miðvikudagur, 31. desember 2008

Skemmtun elítunnar hleypt upp

Það fór aldrei svo að Kryddsíld, Stöðvar 2, leiðinlegasti sjónvarpsþáttur landsins, yrði ekki fréttnæmur. Á meðan ég var á Stöð 2 var þáttturinn gagnrýndur fyrir óheyrilegan kostnað og naut lítillar sem engrar hylli meðal áhorfenda og enn minna álits fagmanna.

Sjálfum fannst mér elítisminn oft keyra úr hófi fram og fannst stundum að yfirmenn mínir væru að setja sig á sama stall og viðmælendurnir: formenn stjórnmálaflokkanna.

Ef Kryddsíldar-tildrið hefur einhvern tíman átt illa við er það einmitt núna. Síðustu fréttir af Stöð 2 eru brottrekstrar starfsmanna og blankheit eigenda. Þarf það að koma á óvart að lúxúsboð þar sem eingöngu pólítisku toppunum í þjóðfélaginu er boðið, skyldi verða skotmark mótmælenda?

Þurfti virkilega að halda partýið á Hótel Borg?

Er ekki með upplegginu verið að taka að vissu leyti afstöðu til deilna í þjófélaginu? Er einhver furða að ungt fólk í dag líti svo á að það sé sami rassinn undir þeim öllum stjórnmálamönnum, útrásarvíkingum og fjölmiðlamönnum?

Sigmundur Ernir og Edda Andrésdóttir virðast ekki hafa áttað sig á því að víglínan í íslenskum stjórnmálum, er ekki nema að hluta til á milli stjórnmálaflokkanna, á milli hægri og vinstri, heldur á milli elítunnar annars vegar og fólksins hins vegar.

Það var farið að slá í kryddsíldina. Big time.


Sigmundi Erni Rúnarssynni hefur hins vegar ævinlega verið í essinu sínu í Krýddsíldinni og þótt hún bragðgóð í meira lagi. Það eru jú ekki mörg tækifæri fyrir fjölmiðlamenn að sitja til borðs með ráðamönnum og fá sér bjór og snafs.

Vísir.is sem til skamms tíma var undir stjórn Sigmundar hefur eftir honum dramatískar lýsingar á atburðum dagsins og tíundar réttláta reiði hans í garð mótmælenda og skrílsláta þeirra. Gott ef tjáningarfrelsið var ekki fótum troðið.

Vafalaust mun Sigmundur síðan segja fréttir af þessu á Stöð 2, og sjálfsagt verða birta myndir af glóðaraugum og lemstruðum starfsmönnum. Jafnvel verður skotið inn viðtalsbútum við Sigmund jálfan. Og visir.is mun ekki láta sitt eftir liggja.

Vísir.is hefur einmitt eftir Sigmundi í dag að góðvinur okkar beggja og gamall samstarfsmaður, Egill Helgason hafi horft á hinn ánægðasti og gott ef ekki ískrað í honum af kátínu.

„Það var brotist inn og rifið niður hurðir þannig að útsendingu var hætt. Á meðan stóðu ýmsir menn fyrir utan og það hlakkaði í þeim. Þar á meðal einn þekktur spjallstjórnandi hjá Ríkisútvarpinu," segir Sigmundur við Vísi.

(Tek fram að ég er hugsanlega “ýmsir menn” því ég labbaði yfir Austurvöll þegar nokkuð var liðið á atburðarásina.)

Egill bregst hinn versti við þegar visir.is ber þetta upp á hann og kallar blaðamann visis.is öllum illum nöfnum, þar á meðal þetta: “Þú ert afskaplega óvandaður fjölmiðlamaður - lélegur.”

Að sögn Egils, þvertekur Sigmundur Ernir fyrir að hafa látið þessi orð falla við sinn eigin fjölmiðil.

Hann hlýtur þar með að taka undir orð Egils um að visir.is sé “ómerkilegur vefur,” og blaðamaður hans sé “afskaplegar óvandaður fjölmiðlamaður.”

Það er ekki gott afspurnar ef fjömiðill getur ekki einu sinni haft rétt eftir yfirmanni á eigin stassjón.

