þriðjudagur, 31. mars 2009

Viljum við kvennakúgun í okkar nafni?

Breska blaðið the Guardian birtir í dag á forsíðu áhugaverða og hrollvekjandi grein þar sem greint er frá því að Hamid Karzai, forseti Afganistans hafi undirritað lög þar sem réttindi kvenna eru skert verulega.

Með einu pennastriki er þannig giftum konum bannað að yfirgefa heimili sitt án leyfis eiginmanns síns. Þá er giftum konum bannað að neita eiginmanni sínum um kynlíf. Með öðrum orðum er nauðgun í hjónabandi leidd í lög.

Humaira Namati, þingmaður í efri deild þingsins segir að lögin séu “verri en á dögum Talíbana."
Frumvarpið hafi verið keyrt með hraði og umræðulítið í gegnum afganska þingið. "Allir sem mæltu gegn frumvarpinu voru sakaðir um andstöðu við íslamska trú,” segir þingkonan.

NATO á í stríði í Afganistan. Ísland er í NATO. Fulltrúi Íslands situr í hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins.

Er það stefna ríkisstjórnar Íslands að styðja stríð sem hefur að markmiði að lappa upp á ríkisstjórn sem brýtur svo gróflega og grímulaust mannréttindi á helmingi íbúa sinna, konum landsins? Á meðan við erum í stríði í Afganistan erum við að skrifa upp á kúgun af þessu tagi.

Viljum við slíkt í okkar nafni?(Sjá: http://www.guardian.co.uk/world/2009/mar/31/hamid-karzai-afghanistan-law)

sunnudagur, 29. mars 2009

Bjarni Ben sigrar og ég ét hattinn minn

Ég hafði það hlutverk í kosningunum 2003 að vera herra talnaglöggur í kosningasjónvarpi Stöðvar 2. Hlutverk mitt var sem sé að rýna í tölur og spá í spilin, ekki síst hverjir væru “næstir inn.” Ég skemmti mér konunglega þrátt fyrir að hafa verið neyddur í þetta starf, enda óvenju lélegur í reikningi og meira að segja fallisti í tölfræðikúrsi í háskólanum í Lyon á ofanverðri síðustu öld.

Áður en ég heillaðist af undraheimi talnanna þarna í útsendngunni, hafði ég allt á hornum mér og ég skil ekki enn þann dag í dag að sú öndvegiskona Edda Andrésdóttir - aðalfórnarlamb geðvonsku minnar- skuli svo mikið sem heilsa mér á götu, svo leiðinlegur var ég. Ég þessi geðgóði maður. Ótrúlegt.

Þetta gekk nú samt bara vel en það komst upp um strákinn Tuma þegar ég fullyrti í beinni útsendingu að fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Reykjanesi ætti ekki séns: “Ég skal éta hattinn minn ef Bjarni Ben kemst á þing!” sagði kjaftaskurinn ég og varð að éta það ofan í mig. Bjarni komst á þing og er nú orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni nefndi þetta að sjálfsögðu við mig þegar ég hitti hann á förnum vegi á Laugaveginum og mér hafði mistekist að hlaupa yfir götuna, og hverfa ofan í kvennærfötí Lífstykkjabúðinni. Brjóstahaldaralaus neyddist ég til að tjá honum að ég stæði við orð mín og bauð honum að koma með mér í næsta bakarí þar sem boðið væri upp á þessa fínu Napoleónshatta.

Hann tók ekki þessu fína boði – en í dag stóð ég við orð mín og át (Napeleóns) hattinn minn á kaffihúsinu Sucré- salé á Place Fernand Cocq í Ixelles– Bjarna Benediktssyni til heiðurs. Ég gerði það með ánægju og óska honum allra heilla í starfi og þeirri óumflýjanlegu glímu við Svörtu-klíkuna sem er framundan. Ég vona að Hannes Hólmsteinn, Davíð og Björn og co sjái eftir að hafa stutt Bjarna og mér segir svo hugur að svo verði; landi og þjóð til heilla.

Ég er enginn Sjálfstæðismaður en það skiptir alla þjóðina máli að hæfur maður gegni starfi formanns Sjálfstæðisflokksins og í þessu tilfelli held ég að sú sé raunin. Það kæmi mér ekki á óvart að einn góðan veðurdag mæti Bjarni Ben á svæðið hér í Brussel með umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu upp á vasann.

