalnum. Það var raunar kímið að fylgjast með sjónrænu samspili Jónasar Sen sem lítur út eins og strangur yfirkennari og skvísnanna (ó þér íslenskar beygingar!) í Wonderbrass með öllu sínu æskufjöri.

En þarna er einmitt snilligáfa Bjarkar. Hún er ekki einungis ein besta söngkona heims og performer af Guðs náð. Hennar nec plus ultra er einmitt að sækja hluti í ólíka menningarheima eða tónlistarstefnur og blanda þeim saman eða stilla þeim upp hlið við hlið.

Rétt eins og klassísk tilþrif Jónasar á píanóinu og harpsíkordinu, blönduðust raftónlistinni og Wonderbrassinu; var sjónræn útfærslan skemmtilegt sambland af suður-amerískum og jafnvel japönskum áhrifum. Eða er það út í hött að fánum prýdd Wonderbrössin hafi minnt á samuræja-riddara í myndum Kúrosava?

Björk endurnýjar sig stöðugt og sumar útsetningarnar á tónleikum hennar voru að mínu mati talsvert betri en á Voltu sem þó er aðeins eins árs gömul.

Björk og Sigur Rós eiga líka sameiginlega einlægni og augljósa ánægju af listsköpun sinni.
Sigur Rós var næst stærsta nafnið á laugardagskvöldi og lék á undan Radiohead á Werchter sem er ein af stærstu rokkhátíðum Evrópu.

Radiohead lék af miklum krafti, hljómburðurinn var eins og best verður á kosið og ljósasjóvið magnað. Mörg laganna betri en í original. En Radiohead skorti eitthvað sem íslensku sveitirnar höfðu. Var það einlægni og leikgleði?

Ég er vissulega hlutdrægur sem stoltur landi þessara ágætu listamanna. Og ég neita því ekki að það eru mikil forréttindi að geta sungið með Sigur rós af öllum lífs og sálar kröftum vitandi að að enginn skilur þegar ég æpi upp í eyrun á næsta manni í troðningnum fyrir framan sviðið: “Inn í mér syngur vitleysingur! ” Hættan væri nefnilega sú að fólkið í kring gæti verið mér hjartanlega sammála!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var þarna líka, þ.e. á Werchter, og tek undir þessi orð. Sigur rós voru magnaðir.

kk.,
Sigfús