föstudagur, 24. apríl 2009

1000 blóm blómstra ekki þótt Maóistar bjóði fram

Kannski á einhver eftir að hrista hausinn við að komast að því að þrátt fyrir fyrirsögnina fjallar pistillinn ekki um álitamál i fræðum formannsins sáluga heldur slor og fiskveiðar við Íslandsstrendur og víðar!

Lesandi varpaði þeirri spurningu til mín hvort ég væri jafn heitur í Evróputrúnni eftir að hafa lesið frétt á Visi. is með fyrirsögninni « Ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB »

(http://www.visir.is/article/20090424/VIDSKIPTI06/343441019/-1).

Svarið er einfalt já ég er það.

Þannig er mál með vexti að ég starfa í Brusselborg við Schuman-torg innanum stofnanir Evrópusambandsins. Gestir og gangandi komast ekki hjá því að verða þess áskynja þótt langt sé til sjávar í Brussel, að verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB fyrir 2012 ef mér skjöplast ekki. Fólk er hvatt til að kynna sér málin og láta ljós sitt skína um svokallaða grænbók eða kynningu framkvæmdastjórnarinnar sem er vissulega ekki aðaláhugamál flestra íbúa ESB ríkjanna. Og það er gert á mjög aðgengilegan og í raun lýðræðislegan hátt.

Fyrst ég minntist á Maó: "Leyfum þúsund blómum að blómstra!"

Í grænbókinni er málið greint frá öllum hliðum og sagt frá helstu sjónarmiðum sem uppi eru. Það er vissulega rétt sem segir í fréttinni að ýmsir hafa lagt til breytingar á svokölluðum hlutfallslegum stöðugleika, reglu sem tryggir Íslandi ævarandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum innan Evrópusambandsins. Og framkvæmdastjórnin bendir á þá möguleika sem íbúarnir nefna.

Að halda því fram að að það sé “ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB" vegna þess að skoðanir þess efnis séu reifaðar í kynningarefni framkvæmdastjórinnar er hins vegar afar hæpið.

Það er nefnilega þannig í raunveruleikanum að þúsund blóm blómstra ekki. Bara sum.

Kosningabarátta er í gangi á Íslandi og margar skoðanir eru reifaðar eins og eðlilegt er i lýðræðislegri umræðu.

Hér í eina tíð buðu Maóistar og Trotskíistar fram í kosningum á Íslandi og fengu núll komma eitthvað prósent stuðning við þær hugmyndir að kollvarpa lýðræðislegum stjórnarháttum og markaðsbúskap og taka upp alræði öreiganna. Sem voru ýmist bændur eða verkamenn, eftir á hvorn guðspjallamanninn var hlustað.

Hefði verið eðlilegt að halda því fram í þessum kosningum að lýðræði og markaðsbúskapur væri í hættu á Íslandi vegna þess að þessir hópar fengju að bjóða fram eins og sjálfsagt og eðlilegt var ?

Að starfsmenn Hampiðjunnar eða bændur í Flóanum væru að taka völdin?

Er líklegt að útrásarvíkingar verði settir í steininn vegna þess að sumir frambjóðendur hafa lagt það til? Að við þurfum ekki að borga skuldir okkar eins og framsóknarmenn lofa upp í ermina á sér?

Var Árna Johnsen byrlað rottueitur, þótt hann segi það sjálfur?

Að öllu gamni slepptu verður að horfa á hlutina í samhengi.

Það er ekki eitt einasta ríki innan Evrópusambandsins fylgjandi því að afnema hlutfallslegan stöðugleika og þar með álíka litlar líkur á þvi að það gerist eins og að maósistar og trotskistar hefðu náð völdum á Íslandi hér í eina tið. Eða einhver hafi byrlað Árna Johnsen rottueitur. Hvaða pólitískur andstæðingur hans vildi ekki hafa hann í framboði, ég bara spyr?

Joe Borge, sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins sagði athyglisverða hluti á sinn hógværa hátt í myndinni um ESB sem ekki máti sýna á RÚV í fyrra. Hann tók svo djúpt i árinni að segja að það hefði aldrei verið talað um þetta innan ESB.

Eins og við þekkjum á Íslandi hafa sjómenn og útgerðarmenn kjaftinn fyrir neðan nefið og það er ekkert öðruvísi í ESB. En orð þeirra eru ekki lög.

