fimmtudagur, 22. október 2009

Björn il-sung

Fyrir nokkrum árum kynntist ég ágætum skopteiknara þegar ég var við störf í Kosovo. Ég bað hann að gamni mínu að teikna skopmyndir af nokkrum Íslendingum með það fyrir augum að virkja hann á íslensku blaði.

Skemmst er frá því að segja að hann hafði ekkert nema ljósmyndir til að fara eftir og því var árangurinn misjafn. Honum yfirsást grallarinn og spéfuglinn sem bærist í Össuri, Steingrímur Joð leit út eins og páfinn og teiknarinn taldi Davíð Oddsson bersýnilega vera kandídat í að leysa Michael Jackson af hólmi í Jackson five!

Í fyrstu fannst mér honum ekki takast vel upp með Björn Bjarnason, því ég sá ekki betur en hann hefði farið mannavillt og teiknað mynd af Kim Il-Sung.

En því lengri tími sem líður, því betur sé ég að skopteiknarinn Spendh vinur minn Kadar hitti beint í mark.

Í Birni bærist nefnilega Kim.

Björn mótast af sínum aðstæðum og rýkur ekki upp til handa og fóta og smíðar kjarnorkuvopn og handtekur andstæðinga. Að sjálfsögðu ekki. Hann er lýðræðisútgáfan af Kim.

Kim Il-Bjarnason er mótaður af sínu nánasta umhverfi og verður því að láta sér nægja að horfa með flokksgleraugum á mannlífið og sjá fjandann í hverju horni og ráðast af heift og ósanngirni á alla þá sem hafa minnstu tilburði til að hafa aðrar skoðanir en hann.

Og hann og félagr hans í svörtu klíkunni kunna þá list manna best að hóta mönnum, refsa og hræða. Þjóðhagsstofnun steig feilspor og var lögð niður. Eru allir búnir að gleyma þvi rökstuðningurinn var ma. sá að greiningardeildir bankanna hefðu tekið við hlutverki henni.

Það voru ár óttans þegar svartaklíkan var við völd.

Það er nefnilega sama eðli í öllum ofstækismönnum þótt stigsmunurinn kunni að vera mikill.

Davíð vinur hins íslenska Kims var nýverið skipaður ritstjóri Morgunblaðsins. Persónulega hef ég ekkert við það að athuga. Eigendur Morgunblaðsins hafa fyllsta rétt til þess að fara með eign sína eins og þeim sýnist. Þeir hafa engum lagalegum skyldum að gegna við almenning í landinu.

Útaf fyrir sig má hins vegar setja pólitísk og siðferðileg spurningarmerki við ráðningu Davíðs, en í mínum huga er aðalatriðið viðskiptalegs eðlis.

Er það skynsamlegt bisnessmódel að þrengja markhóp blaðsins úr því að vera blað allra landsmanna í að vera blað flokksbrots lengst á hægrivæng Sjálfstæðisflokksins?

Hvort var betri söluvara Mogginn eða Þjóðviljinn?


Björn krefst þess að Agli Helgasyni, virtasta og vinsælasta sjónvarpsmanni Íslendinga á síðari árum verði sagt upp störfum.


Nú er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því að Davíð Oddsson fái á seinustu árum starfsævi sinnar að kynnast því hvernig er að starfa hjá einkaaðila. Verst að Hannes Hólmsteinn hefur aldrei kynnst því.

Morgunblaðið hefur fyllsta rétt til að ráða Davíð Oddsson.
Ríkissjónvarpið hefur líka fyllsta rétt til að ráða Egil Helgason.

Davíð Oddsson hefur fyllsta rétt til að tjá skoðanir sínar.
Það hefur Egill Helgason líka.

Munurinn á þeim tveimur er hins vegar sá að Egill er betri markaðsvara en Davíð.

Ég hélt að markaðurinn hefði aldrei rangt fyrir sér. Eða var það ekki Hannes?

Það hentar andstæðingum Sjálfstæðismanna vel að reyna að gera sem mest úr markaðshyggju þeirra. Staðreyndir um skattlagningu og - vel að merkja - útgjöld til velferðarmála segja hins vegar aðra sögu.

Ég held að þegar upp er staðið muni sagan ekki minnast svörtu klíkunnar fyrir ómengaða frjálshyggju heldur fyrir stjórnlyndi, spillingu, sérgæsku, handahófskennda ákvarðanatöku og svo hóflausa foringjadýrkun að fá dæmi eru um í lýðræðislegum þjóðfélögum.

Það bærist nefnilega lítill Kim í fleirum en Birni Il-Sung.

sunnudagur, 6. september 2009

Hótel Kalifornía

Sá Eyverji sem hér heldur á penna þóttist hafa forframast allnokkuð á dögunum þegar ég var í sendinefnd embættismanna Sameinuðu þjóðanna sem sótti Norðmenn heim. Ekki laust við að mér þætti hagur Strympu hafa vænkast allnokkuð þegar við gengum á fund Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.

Auðvitað var ég ekki viðstaddur fund framkvæmdastjórans og forsætisráðherrans enda bara lítið tannhjól í stórri vél og þurfti að drepa tímann fram að blaðamannafundi með því að skoða ljósmyndir og málverk, þar til ég var ávarpaður og spurður hvort ég væri blaðamaður. Kvað ég já við – og var umsvifalaust vísað á dyr fyrir að vera að þvælast þar sem blaðamenn áttu ekkert erindi!

Einu sinni blaðamaður alltaf blaðamaður. Við þekkjumst greinilega úr og ég er sannfærður um að það hafi ekki verið bara vegna þess að jakkafötin mín voru eins og ég hefði sofið í þeim!

Fyrrverandi yfirmaður minn í fréttamennsku, sótti á tímabili á önnur mið og sagði mér að innst inni væri blaðamennska eins og sjúkdómur eða eiturlyf: í raun og veru litum við niður á flest önnur störf. Ég sagði félaga mínum hér í Brussel þessa sögu og hann botnaði hana með þvi að segja að já auðvitað væru blaðamenn svo stoltir af sannleiksleit sinni.

Kannski einhverjir, en ég held að það sé ekki málið. Þetta er starf sem skilar mjög konkret árangri: fréttin sem er birt að loknum vinnudegi er áþreifanleg og er svo vegin og metin. En kannski er þetta einfaldlega adrenalín kikk eins og að þeysast um á mótorfák svo vitnað sé í höfuðskáldin í HLH flokknum.

Og sjúklingurinn eða fíkillinn er eins og alkóhólistinn, blaðamaður að eilífu alveg sama hvað hann gerir. Ég þekki “fyrrverandi” blaðamenn frá mörgum löndum, td. Íran og Sierra Leone og það er eins og við manninn mælt að í samtölum berst talið að “okkur” og “hinum”; hvernig við hugsum og hvernig HINIR hugsa. Og hvernig ÞEIR skilja okkur ekki.

Tilbrigði við stefið "Þetta eru asnar, Guðjón."

Eagles voru svo sannarlega ekki að syngja um blaðamennsku í laginu Hotel California en niðurstaðan er sú sama.

“You can check out anytime you like, but you can never leave.”

PS Takk Jón Óskar.

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Blaðamenn til sölu

Gamall félagi í blaðamennskunni sem hefur snúið sér að almannatengslum, ( líkt og ég) , Atli Rúnar Halldórsson fer mikinn á blogginu sínu.

Hann fylltist heilagri reiði yfir því að fjölmiðlamönnum hafi yfirsést að Sigmundur þingmaður Ernir hafi verið að snafsa sig í boði MP banka áður en hann steig hreyfur að víni- að þvi er virðist- í ræðustól á Alþingi.

Atli Rúnar skrifar:

"þykir nefnilega sjálfsagður hlutur að þingmenn séu á golfmóti banka eða hvað? Hvers vegna var Sigmundur Ernir þarna? Voru þingmenn úr fleiri flokkum á þessu bankamóti? Mig rámar í að Jóhanna Sigurðardóttir hafi mikið spurt um laxveiðiferðir á þingi hér á árum áður. Nú mætti spyrja um golf."

Nú vill svo til að Atli Rúnar var þingfréttaritari Ríkisútvarpsins hljóðvarps um árabil. Raunar svo lengi að hann var fastagestur í þingveislum sem var gagnrýnt harkalega innan stofnunarinnar.

Og ætlar Atli Rúnar að segja mér að hann hafi aldreis áður séð þingmann fullan í ræðustól?

Og ætlar almannatengillinn sem býður hverjum sem er þjónustu sína við vægu gjaldi, að hneykslast á þingmanninum?

Atli minn, við vitum ekki nema að einhver sé að borga þér fyrir að hamra á Sigmundi! Þú ert jú til sölu.

Við getum aldrei verið viss um að þú sért ærlegur í einu eða neinu, því einn daginn ertu á launaskrá Alcoa´og hinn á launaskrá einhvers þaðan af verri.

Atli Rúnar, ég held að þér farist ekki einu sinni að gagnrýna fulla þingmenn.

Og reyndar er það svo að það rifjast upp fyrir mér að það heyrðist hvorki hósti né stuna frá þér þegar Kaupþing og Stöð 2, stunduðu nornaveiðar sínar og leituðu að uppljóstrara í sínum ranni vegna frétta af laxveiðum Geirs Haarde í boði Kaupþings?

Hvers vegna þagði samviska íslenskrar blaðamennesku þá?

Simmi á 10. glasi væri betri

Öfugt við Björn Bjarna og Exista-Lýð hef ég ekkert á móti hálf eða alnafnlausum bloggurum og hér svara ég tveimur:

Teitur, Churchill vann síðari heimstyrjöldina sauðdrukkinn.

Fóstra, ég er ekki að segja hvað sé æskilegt, heldur einfaldlega hvernig raunveruleikinn er.

Ef þið viljið kjósa stjórnmálamenn sem ekki drekka, þá fáið þið Árna Johnsen og Kjartan Gunnarsson og í viðskiptalífinu Jóhannes í Bónus og Björgólf Guðmundsson.

Simmi á tíunda glasi væri skárri en þeir.

Eru það ekki bara rónarnir sem koma óorði á brennivíni?

Ótrúleg hræsni

Umræða um meinta ölvun Sigmundar Ernis Rúnarssonar í ræðustól á Alþingi einkennist af mikilli hræsni.

Gott og vel Sigmundur var ekki allsgáður en ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég frétti af þingmönnum og ráðherrum að skandalísera á fylleríum innanlands sem utan á mínum blaðamannaárum. Ég hef ekki tölu á þeim stjórnmálamönnum sem verið hafa undir áhrifum áfengis í viðtölum hjá mér.

Íslendingar eru drykkfelld þjóð og ekkert skrítið að þingmenn séu það líka. Margir þingmenn skreppa á Vínbarinn eða Borgina og hressa sig við fyrir kvöldumræður.

Einn fyrrverandi ráðherra var alræmdur fyrir að halda sér að mestu þurrum á Íslandi en var oftast fullur erlendis, lagðist þá í síma og skammaðist út í allt og alla – einkum blaðamenn sem hann vildi láta reka.

Vandinn var hins vegar ekki sá að hann væri fullur, heldur hvað hann gerði þegar hann var fullur. Sama gildir um Sigmund. Ég get ekki annað en tekið undir orð Jónasar Kristjánssonar um meinta ölvun Sigmundar Ernis Rúnarssonar: “Tek einn drukkinn þingmann, sem fer með rök, fram yfir tíu þingmenn, sem flissa og skríkja eins og skólapíkur.”


Málið er nefnilega að margt var vel sagt í ræðum Sigmundar þetta kvöld, þótt vissulega hafi hann misst tökin á efninu þegar á leið. Áfengisneysla hefur vafalaust eitthvað spilað þar inn í.


Og gleymum því ekki að sá stjórnmálamaður á alþjóðavísu sem gagnrýndur hefur verið hvað harðast fyrir að koma fram opinberlega undir áhrifum er Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti.

Sarkozy er bindindismaður.

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Á miða aðra leiðina til Færeyja

Er í alvöru betra dæmi um geðbilun þess samfélags sem Davíð, Hannes og Kjartan stofnuðu en Magnús Kristinsson auðjöfur úr Eyjum?

Magnús fékk kvótann gefins. Hann fékk 50 milljarða lánaða hjá La ndsbankanum sem Davíð og Kjartan gáfu Bjöggunum. Það voru ekki einu sinni veð í gjafakvótanum.

Allan þennan tíma barðist Eyjamaðurinn Magnús fyrir því að ríkið léti grafa göng fyrir hann og aðra Eyjamenn, jafnvel þótt það kostaði tugi milljarða. Honum var svo misboðið þegar ekki þótt tilefni til að leggja í þá fjárfestingu að hann keypti sér þyrlu.Hann varð svo að skipta yfir í einkaflugvél í félagi við aðra, þegar upp komst um strákinn Tuma.

En það var ekki nóg til þess að hann sætti sig við hlutskipti annara Eyjamanna þegar að samgöngum kemur: Hann - nánast gjaldþrota fyrrverandi þyrlueigandinn- keypti sér flugvél eins og aðrir kaupa sér karamellur.

Maðurinn sem ekki þarf að leggja neitt af gjafakvótanum upp í 50 milljarða skuld sem núlifandi Íslendingar þurfa að borga fyrir hann. Og afkomendur þeirra.


Magnús barðist harðri baráttu í félagi við menn eins og Árna Johnsen fyrir því að boruð yrðu göng frá landi til Eyja.

Enda af hverju ætti honum að þykja sú fjárhæð há, þegar hann fékk svipaða upphæð lánaða í Landsbankanum þar sem hann var stór hlutfhafi, til kaups á einskisverðu drasli með ónothæfum eða engum veðum?

Mesta furða að hann hafi ekki fengið lán í Landsbankanum til að bora göng til Færeyja og ganga í það eyjasamband!! Og þó ekki sé hægt að kenna Magnúsi um allt, má spyrja þeirrar spurningar hvað hefði verið hægt að grafa göng langt fyrir alla peningana sem við Íslendingar þurfum að borga fyrir einkavæðingu bankanna?

Ég kann varla að reikna tvo plús tvo, en hefðum við getað grafið göng í austur frá Vestmannaeyjum, yfir Atlantshafið og Kyrrahafið og loks komið til Reykjavíkur vestanmeginn? Er þessi hugmynd eitthvað meira rugl en the KAUPTHINGKING?


Nú berst Magnús á tveimur vígstöðvum: annars vegar fyrir því að skuldir hans verði afskrifaðar eða fyrndar og hins vegar gegn því að kvótinn sem honum var gefinn fyrnist eða verði afskrifaður.