Og ég skal bjóða honum í kaffi á Sucré, salé (sætt og saltað) og bakkelsi með, - að hans eigin vali. Kannski kemur röðin að honum að éta (ESB) hattinn sinn.

föstudagur, 20. mars 2009

Samkvæmisleikur á föstudegi

Við hér í Brussel erum klukkutíma á undan ykkur mörlöndum, hér er meiri sól og ódýrari bjór. Við vinnufélagarnir opnuðum einn kaldann rétt í þessu og úr varð þessi listi yfir tíu bestu cover lög allra tíma. Koma svo með hugmyndir!

Minn topp tíu er svona, raðað af handahófi:

1. David Bowie, Amsterdam eftir Jacques Brel
2. Bruce Springsteen, Trapped eftir Jimmy Cliff
3. Patti Smith Group, Because the night, eftir Bruce Springsteen
4. Miles Davis, Time after time, eftir Cindy Lauper
5. Jeff Buckley, Halleluja, eftir Leonard Cohen
6. Jimi Hendrix, All along the watchtower, eftir Bob Dylan
7. Trúbrot, Hlustaðu á regnið, eftir José Feliciano
8. The Band, I shall be released, eftir Bob Dylan
9. Johnny Cash, The mercy seat, efir Nick Cave
10. Santana, Black magic woman, eftir Peter Green/Fleetwood Mac

Aðferðafræðin var engin, nema að þjóðlögum (traditional arrangements) er sleppt og blússlögurum líka.

Hvort kann Tryggvi ekki að reikna eða að segja satt?

Tryggvi Þór Herbertsson skrifar ágæta færslu á heimasíðu sína. Þar sýnir hann fram á með snjallri röksemdafærslu að afskrifa eigi hluta skulda heimila og lítilla fyrirtækja. Hugmyndafræðin virðist koma frá Dario Fo: “Við borgum ekki, við borgum ekki!”

Tryggvi Þór er í framboði.

Áður var hann í vinnu hjá útrásarvíkingum og reiknaði vafalaust fimlega fyrir þá.

Þar áður var hann fræðimaður og vann verkefni fyrir ýmsa aðila samkvæmt reikningi. Þá reiknaði hann út fyrir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra að það myndi kosta Íslendinga tugi milljarða á ári að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar sem seint verður sakaður um hollustu við ESB komst að þeirri niðurstöðu fyrir ári að ef Ísland lenti í hópi þeirra ríkja sem mest borguðu til sambandsins yrðu nettógreiðslur í mesta lagi 5-6 milljarðar. Hugsanlega yrði greiðslan 1 til 3.5 milljarðar og þegar kostnaðurinn við EES er dreginn frá yrði dæmið hugsanlega þannig að fengjum fé til baka. Þetta eru ekki reikningar Evrópusamtakanna heldur nefndar Björns Bjarnasonar! Skekkjan er á annan tug miljarða.

Ef Tryggvi Þór ætlar að hafa einhvern trúverðugleika sem stjórnmálamaður, verður hann að útskýra hvernig Tryggvi Þór Herbertsson, fræðimaður gat komist að svo hárri niðurstöðu að meira að segja æstustu andstæðingar Evrópusambandsins höfðu ekki hugmyndaflug til svífa svo hátt.

Þetta er eins og nefna hærri tölur um þátttöku á herinn-burt-útifundi en Samtök herstöðvaandstæðinga!

Ef Tryggvi ætlar sér einhvern trúverðugleika í stjórnmálum verður hann að skýra hvernig hann komst að þessari niðurstöður.

Í fljótu bragði sýnist mér hann hafa tvo kosti. Eins og hjá hetjum Íslendingasagnanna eru báðir kostirnir vondir fyrir hann. Annað hvort reiknaði hann sig í átt að niðurstöðu sem hann fékk senda úr forsætisráðuneytinu (væntanlega frá Illuga Gunnarssyni) og þá er Tryggvi Þór ömurlegur fræðimaður. Hinn möguleikinn er að Tryggvi Þór kunni ekki að reikna og þá ættti hann hvorki að leggja stund á hagfræði né stjórnmál. Enn verri fræðimaður!