Og ef Ísland gengur í Evrópusambandið og fær inn í aðildarsamninginn að hlutfallslegur stöðugleiki sé hluti af samningnum, fær að þjóðréttarlegt gildi og Ísland hefði sem ESB ríki neitunarvald til að tryggja þetta ákvæði.

Hlutfallslegi stöðugleikinn tryggir að Íslendingar hefðu einir réttir til kvóta í okkar lögsögu.

Að halda því fram að þetta sé í alvöru upp á borðinu innan ESB er hrein og klár vanþekking. Í versta falli styrkir þetta málflutning okkar Evrópusinna um mikilvægi þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og vernda hagsmuni Íslands.

Hvers vegna vilja Sjálfstæðismenn og Vinstri-Grænir ekki taka þátt í þeirri hagsmunagæslu ?

Ætla Íslendingar að ganga til liðs við vanheilagt bandalag öfgasinnaðra þjóðernissinaðra öldunga úr kalda stríðinu á borð við Styrmi Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Hjörleif Guttormsson, að ógleymdum kvótakóngum og sægreifum?

Af hverju ekki að ganga á móts við framtíðina og setja x-ið í kosningunum við Evrópu?

Það gerir maður bara á einn hátt og það er með X-S. Samfylkinguna: warts and all!

6 ummæli:

Hans Haraldsson sagði...

"Bendir framkvæmdastjórnin á að þess hafi orðið vart að ríki innan ESB stæðu í viðskiptum sín í milli með veiðiheimildir. Mikið ósamræmi væri orðið milli þess hve miklar veiðiheimildir aðildarríkin hefðu og raunverulega veiðigetu skipaflota þeirra. Framkvæmdastjórnin telur því mikilvægt að endurskoða regluna um hlutfallslegan stöðugleika".

Er það ekki betra að koma það bara ekkert við hvað gerist við þetta ákveðna borð?

bjonasson sagði...

Hvernig er það Árni, eru einhverjir gallar á Evrópusambandinu, og líka, eru einhverjir ókostir fyrir okkur að vera þar inni?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði...

Árni! Þú segir í nýlegri færslu: „Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu. Ekki er vitað hvort prófessorinn telur líka að jörðin sé flöt, en það skal ekki útilokað.“ Gæti ég fengið að vita, hvar ég hef sagt þetta?

Nafnlaus sagði...

Er Hannesekki dæmdur lygari (í meiðirðamáli góðu) og dæmdur ritþjófur líka (í Laxnes málinu)
Kannski að Hannes afsanni ummæli sín í þessu máli í stað þess að sóa tíma manna sem en hafa æruna.

"let the bastard deny it..."


Jón Ólafsson

Nafnlaus sagði...

Hannes, þú spurðir í Silfri Egils hvort allir Íslenindgar myndu ekki fagna því að það hlýnaði um nokkrar gráður.

Batnandi manni er best að lifa og gaman að vita að þú skulir gera þér relli af heimildanotkun jafnvel aumra bloggara. Ég svara þér betur síðar.

Hafir þú hins vegar skipt um skoðun á hlýnun jarðar skal því svo sannarlega haldið til haga. Sért þú við sama heygarðshornið og áður, held ég að þú getir alveg sleppt því að kíkja í heimsókn til breskra íhaldsmanna.

Þeir hafa nefnilega skömm á nátttröllum sem viðurkenna ekki almenna skoðun visindamanna í heiminum.
kv. Árni

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði...

Það er gott, að þú svarar. Nú liggur ljóst fyrir, að þú getur ekki fundið orðum þínum stað. Ástæðan er sú, að ég hef aldrei látið í ljós sterka skoðun á því, hvort jörðin sé að hlýna (af mannavöldum) eða kólna, enda væri fáránlegt af mér að öskra á húsþökum um það, sem vísindamenn verða að mæla. Ég hef aðeins bent á tvennt (í fjölda greina): a) Kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum er ekki eins augljóslega rétt og nákvæm og fjölmiðlar vilja vera láta. Raunar viðurkenna allir sómakærir vísindamenn það. b) Jafnvel þótt jörðin sé að hlýna og jafnvel þótt það sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann að vera satt og kann að vera ósatt), er ekki með því sagt, að grípa eigi til eins róttækra aðgerða og sumir leggja til. Mannkynið getur ekki stjórnað veðurfarinu, en það getur lagað sig að því. Það er óskylt mál þessu, að sennilega yrðu afleiðingarnar fyrir mannkyn af 1-2 stiga hlýnun betri en af 1-2 stiga kólnun (án þess að ég sé alveg viss um það).