Það á sem sagt að afskrifa skuldirnar en ekki eignirnar. Sem hann fékk ókeypis.

Af hverju gefum við Magnúsi ekki bara miða aðra leiðina til Færeyja? Hann hefur áður fengið lánað álíka fé og myndi kosta að grafa göng þangað.

Má ég leggja til að hann taki Árna Johnsen með sér – á þessum one way miða?

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Að mála bæinn rauðan eða húsin

Nýlegar frásagnir um að hús útrásarvíkinga hafi verið máluð rauð þykja eðlilega fréttnæmar. En er hin raunverulega frétt ekki sú að menn á borð við Sigurð Einarson og Björgólf Thor skuli enn eiga húsnæði og Hummer-bíla á Íslandi eftir að þeir hafa sett alla nágranna sína og afkomendur þeirra á hausinn?

Meiðar Hrár – afsakið Hreiðar Már, fyrrverandi Kaupþingsforstjóri komst upp með það í viðtali nýlega að segjast ekki þurfa að biðja neinn afsökunar, jafnvel þótt öllum sé ljóst (nema spyrlinum í sjónvarpsþættinum), að Kaupþing var ein allsherjar svikamylla þar sem allt gekk út á að kjafta upp gerfi gróða í formi útbólgins hlutabréfaverðs og þeim frændum öllum, EBITU, eigið fé og hvað allt þetta KAUPTHINKING hét á KAUPSPEAK.

Enda af hverju ætti Hreiðar að þurfa að biðjast afsökunar á hlut sínum í að setja íslensku þjóðina á hausinn?

Ó þetta fólk er svo móðgunargjarnt!

Er ekki Jonni á lyftaranum og almennir starfsmenn á gólfi ekki óþarflega hörundsárir út í hann fyrir að taka stöðu gegn krónunni á sama tíma og bankinn hans hvatti Jonna og Siggu í afgreiðslunni til að taka gengislán?

Eða ég meina orðstír Íslands sem hefur hvorki verið í Úrvalsvísitölunni né á Nasdaq? Altso, var þetta ekki bara deildin hans Ólafs Ragnars? Var ekki Örnólfur Thors búinn að teika kjer of ðis stöff? Þetta hvað það heitir.... eitthvað með Orðstír sem lifir að eilífu...

Að ekki sé minnst á ósvífnina í íslenskum blaðamönnum að fetta fingur út í að Kampavínsklúbbur the Icelandic Viking WAGS (Wifes- and-girlfriends) , skuli halda í sólarlandaferð til Arabaríkja til að fá sér afréttara eftir útrásarfylleríið?

Altso, þekkir íslenskur almenningur ekki hvað menn (konur) geta verið timbraðar eftir kampavínsdrykkju?

Má nú ekki mála barina í Dúbæ og allan þann bæ rauðan, á meðan eiginmennirnir eru uppteknir við að hylja slóðina, ha? Hvernig er þessi heimur að verða?

Og Björgólfur Thor þarf auðvitað ekki að biðjast afsökunar á að hafa farið ránshendi um sparisjóðsbækur Breta og Hollendinga og kært sig kollóttan um að íslenska þjóðin í þriðja lið þurfi að borga skuldirnar.

Honum til hróss má þó segja að hann sýndi þá þjóð(f)rækni að taka upp merki forfeðra okkar Víkinganna og fara rænandi og ruplandi um Bretlandseyjar og nágrannasveitir. Að mála Hummerinn hans rauðan, hvers lags fólk er þetta eiginlega? Hann sem setti bara íslensku þjóðina á hausinn?

Vissulega fór stór hluti þessa (ráns)fjár til Íslands, eins og gamli Bjöggi hefur hamrað á. Já það er rétt hjá gamla séntilmanninum og hvers manns hugljúfa að fénu var til dæmis varið í að fjármagna þyrlukaup og brask Magnúsar Eyjamanns Kristinssonar.

-Þvi hvað er sægreifi án þyrlu?

Nú veit ég ekki hvort hús (í fleirtölu) Magnúsar hafa verið máluð rauð. Hins vegar er staðreyndin sú að þessi ágæti sægreifi og máttarstólpi íslenskra útgerðarmanna er eftir öllum sólarmerkjum að dæma gjaldþrota persónulega og skuldar Landsbankanum 50 milljarða - í gegnum pappírsfélög- án þess að nokkrar eignir komi á móti.

Hugsið ykkur: Magnús getur enn farið til Reykjavíkur og eytt því fé sem hann fékk gefins í gegnum kvótann og margfaldaði í gegnum einkavinavæðingu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrimssonar, án þess að nota þær samgöngur sem Eyjamönnum standa til boða.

Gjaldþrota maðurinn gat sem sagt keypt sér einkaflugvél - í félagi við aðra. Þegar vondu kommarnir tóku af honum þyrluna. Hugsið ykkur mannvonskuna.

Niðurstaðan er hins vegar su að á meðan deilt er um hvað göng til Eyja kosta, þarf auðmaðurinn ekki að hafa neinar áhyggjur af því að fá far með stopulum ferðum flugfélagsins eða Herjólfs.

Bíddu, var þessi maður ekki kostunarmaður á bakvið bjartýnisspá Árna Johnsen og félaga um að það mætti bora göng til Eyja? (Af hverju geta þeir ekki bara borað göng til Færeyja?)

Allavega þegar Magnús fer til Reykjavíkur til að mála bæinn rauðan og eyða kvótagróða sínum sem liggur óhreifður í hans sægreifahirslum, þarf hann núorðið að - haldið ykkur fast-- að fljúga í einkaflugvél en ekki í einkaþyrlu!

O tempora O mores, þvilíkir tímar þvilikir siðir, sögðu latínugránar hér í eina tíð.

Er einhver furða að menn máli hús slikra manna rauð, sem mála bæinn rauðan eins og ekkert hafi í skorist, án þess að sæta ábyrgð?

Og í raun máluðu þeir ekki bara bæinn rauðan, heldur landið rautt og kannski heiminn líka í félagi við XIV. Alþjóðasamband braskara. Það verður langt þangað til – því miður – að einkaframtak njóti sannmælis hvort heldur sem er á Íslandi eða á alþjóðavettvangi, eftir einkavinavæðinguna og gróðærið sem sigldi í kjölfarið í boði Daviðs, Kjartans og Hannesar.

Einu sinni var sagt að sá sem væri ekki rauður á unglingsárum hefði ekki hjarta; en sá sem yrði ekki blár með aldri og reynslu, hefði ekki heila.

Ég veit ekki hvaða svar við höfum við þessu í dag; eina sem ég veit að það eru ansi margir landar mínir sem virðast hvorki hafa heila né hjarta.

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Að blogga eða grilla á kvöldin

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor hefur fyllst miklum áhuga á heimildanotkun bloggara og blaðamanna á síðustu misserum. Undanfarnar vikur hefur hann þrásinnis krafið Karl Th. Birgisson, ritstjóra Herðubreiðar um að hann sýni fram á með tilvitnun í heimildir að prófessorinn hafi sakað Samfylkinguna um að þiggja fé af Baugi.

Enn ryðst Hannes fram á ritvöllinn og vegur að meintum heimildafúskurum. Að þessu sinni er það Guðni Elísson sem Hannes beinir spjótum sínum að en þeir áttu í ritdeilu um loftslagsmál. Og síðan er það garmurinn ég.

Hannes virðist þurfa að sannfæra sjálfan sig og lesendur um að það sé orðum á mig eyðandi því hann skrifar: "Það er auðvitað ekkert stórmál, hvað Árni Snævarr bloggar á kvöldin og næturnar. En hann er þó aðsópsmikill í umræðum og einn af föstum höfundum á eyjan.is."

(Það er engu líkara en Hannes hafi farið í einkatíma hjá háttvirtum þingmanni Margréti Tryggvadóttur í að dylgja um mannlegan breyskleika hjá þeim sem hann telur andstæðinga sína, en sleppum því.) .

Nú er það svo að þótt sumir hafi hér í eina tíð, “grætt á daginn og grillað á kvöldin,” þá þurfa sumir að vinna launavinnu og hafa lítinn sem engan tíma til að skrifa á daginn og verða því að gera það á kvöldin.

Ég veit að þetta á ekki við um prófessorinn sem hefur getað skrifað sinn pólitíska boðskap undanfarna áratugi á daginn í boði íslenskra skattgreiðenda sem starfsmaður Háskóla ríkisins. Og væntanlega grillað á kvöldin - vonandi með betri árangri en einkavinir hans sem Davíð gaf bankana náðu í því að græða á daginn.

Ég taldi mig reyndar hafa svarað skrifum Hannesar, en finn þess ekki stað í athugasemdakerfi Eyjunnar og hlýt því að draga þá ályktun að ég hafi einungis skrifað á samskiptasíðuna facebook. Eða ég hafi ruglast og sent tölvupóst eitthvað allt annað í skjóli nætur eins og tíðkast nú um stundir.

Skiptir ekki öllu máli en ég biðst samt velvirðingar á því.

Ég skrifaði á Eyjuna: “Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu.”

Þetta var mín túlkun á orðum Hannesar þar sem hann sat einn fyrir svörum í sjónvarpsþættinum Silfri Egils fyrir alllöngu.

Það virðist hins vegar hafa farið framhjá mér (og öðrum) að Hannes hafði lætt inn í eina grein sína þar sem hann gagnrýnir málstað þeirra sem hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, eftirfarandi setningu. "Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá."

Og ekki nóg með það því hann skrifaði í Fréttablaðið 18. apríl 2008: “Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa.”

Það kom reyndar til tals um svipað leyti og Hannes skeggræddi við Egil að ég myndi rökræða við Hann um málið í sjónvarpi og minnir að ég hafi skorað á hann í kappræður. Ekki kom fram hjá neinum að það væri misskilngur hjá mér að Hannes efaðist um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Þar sem ég bjó og bý erlendis varð ekki við því komið að við tækjumst á um málið og eins gott því nú hefur Hannes tekið af öll tvímæli um það að hann viðurkennir – með semingi- hlýnun jarðar og að einhverju leyti sé um að kenna aukningu koltvíserings í andrúmsloftinu. Ekkert fútt í sjónvarpsþætti þar sem deilendur eru sammála!

Þótt Hannes segi það ekki beinum orðum að aukning koltvíserings sé af mannavöldum virðast orð mín um að hann tryði ekki á hlýnun jarðar af mannavöldum ekki eiga sér stoð.

Mér er mikil ánægja að biðjast afsökunar á því enda eiga sagnfræðingar eins og ég og Hannes að virða amk. trúnað við heimildir. En við Hannes erum ekki óskeikulir og stundum verður okkur fótaskortur á sleipu svelli heimildarýni. Ég á blogginu og hann í margra binda doðranti um Laxness.

Batnandi er manni best að lifa og vonandi rýnir Hannes betur í fræðin og þá ekki síst niðurstöður Loftslagsnefndarinnar sem hann vitnar í þar sem honum hentar. Hann sleppir að geta þess að nefndin telur einmitt möguleika á því að spyrna við fótum með breyttri hegðun okkar mannanna.

Hannes hefur áður sýnt að hann hefur þann hæfileika að geta lært af mistökum sínum og því hef ég tröllatrú á honum í þeim efnum, eins og glögglega má sjá af nýtilkomnum áhuga hans á heimildanotkun.

Betur hefði auðvitað farið á því ef Hannes hefði þegar fengið þennan áhuga á notkun heimilda þegar hann skrifaði Laxness doðrantana; því þá hefði hann ekki komist í kast við lögin og rýrt fræðimannsheiður sinn.

Það breytir því ekki að eins og Hannes sýnir fram á, þá hefur hann amk. í seinniu
tíð viðurkennt að það kunni að vera að loftslag jarðar hafi hitnað eitthvað örltíð og kannski þá pínu ponsulítið af mannavöldum. Hann vill bara ekki að neitt sé gert í málinu!

Og allt þetta gerir hann á daginn meðan aðrir verða að velja á milli þess að blogga eða grilla á kvöldin.

föstudagur, 14. ágúst 2009

Hvenær ná 3-menningarnir botninum?

Fullyrða má að aldrei hafi nýr stjórnmálaflokkur byrjað jafn illa og þrír fjórðu hlutar þingflokks Borgarahreyfingarinnar.

Svik þingmannanna þriggja við stefnu flokksins í ESB málinu var makalaus en nú bítur einn þingmannanna höfuðið af skömminni með því að verða uppvís að því að breiða út óhróður um geðheilsu andstæðings síns innan flokksins.

Framferði Margrétar Tryggvadóttur minnir einna helst á framferði repúblikana á borð við Nixon eða Bush yngri. Var þetta ekki umbótaaflið þarsem umburðarlyndi og grasrótin átti að njóta sín?

Ég held að annar eins hroki hafi ekki sést í íslenskri pólítik áratugum saman.

Margét á að biðjast afsökunar og segja þegar í stað af sér þingmennsku – eins og fordæmi eru fyrir.

http://www.dv.is/frettir/2009/8/14/thingmadur-vaenir-thrainn-um-alzheimer-og-thunglyndi/

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Vanur maður, vönduð vinna

Nýja Kaupþing hefur runnið á rassinn með sína fáranlegu lögbannstilraun á frétt Ríkisútvarpsins um lánabók gamla Kaupþingsins, enda er hún aðgengileg hverjum tölvulæsum manni.

Ef skilja má yfirlýsingar fyrirtækisins telur Kaupþing leka lánabókarinnar mikinn glæp og að lekandinn, “the whistleblower” verði fundinn og honum refsað.

Mér fannst sem ég væri að upplifa gamla tíma í boði Kaupþings þegar ég heyrði þessa frétt. Eins og dyggum lesendum eyjunar er kunnugt, rifjaði ég upp á dögunum hvernig ég mátti þola brottrekstur sem fréttmaður Stöðvar 2 í kjölfar frétta um laxveiðar Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra í boði Kaupþings í sumarlok 2003.

Ég ætla ekki að endurtaka þá frásögn en bendi á athugasemd Jóhanns Hlíðar Harðarsonar í athugasemdakerfinu þar sem hann segir vel og ítarlegar frá málinu en ég gerði. Þar endir hann á þá merkilegu staðreynd að ég hvorki samdi fréttina né var ég helsti andófsmaður í hópi fréttamanna sem á endanum knúðu Sigurð G. Guðjónsson forstjóra og Karl Garðarsson fréttastjóra til að birta fréttina.

En hvers vegna fékk ég þá hinn (núna) eftirsótta reisupassa í boði Kaupþings?

