fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Björgvin G,klappstýrurnar og Kína

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sýndi og sannaði að hann er alvöru stjórnmálamaður með því að taka á móti sendinefnd frá Dalai Lama í gær á sama tíma og flestir aðrir stjórnmálamenn íslenskir reyndu hver um annan þveran að nýta sér árangur íslensks handbolta á Ólympíuleikunum í pólitískum tilgangi.

Björgvin er eini íslenski stjórnmálamaður sem hefur haft bein í nefinu til þess að standa uppi í hárinu á kínverskum yfirvöldum og taka mannréttindamál til umfjöllunar á fundum sínum með Kínverjum.

Frammistaða Björgvins er til fyrirmyndar, ekki síst þegar borið er saman við það skjall og undirlægjuhátt sem forseti Íslands gerir sig sekan um í hvert skipti sem hann hittir forseta Kína. Ólafur kiknaði í hnjánum að vanda þegarhann hitti forseta Kína í síðustu Ólympíuleika-heimsókn sinni og hlóð Hu Jintao , fyrrverandi ofsækjanda Tíbeta sem oddviti kommúnista í Tíbet, svo miklu lofi að engu líkara en forsetinn vilji helst að Ísland gangi í sjálft alþýðulýðveldið.

Af einhverjum ástæðum ætlast enginn til þess af Þorgerði Katrínu að hún hafi skoðanir á Kína, enda “bara” varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Sjálf virðist hún láta sér nægja það hlutskipti að vera klappstýra lýðveldisins- í harðri baráttu þó við títtnefndan Ólaf Ragnar.

Óneitanlega er illa komið fyrir ágætum stjórnmálamönnum að í stað þess að stunda alvöru stjórnmál skuli þeir nú leggjast svo lágt að keppast um að reyna að ræna sviðsljósinu frá okkar frábæru handboltamönnum.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja handboltann um fimmtíu milljónir. Síðast þegar fréttist hafði Þorgerður Katrín eytt fimm milljónum í flandur sitt til Kína og þurfti nauðsynlega að hafa eiginmanninum, ráðuneytisstjóranum og maka beggja með. (Ekki er reyndar búið að reikna allan dvalarkostnað inn í töluna. Gleymum ekki að dagpeningana fá ráðherra og forsetinn beint í vasann því allur kostnaður er borgaður.

Ferðakostnaður Ólafs Ragnars og Dorritar og fylgdarliðs er svo tæpast minni en Þorgerðar Katrínar og Kristjáns Ara og sama gegnir með dagpeninga þeirra – beint í vasann.

Þetta er sennilega á við 20% af silfurfé handboltans.

Þorgerður Katrín og Kristján Ara, Ólafur Ragnar og Dorrit kunna ágætlega að styðja okkar stórasta land í orði en hvernig væri að þau létu sína ferðahvetjandi dagpeninga renna í silfursjóð til að styrkja handboltann.

Spyrjið launalausa áhugamenn hvort þeir gætu ekki lyft grettistaki fyrir bara brot af því fé sem það kostaði að senda klappstýrurnar til Kína.

föstudagur, 22. ágúst 2008

Skattfrjálst helgarstuð

Ég horfði á íslenska landsliðið vinna það spænska og komst að sjálfsögðu í hið besta skap.

Örugglega margir sem ætla að fagna sigri í kvöld – ég er 2 tímum á undan hér í Brussel þannig að nú er skammt í að ég fái mér glas af appelsínudjúsi til að gera mér dagamun.

Mæli með nokkrum linkum á youtube svona sem skattfrjálsu helgarstuði.

Handbolti er alþýðleg íþrótt og það er Bruce Springsteen líka. Fyrir þá sem eru ekki þegar komnir í gott skap við að horfa á Ísland vinna, er alveg nóg að horfa á hann með eighties ennisbandið og konu hans Patty með grifflurnar í þessu lagi hérna:

Kíkið á þetta: http://www.youtube.com/watch?v=K2eE9H7Nzww&feature=

Þetta er lagið Trapped eftir Jimmy Cliff. Og svona spilaði Cliff það hjá David Lettermann hérna um árið.

http://www.youtube.com/watch?v=fRge7lXu56E

Bruce Springsteen sýnir hins vegar og sannar að með eða án ennisbands er hann magnaður flytjandi og hann túlkar lagið á þann tregafulla hátt sem því sæmir enda kannski ekki búinn að reykja jafn margar jónur og Jimmy Cliff.

Eða hvernig er hægt að sjá ekki blúsinn í lagi með svona texta:

Well it seems like I’m caught up in your trap again/ And it seems like I’ll be wearin’ the same ol’ chains/ Well it seem like I’ve been playin’ the game way too long/ And it seems the game I played has made you strong/And now I’m trapped...
(http://www.asklyrics.com/display/Bruce_Springsteen/Trapped_Lyrics/203183.htm)

En síðan er það 2008 útgáfan sem er lang best. Ég fæ enn gæsahúð við að rifja upp flutning hans á þessu lagi í Antwerpen nú í sumar. Brúsi batnar með árunum eins og fransk eðalvín. Og talandi um það: Til hamingju Ísland og góða helgi. Ég er farinn á næsta djússtað.

http://www.youtube.com/watch?v=-kj_mFDaTm8&feature=related

fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Laxveiðiferðir skattskyldar

Mér flaug í hug að hringja í skattstofuna í dag og spyrja þeirrar einföldu spurningar: ber að greiða skatt af boði í laxveiðiferð?

