mánudagur, 2. mars 2009

Ég heimta að borga skuldirnar

Fráleitasta hugmynd sem komið hefur fram í íslenskri pólitík á seinni tímum er að fella niður 20 prósent skulda. Hugmyndin er auðvitað komin frá úgerðarmönnum sem fengu kvótann gefins, veðsettu hann til að kaupa hlutabréf og lúxus-eignir erlendis og vilja nú fá kvótann gefins aftur. Og meira til.

Niðurfelling skulda er ekkert annað en að láta alla Íslendinga borga skuldir – óreiðumanna og annara.

Ég er frekar dæmigerður Íslendingur sem lengst af haft frekar litlar tekjur. Blaðamennska á Íslandi er láglaunastarf. Ég á einn náinn ættingja sem er frekar loðinn um lófana og lengi vel var óhreinataus-karfa sem þessi ættingi gaf mér, dýrasti hlutur heimilisins.

Ég á ekki einu sinni bíl og pínulitla íbúð í Reykjavik. Ég bý erlendis, leigji þar og leigi út íbúðina mína í Reykjavík. Leigjandinn hefur misst vinnuna eins og gengur og ég þarf að borga gengislán. Ég skulda líka einhver lífeyrissjóðslán sem ég tók í einhverri vitleysu.

Ég hef stundum eytt um efni fram: yfirleitt í góðan mat, góð vín, menningu og utanlandsferðir. Ég er hvorki betri né verri en hver annar.


Ég hef hins vegar ekki samt borgunarmaður fyrir mínum lánum og ég frabíð mér að fá niðurfellingu skulda skulda minna. Ég tel að ég eigi heimtingu á því að fá að borga skuldir mínar að fullu og öllu.

Ég er tveggja barna faðir og hef reynt eftir bestu getu að ala þau upp sem góða þjóðfélagsþegna, að engin sé orsök án afleiðingar og að vera réttsýn og sanngjörn. Að taki maður lán - komi að skuldadögum. Að maður þurfi að leggja inn í gleðibankann.

Að fella niður hluta skulda er atlaga að grundvallarstoðum og siðferði íslensks samfélags. Er ekki kominn tími til að við hugsum hlutina til enda? Eigum við ekki að hætta að þessu fylleríi og taka út timburmennina í stað þess að dæma börn okkar og barnabörn til eilífra timburmanna?

Hugmyndir Framsóknarmanna, óhæfra stjórnenda lífeyrjissjóða og framsóknarmanna um að múta kjósendum dagsins í dag með því að láta kjósendur morgundagsns borga skuldirnar eru móðgun við heiðarlegt og skynsamegt fólk.

Nei takk – ég ætla að borga og ég ætla að reyna að búa börnum mínum framtíð þar sem þau verða í skjóli fyrir sægreifum og fjárglæframönnum innan þess pólitíska og efnahagslega varnarbandalags sem Evrópusambandið er.

Já við borgum skuldir óreiðumanna en dæmum ekki börnin okkar til þess.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verði þér að góðu. Ég frábið mér að borga þær milljónir sem hafa hamrast ofan á lánin mín. Eðlilega átt þú að borga skuldirnar þínar ... sér í lagi ef þú keyptir fyrir 2000. Þú átt ennþá inni fyrir þínu og engin eignabruni að ráði. Ekki segja við þá sem keyptu síðar að þeir eigi að borga skuldir sínar, það er ábyrgðalaust! Þetta er einfalt reiknisdæmi ef þú hefur nennu til að setja þig inn í hlutina! Endilega haltu samt áfram að borga ... miðað við þína stöðu er engin ástæða til annars!
Beta

Bjorgmundur sagði...

Síðan Samfylkingin komst í ríkisstjórn hafa lánin okkar hækkað um 25% vegna vísitölunnar. Bara um 8% síðan bankarnir hrundu. Það er bara verið að skila aftur vísitölutryggingunni síðustu 18 mánuði og snúa þannig ofan af fárviðrinu sem ríkt hefur á Íslandi síðan Samfylking og Sjálfstæðismenn komust í ríkisstjórn.

Fólk borgar áfram af þeim lánum sem það tók og líka vextina en þessi fáránlega vísitölutrygging er það sem er að setja allt til andskotans.

Hvers vegna eigum við að borga fyrir það sem við tókum ekki að láni? En vegna hárra stýrivaxta, fasteignabólu, veikingar krónunnar og fleira þá á bara að skella greiðslunum á skuldarana sem í flestum tilfellum eru ungt fólk og barnafólk.

Það er unga fólkið sem skuldar í húsunum sínum. Það er barnafólkið sem hefur verið að kaupa stærri eignir en 2ja herbergja.