Það er leitt að þetta er það eina sem Tryggvi Þór, sá prýðilegi maður, á sameiginlegt með hetjum Íslendingasagnanna. Nema ef hann kemur út úr skápnum og skýri fyrir kjósendum hvernig hægt er að bera slíka vitleysu á borð í nafni vísinda og fræðimennsku.

Þessi vísindi efla ekki alla dáð. Þau eru nefnilega pólitískt skítverk sem koma óorði á alla fræðimennsku.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Ármann á Alþingi og lopapeysan

Ármann á Alþingi - gömul gildi ný tækifæri.


Þessi auglýsing hins ágæta þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Ármanns Kr. Ólafssonar, blasir við lesendum netsins á degi hverjum. Ef tilvísunin í eitt fyrsta skrefið í sjálfstæðisbaráttunni, tímarit Baldvins Einarssonar frá 1830 fer fram hjá lesendum, er hnykkt á skilaboðunum með vígorðinu "gömul gildi - ný tækifæri," og ljósmynd af þingmanninum í lopapeysu.

Eitthvað hlýtur að vera varið í auglýsinguna því ég staldraði við. Tvennt rifjaðist upp fyri mér: Að Ármann kemur úr auglýsingaheiminum því hann er Manni í auglýsingastofunni Nonni og Manni og hitt að þingamðurinn var á stínum tíma stjórnarmaður í SUS.

Auglýsingin sjálf er gerð á látlausan hátt, stíllega eins fjarri því að minna á gylliboð útrásarinnar eins og hægt er. Lopapeysan fer Manna vel og fyrr en varir er maður farinn að móta hann svona í bakgrunn á málverkinu af Jóni Sigurðssyni á Þjóðfundinum sem hangir niðri á Alþingi eða velta því fyrir sér hvort hann sé í prjónaklúbb með Bjarna Ármannssyni.

Ekkert sem minnir á að hann hafi verið stjórnarþingmaður í Hruna-dansinum, hvað þá aðstoðarmaður þriggja ráðherra í samtals ellefu ár 1995-2006!

En lítum á stefnumálin:


· Lækkun stýrivaxta strax!
· Aukið aðgengi atvinnulífs og heimila að lánafyrirgreiðslu
· Greiðslubyrði allra lána miðist við janúar 2008
· Ný vinnubrögð í ríkisrekstri - fækkun ráðuneyta og stofnana
· Aukin fjölbreytni í félagslega íbúðakerfinu
· Aukin heimahjúkrun og heimaþjónustu fyrir eldri borgara
· Námsúrræði fyrir þá er verða fyrir atvinnumissi

Er eitthvað hér sem Ármann gæti ekki farið með í prófkjör hjá Vinstri-grænum eða Samfylkingunni. Sum baráttumálin hefðu getað verið tekið upp úr stjórnarsáttmála vinstri stjórnarinnar 1971-1974 enda eru neikvæðir vextir hinum megin við hornið þegar stjórnmálamaður vill ákveða (lækka) vexti.

Og með lopapeysuna að vopni væri Ármann fyrr en varir kominn á toppinn hjá Framsókn!

Málefnin eru ekkert verri fyrir það - það er bara sérkennilegt að heyra þessi hljóð úr þessu horni, en Manni hinn geðþekki er bara tímanna tákn. Svona er nýi Manni en hvernig var gamli Manni?

Hér á árum áður var hann stjórnarmaður í SUS í formannstíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þar var barist af krafti fyrir einkavæðingu og niðurskurði ríkiskerfisins. Í málgagni SUS "Stefni" fór lítið fyrir "gömlu" gildunum. Þar fór Hannes Hólmsteinn mikinn og fyrirsagnir á borð við "ný hugsun" ,"nútímavæðing", "nýr hornsteinn hagsældar" endurómuðu "saung tímans", eins og Laxness kallaði tíðarandann.

Og síðast en ekki síst: "Það er ekkert að jörðinni, umhverfissinnar eru vandamálið," en með þessa hugsun að vopni réðist SUS gegn vondu mönnunum sem vernduðu ósonlagið: "Bann við notkun ósoneyðandi efna er raunveruleg ógnun við umhverfið."

Núverandi aðdáendur Hannesar Hólmsteins segja nú það sama um gróðurhúsaáhrif og hafa jafn rangt fyrir sér og um ósonlagið.