Ekki er það heldur gott ef Sigmundur Ernir hefur sagt þetta um sinn ágæta kollega Egil Helgason. Dómgreindarlaust og hallærislegt.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvarinar verður að upplýsa okkur um hið rétta í málinu. Trúverðugleikinn er í veði. Eina ferðina enn.

Gleðilegt ár!

fimmtudagur, 25. desember 2008

Fram og aftur blindgötuna með Birni Bjarna

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er slyngur pólitískur penni. Í skrifum hans, einkanlega í hið ágæta tímarit Þjóðmál, lítur hann á málefni líðandi stundar útfrá mjög víðu sjónarhorni og lætur satt að segja gamninn geisa. Það er góðra gjalda vert og raunar hittar margar athugasemdir Björns í mark, sumar eru frumlegar, aðrar skemmtilega meinfýsnar.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að það er til fyrirmyndar hversu duglegur Björn er í sínum daglegu skrifum. Hann hefur sterkar skoðanir og lætur þær óspart í ljós. Enginn getur kvartað yfir því að maður viti ekki hvar maður hefur Björn.

Í upphafi ritgerðar sinnar lýsir Björn yfir ákveðnum tilgangi að góðum fræðilegum sið og hann gerir mjög skarplegar athugasemdir um eitt og annað. Aðferð hans eins og svo oft áður er það sem nú er kallað að kópí-peista og birtir glefsur úr samfélagsrýni af vefnum og úr dagblöðum.

Ég er satt að segja ekki mikill aðdáandi franska rithöfundarins og heimspekingsins Jean-Paul Sartre en þó eru æskuminningar hans um að læra að lesa og skrifa stórskemmtilegar. Þar lýsti hann því hvernig hann samdi sína fyrstu skáldsögu barn að aldri. Hann skrifaði nokkurra lína frásögn en staðnæmdist síðan við eitthvað nafnorð. Ef það var orðið krókódíll ritaði hann upp færsluna um krókódíl úr Larousse, frönsku alfræðiorðabókinni.

Útkoman varð algjört rugl þótt alfræðimolarnir og athugasemdirnar um þá væru hver um sig athyglisverðir.

Í þessa gryfju virðist manni Björn hafa fallið því útkoman er við fyrstu sýn samhengislaust rugl.

En þegar betur er að gáð læðist að manni sá grunur að Björn sé vitandi vits fela slóð sína þegar hann glímir við sinn vonda málstað. Hann vilji hafa borð fyrir báru og gefi meðvitað færi á ólíkum túlkunum. Davíð Oddsson, hefur löngum verið átrúnaðargoð Björns og margur molinn hrokkið af gnægtaborði þess ágæta húmorista til dómsmálaráðherrans skapstirða.

Fyrst notaði Davíð hnéaðferðina í Matthilidi, síðan smörklípuaðferðina og loks Seðlabankaaðferðina sem var að hjúpa hugsunina niðdimmri þoku.

Björn veit að hann glímir við erfiðan málstað. Hann á bágt með að losna undan fargi fortíðarinnar og framtíðin er óljós. Þess vegna hvílir Seðlabankaþokan yfir skrifum hans.

Maður er því tilneyddur til að nota aðferðir sem minna á Kremlarlógíuna gömlu til að rýna í skrif Björns.

Og hefst nú lesturinn.

Ég er sammála Birni þegar hann rekur og gagnrýnir þjóðrembu útrásarinnar og auðvitað hefur Björn hárrétt fyrir sér þegar hann tætir í sig ræður og rit Ólafs Ragnars Grímssonar sem telur okkur jafnoka Feneyjinga og Flórensbúa á Endurreisnartímanum svo fátt eitt sé nefnt.

Hann vitnar sérstaklega til þeirra orða forseta Íslands að ein ástæða þess að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum framar, væri sú að þeir þorðu þegar aðrir hikuðu, því: “Við vitum líka að ætíð er hægt að hverfa heim til Íslands ef illa fer í leiðangrinum og eiga hér hið besta líf.”

Einmitt.