Þetta er fólkið sem við erum að hjálpa með því að færa lánin til baka um 18 mánuði. Taka vísitöluna sem hefur komið á lánin okkar frá október 2007.

Um þetta snýst málið.

Bjorgmundur sagði...

Frá 95 til 07 þ.e. á 12 árum hækkaði vísitalan um 3,8% á ári að meðaltali.

Við erum að tala um 12% síðan Samfylking komst til valda á ári að meðaltali.

Bara síðustu 6 mánuði er þetta 8% sem jafngildir 16% hækkun.

Það er fáránlegt að það eigi að senda þennan víxil á skuldara sem er í flestum tilfellum ungt fólk og barnafólk.

Nafnlaus sagði...

Forsendur sem voru fyrir hendi þegar lán voru tekin eru brostnar. Að hluta til vegna bankanna. Mér finnst óeðlilegt að lántaki beri alla byrðina en lánveitandi hafi bæði belti og axlabönd. Ég er vel að merkja að tala um íbúðalán almennings.
Bestu kveðjur, Solveig

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála þér Árni. Ég var ábyrgur í mínum fjármálum og vill ekki sjá að þessir menn setji skuldir þessa hóps á mig.

Þið hinir sem kjósið Sjálfstæðisflokkinn og framsókn. Eyðið öllu í flotta bíla og hús sem þið greinilega höfðuð ekki efni á. Verði ykkur að góðu. Endilega kjósið framsók eða sjálfstæðisflokkinn aftur.

Það er ekki til neitt sem heitir að færa lán aftur. Ef þau borga ekki borgum við það. Þau keyptu í of dýrum eignum til að standa undir. Af hverju á ég að greiða það? Skuldarar eiga líka rétt á að fara á hausinn. Með þeim hætti lærir skuldarinn. Með sama hætti lærir bankinn að gera þetta ekki aftur. Ungt fólk verður líka að læra að það er ekki hægt að kaupa sér 40 milljóna einbýli allt á lánum tilbúið með húsgögnum nema taka áhættu. Ótrúlegt en satt er til fólk sem á 3 börn og tvö sofa í koju í sama herbergi. Spilta Ísland. Takið ábyrgð á ykkar eigin gerðum.

Það unga fólk sem raunverulega hefur verið skynsamt og samt lent illa í því á að fá úrræði. 20% niðurfelling bara ekta Framsóknar valdapólitík.

Páll Vilhjálmsson sagði...

Þetta er hárrétt greining hjá þér Árni. Allsherjar niðurfelling á fimmtungi skulda er siðferðilegt skipbrot. Ruglið þarf að stoppa hér og nú.
Páll Vilhjálmsson

Nafnlaus sagði...

Lestu nú tillögunar og dæmdu svo.
Ekki gera eins og restinn.
Það er auðvitað besta mál að þú getir séð um þig.
Það eru samt ekki allir í sömu stöðu, því miður.
Einhvers staðar var þetta kallað real-pólitík

kv.
Sigurjón Njarðarson

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill, þessi kosningavíxill framsóknarmanna er ekki bara siðlaus, heldur sýnir að flokkurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir extream-makeover og fyrirheit um breyttar áherslur.
Fyrst býr flokkurinn til mestu þenslu Íslandssögunnar, með Kárahnjúkaruglinu og 90% kosningaloforðinu - nokkuð sem átti mikinn þátt í að koma okkur á þann stað sem við erum í dag - en nú ætlar sami flokkur að bjarga málunum með því slá nýjan kosningavíxil...!
Því miður hljómar þetta bara svo spennandi fyrir marga kjósendur - hver vill ekki "losna við" 20% skulda sinna? - en um leið er þetta fullkomlega ábyrgðarlaus hugmynd og í raun stórhættuleg.

Svo minnist þú, Árni, reyndar ekkert á jafnræðissjónarmið, en svona tillögur eru auðvitað hrópandi brot gegn öllum jafnræðisreglum - til dæmis hafa margir þegar selt ofan af sér og borgað upp skuldir, aðrir hafa tekið út sparnað til að greiða niður skuldir, osfrv. - á þetta fólk þá inni 20% endurgreiðslu...??

Ömurleg kosningabarátta er framundan, á meðan svona hugmyndir eru settar fram í alvöru...

Nafnlaus sagði...