Má ég biðja um nýja-gamla Ármann og sem allra flesta gamla SUS-ara í lopapeysur?

sunnudagur, 8. mars 2009

Eldþrauður þráður en tæpast grænn

Hvað eiga fjórir af fimm efstu í forvali Vinstri-grænna samgeiginlegt : jú að vera vinstri að langfeðgatali en afskaplega lítið grænn eins og þessi flokkur sem er sestur í ríkisstjórn hvalveiða og álvera. Kolbrún Halldórsdóttir, eini sanni fulltrúi grænna sjónarmiða í forystusveit vinstri grænna bíður afhroð í forvalinu.

Er ofmælt að segja að nú þurfi stækkunargler til að sjá grænu áherslurnar í stefnu VG?

Fjórflokkurinn lætur ekki að sér hæða. Hann sér um sína.

Nú er ekkert að því að fólk feti í fótspor foreldra sinna og haldi með sama fótboltaliði eða stjórnmálaflokki og leiti á sömu mið að atvinnu. “´Ég fór í viðskiptafræði – af því pabbi vildi það,” söng pönkhljómsveitin Jonee Jonee. Þannig eru menn, mann fram af manni lögfræðingar, bændur, fótboltamenn, hjúkrunarkonur, kennarar, briddsspilarar og guð má vita hvað. Ekkert að því en staðreynd engu að síður.

En það er engu að síður athyglisvert nú á tímum kröfunnar um endurnýjun að líta á niðurstöður forvals flokkanna. Ég ætla að láta mér nægja, að þessu sinni, að líta á niðurstöður forvals Vinstri-grænna því ef litið er á efstu menn þar, sést mjög greinilega hvernig íslenskir stjórnmálaflokkar eru byggðir. upp. Um það má deila hvort þetta hafi nokkuð með stjórnmálaskoðanir að gera: flokkarnir eru myndaðir utan um ákveðinn kjarna og hagsmuni hans. Þetta er kallað flokkseigendafélagið og er til í öllum flokkum.

Nú skyldu syndir feðranna ekki bitna á börnunum og það hvarflar ekki að mér að saka sigurvegara í forvali VG um að vera sjálfkrafa Stalínistar þótt finna megi einhverja slíka aftur í ættum þeirra. Ekki er ég trúrækið sálmaskáld þótt afi minn hafi verið það! En lítum á bakgrunn sigurvegaranna enda má þar sjá rauðan þráð – reyndar eldrauðan!

Meira að segja hin unga og ferska Katrín Jakobsdóttir rekur pólitískar ættir sínar til upphafs Kommúnistaflokks Íslands og raunar enn lengra. Í móðurætt er hún komin af Theodóru Thoroddsen, skáldkonu, átrúnaðargoði íslenskra sósíalista. Thorodssenar hafa bæði verið öflugir í Sósíalista- og Sjálfstæðisflokki.

Föðurafi hennar og afasystkini eru af merkri pólitískri ætt. Ármann Jakobsson, var bankastjóri. Hulda Jakobsdóttir var bæjarstjóri í Kópavogi (tengdamóðir Styrmis Gunnarssonar.) Halldór Jakobsson rak fyrirtækið Borgarfell sem upphaflega var stofnað til að fjármagna Sósíalistaflokkinn með viðskiptum við austantjlaldsríkin þótt minna úr því en til stóð. Hann andmælti á gamalsaldri kröftuglega skjalfestum ásökunum um Rússagull. Einhvern tímann var Halldór kallaður einn af gullkistuvörðum sósíalista en það mun ofmælt.

Ingi R. Helgason á hins vegar þá nafnbót skilið. Álfheiður Ingadóttir dóttir hans fékk í föðurarf vörslu stórs hluta skjala Einars Olgeirssonar og liggur á þeim eins og ormur á gulli, fræðimönnum til ama og leiðinda.

Svandís Svavarsdóttir er dóttir Svavars Gestssonar sendiherra, sem lærði í Austur-Þýskalandi og stjórnaði Alþýðubandalaginu á meðan það vildi þjóðnýta allar sjoppur í landinu.

Árni Þór Sigurðsson lærði í Sovétríkjunum og væri á vondum degi sennlega til í að þjóðnýta næstu sjoppu.

Mér er ekki kunnugt um pólítisk tengsl Lilju Mósesdóttur en hún kemst væntanlega til metorða sem þátttakandi í mótmælahreyfingunni undanfarna mánuði. Og hún er enn sem komið er, ein fárra sem getur þakkað mótmælahrinunni pólitískan frama. Kolbrún Halldórsdóttir virðist hins vegar fórnarlamb kröfu um endurnýjun í röðum vinstri grænna.