Fréttir bárust af andófi fréttamanna á netsíðunni frettir.com. Það voru hæg heimatökin því umsjónarmaður síðunnar var Steingrímur Sævarr Ólafssson, áður fréttamaður á Stöð 2 og síðar fréttastjóri.

Það þurfti ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að Steingrímur átti góða(n) heimildarmann/menn á fréttastofunni því fréttir birtust af málinu með stuttu millibili.

Sigurður G. Guðjónsson forstjóri boðaði fréttamenn á sinn fund og krafðist þess að heimildarmaður gæfi sig fram. Hann neyddi menn til að neita því í heyrandi hljóði að þeir hefðu skýrt Steingrími okkar gamla félaga frá gangi mála.

Ég hins vegar harðneitaði að svara þeirri spurningu játandi eða neitandi hvort ég væri uppljóstrarinn. Ég taldi að við sem fréttamenn gætum ekki sætt slíkum afarkostum. Stjöð 2 sem fjölmiðill gæti augljóslega ekki refsað heimildarmönnum og ætlast siðan til þess að fólk úti í bæ treysti miðlinum fyrir upplýsingum.

Ég er enn þessarar skoðunar og mun enn þann dag í dag fullyrða að það hafi verið í almannaþágu að skýra frá ritskoðun stjórnenda Stöðvar 2 á þessa frétt.

Ef ég var ekki heimildarmaðurinn, þá er skýringin einfaldlega sú að ég var ekki í jafngóðu talsambandi við Steingrím Ólafsson og aðrir fréttmenn.

Rétt eins og nú þegar RÚV gleymir upphaflega málinu og sökkvir sér í lögbannsmálið, var fjallað um brottrekstur minn í einn eða tvo daga (eða bara hálfan?) en ekki um það sem hékk á spýtunni.

Hvers vegna var Kaupþing að bjóða fjármálaráðherra í lax og hvers vegna var svo mikið pukur í kringum það? Og hvernig mátti það vera að fjölmiðill hæfi nornaveiðar gegn uppljóstrara? Hvaða trúverðugleiki gat slíkur fjölmiðill haft? Seinna hefði svo mátt spyrja Geir H. Haarde af því hvort han n hefði talið laxveiðiferðina fram til skatts. Kannski að það sé ekki of seint að spyrja.

Enn þann dag í dag skil ég ekki hvers vegna Blaðamannfélag Íslands greip ekki í taumana yfir þessari skoðanakúgun og raunar varð þetta seinna til þess að ég sagði mig úr félaginu.


En aftur að nútímanum:

Er ekki upplagt fyrir Kaupþing að fá Sigurð G. til að draga uppljóstrarann fram í dagsljósið? Vanur maður, vönduð vinna; maður með reynslu bæði af rekstri og brottrekstri.

Hvort rétti maðurinn fær að taka pokann sinn eftir að rannsóknarréttur Sigurðar G. hefur kafað ofan í málið, er svo annað mál.

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Vanur rekstri; aðallega brottrekstri

Kristinn Hrafnsson, fréttamaður hóf störf á Ríkisútvarpinu eftir alllangt hlé fyrir þremur dögum, að ég held. Hann hefur engu gleymt og hefur átt sannkallaðan stórleik enda löngu ljóst að hann er í framvarðasveit íslenskrar blaðamennsku.

Það er hins vegar umhugsunarefni að fréttamaður af kalíber Kristins hefur svo oft verið rekinn af íslenskum fjölmiðlum að í eina tíð hugleiddi hann að auglýsa eftir vinnu: “Blaðamaður óskar eftir starfi, er vanur rekstri, einkum brottrekstri.”

Kristinn er sem sagt kominn aftur á þrælavaktina hjá Páli Magnússynim að þessu sinni á RÚV. Síðast þegar fundum þeirra bar saman á Stöð 2 lauk þeim leik með þeim hætti að Páll lýsti yfir í heyranda hljóði að Kristinn væri leiðinlegasti maður sem hann hefði unnið með og ég næstleiðinlegasti.

Ég var grænn af öfund út í Kristin.

Ef farið er yfir listann yfir bestu blaðamenn Íslands 40 plús, er ljóst að ótrúlega margir hafa fengið reisupassann og það oftar en einu sinni. Við skulum láta nægja að nefna Egil Helgason, og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur , margverðlaunaða blaðamenn sem þekkja á eigin skinni að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki þegar íslensk blaðamennska er annars vegar.

Sjálfur stenst ég ekki samanburð með aðeins einn brottrekstur á ferilskránni. Hann var hins vegar í boði Kaupþings sem stöðvaði eftirminnilega fréttaflutning um laxveiðar Geirs H. Haarde fjármálaráðherra á kostnað bankans.

Lauk þeirri rimmu á milli fréttamanna Stöðvar 2 og stjórnenda og eigenda með því að Sigurður G. Guðjónsson, síðar stjórnarmaður í Glitni, rak mig úr starfi á Stöð 2. Honum var vafalaust nauðugur einn kostur enda hafði Sigurjón Sighvatsson lýst því við mann og annan að Kaupþing myndi gera út af við stórskuldugt fyrirtækið ef ekki yrði þaggað niður í fréttamönnunum.

Útaf fyrir sig var það óverðskuldað að mér skyldi hlotnast sá heiður að vera rekinn úr starfi – því ég átti minni þátt en margur annar í andófi fréttamanna gegn ofríki Sigurðar og félaga.

Auðvitað var ég sár. Það lagaðist hins vegar þegar ég fékk þrisvar sinnum betur borgað starf skömmu síðar.

Nú er svo komið að ég faðma Sigga G. sem velgjörðamann minn þá sjaldan að ég hitti hann á götu og er stoltur af skófarinu á rassinum á mér með innsigli Kaupþings.

En þarna er hundurinn grafinn: íslensk blaðamennska er svo illa borguð að það eru einungis örfáir hugsjónamenn sem endast fram yfir fertugt, einmitt þegar blaðamenn eru komnir með þá reynslu og sjálfsöryggi sem nauðsynleg er.

Og ég held að við Íslendingar væru betur staddir ef leiðindaseggir (að mati yfirmannanna) á borð við Kristinn Hrafnsson fengju að leika lausum hala og fengju greitt með þeim hætti að þeir geti lifað mannsæmandi lífi.

Helst án þess að fjárglæframenn geti gripið inn í og gert þá atvinnulausa, hvenær sem þeim hentar.

Það er einlæg von min að Kristinn Hrafnsson haldi áfram að vera öllu yfirvaldi til umtalsverðra ama og leiðinda. Og það er reyndar von mín að íslenskir blaðamenn haldi áfram að vera alveg drepleiðinlegir, því það er þeirra (okkar) hlutverk.

Lengi lifi leiðindin!

Búlgaría norðursins, nei takk

Evrópusambandið er með alvarlega timburmenn eftir að hafa opnað gáttir sínar fyrir ríkjum á borð við Búlgaríu og Rúmeníu. Í skýrslu sem birt var fyrir tveimur vikum sagði að ríkin spilling, svindl og skipulögð glæpastarfsemi réði ríkjum.

Þegar ég las frétt þessa efnis í dagblaði um það leyti sem Ísland sótti um aðild að ESB, hélt ég mér til mikillar skelfingar að fréttin fjallaði um okkur.

Frakkar hafa farið framarlega í flokki þeirra ríkja sem eru ófúsir á að samþykkja frekari stækkun fyrr en Lissabon samkomulagið hefur tekið gildi. Þjóðverjum er lika farið að ofbjóða það sem þeir kalla ofriki smáríkja.

Um Breta þarf ekki að fara mörgum orðum. Flestir Íslendingar telja að við höfum sem þjóð verið hlunnfarin i viðskiptum okkar við Breta út af Icesave. Menn segja sem svo að fjárglæframenn hafi farið of geyst en Bretar (og Hollendingar) hljóti að deila ábyrgðinni með okkur. Margir taka svo undir málflutning Breta og Hollendinga um að íslenskir aðilar hafi hreinlega stolið sparifé í löndunum tveimur.

Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að uppruni bankasvindlsins á Íslandi verði kannað og þeir dregnir til ábyrgðar sem eiga sök. Dómstólar munu á endanum úrskurða en það er óþolandi hve mikið rannsókn hefur dregist á langinn.

Ég hef lengi hallast að því að stærsta brotalömin í íslensku réttarkerfi sé saksókn. Vitaskuld á ekki að gera yfirvöldum auðvelt fyrir að skipta um saksóknara að eki sé talað um dómara. Þess vegna er það því dapurlegra að Ríkissaksóknari skuli ekki hafa beðist lausnar eða tilfærslu í embætti vegna augljósra tengsla hans við stærsta eiganda Kaupþings. Í sumum tilfellum verður að treysta á dómgreind manna, en í þessu tilfelli brást einstaklingurinn.

Hættan er sú að litið verði á Ísland sem Búlgaríu norðursins. Það er ekki bara sspurning um réttlæti að hinn langi armur laganna grípi fjárglæframennina hreðjataki, heldur hreinlega spurning um orðstír og efnahagslega framtíð íslensu þjóðarinnar.

Ein gleðilegasta frétt undanfarinna vikna var að Icelandair ætlaði að taka upp beint áætlunarflug til Brussel. Ef svo fer fram sem horfir væri nær lægi að taka upp beint flug til Tortola.

mánudagur, 27. júlí 2009

Bildt í beinni

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins sitja í þessum rituðu orðum á fundi í húsnæði ráðherraráðsins í Justus Lupsius byggingunni, við hliðina á Residence Palace þar sem sit ég og hamra þessar línur á tölvu.

Ráðherrarnir munu – vonandi- senda umsókn Íslands til framkvæmdastjórnarinnar. Hafa ber hins vegar í huga að þetta er langt í frá að vera sjálfgefið, jafnvel þótt Íslandsvinurinn Carl Bildt sitji í forsæti fundarins.

Umsóknir ýmissa Austur-Evrópuþjóða hafa ekki verið afgreiddar frá ráðherrunum og vera kann að menn vilji ekki mismuna umsækjendum á svo áberandi hátt. Undirbúningur fyrir aðildarviðræður við Íslendinga er löngu hafinn í framkvæmdastjórninni og það skiptir ekki öllu máli hvort græna ljósið verður gefið í dag eða ekki.

Það væri hins vegar pólitískt merki um að málið væri á réttri leið og að Hollendingar og Bretar ælti sér ekki að vera með uppgerðar mótþróa út af alls óskyldu máli.

Til gamans má geta þess að sýnt verður beint frá blaðamannafundi Carls Bildts að loknum ráðherrafundinum. Tímasetningin er á reiki því ekki er ljóst hvenær fundi lýkur en það ætt að vera einhvern tíman eftir kl. 1 að íslenskum tíma. Hér er linkurinn: http://ec.europa.eu/avservices/ebs/schedule.cfm

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Persónulegur sigur Össurs

Persónulegur sigur Össurs

Samþykkt tillögunnar um að taka upp viðræður við Evrópusambandið er pólitískur sigur fyrir Samfylkinguna og sérstaklega Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Það er fyllsta ástæða til að óska Össuri til hamingju. Það er síður en svo sjálfgefið að fá þessa tillögu samþykkta þegar tillit er tekið til þess að Samfylkingin – eini Evrópusinnaði flokkurinn- hefur aðeins 20 þingsæti.

Vinstri-grænir eiga um sárt að binda í þessu máli því klofningur flokksins blasir öllum við. Jón Bjarnason, ætti að sjá sóma sinn í því að segja tafarlaust af sér embætti.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur orðið fyrir miklum álitshnekki í umræðunum. Í ljós hefur komði að þar fer svipminnsti formaður Sjálfstæðisflokksins, hugsanlega að Jóhanni Hafstein undanskyldum. Hann er meira að segja slakari ræðumaður en Geir Hallgrímsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum. Hann hefur gengið á bak orða sinna og snúist gegn aðild að Evrópusambandinu. Það er illa komið fyrir góðum dreng. Ég spái því að hann kúvendi, úr því sem komið er.

Borgarahreyfingin er ein rjúkandi rúst eftir flipp flopp þingmanna flokksins, pólitíska gíslatöku og misheppnaðri tilraun til pólitískrar fjárkúgunar.

Orð fá varla lýst því hve ömurlegur málflutningur Þórs Saari og félaga er. Saari stendur sannarlega undir nafngiftinni pólitískur vindhani. Borgarahreyfingin er aðhlátursefni og ljóst að flestir þingmanna hafa ekkert erindi á Alþingi.

miðvikudagur, 15. júlí 2009

Saari og co fatta ekki djókinn

Stjórnmálamenn hafa löngum verið ákafir bridge- og skákáhugamenn. Bridge og skák eiga margt sameiginlegt; meðal annars það að ekki er allt sem sýnist. Að byrja á einum tígli eða enskum leik segir lítið um lokasögn hvað þá mið- og endatafl.

Með því er ég ekki að segja að fyrsta sögn, leikur eða vörn skipti engu máli; en bæði bridge og skák eru leikir þar sem hótanir, leikir sem hafa þann eina tilgang að kanna áætlanir eða hug andstæðingsins, eða hvers kyns blöff eru stór þáttur leiksins.

Sama máli gegnir um stjórnmál enda er sagt að menn tefli refskák í stjórnmálum, alþingismenn sitja löngum að tafli og bæði Bjarni Benediktsson eldri og Davíð Oddsson hafa löngum setið að bridds-spili.

Bjarni Benediktsson yngri leikur líka refskák í pólitíkinni.

Tillagan um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu er ekkert annað en biðleikur. Um leið og búið er að fella hana og samþykkja aðildarviðræður við ESB, verður Bjarni eins og prins sem leystur er úr álögum.

Honum hefur tekist að láta ofstækisfulla ESB andstæðinga eins og Pétur Blöndal og Árna Johnsen berjast eins og ljón, ekki gegn ESB aðild heldur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.

Sagan segir að meira að segja Styrmir Gunnarsson hafi látið blekkjast. Styrmir og aðrir áhugamenn um kalda stríðið þekkja auðvitað hvernig kommúnistar notuðu Salami-taktíkina í Austur-Evrópu og fengu nytsama sakleysingjaí til að gefa eftir í smáskömtum þar til þeim var hent fyrir borð og kommarnir urðu allsráðandi.

Þegar fingurinn bendir á tunglið, horfið fíflið á fingurinn.

Hvernig sem atkvæðagreiðslan á morgun fer, er eitt ljóst að allir Sjálfstæðismennirnir (og margir fleiri) sem hafa talað sig hása fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu eru búnir að kyngja aðildarviðræðum, þökk sé salami taktík Bjarna, Illuga og Þorgerðar.