Einhver hefði svarað Ólafi Ragnari, “étt ' ann sjálfur” en ekki hinn prúði Björn sem lætur sér nægja að segja að þetta séu nú hin “örgustu öfugmæli.”

So far so good hjá Birni.

Næst tínir hann til úr samfélagsumræðunni grein eftir Sumarliða Ísleifsson, sagnfræðing, annan gagnrýnanda forsetans sem telur að við þurfum að byggja í vaxandi mæli á samfélagslegri ábyrgð og náinni samvinnu þjóða. “Þá er ekki afarasælast að leggja áherslu á yfirburði, sérstöðu og hreinleika,” hefur Björn eftir Sumarliða.

Heyr, heyr segi ég, en nú skyndilega beygir Björn af þeirri leið sem manni sýndist hann vera að stefna í með því að stilla upp þessum andstæðu pólum.

Það er vissulega stundum erfitt að henda reiður á hugsun Björns. Í hvert skipti sem maður þykist sjá rauðan þráð, hendir hann inn alls ótengdum tilvitnunum eins og heimsósómaskrifum Ólafs rithöfundar Gunnarssonar og hugleiðingum Percy Westerlund, sendiherra sem enginn les.

Þetta leiðir nefnilega ekki neitt en í lokin kemur hann síðan aftur að aðalatriðinu.

Hann segir að þótt í EES hafi falist nánari samvinna við aðrar þjóðir en nokkru sinni fyrr, hafi þetta með einhverjum hætti (sem hann útskýrir ekki vel) ýtt undir ofurtrú Íslendinga á sjálfum sér.

Björn segir að krafan um inngöngu Íslands í ESB byggist ekki á uppgjöri við fjórfrelsið sem felst í EES, heldur vantrú á að við getum staðið á eigin fótum; “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól.”

Hér þarf að grípa til textagreiningar. Er Björn að segja að í raun séu tveir möguleikar? Uppgjör við fjórfrelsið; les úrsögn úr EES eða “nýtt skjól”: innganga í ESB?

Þetta er vissulega ekki mjög skýrt.

Fyrr í greininni hafði Björn raunar bent á að eftir bankahrunið hefði “enginn lagt til að EES-samningnum verði sagt upp.” Jafnframt sagði hann að færa mætti fyrir því gild rök að “aðild Íslands að EES án samstarfs við ESB í gjaldeyrismálum hafi ráðið miklu um getuleysi íslenska fjármálakerfisins andspænis ofvexti bankanna.”

Er hann ekki þar með að viðurkenna að “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól?”

Björn svarar því fyrr í ritgerðinni með því að ekki sé hægt að útiloka einhliða upptöku evru á þeim forsendum að þeir “vilja þetta ekki í Brussel.”

En í niðurstöðunum kemst hann síðan að þeirri niðurstöðu að með ESB-aðild værum við að “þrengja svigrúm okkar á of mörgum sviðum” sem hefðu ekkert með það að gera að hafa "hemil á áhættufíkn auðmanna.”

Þetta eru athyglisverð og óvænt rök, því hver hefur haldið því fram að aðild að ESB hefði eitthvað með þetta að gera? Þetta hefur ætíð verið á valdi ríkisstjórna Íslands sem Björn hefur setið í frá 1995 og stutt frá upphafi EES. Enn á ný lætur Björn eins og hann sé fræðimaður sem skrifi tímaritsgreinar stöku sinnum en hafi engin áhrif haft á að móta þann samtíma og stefnu sem hann gagnrýnir.

Ekki hef ég að minnsta kosti haldið þessu fram. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherrar hafa báðir svarið af sér alla ábyrgð á regluverki fjármálakerfisins því þetta kæmi allt frá ESB!

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Björn í stuðningsliði sínu seldi hins vegar vildarvinum helmingaskiptaflokkanna bankana á spottprís. Og stjórnvöld, fjármálaeftirlit og seðlabanki létu undir höfuð leggjast að hamla vexti bankanna með því að hækka bindiskyldu, neita þeim um að stofna útibú erlendis með innistæðuábyrgð íslenska ríkisins (amk. eftir Icesave) og setja reglugerð til að takmarka útgáfu jöklabréfa.