Eitt enn: í fullu samhengi við pistil Árna:
Íslenska þjóðin var á eyðslufyllertíi í mörg ár. Þó að almenningur beri ekki sök á því hvernig komið er (heldur útrásarvíkingar, bankastjórar, sumir stjórnmálamenn, osfrv.) þá væru það hrikaleg skilaboð að bara fella niður skuldir sísona.
Það vita allir að fjölmargir eyddu um efni fram, með lánum, til þess að fjármagna óþarfa einkaneyslu; of stór hús, of stórir (og of margir) bílar, bruðl hér og þar.
Með því að fella niður skuldir yfir alla línuna væru gefin eftirfarandi skilaboð til almennings: "Þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur, takið endilega lán og eyðið eins miklu og ykkur langar. Við munum svo koma að lokum og hreinsa upp eftir partíið..."
Er þetta það sem íslenska þjóðin þarf núna....??
Nei, þá tek ég undir með Árna, þá vil ég heldur borga! (þó að það sé skítt...) - en gleymið því ekki, að með svokallaðri "niðurfellingu", þá borgum við samt að lokum - en bara á óréttlátari hátt.

Nafnlaus sagði...

Þetta er einfallt. Reikna bara út hvað 20% eru. Senda síðan hverju barní í landinu tékka uppá 1/300000 af þeirri upphæð. Þá geta þeir sem ekki eiddu keypt upp góssið frá þeim sem voru í rugli.

Nafnlaus sagði...

Mikið dj.... er ég sammála þér. Ekki 20%, heldur 100%.

Þetta er algjörlega málið - vonandi að almennir kjósendur falli ekki fyrir þessu dæmalausa og ótrúlega, nú kann ég ekki betra og faglegra orð, rugli.

Nafnlaus sagði...

Það á að skrá einhvern til heimilis í Kolbeinsey og færa síðan á hann allar skuldir Íslendinga. Síðan lýsir þessi Kolbeiseyingur sig gjaldþrota Því hann getur ekki borgað þessar 6000 mil. sem hann skuldar. Íslendingar verða sælir og glaðir (og skuldlausir) upp frá því.
Framsókn hin nýja

Nafnlaus sagði...

Ég er til í að borga lánin mín en óreiða þjóðfélagsins hefur átt það til að safnast ofan á þau. :-)

Nafnlaus sagði...

það er auðvitað markmið sem FLESTRA að borga EIGIN skuldir að því gefnu að díllinn sem maður skrifaði undir umpólist ekki til fjandans, og er maður nú ýmsu vanur hér.

Helst vill maður nú geta borgað inná höfuðstólinn enn það er bara hægt í útlöndum. Enn við " skríllinn " borgum okkar eigin skuldir með verðtryggingu + hæstu vöxtum meðlags-moggaskuldir + útgerðarskuldir + Icesave-skuldir með afleiðingarvöxtum og Kaupþingsskuldir með-exista álagsvöxtum og síðast og ekki síst Baugsskulda-Glitnis-vaxtavöxtum. Við erum dugleg þjóð förum í Búsáhaldabyltingu og eitt af því sem kemur upp ár krafsinu eru sem aldrei fyrr falskir kosningarvixlar frá smaladrengjunum í Framsókn eina ferina enn !
Hættum að vera svona auðtrúa, hættum að trúa.......öllu !

Nafnlaus sagði...

Þú skallt vera velkominn að borga skuldir auðmanna. Þú verður tekinn í dýrlingatölu og skallt ekki fá aukatekið atirði frá mér. Láttu okkur hin svo um að velja hvert fyrir sig hvort við viljum gera slíkt hið sama. Við sem ekki viljum borga skuldir auðmanna getum þá tekist á við að greiða hluta skulda þeirra sem voru plötuð út í að taka lán umfram greiðslugetu, enda teljum við að það sé forsenda þess að halda stórum hluta barnafólks í landinu á komandi árum.

EWA sagði...

halló allir ég hef orðið var við þegar ég var að reyna að fá lán fyrir meðferðina mína og ég var svikinn af svo mörgum fyrirtækjum sem segjast hjálpa mér og maðurinn minn var svo veikur í nýrum svo hann þarf að fljúga til Þýskalands til að fara í aðgerðina en ekki án peninga, þar til ég fæ tengilið á síðunni um hvernig PennyMac fyrirtæki hafa hjálpað svo mörgum hérna í landinu okkar svo ég ákvað að prófa það og gera eingreiðslu sem þeir biðja um frá mér og ég var svo ánægður að ég færi með lánið með þeim sama dag og ég sótti um var lánsfjárhæðin mín upp á 120000 samþykkt fyrir mig og nú er maðurinn minn kominn aftur á fætur núna og hann hefur náð sér að fullu, svo ég vil láta hvern og einn vita að PennyMac fjármálafyrirtæki eru alvöru lögmætur og löggiltur sendu þeim tölvupóst fyrir neðan (pennymacfinancialservices@aol.com) þeir eru virkilega að hjálpa okkur hér í landinu okkar og ég er svo ánægður með þetta í dag og ég ákvað að segja hverjum og einum í dag.

Ewa