Þeir munu amk. eiga erfitt með að útskýra fyrir þjóðinni að málflutningur þeirra fyrir því hvernig bæri að standa að því að ákveða aðildarumsókn, væri andstaða við ESB.

Ef þeir eru andsnúnir aðild að ESB, skulda þeir þjóðinni að þeir greiði atkvæði GEGN tillögu Bjarna Benediktssonar yngri um þjóðaratkvæði. Annars er ekkert að marka andstöðu þeirra við ESB.

Um leið og menn á borð við Árna Johnsen hafa greitt atkvæði með tillögu Bjarna eru þeir fastir í ESB netinu. Ef eitthvað er að marka Árna Johnsen þá fer hann ekki að taka áhættu með þvi að þjóðin samþykki aðild að Nýja Sovétinu!!?

Sennilega er Bjarni Ben, yngri klókari en ég hugði. Kannski er þetta bara óskhyggja. Það kemur í ljós.

Falli tillaga hans, stendur hann, samkvæmt þessari teóríu - sem hefur jú amk. einhvern tíman lýst stuðningi við aðild, með pálmann i höndunum. Geðvondi-Björn frændi hans, Davíð og allir hinir hafa jú tekið skrefí í átt til ESB aðildar með því að taka kröftugt undir að skjóta málinu til þjóðarinnar. Til hvers að gera það og vera síðan á móti?

Það fyndnasta við þetta er að borgara-þrímenningarnir hafa ekki fattað djókinn. Að þeir eru peð í valdatafli innan Sjálfstæðisflokksins - þar sem ekki er allt sem sýnist frekar en í nokkru bridds-spili eða góðri skák.

Eru þetta ekki ömurleg örlög byltingarflokksins sem varð til i kjölfar barsmíðanna á pottana og pönnurnar gegn stjórn Sjállfstæðisflokksins?

Bjarga borgarar íhaldinu?

Það er vægast sagt sorglegt að sjá hvernig þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa fallið fyrir þeirri freistingu að fara að stunda klækjastjórnmál og pólitísk hrossakaup – einmitt þess konar pólitík sem flestir héldu að þeir væru að berjast gegn.

Litlu skiptir hvort krafa borgaranna þriggja, um að Icesave verði dregið til baka ellegar leggist þeir á sveif með Sjálfstæðismönnum, telst pólítisk gíslataka eða pólitísk fjárkúgun.
Svo mikið er víst að þeir eru komnir á fulla ferð í pólitískum hrossakaupum af verstu tegund – og ætla greinilega ekki að fara eftir samvisku sinni og stefnu flokks sins.

Eina lógíska niðurstaða hennar verður að núverandi ríkisstjórn fellur og íslenskur efnahagur mun riða til falls. Alþjóðleg einangrun landsins verður algjör og kannski tómt mál að tala um aðild að ESB.

Að minnsta kosti tveir af þremenningunum staðfestu um helgina að þeir ætluðu að greiða atkvæði með tillögu utanríkisráðherra. En á þriðjudegi var annað hljóð komið í strokkinn.

Þór Saari, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar hefur komið mjög á óvart með því að skipta svo ört um skoðun að undrun sætir. Virðast hvorki Sigmundur Davíð né Bjarni Benediktsson, hinir oddvitar stjórnarandstöðunnar, sem skipta um skoðun á tveggja mánaða fresti komast með tærnar þar sem Þór hefur hælana.

Tíu mínutum fyrir kosningar skrifaði Þór: “Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum..Að..kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratkvæði.”
Og síðar bætti hann við: “Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”

Þór ætlar sem sé að taka afstöðu til máls á þann hátt sem hann segir vera “ömurlegi(a)birtingarmynd kjarkleysis,” ESB andstæðinga sem þori ekki að koma út úr skápnum. Munurinn er hins vegar sá að Þór hefur hingað til sagst vera fylgjandi aðild!

Stjórn Borgarahreyfingarinnar og Þráinn Bertelsson, alþingismaður hafa ítrekað fyrri yfirlýsingar. “Ef þau ætla að gera þetta þá eru þau, í mínum huga, klárlega að fara á bak orða sinna," segir Herbert Sveinbjörnsson, formaður stjórnarinnar.

Það er ótrúlegt að horfa upp á þremenningana troða stefnu hreyfingarinnar fótum og taka afstöðu eftir pólitískri vindátt augnabliksins.

Með afstöðu sinni munu þremenningarnir uppskera fall ríkisstjórnarinnar, algjört uppnám í efnahagsmálum landsmanna. Sjálfstæðismenn – aðalhöfundar hrunsins – stæðu upp sem sigurvegarar. Var Borgarahreyfingin stofnuð til þess að koma þeim til valda á ný?

Kaupþings-Pétur stofni nýjan flokk

Pétur Blöndal, alþingismaður og stofandi Kaupþings réðst harkalega á flokksystur sína Ragnheiði Ríkharðsdóttur á Alþingi í gær:

“Það er ljóst á ræðu háttvirts þingmanns, að hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið,” sagði Pétur eftir að Ragnheiður hafði lokið ræðu sinni.
“Því vil ég spyrja háttvirtan þingmann hvort hann vilji ekki stofna annan sjálfstæðisflokk?” spurði Pétur.

Pétur var greinilega búinn að gleyma því að Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ólöf Nordal, svo einhver séu nefnd, hafa öll lýst því yfir að Ísland ætti að taka upp viðræður um aðild að Evrópusambandinu.
Þau eru hins vegar fylgjandi tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sammála þeim um aðild að Evrópusambandinu eru fulltrúar nær alls atvinnulífsins á Íslandi (að kvótagreifum og bændaeigendum undanskildum) auk verkalýðshreyfingarinnar.

Er það virkilega Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem er einangruð í sínum Evrópuskoðunum?

Ætti kannski stofnandi Kaupþings að stofna nýjan flokk?

mánudagur, 13. júlí 2009

D-listi logar stafna á milli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á ekki sjö dagana sæla. Hann hefur það sem af er árinu haft uþb. fjórar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í fljótu bragði mætti ætla að tillaga hans um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu væri verk galins manns, svo mjög sem hún er í andstöðu við fyrri yfirlýsingar formannnsins.

Sýnum Bjarna þó fyllstu sannigirni og lítum yfir sviðið og það sem hann glímir við:

Náfrændi hans Benedikt Jóhannesson, hagfræðingur orðar þetta svo í Morgunblaðinu í dag

“Aldrei hefur verið jafnmikilvægt og nú að þjóðin haldi öllum leiðum út úr kreppunni opnum. Þeir sem segja nei við viðræðum við Evrópusambandið loka dyrum sem vænlegastar eru í peningamálum og alþjóðasamvinnu. Nei er uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð. Hver vill bera ábyrgð á því?”

Björn Bjarnason, ættarlaukur Engeyjarættarinnar og frændi Bjarnans og Benediktsins vill greinilega bera ábyrgð á því enda hraunar hann yfir Carl Bildt gamlan félaga Davíðs og Kjartans úr norrænni stúdentapólitík sem gerði honum það eitt til miska að segjast ætla að fylgjast með gangi mála á Alþingi Íslendinga.

"Má ekki" segir Geðvonsku-Björn,.

Fylgismaður Björns, tukthúslimur nokkur sem setið hefur í fangelsi fyrir þjófnað og umboðssvik, Árni Johnsen, að nafni, sagði á hinu háa Alþingi í dag:

“Við Íslendingar erum ekki fædd til þess að gefast upp. Þess vegna eigum við ekkert erindi inn í nýja Sovét. Og þetta nýja Sovét er miklu hættulegra en hið gamla. Það ætlar sér að kokgleypa Ísland. Og ef hið nýja Sovét kokgleypir Ísland, þá munu menn ekki hafa fyrir því að hrækja beininu.”

Bjarni sjálfur og þingflokksformaður hans Illugi Gunnarsson skrifuðu fyrir rúmu hálfu ári:

“Íslensk stjórnvöld eiga að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og kanna hvernig samningum Íslendingar næðu um aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði í kjölfar viðræðna.”

Árni Johnsen getur tæplega setið áfram í flokki með mönnum sem hann telur stefna að inngöngu í hið nýja-Sovét.

Við þessar aðstæður er skiljanlegt að Bjarni og félagar reyni að leika þann biðleik sem er að fara fram á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu er honum og félögum hans engin alvara með þessu. Þetta er einfaldlega liður í innanflokksátökum i Sjálfstæðisflokknum.

Þeir reyna að forðast klofningi með því að láta fara fram atkvæðagreiðslu á þingi um að setja umsókn í þjóðaratkvæði.

Það þarf líka að stinga dúsu upp í Ólöfu Nordal og RagnheiðiRíkharðsdóttur sem hafa gefið svo skýrar yfirlýsingar um nauðsyn ESB aðildar að þær geta gleymt endurkjöri á Alþingi ef þær sýna ekki tennurnar í þessu máli.

Á hinum vængnum væri það út af fyrir sig lítið mál ef Bjarni og félagar væru einungis að glíma við Kalda-Stríðs Bjössa og dæmda tukthúsliminn.

Í kvöld hótaði Davíð Oddsson endurkomu í stjórnmálin. Og þótt tilefnið sé Icesave, verður Davíð Group ekki skotaskuld úr því að gera útrás í ESB málin. Hæfir kjaftur skel.

Og svo ég vitni óbeint í mág minn og einn besta vin Davíðs, Kjartan Gunnarsson er þeim ágæta manni algjörlega skítsama um allt annað en sjálfan sig.

Og þótt fórnarkostnaðurinn sé með orðum Sjálfstæðismannsins Benedikts Jóhannessonar: "uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð," þá er Davíð alveg sama. Honum er nefnilega í raun og veru skítsama um allt nema sjálfan sig.

(PS: Orð Kjartans voru látin falla á opinberum fundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Var greint frá honum i íslenskum fjölmiðlum og síðar í bók Guðna Th. Jóhannessonar Hrunið. Kjartan neitaði síðar að hafa átt við Davíð Oddsson. Það er því röng ályktun í athugasemd að ég sé að skýra frá einhverri einkavitneskju minni.)

Stefna Borgarahreyfingarinnar var skýr

Þór Saari, frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar skrifaði á heimasíðu hreyfingar hennar daginn fyrir kjördag: “Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði."

Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar er sem sagt á móti stefnu eigin flokks eins og hún var kynnt daginn fyrir kosningar og reyndar á móti sínum eigin orðum: "Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“

Birgitta skrifaði athugasemd við skrif mín um helgina: “Ég man ekki eftir því að hafa lofað því að ganga í ESB og ég man ekki til þess að það að segja eitthvað eftir kosningar sé skilgreint sem kosningaloforð.”

Ég hef aldrei sagt neitt um að Birgitta hafi lofað því að ganga í ESB.
Og eru það svo frambærileg rök siðbótarkonu í íslenskri pólitík að hvað sem sinnaskiptum hennar líði þá sé ekki hægt að flokka yfirlýsingu sem var gefin örfáum klukkustundum eftir lokun kjörstaða sé ekki kosningaloforð? Skiptir það máli?

Er hún að halda því fram að orð Þórs Saari þar sem hann segir hreint út að stefna Borgarahreyfingarinna sé að fara í aðildarviðræður og bera samninginn undir þjóðina, sé ekki stefna hreyfingarinnar?

Talaði Þór ekki fyrir hönd hreyfingarinnar og þar með Birgittu í jafn mikilvægu máli?

Er það siðbótarkona í íslenskri pólitík sem hér talar?

Kjarni málsins er sá að Birgitta snýst eins og skopparakringla og hefur tekið aljgörum sinnaskiptum í lykilmáli í íslenskri stjórnmálaumræðu á aðeins rúmum tveimur mánuðum.

Nýjustu skoðunum hennar lýsir Þór Saar flokksbróðir hennar svo: “Sá fyrirsláttur … að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”

PS Lesandi benti mér á að ég hafi misritað nafn Þórs Saari. Ég vil biðja hann velvirðingar á þessum mistökum sem ég hef nú leiðrétt.

laugardagur, 11. júlí 2009

Birgitta svíkur kosningaloforð

Þessi ummæli eru höfð eftir Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Borgarahreyfingarinnar í leiðtogaumræðum í Sjónvarpinu 26. apríl: „Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“

Ef rétt er haft eftir, hvernig ætlar Borgarahreyfingin að skýra það að sú kona sem kom fram fyrir alþjóð í leiðtogaumræðum fyrir hönd hreyfingarinnar, hefur nú lýst yfir að hún ætli þvert á móti að greiða atkvæði gegn aðild?

Var Borgarahreyfingin stofnuð til þess að svíkja rúmlega tveggja mánaða gamalt kosningaloforð? Hún er þá ekkert skárri en fjórflokkurinn og hefur engan tilverurétt.

föstudagur, 10. júlí 2009

Þegar hóran sakar nunnuna um vergirni

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins er meiri húmoristi en flestir halda. Hann er reyndar meiri húmoristi en hann heldur sjálfur.

Pétur réðst rétt í þessu á Alþingi skjálfandi brostinni röddu á borð við amerískan sjónvarpsprédikatar á Lilju Mósesdóttur, þingmann VG fyrir stefnuleysi flokks hennar til aðildar að ESB. Lilja hafði vissulega farið eins og köttur í kringum heitan graut um hvort hún vildi að Ísland gengi í Evrópusambandið.

Pétur krafði hana svara og var nánast ljóðrænn í kröfu sinni um að hún gæfi upp afstöðu sína til aðildar að ESB. "Þjóðin á rétt á svari", sagði þingmaðurinn og stofnandi Kaupþings orðrétt í ræðu sinni.

Pétur er í flokki með manni að nafni Bjarni Benediktsson. Sá ágæti maður hefur haft fjórar skoðanir á aðild að Evrópusambandinu síðan í byrjun desember á síðasta ári.

Að heyra Sjálfstæðismenn saka vinstri græna um stefnuleysi í Evrópumálum er eins og að heyra vændiskonu saka prestsmadömmu um fjöllyndi.

Er ekki nóg komið Bjarni Ben?

Það er ömurlegt að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Þótt ég sé sjaldnast sammála flokknum, verður þó að segjast eins og er að lengstum hefur starf flokksins einkennst af þeirri ábyrgðartilfinningu, hófsemi og stefnufestu sem gömlum íhalds- og valdaflokki sæmir.

En nú er öldin önnur.