Það eina græna sem sést hjá Vinstri-grænum þessa dagana eru grænu ljós Steingríms Joð á álver og hvalveiðar. Á meðan allir stjórnmálamenn heims frá Obama til Gordons Browns, Sarkozy til Merkel, Cameron til leiðtoga Kóreu og Kína draga græna fánann að húni, virðast grænar áherslur á undanhaldi hérlendis, meira að segja hjá Vinsti-grænum. Dofnar fölgræni liturinn endanlega með falli Kollbrúnar Halldórsdóttur?

PS Ég sé mig knúinn til að svara hópi nafnleysingjar sem svarar þessari grein með rætnum skætingi. Kæru nafnleysingjar. Ég sem hélt að Samfylkingin væri hörundsárasti stjórnmálaflokkur landsins! Ó ekkí! Látum nú vera þvílíkar gungur og ómerkingar þið eruð með því að nenna að senda svona skæting nafnlaust á netið. Að vísu er tónninn svo Alþýðubandalagslegur að það hálfa væri nóg. Af hverju komið þið ekki með gagnrök? Að spyrða mig saman við Björn Bjarna ( já einmitt!!!), mína ætt, Staksteina og fleira er dæmigerður Allaballa-háttur. Lesendur eyjunnar geta metið það sjálfir hvort ég og Björn Bjarnason séu skoðanabræður - ég held að fáum dyljist andúð mín á þeim manni og hans úreltu skoðunum.

En þegar ætt mín er dregin inn í málið, þá spyr ég er átt við bróður minn Stefán Snævarr, heimspeking? Er átt við hinn bróður minn Sigurð Snævarr, hagfræðing? Er átt við Ingibjörgu Hafstað í Skagafirði, náfrænku mína?

Er átt við Áslaugu Sigurðardóttur, móðursystur mína og Hauk mann hennar Hafstað í Vík í Skagarfirði þar sem ég dvaldist oft á sumrin rétt eins og sonur Einars Olgeirssonar? Eða er átt við Önnu móðursystur mína sem stofnaði Kvennasögusafnið?

Varla er átt við foreldra mína sem aldrei hafa tekið þátt í stjórnmálum, fyrir utan stuðning mömmu við Þjóðvarnarflokkinn fyrir margt löngu. Ég er að sönnu mágur Kjartans Gunnarssonar og fjarskyldur ættingi Davíðs Oddssonar en fyrir alla áhugamenn um slík ættartengsl skal vísað á skrif Björns Bjarnasonar þar sem hann frábað sér frændsemi mína við Davíð- væntanlega fyrir hönd Seðlabankastjórans fyrrverandi!

Vissulega er margt góðra Sjálfstæðismanna í minni ætt, en menn skyldu fara varlega í að kenna okkur við íhaldið.

Af hverju svarið þið ekki höfuðatriði greinarinnar: er það tilviljun að forystulið VG í Reykjavík kemur úr gömlu Allaballa/sósíalista fjölskyldunum og græna fólkið er horfið? Það er gaman að koma við kauninn á fólki en enn skora ég á ykkur að koma út úr fylgsnum ykkar og svara: af hverju hurfu grænu áherslurnar um leið og VG komst í stjórn?

Af því þær voru ekki nema fíkjublað til að fela að gamla Alþýðubandalagið hélt bara áfram? Lýðræðisjafnaðarmenn flokksins gengu til liðs við Samfylkinguna en harðsvíraðasti hópurinn hélt áfram undir andlegri leiðsögn arftaka Einars Olgeirssonar þeirra Svavars Gestssonar, Hjörleifs Guttormssonar og fleiri áfram.