Svar: skattstofunnar já, það bera að telja slíkt fram í liðinn aðrar tekjur.

Nú hljóta fjölmiðlar að fylgja málinu eftir og spyrja Björn Inga Hrafnsson og Vilhjálm Vilhjálmsson að því hvort þeir hafi talið fram og borgað skatt af þriggja daga laxveiðitúrnum sem þeir fóru í á síðasta ári í boði Baugs... úps ég meina Hauks Leóssonar.

Auðvitað dettur mér ekki í hug annað en allir bankastjórarnir og forstjórarnir sem bjóða hverjum öðrum í lax á hverju sumri fyrir hundruð þúsunda króna í hvert skipti telji slíkt fram.

Og dettur virkilega einhverjum í hug að sjálfur þáverandi fjármálaráðherra Geir H. Haarde hafi ekki talið fram sína frægu laxveiðiferð í boði Kaupþings sumarið 2003?

Nei, auðvitað ekki, að skattmanna hafi ekki talið allt fram til skatts? Geir grandvari? Nei getur ekki verið enda teldist slíkt til tíðinda. Og auðvitað fara fjölmiðlar ekki að spyrja Geir, Vilhjálm, Björn Inga og Hauk og alla bankastjórana um það hvort þeir hafi borgað skatt. Slíkt væri bara hnýsni og dónaskapur.

PS Ef einhver skyldi ekki hafa séð post scriptum við síðustu færslu mína um frettir.com, þá skal því haldið til haga að Steingrímur Sævarr Ólafsson kannast ekki við að hafa ofsótt Stöð 2 á sínum tíma í skrifum sínum, heldur hafi hún verið svo mikill fréttamatur. Útaffyrir sig dreg ég það ekki í efa!

Ennfremur er hægt að finna slóðina á frettir.com og er það vel. Hafa ber það sem sannara reynist og í leiðinni sendi ég bestu kveðjur til Steingríms í Skaftahlíðinni.

Frettir.com: In memorian

Vilhjálmur Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Guðlaugur Þór Þórðarsson segjast ekki hafa haft hugmynd um að Baugur hefði haft laxveiðiá á leigu; þeir hafi þegið boð um laxveiði hjá Hauki Leóssyni, þáverandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur.


Guðlaugur Þór segist hafa endurgreitt Hauki kostnaðinn og hlýtur því að hafa talið óeðlilegt að þiggja slíkan greiða. Þar með hefur Guðlaugur Þór óneitanlega sett Vilhjálm og Björn Inga í mjög erfiða stöðu.

Trúðu forseti borgarstjórnar, heilbrigðisráðherra og leiðarahöfundur Fréttablaðsins að Haukur Leósson borgaði þetta úr eigin vasa?

Þetta eru áleitnar spurningar. Ástæða er til að hrósa Fréttablaðinu og Vísi.is fyrir að taka þetta mál upp og jafn undarlegt að Morgunblaðið þegir þunnu hljóði.

Sama gerir Stöð tvo. Að nefna laxveiðiboð til ráðamanna hefur lengi verið eins og að nefna snöru í hengds manns húsi þar á bæ. Ég hef prófað það á eigin skinni.

Heilli vefsíðu var raunar haldið úti í þeim eina tilgangi að koma höggi á Stöð 2 fyrir fimm árum og þar var fjallað af mikum áhuga sumarið 2003 um þá staðreynd að forsvarsmenn stöðvarinnar stöðvuðu birtingu fréttar um laxveiðar Geirs H. Haarde i boði Kaupþings.

Á vefsíðunni frettir.com voru birtar daglegar fréttir af ágreningi á Stöð 2 um birtingu fréttarinnar um laxveiðina.

Umsjónarmaður vefsíðunnar var minn góði gamli vinnufélagi, Steingrímur Ólafsson, fréttastjóri Stöðvar 2 og fyrrverandi blaðafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar í aðstoðarmannstíð Björns Inga Hrafnssonar.

Áhugi Steingríms á laxveiðiferðum ráðamanna hefur minnkað að því er virðist í takt við aukinn áhuga Björns Inga á stangveiðum – í boði annara.

Leitt ef Steingrímur fjallar ekki um málið því ekki mun Markaður Fréttalblaðsins gera það.

Og verst að frettir.com lifa einungis í minningu aðdáenda Steingríms, því hann hefur eytt efni hennar. Leiðinlegt því undirmenn Steingríms vinar míns hefðu getað lært mikið af umfjöllun hans á sínum tíma sem einkenndist af næmum skilningi og tilfinningu fyrir þeim fjölmörgu siðferðilegu og pólitísku álitamálum sem upp koma þegar ráðamenn þiggja boð um rándýrar laxveiðiferðir í boði einkafyrirtækja.

PS Fátt gleður hjarta bloggara jafn mikið og þegar skrif manns bera tafarlausan árangur. Í athugasemd við þessa færslu kemur fram að hægt er að nálgast frettir.com á netinu. Þetta er mikið ánægjuefni fyrir alla aðdáendur Steingríms Sævarrs Ólafssonar. Þykir mér ekki ólíklegt að teknir verði upp húslestrar úr þessu efni á fréttastofu Stöðvar 2.

Og ég er viss um að ef Sigurðar G. Guðjónssonar nyti enn við á Stöð 2 tæki hann líklega í að gefa þetta efni út. Maður hefði nú átt að geta sagt sér sjálfur að þetta kæmi í leitirnar, því þegar Stöð 2 er annars vegar má alltaf stóla á Steingrím!