Sjálfstæðismenn berjast nú hatrammri baráttu gegn lausn á Icesave-harmleiknum sem reikningur til íslensku þjóðarinnar fyrir einkavinavæðingu bankanna og raunar illskárri en sú sem Sjálfstæðisráðherrar skrifuðu upp á fyrir nokkrum mánuðum.

Í Evrópusambandsmálinu hefur Bjarni Benediktsson haft svo margar skoðanir undanfarna mánuði að það væri að æra óstöðugan að telja þær upp.

Í lok síðasta árs skrifuðu þeir félagarnir Bjarni og Illugi Gunnarsson í Fréttablaðið:

Íslensk stjórnvöld eiga að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og kanna hvernig samningum Íslendingar næðu um aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði í kjölfar viðræðna. Þessa leið ætti að fara - þótt landsfundur sjálfstæðisflokksins kæmist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins.

Nú snýst Bjarni í hringi eins og skopparakringla og vill þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn. Þetta hefur hvergi verið gert áður í Evrópu enda er þetta ekkert annað en óþarfur biðleikur ráðþrota stjórnmálaforingja sem þorir ekki að taka afstöðu af ótta við klofning í flokki sínum.

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla tefur eingöngu fyrir því að hægt sé að ljúka samningum og taka raunverulega afstöðu til málsins. Hún mun tefja fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs og upptöku evru á Íslandi. Ætla Sjálfstæðismenn að hafa þetta líka á samviskunni? Er ekki nóg komið Bjarni Ben?

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er ekkert annað en frestun á því að taka afstöðu til hins óumflýjanlega. Aðildarumsóknar. Afstöðu til aðildar er hins vegar ekki hægt að taka fyrr en samningur liggur fyrir.

Nýjasta yfirlýsing Bjarna er þessi: „Þingið er nánast í frumeindum vegna þessa. Það er ekki skýr þingvilji til staðar, ekki meðal þjóðarinnar, ekki einu sinni innan ríkisstjórnar.“

Það sem hann meinar hins vegar er: “Sjálfstæðisflokkurinn er nánast í frumeindum sínum vegna þessa. Það er ekki skýr flokksvilji til staðar, ekki meðal flokksmanna, ekki einu sinni innan flokksforystunnar.”

Egill Helgason segir um þetta: “Þessi aðferð hentar hins vegar huglausum og lafhræddum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem þora ekki fyrir sitt litla líf að taka afstöðu til málsins.”

Það er nefnilega þannig að hugleysingjar og skoðanaleysingjar eru í öllum flokkum, rétt eins og framsóknarmenn eru alls staðar og kerlingar eru af báðum kynjum.

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Öryggisnetið minna en vasaklútur

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur hefur eftir viðmælanda sínum í nýlegri úttekt á Hruninu að þótt bankarnir hafi verið orðnir tífaldir á við efnahagslega stærð Íslands hafi öryggisnetið verið á stærð við vasaklút.

Við getum rifist um hitt og þetta i þáskyldagatíð og viðtengingarhætti en þetta er kjarni málsins.

Með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu opnuðum við fyrir frjálst flæði fjármagns á milli okkar á Evrópusambandsins um leið og við gengumst inn á það að ESB setti okkur nær einhliða löggjöf á öllum þeim sviðum sem snerta hinn innri markað.

Ice Save harmleikurinn er skyldgetið afkæmi þeirrar stefnu að taka þátt í frjálshyggju efnahagssvæðisins og innri markaðarins en neita því að taka þátt í því pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi sem Evrópusambandið er.

Ríkisbankarnir voru seldir fyrir spottpris til vildarvina Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna með ósannindum um annars vegar tengsl við erlenda aðila og hins vegar ósannindum um stórfellda flutninga fjár til landsins. Og svo voru kaupin fjármögnuð með lánum á víxl úr ríkisbönkunum!

Þrátt fyrir þessa spillingu og allt lánafylleríið, sérgæskuna og glórulausan vöxt og óráðsíu þessara manna og reynsluleysi þeirra í bankarekstri, hefði verið hægt að verjast því þjóðargjaldþroti sem nú stefnir í. Ekki skakkaföllunum en álitsmissinum og vinaleysinu.

Frammistaða Geirs Haarde og Árna Mathiesen, Ingibjargar Sólrúnar og Björgvins G. Sigurðssonar og fleiri ráðherra var auðvitað með ólíkindum. Þau steinsváfu í aðdraganda bankahrunsins þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir og viðbrögðin voru fullkomið klúður.

Samt liggur það fyrir að Ísland galt fyrir það að standa utan Evrópusambandsins og varð að sæta afarkostum i samskiptum við Breta. Hefði slíkt gert ef Ísland hefði haft atkvæði innan Evrópusambandsins? Ég hallast að því að svo hefði ekki verið en slíkt er ósannanlegt.

Hitt er hins vegar augljóst að Seðlabanki Evrópu lánar nú fé á engum eða eins prósenta vöxtum til að forðast hruni í aðildarríkjum sambandsins og eru þar engir þurfandi undanskildir. Þarf ég að rifja upp vextina á Ice Save lánunum?

Sagt er að upptaka evrunnar myndi ekki breyta neinu hér og nú fyrir Ísland. Segjum að það sé rétt.

Ég spyr hins vegar fullorðna Íslendinga; feður og mæður, afa og ömmur þessa lands: er eki mál að linni? Eigum við ekki að hætta að láta allt reika á reiðanum og taka áhættuna á þvi að ábyrgðarleysi okkar steypi börnum okkar og barnabörnum í óvissu og skuldafjötra?

Í ljósi þessa vona ég að Alþingismenn, þar á meðal Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins íhugi feril afabróður hans og nafna, Bjarna forsætisráðherra.

Hefði ekki verið auðveldara fyrir Bjarna heitinn Ben að láta undan þrýstingi (sennilega meirihluta þjóðarinnar?) og stinga hausnum í sandinn og hunsa boði Bandaríkjamanna um hervernd og NATO aðild? Hefði hann ekki keypt sér stundarvinsældir?

Ég held að Bjarni sé innst inni sammála mér um að happadrægra sé hlutskipti frænda hans og fyrirmyndar en hlutskipti ábyrgðarlausra lýðskrumara á borð við Einar Olgeirsson og Hermann Jónasson.

Sagan mun dæma Bjarna yngra hart ef hann á ögurstundu bregst því sögulega hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að leiða þjóðina inn á nánari samvinnu vestrænna lýðræðisþjóða.

Valkosturinn er að snúa baki við því þjóðfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir um áratugaskeið í bandalagi við vestrænna ríki.

Á tímum kalda stríðsins var valkosturinn rétt eins og nú að segja sig úr lögum við vina og nágrannaríki eða standa ein norður í Ballarhafi með óljósa von um stuðning einhverra vafasamra óskildra skúrka. Nú stöndum við frammi fyrir því að segja já eða nei við orðnum hlut: að samþykkja eða hafna orðnum hlut fyllerísára frjálshyggjunar: aðgerðum eða aðgerðarleysi ríkisstjórna Davíðs og Geirs.

Á sínum tíma var valkosturinn sá að hafna frænda- og vinaþjóðunum og halla sér að Sovétríkjunum. Sama er upp á teningnum nú, nema engin eru Sovétríkin. Hvaða vinum vill Bjarni halla sér að : Kúbu eða Norður-Kóreu?

Le Soir: Rausn Íslands kom Belgum á óvart

Í umræðunum sem nú standa yfir um Icesave, hefur ekki farið hátt um belgíska sparifjáreigendur sem áttu innistæður hjá Kaupþingi. Raunar má segja að mjög lítillar samúðar gæti með þeim útlendingum sem eiga um sárt að binda vegna íslenskra fjárglæfra.

Belgíska stórblaðið Le Soir hefur alla þessa viku birt greinaflokk um Kaupþingsævintýrið í Belgíu og Lúxemborg og er það forvitnileg lesning – því sjónarhóllinn er annar en við eigum að venjast.

“Kaupþingsmálið er fyrst og framst harmleikur: önnur eins ógn hefur ekki stafað að jafn mörgum belgískum sparifjáreigendum síðan í síðari heimstyrjöldinni,” segir í byrjun vandaðrar úttektar blaðsins.

Frásagnir blaðsins af umsvifum Kaupþings er forvitnileg að ýmsu leyti, hlutlæg og fordómalaus með öllu í garð okkar Íslendinga. Þannig er skýrt frá ofsóknum á hendur Íslendingum í Lúxemborg. Börnum sagt að þau yrðu rekin úr skóla í kjölfar gjaldþrots Kauþþings og nágrannar bönkuðu upp á til að reyna að fá sjónvarpstæki og íbúðir fyrir lítið.

En það sem veldur manni áhyggjum er frásögn af fundi ráðamanna í Belgíu og Lúxemborg með íslenskum ráðamönnum í tengslum við millilendingu Yves Leterme, þáverandi forsætisráðherra á Íslandi 17. október.

Að sögn Le Soir mætti af Íslands hálfu á fundinn helmingur íslensku ríkisstjórnarinnar, fulltrúar Seðlabankans og nefndar sem skipuð var til varnar bankahruninu.

Síðan segir í frásögn blaðsins: “Eftir kurteisisumræður um nauðsyn samstöðu smáríkja, snéru menn sér að alvörumálunum. Og þá gall í fulltrúa björgunarnefndar bankanna: “Allt er leyst.” Belgísku og lúxemborgísku fulltrúarnir voru steinhissa: “Hvernig ætlið þið að gera það?”. “Við ætlum að borga allt út í reiðufé”, svaraði fulltrúinn sallarólegur.

“Enn þann dag í dag,” segir okkur einn belgísk-lúxemborgísku nefndarmaðurinn, “skiljum við ekki hvers vegna fulltrúi nefndarinnar lýsti þessu yfir við okkur.”

Burtséð frá því hvaða máli þessi yfirlýsing skiptir og hver það var sem lét þessi orð falla; verður ekki framhjá því litið að þetta er dæmigert fyrir þann óprófessjónalisma sem íslensk stjórnvöld sýndu af sér í bankahruninu. Og gera kannski enn.

Sjá: http://www.lesoir.be/actualite/economie/2009-07-09/comptes-kaupthing-debloques-ici-fin-juillet-716800.shtml

þriðjudagur, 2. júní 2009

Tveir kínverskir sendiherar en ekki Dalai Lama

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra réttlætir þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og forseta Íslands að sniðganga heimsókn friðarverðlaunahafa Nóbels , Dalai Lama til Íslands með þvi að “Dalai Lama sé ekki þjóðhöfðingi ríkis sem Ísland eigi í stjórnmálasambandið við en hans heimsókn sé ekki á sama grunni og þegar um erlenda þjóðhöfðingja (sé)að ræða. " (Mbl.is)

Steingrímur Joð gefur með þessum orðum í skyn að allajafna sé reglan sú að ráðamenn þjóðarinnar hitti ekki að máli nema þá sem gegna álika háum stöðum í heimalandi sínu.

En stenst þetta skoðun?

Forseta Íslands má segja til hróss að forsetaembættið heldur úti prýðilegri heimasíðu www.forseti.is.

Kíkjum á nokkur dæmi af handahófi úr dagskrá forsetaembættisins. Þar kemur meðal annars í ljós að forsetinn átti tvo fundi með kínverskum sendimönnum á síðasta hálfa öðrum mánuðnum fyrir komu Dalai Lama til Íslands.

Hann hitti núverandi sendiherra Kína fyrir hálfum mánuði og hafði einnig tíma til þess að taka á móti fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi rétt í þann mund sem Dalai Lama var að koma til Íslands.

Þessu ágæta fólki er tekið á móti á Bessastöðum. Ef mér skjöplast ekki þá er þetta fólk ekki allt þjóðhöfðingjar- ekki frekar en Dalai Lama. Kíkjum á listann:

“30.5.2009

Samvinna við Kína

Forseti á fund með Wang Ronghua, fyrrum sendiherra Kína á Íslandi, um margvísleg tækifæri til að auka samvinnu Íslands og Kína á sviðum menningar, vísinda og viðskipta.

1.5. 2009
Utanríkisráðherra Sameinuðu furstadæmanna

Forseti á viðræður við utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og sendimenn hans frá Abu Dhabi um samstarf landanna, nýtingu hreinnar orku, framlag íslenskra vísindamanna til þróunar Masdarverkefnisins og tillögur Sameinuðu furstadæmanna um að höfuðstöðvar nýrrar alþjóðlegrar stofnunar í orkumálum verði í Abu Dhabi.

7.4. 2009

Samstarf við Kína

Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi Zhang Keyuan um samstarf landanna á ýmsum sviðum sem og þróun efnahagsmála í Kína og á heimsvísu.

11.3. 2009

Brahma Kumaris

Forseti ræðir við fulltrúa andlegu samtakanna Brahma Kumaris og tekur á móti kveðjum og gjöfum frá leiðtoga þeirra Dadi Janki. Starfsemi samtakanna á Íslandi hefur eflst mjög á undanförnum árum. Forseti átti á sínum tíma fund með Dadi Janki á Bessastöðum.

9.3.2009

Alþjóðasamtök Farfugla

Forseti tekur á móti framkvæmdastjórum Farfuglafélaga í ýmsum löndum, Hosteling International, sem halda þing sitt á Íslandi.

16.12. 2009

Forseti ræðir við bandaríska fræðimanninn Paul Hawken um þróun hins nýja hagkerfis, bæði á Íslandi og á heimsvísu, sjálfbærni og græna tækni. Hawken hefur verið á Íslandi í boði Bjarkar Guðmundsdóttur.”



Fæst þessi skoðun Steingríms Joð staðist miðað við þær opinberu upplýsingar sem raktar eru hér að ofan?

Forsetinn hittir þannig ekki bara fyrrverandi og núverandi kínverska sendiherraheldur farfugla, utanríkisráðherra og andlega leiðtoga af aðeins minna kalíberi en Dalai Lama.

Hafa embætti ´forsætis- fjármálaráðherra- og utanríkisráðherra ef til vill hærri standard en embætti forseta?

Ég ætla þeim ekki svo illt að vilja gjöra glæpakvendinu Mörthu Stewart veislu með utrásarvíkingum á kostnað skattgreiðenda, en það er alveg ljóst að afsakanir Steingrims Joð er fráleitar og honum ekki sæmandi.

Ekkert fær hins vegar bitið á réttlætiskennd Ögmundar Jónassonar og Katrín Júlíusdóttir sýnir gamla takta með því að hitta Dalai Lama og er það vel, en hyggjum að fleiri þáttum.