Nú ætla ég ekki að efast neitt um að td. Hjörleifur hafði lengi haft áhuga á náttúruvernd þótt hann leyfði sem iðnaðarráðherra byggingu ljótasta iðjuvers landsins á Grundartanga. En það breytir því ekki að nú er röngunni snúið út til að fela hið rétta eðli. Alþýðubandalagið skipti um kennitölu eins og forverar þess forðum og hefur upp á síðkasti siglt undir fölsku flaggi og boðið fram í nafni vinstri grænna!
Verst er að vinstri grænir eru ekki nándar nærri jafn grænir og Íhaldsflokkurinn breski undir forystu Davids Camerons, arftaka Margrétar Thatcher. kv. Árni7 ummæli: Nafnlaus sagði... Þetta er nú meira ekkisen bullið.. Svna sást í Mogga í miðju kaldastríðinu en nú er því lokið. Jafnvel í Mogganum..Bara þú og Björn Bjarna eftir.8. mars 2009 13:44 Nafnlaus sagði... Og hverra manna er þú Árni minn.8. mars 2009 14:14 Nafnlaus sagði... Þetta er sennilega næstheimskulegasta grein sem þú hefur skrifað, Árni.8. mars 2009 14:24 Salvor sagði... það er allt hins vegar að grænka í Framsóknarflokknum.8. mars 2009 16:13 Nafnlaus sagði... Þetta er í Staksteinastíl8. mars 2009 17:31 Nafnlaus sagði... Einu sinni hélt ég að þessi pistlahöfundur væri góður frétta og blaðamaður. Sé á þessari grein að ég hef haft rangt fyrir mér.Slúður og sleggja í anda Séð og heyrt. Neðar verður ekki komist.8. mars 2009 19:59 Nafnlaus sagði... Af hverju hefurðu svona milkar áhyggjur af okkur í VG????KvÓlafur Sveinsson8. mars 2009 20:28

mánudagur, 2. mars 2009

Ég heimta að borga skuldirnar

Fráleitasta hugmynd sem komið hefur fram í íslenskri pólitík á seinni tímum er að fella niður 20 prósent skulda. Hugmyndin er auðvitað komin frá úgerðarmönnum sem fengu kvótann gefins, veðsettu hann til að kaupa hlutabréf og lúxus-eignir erlendis og vilja nú fá kvótann gefins aftur. Og meira til.

Niðurfelling skulda er ekkert annað en að láta alla Íslendinga borga skuldir – óreiðumanna og annara.

Ég er frekar dæmigerður Íslendingur sem lengst af haft frekar litlar tekjur. Blaðamennska á Íslandi er láglaunastarf. Ég á einn náinn ættingja sem er frekar loðinn um lófana og lengi vel var óhreinataus-karfa sem þessi ættingi gaf mér, dýrasti hlutur heimilisins.

Ég á ekki einu sinni bíl og pínulitla íbúð í Reykjavik. Ég bý erlendis, leigji þar og leigi út íbúðina mína í Reykjavík. Leigjandinn hefur misst vinnuna eins og gengur og ég þarf að borga gengislán. Ég skulda líka einhver lífeyrissjóðslán sem ég tók í einhverri vitleysu.

Ég hef stundum eytt um efni fram: yfirleitt í góðan mat, góð vín, menningu og utanlandsferðir. Ég er hvorki betri né verri en hver annar.


Ég hef hins vegar ekki samt borgunarmaður fyrir mínum lánum og ég frabíð mér að fá niðurfellingu skulda skulda minna. Ég tel að ég eigi heimtingu á því að fá að borga skuldir mínar að fullu og öllu.

Ég er tveggja barna faðir og hef reynt eftir bestu getu að ala þau upp sem góða þjóðfélagsþegna, að engin sé orsök án afleiðingar og að vera réttsýn og sanngjörn. Að taki maður lán - komi að skuldadögum. Að maður þurfi að leggja inn í gleðibankann.

Að fella niður hluta skulda er atlaga að grundvallarstoðum og siðferði íslensks samfélags. Er ekki kominn tími til að við hugsum hlutina til enda? Eigum við ekki að hætta að þessu fylleríi og taka út timburmennina í stað þess að dæma börn okkar og barnabörn til eilífra timburmanna?

Hugmyndir Framsóknarmanna, óhæfra stjórnenda lífeyrjissjóða og framsóknarmanna um að múta kjósendum dagsins í dag með því að láta kjósendur morgundagsns borga skuldirnar eru móðgun við heiðarlegt og skynsamegt fólk.

Nei takk – ég ætla að borga og ég ætla að reyna að búa börnum mínum framtíð þar sem þau verða í skjóli fyrir sægreifum og fjárglæframönnum innan þess pólitíska og efnahagslega varnarbandalags sem Evrópusambandið er.

Já við borgum skuldir óreiðumanna en dæmum ekki börnin okkar til þess.