EES- aðild eða ESB verður með engu móti kennt um þessi atriði.

EES felur nefnilega í sér að við höfum tekið verulegan hluta löggjafar ESB (75 prósent segir Olli Rehn) sem einhverju máli skiptir, að sjávarútvegi og landbúnaði slepptum. Og meira að segja á þeim vettvangi förum við að mörgu leyti eftir ESB löggjöf jafnvel í viðskiptum við þriðju ríki.

Niðurstaða Björns er síðan þessi:

“Þjóðin hefur þegar fengið að súpa nægilega mikið seyðið af þeirri framgöngu allri, þótt henni séu ekki einnnig settir úrslitakostir varðandi aðild að Evrópusambandinu.”

Hverjir eru þeir úrslitakostir? Að við neyðumst til að ganga í ESB (sem við erum hvort sem er að mestu komin í) út af ónýtu krónunni og okurvöxtunum?

Það er enginn að setja Íslandi neina úrslitakosti.

Í skýrslu nefndar undir forsæti hans sjálfs var komist að þeirri niðurstöðu að sáralitlar líkur væru til þess að aðrar þjóðir fengju veiðihemildir í íslenskri lögsögu, margt benti til þess að á komandi árum nyti íslenskur landbúnaður “meira skjóls innan en utan ESB,” miklir möguleikar væru á byggðastyrkjum, kostnaður við aðild væri hverfandi og svo mætti lengi telja.

Aðild að ESB eru engir afarkostir: Við höfum tilboð um “klæðskerasaumaðar” lausnir eins og Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB orðar það, til að geta gengið reynslunni ríkari í það sem ég kalla efnahagslegt og pólitiskt varnarbandalag evrópskra lýðræðisríkja.

Nýr gjaldmiðill með bakhjarl í Seðlabanka Evrópu kemur í kaupbæti. Innganga í ESB og upptaka evru gæfi svo vissa en takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á peningastefnuna í stað þess að kasta fullveldi á þessu sviði algjörlega fyrir róða og afhenda Evrópubankanum í Frankfurt.

Með ESB og evru fylgdu svo að vextir myndu lækka til samræmis við evrusvæðið og verðlag, sérstaklega matvælaverð, myndi væntanlega snarlækka.

Munurinn á því sem stóð Írum og evrulausum Ungverjum til boða en ekki Íslendingum í bankakreppunni er svo loks sláandi

Í ljósi þessa er undarlegt hvernig jafn gáfaður og gegn maður og Björn sveiflast svo til og frá í einni og sömu ritgerð. Hann segist vera að skrifa gegn ES B en virðist þó í rauninni vera óafvitandi (?) að skrifa gegn EES. Á sama tíma segir hann að enginn hafi dregið þá ályktun að segja þeim samningi upp í kjölfar bankahruns!!

En Björn er ekki bara gáfumaður, hann er stjórnmálamaður. Hann vill hafa vaðið fyrir neðan sig og áttar sig fyllilega á því að staða hans sem ESB andstæðings er mjög þröng.

Lykilatriðið í grein Björns er nefnilega orðið “úrslitakostir.” Fyrr í ritgerðinni hafði hann nefnilega gefið vörn krónunnar upp á bátinn, þannig að honum virðist nægja til að réttlæta sinnaskipti í Evrópumálum, að rætt verði við Evrópusambandið um einhliða upptöku evru.

Ég tel að slíkar viðræður séu tímaeyðsla, ef þær snérust eingöngu um leyfi til að taka einhliða upp Evru, án þess að nokkuð annað hengi á spítunni.

Slíkar viðræður gætu hins vegar hugsanlega (og vonandi) leitt til þess að í ljósi sérstakra aðstæðna, EES aðildar og möguleikans sem Björn nefnir á gjaldeyrissamstarfi ESB við þriðju ríki, muni ESB láta gott heita að Ísland þjófstarti í upptöku evru – að vissum skilyrðum uppfylltum.

Eitt þeirra væri að sjálfsögðu að við lýstum yfir aðild að Evrópusambandinu eða hefðum þegar samið um inngöngu en fengjum einhvern afslátt í aðlögun.