Þannig væri gaman að vita hvenær heimsókn Össurs “Möltufálka” Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til heimaeyjar ránfuglsins góða var ákveðin og athuga samhengið við tilkynningu um komu Dalai Lama. Skemmtilega hentug tilviljun að Össur skuli "óvart" hafa verið að heiman.

Þarf ég að minna á að forsætis- og utanríkisráðherrar Dana, hittu baðir Dalai Lama að máli?

Jafnframt væri gaman að vita hvort fundir hans með kínverskum sendimönnum hafi verið jafn tíðir og forseta Íslands, eða fékk hann bara að vita skilaboðin símleiðis?

Og hefur einhver séð heilaga Jóhönnu? Síðast þegar sást til hennar var hun í grárri kápu og hélt á ófleygum og ryðguðum geislabaug.

mánudagur, 1. júní 2009

Kína, Jóhanna, Össur og ÓRG

Forsetinn, Össur og Kína

Það eru gríðarlega mikil vonbrigði að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra að ekki sé minnst á forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson skuli sniðganga Dalai Lama, fiðarverðlaunahafa Nóbels í Íslandsheimsókn hans.

Það er vissulega hið besta mál að Ögmundur Jónasson skuli hitta hann að máli en vitaskuld eru það eingöngu panik viðbrögð við gagnrýni og seint verður sagt að það sé í hans verkahring sem heilbrigðisráðherra að hitta þjóðarleiðtoga Tíbeta.

Ekki frekar en Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra eða Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra. Þau reyna vissulega að bera í bætifláka fyrir stjórnina. En þetta er vinstri stjórn til skammar.

Takk samt öll þrjú.

Um forseta lýðveldisins þarf ekki að fjölyrða, botninum er löngu náð. Það er reyndar umhugsunarefni að á sama tíma og Ísland stefnir að umsókn um ESB, er Ólafur Ragnar að hitta forseta Kýpur - á kostnað skattgreiðenda. Hvort talaði hann málstaði meirihluta eða minnihluta Alþingis við forsetann um ESB aðild Íslendinga? Og hvað mun hann gera í framtíðinni?

Svo aftur sé vikið að aðalmálinu þá vita allir um áhugaleysi Jóhönnu á útlöndum en spjótin hljóta að beinast að Össuri Skarphéðinssyni sem hefur verið yfirlýsingaglaður um allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þar á meðal um Kína.

Ég hef áður fjallað um hin slæmu áhrif forseta lýðveldisins á Össur og látið í ljós ótta um að hinn Kínasinnaði aðstoðarmaður hans, Kristján Guy Burgess kunni að véla þarna um.
Reyndist ég forspár?

Össur og Jóhanna skulda okkur skýringu á framkomu sinni. Það er öllum sama um Ólaf Ragnar hins vegar.

Er Heimssýn á móti EES?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, stjórnarmaður í Heimssýn skrifar pistil á blogg sitt um lýðræðishallann í Evrópusambandinu. Hún hefur að vissu leyti ýmislegt til síns máls en hún er hins vegar slegin ídeológískra blindu þegar hún kallar til vitnis Danann Jens-Peter Bonde og sakar “fjölmiðlafólk” (les: Árni Snævarr) um að halda því fram að “Jens Peter sé ekki lengur andvígur ESB, en “....það hefur alltaf verð vitað að afstaða hans til ESB er margslungin....”

Jens Peter var einn af stofnendum Júní-hreyfingarinnar en kjarninn í málstað hennar var að ekki þýddi að berja hausnum við steininn; eina leiðin til þess að vinna sjónarmiðum vinstri manna fylgis væri að berjast fyrir þeim innan Evrópusambandsins.

Ef þetta þýðir ekki í reynd að Jens Peter hafi hætt baráttu gegn úrsögn Dana úr Evrópusambandinu, ja þá eru sjónarmið hans býsna margslungin.

Í rauninni er það svo að einungis ofstækismenn á vinstri og hægri kanti stjórnmála í Evrópu eru á móti Evrópusambandinu. Þótt Danir, Írar og Hollendingar hafi verið duglegir að malda í móinn og neitað að láta hvað sem er yfir sig ganga, hafa skoðanakannannir sýnt svo árum skiptir að það er lítill áhugi á að standa utan ESB.

Það tala mjög fáir um andstöðu við aðild að ESB í aðildarríkjunum. Það er dálítið eins að segjst vera á móti fjármálum, manni getur verið uppsigað við magt í fjármálakerfinu en það er þýðingarlaust að vera á móti fjármálakerfinu og sama gildir um ESB. ESB er staðreynd.

Við getum ekki einu sinni selt fisk til Rússlands án þess að ESB komið við sögu.


Og fyrst Anna talar yfilætislega um að andstæðingar hennar fylgist ekki með, langar mig til að forvitnast um hvort hún hefur séð viðtal mitt við Jens-Peter Bonde sem hægt er að nálgast á síðu Samtaka iðnaðarins.

Þar líkir Jens Peter EES samningnum við að Ísland og Noregur gangist sjálfviljug undir nýlendustefnu. Samkvæmt EES samningnum hefur Ísland tekið upp a.m.k. 65% lagaramma ESB – án þess að hafa neitt um það að segja.

Við munum vissulega hafa tiltölulega lítil áhrif á gang mála vegna smæðar okkar, en við verðum alltaf tiltölulega áhrifalítið smáríki hvort sem við verðum innan eða utan ESB.

En mig langar til að spyrja Önnu Ólafsdóttur Björnsson eftirfarandi spurnniga:

1. Telur hún að lýðræðishallinn aukist hvað Íslendinga varðar, þegar við fáum sæti við samningaborðið þar sem ákvarðanir eru teknar?

2. Eykst fullveldið við það að hafa engin áhrif á lagasetningu sem okkur er gert að taka upp?

3. Er hún sammála eða ósammála Jens Peter um að EES sé nýlendusamningur?

4. Telur hún rétt að segja EES samningnum upp?

Ég hlakka til að sjá svör Önnu. Og í kjölfarið verður áhugavert að heyra sjónarmið td. Iluga Gunnarssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar, stjórnarmanna í Heimssýn.

Vilja þeir kannski að við segjum upp EES?

sunnudagur, 31. maí 2009

Íslenskir ráðamenn sniðganga Dalai Lama

Það er ótrúlegt hneyksli að hvorki forseti Íslands né ráðherrar i ríkisstjórn vilji hitta Dalai Lama.

Hvað hefði Össur Skarphéðinsson sagt á sínum tima ef Halldór Ásgrimsson eða Davíð Oddson hefðu sniðgengið tibetska Nóbelsverðlaunahafann?

Nú bý ég í útlöndum og fylgist kannski ekki með en þessi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra getur ekki verið glaðbeitti stjórnarandstöðuþingmaðurinn og ritstjórinn sem barðist fyrir frelsi á öllum sviðum hér í eina tíð.

Og það er engin afsökun fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að enskan sé henni ekki töm. Nicolas Sarkozy talaði t.d. áreiðanlega við Dalai Lama á sínu móðurmáli.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, er hins vegar samkvæmur sjálfum sér í því að sleikja upp kínverskra harðstjóra. Hann hefur áður verið talsmaður þess að fórna mannréttindaboðskap á altari hagsmuna útrásarvíkinga.

Gleymum því ekki heldur að að hann hélt sérstakt boð fyrir Mörthu Stewart, dæmda fjárglæframanneskju en nú vill hann ekki hitta friðarverðlaunahafann Dala Lama. Þarf að segja meira?

Menn eru dæmdir af verkum sínum. Gömlu Þjóðviljaritstjórarnir Ólafur Ragnar og Össur hafa fallið á prófinu og sama máli gegnir um heilaga Jóhönnu.

sunnudagur, 24. maí 2009

Þó líði ár og öld er Björk bara best

Ég er mikill aðdáandi bloggarans Margrétar Hugrúnar Gústavsdóttur bloggara hér á Eyjunni. Tek það fram að ég er ekki einu sinni málkunnugur henni; hún er einfaldlega frumlegur og áhugaverður penni. Hún skrifar mjög skemmtilega athugasemd á bloggið sitt, þar sem hún ber saman nyju Evróvisjónstjörnuna Jóhönnu og Björk.

“Björk Guðmundsdóttir hefur unnið fleiri verðlaun fyrir tónlist en allir aðrir íslenskir tónlistarmenn. Alls 14, og þar af 52 tilnefningar m.a. Grammy og Óskarsverðlaun. Og þetta þykja almennt mun virðingarverðari keppnir en Júrótrashvision. Samt hefur aldrei verið smalað á Austurvöll. Hvernig ætli standi á þessu?.”

Þetta er býsna vel athugað hjá Margréti Hugrúnu.

Af kynnum mínum af Björk ræð ég að ef haldin yrði samkoma á Austurvelli henni til heiðurs, myndi hún ekki mæta (!) en það er aukaatriði í þessu máli. Og það er jafnframt aukaatriði að Jóhanna er frábær átján ára söngkona sem á lífið framundan og engin ástæða til að vera neikvæður í hennar garð.

Hins vegar er það mér ráðgáta hvers vegna Björk nýtur ekki sannmælis á Íslandi. Kannski er skýringin sú að þegar minnst er á náttúrvernd, evrópska samvinnu og hvalveiðar, virðist hálf þjóðin missa vitið...

Í mínu starfi á alþjóða vettvangi (ef ég má vera svo hátíðlegur) hef ég unnið að einu verkefni með Björk og hef síðan ekki haft undan að svara alls kyns beiðnum til hennar frá -stundum- heimsfrægu fólki. Ég hef að sjálfsögðu bara beint þessum tilmælum til Bjarkar en gjarnan með þeim orðum að ég sé landi hennar en ekki umboðsmaður!

En þetta er ekki bara spurning um frægð: Madonna er miklu frægari svo dæmi sé tekið. En Björk nýtur virðingar; einmitt vegna þess að hún er hún sjálf. Stundum óþolandi mikið hún sjálf, vitum við sem höfum unnið með henni. En Björk verður bara að fá að vera Björk: annars væri hún ekki Björk.

Það breytir því hins vegar ekki að við Íslendingar og forsvarsmenn okkar stofnum til veislu til að fagna býsna mörgu: Bermúdabikarnum, Jóhönnu í öðru sæti, tukthusliminum Mörthu Stewart svo ekki sé minnst á blessaða útrásarvíkingana okkar.

(Að Ásdísi Rán ógleymdri og heimsókn hennar í Playboy-setriði – skítt og lago með að Hugh Hefner hafi ekki verið heima. Hann sendi jú sínar bestu kveðjur.)

Og man einhver eftir Svölu Björgvins? Fín söngkona. Stöð 2/Skífan ætlaði á sínum tíma að gera hana að megastjörnu, gaf út diska hennar, bjo til vídeói og hélt úti heimasíðunni Svala dott com.

Þar sagði hin svala Svala frá “her shopoing with her friends Hrafnhildur and Unnur in LA” eða eitthvað álika og svo dillaði hún sér í dansatriðummeð alvöru gengjum í Kaliforníusólinni.

Hún söng vel og dansaði enn betur en sá galli var á gjöf Njarðar að hún var sæt og smart en bara ... ekkert sérstök.

En það er Björk og það erum við Íslendingar- innst inni.

Við sem búum í hinum frönskumælandi heimi sjáum í búðargluggum tvö síðustu hefti hins víðlesna timartits GEO. Í öðru er hin sólríka Katalónía á forsíðu en í nýjasta heftinu Ísland.

Það er helvítis skítaveður á hverri einustu dramatísku glæsimyndinni frá Íslandi- en sannleikurinn er bara sá að við getum aldrei logið okkur upp á alheiminn sem sólarparadís. Katalónía myndi alltaf vinna, rétt eins og Barcelona myndi alltaf vinna KR í fótbolta! Með fullri virðingu fyrir vinum mínum í hinni ástsælu fjölskyldu Baltasar Samper – okkar ágætu íslensku-katalóna!

Við eigum að leggja á sérstöðu okkar – ekki hermi-hæfileikum okkar. Páfagaukar eru ekki góð fyrirmynd. LA liðið mun alltaf rótbursta okkur í Kaliforníustuðinu, sama hvað við gerum.

Þess vegna er Björk súperstjarna en ekki Svala og ….Bjöggi pabbi. Sorrý to say so, en það breytist ekki "þó líði ár og öld."

þriðjudagur, 19. maí 2009

Var Hitler sérfræðingur um gyðinga?

Var Hitler sérfræðingur um gyðinga af þvi hann var á móti þeim? Eða Stalín um kúlaka? Davíð Oddsson um Baug? Bill Clinton um repúblikana? Nú eða til dæmis Ragnar Arnalds um herinn?

Ragnar var á sinum tíma forkólfur baráttunnar gegn hernum en varla hefði honum dottið í hug að vera boðið í sjónvarpssal og viðtal við hann birt sem sérfræðing um herinn.

En nú er svo komið hjá Kastljósi Sjónvarpsins að það væri hreinlega rökrétt að bjóða Ragnari að fá að halda einræðu sem "sérfræðingi um Evrópumal" á kjörtima í sjónvarpi allra landsmanna.

Í kvöld var þannig tekið viðtal við tvo Nroðmenn sem voru kynntir í tvígang – fyrst í fréttatímanum og síðan í upphafskynningu þáttarins sem sérfræðnga í Evrópumálum.

Viðtalið var sýnt þannig að umsjónarmaður, Þóra Tómasdóttir, sagði sem minnst en lét Norðmennina hafa orðið. Þeir töluðu lengi um aðildarviðræður Norðmanna og þjóðaratkvæðagreiðsluna 1994 og án þess að nefna eitt einasta konkret atriði drógu þeir þá ályktun að Ísland fengi sama díl og Norðmenn 1994 eða td. Litháar 2004.

Þóra Tómasdóttir spurði fyrir Kastljos, fárra spurninga en til dæmis þessara:
--Það var þá af lýðræðisástæðum sem Norðmenn sögðu Nei?
--þú hefur lengi verið á móti ESB, hvað er mikilvægast fyrir Íslendinga að heyra?

Þóra kinkaði síðan svo vel kolli að aðdáunarvert var, þegar Norðmennirnir sögðu frá því að Ísland og Noregur væru fiskútflytjendur en samsæri væri gegn þeim í ESB af því þar væru menn fiskkaupendur!!!!

Þóra hafði ekkert við þennan málflutning að athuga.

Fyrir fagmenn má svo bæta því við að eftir að viðtalið við norsku “sérfræðingana” hafði verið margkynnt í fréttum og Kastljóskynningunni var allt í einu snúið við blaðinu þegar innslagið var kynnt og sagt að þarna væru á ferðinni “baráttumenn”.

Og síðan var klínt aftan við viðtalið – greinlega á síðustu stundu – símaviðtali við formann já hreyfingarinnar í Noregi.

Hvað varð um sérfræðingana sem fréttatíminn hjá RÚV byrjaði á og alltí einu breyttust í baráttumenn? Hmmmm dularfullu sérfræðingarnir sem hurfu hefði Enid Blyton sagt.

Hitler og Kastljósið

Ef Norðmennirnir tveir úr Nei til EU sem voru í Kastljósi í kvöld voru sérfræðingar í Evrópumálum, var Hitler sérfræðingur í málefnum gyðinga.

þriðjudagur, 12. maí 2009

Til lykke til Island fra SF!

Vinkona mín dönsk sem vinnur á skrifstofu eins þingmanna SF sendi mér þennan skemmtilega link. Kannski hefur þetta fyrir löngu verið sýnt á Íslandi en það ætti ekki að skaða neinn að sjá þetta aftur:

http://www.sf.dk/default.aspx?func=article.view&id=57095


Vinstri-grænir eiga greinilega góða vini í Danmörku þar sem Socialistisk Folkeparti (SF)er! Og svona by the way: SF hefur verið fylgjandi aðild Danmerkur að Evrópusambandinu um árabil.

mánudagur, 11. maí 2009

Jörð kallar Jón Bjarnason!

Jón Bjarnason tók við embætti landbúnaðar- og sjávarutvegsráðherra með yfirlýsingu um að hann myndi beita sér fyrir breytingum matvælatilskipun Evrópusambandsins sem áð taka gildi hér á landi.

Atli Gíslason samflokksmaður hans i VG gaf til kynna að innflutningur væri af hinu slæma enda væri íslenskar landbúnaðarvörur og fiskur fullboðlegar fyrir landann.

Jón Bjarnason og Atli Gislason eru andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og teja því væntanlega aðild að EES þjóna hagsmunum Íslands.

Þótt Jón Bjarnason sé nu kominn til áhrifa, getur hann hins vegar ekkert gert til að breyta matvælatilskipun Evrópusambandsins – hana verði Íslendingar að innleiða hvort sem þeim líkar betur eða verr. Jóni er vorkunn að vilja hafa áhrif á löggjöf sem leiða verður i lög á Íslandi óbreytta.

Ef Ísland hefði verið i Evrópusambandinu hefði Jón getað haft á hrif á matvælatilskipunina áður en hún var samþykkt og safnað liði gegn henni í ráðherraráðinu eða á Evrópuþinginu.

Atli Gíslason er vafalaust sammála Lúðvik heitnum Jósefssyni sem býsnaðist mikið yfir of miklu kexúrvali í íslenskum verslunum.

En þótt Atli kæmist til æðstu metorða á Íslandi gæti hann hvorki fækkað kextegundunum né torveldað innflutning á vöru sem er i samkeppni við islenskan iðnað.

Slíkt er nefnilega bannað í EES samningnum.

Ef Jón og Atli vilja raunverulega stunda pólitík en ekki sýndarmennsku eiga þeir að taka því fagnandi að við göngum í Evrópusambandið. Við endurheimtum að minnsta kosti eitthvað af fullveldinu með því.

Ef þeir trúa í raun og veru á sinn eigin málflutning eiga þeir að vera heiðarlegir og leggja fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin semji um úrsögn úr EES.

Verst að Davíð og Björn eru ekki lengur á þingi til að greiða atkvæði með þeim.

sunnudagur, 10. maí 2009

Loksins! Loksins!

Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekist hið otrúlega – að koma á stjórnarsamstarfi við Vinstri-Græna og jafnframt því að lögð verði fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Bravó Jóhanna!

Næst vil ég sjá að Vinstri-Grænir horfist í augu við staðreyndir eins og langflestir skoðanabræður þeirra í Evrópu hafa gert fyrir löngu.

Það gengur ekki upp að segjast berjast fyrir fullveldi Íslands og sætta sig við það á sama tíma að 65-75 prósent af allri löggjöf Íslands komi á tölvupósti frá Brussel án þess að kjörnir íslenskir fulltrúar hafi nokkuð um hana að segja.

Jens-Peter Bonde, einn öflugasti Evrópusambandsandstæðingur Dana til skamms tíma segir að það þýði ekkert að berja hausnum við steininn. Ef maður vilji hafa áhrif í pólitík þýði ekkert að standa nöldrandi út í horni heldur taka þátt í slagnum þar sem ákvarðanir eru teknar.

Hann hefur líkt EES samningnum við að Ísland og Noregur hafi gerst sjálfviljug gerst nýlenduþjóðir að nýju. Til hvers var sjálfstæðisbaráttan ef við ætlum að gefa útlendingum vald til að setja okkur lög án þess að við höfum neitt um það að segja?

Þótt við Íslendingar eigum ekki vin í Downingstræti 10 nú um stundir eigum við marga vini í Evrópu. Þeir vilja að við og helst Norðmenn og Svisslendingar líka göngum til liðs við Evrópusambandið til að styrkja þau öfl sem vilja lýðræðislega- og gagnsæja stjórnunarhætti og ábyrga og umhverfisvæna efnahagsstefnu.

Ég veit að sumir trúa mér ekki en þegar öllu er a botninn hvolft skiptir ekki máli hverjir á Íslandi eru í stjórn – þeir geta allir flokkast til framfaraafla á evrópska vísu. Að svörtu klíku Sjálfstæðisflokksins og S-hópi Framsóknarflokksins slepptum. Að sjalfsögðu.

Vinstri Grænir eiga fyllilega framtíð á evrópska vísu. Sama mali gegnir um Sjálfstæðisflokkinn með því skilyrði þó að ofsafrjálshyggjumenn verði látnir róa.

Elsta lýðræðisþjóð Evrópu á heima í félagsskap evrópskra lýðræðisríkja. Vinstri grænir geta síðan barist fyrir sjónarmiðum sínum innan Evrópusambandsins og unnið með skoðanabræðrum sínum í að mál Evrópu og Ísland með sínum rauðu og grænu litum.

laugardagur, 2. maí 2009

Mældu nú rétt Tryggvi Þór!

Tryggvi Þór Herbertsson, nýkjörinn alþingismaður, kvartar sáran yfir því að vera skotspónn bloggara. Tryggvi er alveg hlessa á því að fólk hafi eitthvað við hans störf að athuga og kvartar yfir sleggjudómum. Nú vill svo til að ég hef gagnrýnt Tryggva Þór á bloggi- og hef gert það málefnalega. Förum aðeins yfir það sem ég hef haft við málflutning hans að athuga.

Mig langar til að benda honum á að þegar hann sinnti hagrannsóknum eftir pöntun í Hagfræðistofnun tókst honum að reikna út að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi kosta tugi milljarða á hverju ári.

Evrópunefnd sem Björn Bjarnason stýrði komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þegar búið væri að draga frá kostnað vegna EES samningsins myndi ESB aðild hugsanlega ekki kosta neitt en þó í mesta lagi hálfan annan milljarð.

Fræðimaðurinn Tryggvi hefur aldrei skýrt hvernig honum tókst að reikna þessa upphæð miklu hærra en stjórnmálamanninum og ESB andstæðingnum Birni Bjarnasyni.

Þetta minnir svolítið á ritstjóra Eyjunnar, Guðmund Magnússon. Hann var eitt sinn frjálshyggjumaður en löngu áður var hann kommúnisti og herstöðvaandstæðingur. Á þeim tíma var hann sumarblaðamaður á Dagblaðinu. Einhverju sinni voru mótmæli gegn hernum; lögreglan taldi að fimm hundruð manns hefðu verið á vettvangi, herstöðvaandstæðingur töldu að það hefðu verið tvö þúsund en Guðmundur sumarkommi á Dagblaðinu taldi að það hefðu verið tíu þúsund!

Svipuðu máli gegndi með Tryggva Þór Herbertsson. Honum tókst að reikna fjárhæðirnar svo hátt að jafnvel hörðustu ESB andstæðinga svimaði. Hann var kaþólskari en Davíð páfi og launagreiðandi hans.

En þá var Tryggvi Þór fræðimaður sem vann fyrir reikning. Nú er hann kosinn alþingismaður og þarf að kannast við skrif sín.

Ég segi við Tryggva, hættu að væla og mældu nú rétt strákur!”

fimmtudagur, 30. apríl 2009

Orð skulu standa heilög Jóhanna

Ef rétt er haft eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar ætli að gefa eftir í Evrópumálum getur það ekki þýtt nema eitt. Að hún ætli að svíkja kosningaloforð um að setja Evrópumálin á oddinn.

Nú þegar flest bendir til að þingmeirihluti sé fyrir að sækja um aðild að Evrópusambandinu, (S plús O plús B plús nógu margir D og VG) hefur Samfylkingin enga ástæðu til að gefa eftir. Vinstri grænir aftur á móti verða að sætta sig við það að skoðanir þeirra njóta ekki stuðnings meirihluta þjóðarinnar eins og hann kom fram í nýliðnum þingkosningum.

Samfylkingunni ber lýðræðisleg skylda til að snúa baki við vinstri grænum og leita á önnur mið eða mynda minnihlutastjórn. Vinstri grænir munu raunar sennilega klofna hvort heldur sem er eftir að forysta þeirra sneri endanlega bakinu við grænum sjónarmiðum. Langflestir skoðanabræður þeirra, meira að segja í villta vinstrinu, í Evrópu hafa löngu gert þetta. Og allir græningjar að heita má.

Ef allt fer á versta veg og stjórnarmyndun tekst ekki á Samfylkingin sögulegt tækifæri á að taka Evrópufylgið endanlega af Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum og græna fylgið af kommúnistunum sem eftir sitja í VG.

Samfylkingin mun hins vegar klofna ef Jóhanna kýs slíka kyrrstöðustjórn enda engin leið út úr þrengingum okkar til lengri tíma litið án ESB aðildar.

Það er alveg ljóst að Árni Páll Árnason og Róbert Marshall munu ekki geta greitt slíkri stjórn atkvæði og siðferðilega geta amk. Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson það ekki heldur.

Orð skulu standa.

föstudagur, 24. apríl 2009

Ég styð flokk í fyrsta skipti

Ég hef aldrei stutt stjórnmálaflokk opinberlega áður, en ég geri það nú.

Ástæðan er sú að Íslendingar urðu nánast gjaldþrota vegna þess að við völd voru stjórnmálaflokkar sem höfðu enga aðra stefnu en að auðga gæðinga sína. Og sjálfa sig með, eins og við vitum nú.

Ég var ekki nógu góður sem blaðamaður í því að finna út hvað var á seyði þótt ég benti aftur og aftur á það við lítinn fögnuð hve vitlaust var gefið í spilinu þegar bankarnir voru einkavæddir.

Við vitum núna að það sem ég fjallaði um fyrir nokkrum árum, var reykurinn af réttunum.

Flokkarnir sem báru ábyrgð á þessu og sömdu reyndar handritið voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur

Þeim hafna allir almennilegir menn og konur.

Afleiðingar málsins sýna og sanna að við þurfum að vera í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisríkja sem Sjáflstæðisflokkurinn vill ekki af óskljanlegum ástæðum.

Sjálfstæðismenn eru gott fólk upp til hópa. Ég er enginn æstur aðdáandi Samfylkingarinnar. Þeir sem lesið hafa skrif mín hér á eyjunni, síðast fyrr í dag, vita að ég er krítískur i hennar garð.

Heimskan og heimóttaskapurinn í Sjálfstæðisflokknum veldur hins vegar þvi að ef sannir sjálfstæðismenn vilja vera samkvæmir sjálfum sér og styðja frjálst framtak, lýðræðislega og góða stjórnunarhætti, framfarir og lýðræði þá styðja þeir ekki einangrunarsinnaðana spilltan Sjálfstæðisflokkinn.

Útilokunaraðferðin segir okkur hófsömum miðjumönnum og Evrópusinnum að það er bara eitt val: Samfylkingin.

Warts and all.

1000 blóm blómstra ekki þótt Maóistar bjóði fram

Kannski á einhver eftir að hrista hausinn við að komast að því að þrátt fyrir fyrirsögnina fjallar pistillinn ekki um álitamál i fræðum formannsins sáluga heldur slor og fiskveiðar við Íslandsstrendur og víðar!

Lesandi varpaði þeirri spurningu til mín hvort ég væri jafn heitur í Evróputrúnni eftir að hafa lesið frétt á Visi. is með fyrirsögninni « Ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB »

(http://www.visir.is/article/20090424/VIDSKIPTI06/343441019/-1).

Svarið er einfalt já ég er það.

Þannig er mál með vexti að ég starfa í Brusselborg við Schuman-torg innanum stofnanir Evrópusambandsins. Gestir og gangandi komast ekki hjá því að verða þess áskynja þótt langt sé til sjávar í Brussel, að verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB fyrir 2012 ef mér skjöplast ekki. Fólk er hvatt til að kynna sér málin og láta ljós sitt skína um svokallaða grænbók eða kynningu framkvæmdastjórnarinnar sem er vissulega ekki aðaláhugamál flestra íbúa ESB ríkjanna. Og það er gert á mjög aðgengilegan og í raun lýðræðislegan hátt.

Fyrst ég minntist á Maó: "Leyfum þúsund blómum að blómstra!"

Í grænbókinni er málið greint frá öllum hliðum og sagt frá helstu sjónarmiðum sem uppi eru. Það er vissulega rétt sem segir í fréttinni að ýmsir hafa lagt til breytingar á svokölluðum hlutfallslegum stöðugleika, reglu sem tryggir Íslandi ævarandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum innan Evrópusambandsins. Og framkvæmdastjórnin bendir á þá möguleika sem íbúarnir nefna.

Að halda því fram að að það sé “ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB" vegna þess að skoðanir þess efnis séu reifaðar í kynningarefni framkvæmdastjórinnar er hins vegar afar hæpið.

Það er nefnilega þannig í raunveruleikanum að þúsund blóm blómstra ekki. Bara sum.

Kosningabarátta er í gangi á Íslandi og margar skoðanir eru reifaðar eins og eðlilegt er i lýðræðislegri umræðu.

Hér í eina tíð buðu Maóistar og Trotskíistar fram í kosningum á Íslandi og fengu núll komma eitthvað prósent stuðning við þær hugmyndir að kollvarpa lýðræðislegum stjórnarháttum og markaðsbúskap og taka upp alræði öreiganna. Sem voru ýmist bændur eða verkamenn, eftir á hvorn guðspjallamanninn var hlustað.

Hefði verið eðlilegt að halda því fram í þessum kosningum að lýðræði og markaðsbúskapur væri í hættu á Íslandi vegna þess að þessir hópar fengju að bjóða fram eins og sjálfsagt og eðlilegt var ?

Að starfsmenn Hampiðjunnar eða bændur í Flóanum væru að taka völdin?

Er líklegt að útrásarvíkingar verði settir í steininn vegna þess að sumir frambjóðendur hafa lagt það til? Að við þurfum ekki að borga skuldir okkar eins og framsóknarmenn lofa upp í ermina á sér?

Var Árna Johnsen byrlað rottueitur, þótt hann segi það sjálfur?

Að öllu gamni slepptu verður að horfa á hlutina í samhengi.

Það er ekki eitt einasta ríki innan Evrópusambandsins fylgjandi því að afnema hlutfallslegan stöðugleika og þar með álíka litlar líkur á þvi að það gerist eins og að maósistar og trotskistar hefðu náð völdum á Íslandi hér í eina tið. Eða einhver hafi byrlað Árna Johnsen rottueitur. Hvaða pólitískur andstæðingur hans vildi ekki hafa hann í framboði, ég bara spyr?

Joe Borge, sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins sagði athyglisverða hluti á sinn hógværa hátt í myndinni um ESB sem ekki máti sýna á RÚV í fyrra. Hann tók svo djúpt i árinni að segja að það hefði aldrei verið talað um þetta innan ESB.

Eins og við þekkjum á Íslandi hafa sjómenn og útgerðarmenn kjaftinn fyrir neðan nefið og það er ekkert öðruvísi í ESB. En orð þeirra eru ekki lög.

Og ef Ísland gengur í Evrópusambandið og fær inn í aðildarsamninginn að hlutfallslegur stöðugleiki sé hluti af samningnum, fær að þjóðréttarlegt gildi og Ísland hefði sem ESB ríki neitunarvald til að tryggja þetta ákvæði.

Hlutfallslegi stöðugleikinn tryggir að Íslendingar hefðu einir réttir til kvóta í okkar lögsögu.

Að halda því fram að þetta sé í alvöru upp á borðinu innan ESB er hrein og klár vanþekking. Í versta falli styrkir þetta málflutning okkar Evrópusinna um mikilvægi þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og vernda hagsmuni Íslands.

Hvers vegna vilja Sjálfstæðismenn og Vinstri-Grænir ekki taka þátt í þeirri hagsmunagæslu ?

Ætla Íslendingar að ganga til liðs við vanheilagt bandalag öfgasinnaðra þjóðernissinaðra öldunga úr kalda stríðinu á borð við Styrmi Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Hjörleif Guttormsson, að ógleymdum kvótakóngum og sægreifum?

Af hverju ekki að ganga á móts við framtíðina og setja x-ið í kosningunum við Evrópu?

Það gerir maður bara á einn hátt og það er með X-S. Samfylkinguna: warts and all!

VG: Evrópukóngar í EINN dag

Norska Dagblaðið segir frá því að Vinstri-Grænir hafi komið í veg fyrir að hin umdeilda þjónustutilskipun ESB taki gildi á evrópska efnahagssvæðinu. Síðan segir samkvæmt endursögn Morgunblaðsins:

“Oda H. Sletnes, sendiherra Noregs hjá ESB, segir í samtali við Dagbladet að þetta hafi aldrei gerst áður. Hann segir þó að einu afleiðingarnar séu að samþykktin muni frestast fram á næsta fund sendiherranna. Lögin muni samt taka gildi í árslok 2009.”

Það hefur sem sé aldrei gerst áður að Ísland hafi svo mikið sem tekið sér frest til að leiða í lög tilskipanir Evrópusambandsins. Eftir fimmtán ár gerast síðan þau undur og stórmerki að sendiherra Íslands er beðinn um, fyrir tilstilli VG í ríkisstjórn Íslands, að bíða með að samþykkja tilskipunina fram að næsta fundi! Miklir menn erum vér Steingrimur Joð og Ögmundur!

Við höfum að sjálfsögðu ekkert haft að segja um þessa tilskipun sem er mjög umdeild. En við verðum að leiða hana í lög hvort sem okkur likar betur eða verr. Hún er í algjörri andstöðu við allt sem Steingrími Joð og Ögmundi er kært – en þeir geta stappað niður fótum og frestað málinu til næsta fundar eins og óþekkir krakkar.

Segi Ísland nei, hrynur EES samningurinn – og ESB segði farið hefur fé betra! Efta ríkin hafa aldrei beitt neitunarvaldi á löggjöf EES. Neitunarvaldið er sem sagt nafnið tómt.

Sannleikurinn er sá að það er ótrúlegt að nokkur maður sem segist bera fullveldi þjóðarinnar fyrir brjósti skuli segjast fylgjandi EES samningnum. Í myndinni Ef…Ísland og Evrópusambandið sem ég gerði (og ekki fékkst sýnd á RÚV sem frægt varð), er ma. talað við Jens Peter Bonde, danskan skoðanabróður Steingríms og Ögmundar.

Jens Peter var á sínum tíma einn oddvita “Folkebevægelsen mod EF” og átti síðan stóran þátt í að fella Maastrichtsamninginn í Danmörku. Eftir það ákvað hann að berjast fyrir sósíalisma, umhverfisvernd og gagnsæi innan ESB þar sem ákvarðanirnar eru teknar og hefur gert það með stæl. Hann var þannig lykilmaður í því á Evrópuþinginu að fella framkvæmdastjórnina sem Jacques Santer veitti forystu.

Jens Peter talaði greinilega til íslensrka kollega sinna í þættinum enda þekkir hann þá marga hverja persónulega. Hann líkti EES samningnum við það að Ísland og Noregur heimtuðu að gerast nýlendur að nýju. “Af hverju viljið þið ekkim eins og við hafa áhrif á ykkar eigin framtíð. EES samningurinn er nýlendusamningur,” sagði Jens Peter og ég tek heils hugar undir það.

Horfumst í augu við það að valið stendur fyrr eða síðar um það að standa utan EES eða ganga i ESB. Valið þar á milli er einfalt.

Glitnir og bankamálaráðherrann

Ég verð að viðurkenna að ég undrast að enginn skuli vekja athygli á ákveðinni staðreynd varðandi styrki til einstakra stjórnmálamanna. Greint hefur verið frá því í fréttum að Sigurður G. Guðjónsson, kosningastjóri Björgvins G. Sigurðssonar vísi því á bug að Baugur hafi styrkt frambjóðandann.

Mér finnst það nefnilega út af fyrir sig fréttnæmt að Sigurður G. Guðjónsson hafi verið kosningastjóri Björgvins, þótt það komi mér ekki á óvart því þeir eru jú svilar.

Kannski var Björgvin G. vanhæfur sem bankamálaráðherra að fjalla málefni Glitnis vegna fjölskyldutengsla við Sigurð, stjórnarmann í bankanum. En þegar nú kemur í ljós að Sigurður var kosningastjóri Björgvins og virðist vera með bókhald hans í rassvasanum renna vissulega á mann tvær grímur. Ef ekki þrjár.

PS Nýjustu fréttir eru svo þær að þótt Siggi G. sé með bókhald Björgvins í rassvasanum hafi allt annar maður verið kosningastjóri hans! Því miður virðist frambjðandinn Björgvin hafa sömu ósiði og hann sem bankamálaráðherra, að vita ekkert hvað hann er að gera. Er þetta fréttaflutningur sem Samfylkingin þarf á að halda daginn fyrir kosningar? Þvílíkir amatörar!

miðvikudagur, 22. apríl 2009

FLuglaugur, FLugdís, FLingi og FLillugi

Við vitum enn ekki hvaða stjórnmálamenn hafa fengið styrki í formi "kúlulána" til dæmis, sem er ekkert annað en að bera fé á fólk. Við vitum hverjir fengu styrki frá Baugi og FL group en það er aðeins toppurinn á ísjakanum. Landsbankinn var mjög drjúgur i sínum stuðningi og ekkert vitum við um Glitni eða Kauping.

Hins vegar skulum við líka hafa í huga að það er ekkert óeðlilegt að fyrirtæki styrki stjórnmálamenn, svo lengi sem það er gert á hófsaman og gagnsæjan hátt.

Þegar fólk á borð við Fluglaug Baug Þórðarson, Steinunni Valdísi, Björn Inga og Illuga Gunnarsson (ef við bætum við sjóð níu) eru að fá margföld mánaðarlaun frá einum og sama aðila, þá er alveg ljóst að í því spili er vitlaust gefið.

Það gildir allt öðru máli ef við erum að tala um dreifð jöfn framlög og hámarkið er nokkur hundruð þúsund krónur.

Mér sýnist að við séum ekki bara að tala um Fluglaug, heldur Steinunni FLugdísi, Björn FLinga og FLilluga Gunn.

En öll kurl eru ekki komin til grafar....

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Davíð og Hannes með þeirra orðum

Maríanna Friðjónsdóttir, dagskrárgerðarmaður til margra ára hefur tekið þetta saman. Ég held að enginn hafi sýnt betur fram á "með þeirra eigin orðum" sem Styrmir Gunnarsson auglýsti eftir, hve Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn dásömuðu útrásina. Og hversu Davíð Oddsson laug blygðunarlaust þegar hann sagðist aldrei hafa lofað útrásarvíkingana. Kíkið endilega á þetta. Frábært Maríanna, takk!

http://www.facebook.com/home.php#/video/video.php?v=70440609580&ref=nf

Í ESB til að auka sjálfstæðið

Bjarni Benediktsson, hefur frá því að hann bauð sig fram til forystu í Sjálfstæðisflokknum haft allar mögulegar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann hefur talið að krónan væri í lagi og ekki í lagi og að við ættum að vera innan og utan Evrópusambandsins.

Þessa stundina virðist Bjarni dansa eftir pípu stóra frænda Kalda-stríðs Bjössa.

Þegar embættismaður hjá Evrópusambandinu sagði að upptaka Evru með aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðins væri hreinasta firra, brást hinn skapvondi frændi Bjarna formanns ókvæða við og sakaði Percy Westerlund, sendiherra fyrir ómakleg afskipti af innanlandsmálum fyrir það eitt að benda á staðreyndir.

Bjarni litli frændi kom svo í útvarp í hádeginu og endurtók línur stóra frænda, einhvern veginn sá ég hann fyrir mér í Matrósafötum sitjandi á kné stóra Bjössa.

Línan: “við látum ekki embættismenn í Brussel stjórna okkur”, er mjög óheppilega valin.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst nefnilega um það að við Íslendingar getum haft áhrif á okkar eigin löggjöf. Eins og staðan er nú telur Evrópusambandið að Ísland taki upp 75% af löggjöf þeirri sem embættismenn í Brussel semja. Við höfum nánast ekkert um okkar eigin mál að segja.

Ef Bjarna er alvara með því að hann vilji ekki láta “embættismenn í Brussel stjórna okkur,” ætti hann að lýsa yfir fylgi við aðild að Evrópusambandinu.

Þá færeysku í krafti hvalveiðiráðs?

Hér í eina tíð kusu menn Sjálfstæðisflokkinn ekki síst vegna þess að þangað leitaði hæfileikafólk. Þar var hægt að finna “safe pair of hands”.

Nú er öldin önnur. Algjör glundroði ríkir í stefnu flokksins sem í senn gerir að einu helsta stefnumáli sínu að ráðast að einu tilteknu fyriræki, Baugi og á sama tíma heimta af því fé.

Flokkurinn hefur haft allar mögulegar stefnur í Evrópumálum undanfarinn hálfan annan áratug. Um 1990 vildi Davið athuga með inngöngu í ESB. Flokkurinn var svo alveg andsnúinn EES en vildi tvíhliðasamning. Því næst var flokkurinn fylgjandi EES og andsnúinn ESB aðild.

Þegar Evran varð til sagði Davið að þessi tilraun myndi aldrei lukkast, heldur væri þetta gjaldmiðill á borð við kúbönsku og norður-kóresku gjaldmiðlana sem ekki þykja nógu góðir til að nota sem skeinipappír. Seðlarnir altso.

Nú hins vegar er flokkurinn búinn að mála sig út í horn og í stað þess að viðurkenna staðreyndir og að flokkurinn hafi haft rangt fyrir sér, er reynt að ljúga sig út úr vandanum.

Fyrir rúmu ári sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að engin leið væri að taka upp evru án ESB aðildar.

Björn Bjarnason, einn helsti oddviti Heimastjórnarmanna, ofstækisfullra þjóðernissinna í flokknum, vildi hins vegar fyrst alls ekki sjá evruna, en svo allt í einu vildi hann taka upp evruna á grundvelli EES!

Ýmsir forkólfar flokksins töluðu um svissneska franka og fram á síðustu daga hefur verið talað um dollara eins og “bananalýðveldim” i Suður-Ameríku hafa gert.

Nú er hins vegar farið að tala um að taka upp evruna í krafti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!

Þetta er farið að minna á frúnna í Hamborg, ESB kemur í staðinn fyrir hvitt og svart.

Af hverju ekki taka upp færeysku krónuna á grundvelli Alþjóða hvalveiðiráðsins spyr Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir á Facebook.

Eða bara taka upp Matadorpeninga i krafti aðildar Íslands að Alþjóðlegu skátahreyfingunni eða súrínamska dalinn í krafti samstöðu þjóðanna innan alþjóðlega sundsambandsins?!

Ég vissi að sjálfstæðismenn væru innmúraðir klíkubræður sem gerðu allt til að klekkja á anstæðingnum og hygla félögum sínum á kostnað annara. En ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru tilbúnir að opinbera sig sem fáfróða bjána í þeim tilgangi einum að viðurkenna ekki að þeir hafa algjörlega rangt fyrir sér. Að treysta á að þeir geti með smjörklípum blekkt þjóðina í eina viku til að koma í veg fyrir verðskuldað afhroð flokksins í kosningum.

Bjarni Benediktsson ætti frekar að taka sér frænda sinn Benedikt Jóhannesson til fyrirmyndar en Björn Bjarnason sem gerir sig endanlega að fifli í ómaklegum árásum sínum á erlenda diplómata á amx vefsiðunni í dag.

Bjarni minn ef þú vilt ná sæmilegri kosningu, sendu frænda þinn Björn i frí. Á sama stað og þið sendið Hannes Hólmstein venjulega á fyrir kosningar.

Verst að FL Group og Landsbankinn eru ekki lengur hér til að borga, eins og í þá góðu gömlu daga, þegar Flokkurinn var og hét.