Átrúnaðargoð Björns, húmoristinn Davíð Oddsson var á sokkabandsárum sínum í Spaugstofu síns tíma undir nafninu Matthildi í útvarpi allra landsmanna. Þar gerði hann ásamt félögum sínum Þórarni og Hrafni, grín að ístöðuleysi og hentistefnu Framsóknarmanna í hermálinu.

Í einum söngtextanum sem vafalaust átti að koma úr munni Óla Jó og félaga, var talað um að ”í huga mínum/rennur kaninn inn og út/ upp og niður og í gegnum sjálfan sig/ í hnút.”

Við þurfum einhvern veginn að hjálpa mönnum á borð við Björn við að leysa evrópsku hnútana sem hafa niðurnjörfað hugsun þeirra.

Kannski eru þetta þó eftir allt saman öfugmælavísur hjá Birni, til þess eins fallnar að stika leiðina út úr heimastjórnarstefnunni og þeim ógöngum sem hún hefur leitt íslensku þjóina út í. Að stilla upp tveimur kostum sem báðum er lýst sem ómögulegum og segjast síðan fallast á málamiðlun og feta meðalveginn. Skyldi þó aldrei vera!

Svarið er nefnilega einfalt. Rétt eins og árið 1949 eigum við að taka kjarkmikið skref til ganga til liðs við evrópskar lýðræðisþjóðir. Í félagsskap þeirra eigum við heima og hvergi annars staðar.

Kostirnir sem Björn og þjóðin standa frammi fyrir eru að vissu leyti svipaðir þeim sem Bjarni faðir hans Benediktsson stóð frammi fyrir árið 1949.

Annað hvort fylgjum við ofstækisfullum einangrunarsinnum að málum og skellum í lás, eða lærum af reynslunni af EES og stígum skrefið til fulls í átt til aðildar að ESB.

Í annari ritgerð í Þjóðmálum bregður Hallur Hallsson, blaðamaður upp framtíðarsýn úr nýútkominni skáldsögu sinni Váfugli. Þar glíma íslenskir sjómenn við viðbjóðslega ÚTLENSKA fiskimenn eftir inngöngu Íslands í ESB.

“Þau höfðu hrifist af eldmóði og orðheppni stúdentaleiðtogans og fylgst með baráttu lýðveldis gegn ofurveldi Evrópu. Átökin á Austurvelli höfðu hneykslað þjóðina....”

Söguhetjan Krummi siglir svo lítandi "fráneygður" út um gluggann með “birtu yfir karlmannlegu andlitinu” og togvíraklippur að vopni til að “halastýfa helvítin”, “bilbæsku skrattakollana”, kyrjandi lag Gyfa Ægissonar “Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á!”

Val Björns og Sjálfstæðismanna stendur nefnilega á milli málstaðar okkar Evrópusinna annars vegar og málstaðar þjóðrembu-útrásarmanna með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar og fáfróðra þjóðernissinnaðra heimalinga á borð við Hall Hallsson sem kann ekki einu sinni að stafsetja nafn Brussel á íslensku.

Ætlar Björn að skipa sér í hóp grjótkastaranna sem Hallur spáir að verði á Austurvelli gangi Ísland í ESB eins og varð 1949, þegar við gengum í NATO? Hvort ætlar Björn Bjarna að vera Bjarni Benediktsson eða Brynjólfur Bjarnason?

Er ekki kominn tími til að Seðlabankaþokunni létti og Sjálfstæðismenn rati út úr blindgötunni?

Hvort velja þeir Stolt siglir fleyið mitt eða Óðinn til gleðinnar? Gylfa Ægisson eða Beethoven?

Þið vitið hverju ég myndi svara. Gleðileg jól!

miðvikudagur, 24. desember 2008

Afsögn vegna sterkra vísbendinga

Hitti vinafólk mitt, íslenskan mann og belgíska konu hans í jólösinni. Þau fluttu til Íslands í haust og þið vitið öll hvað síðan gerðist. Við gátum ekki annað en hlegið að þessari tímasetningu þeirra en þau hafa búið alla sína hjúskapartíð ytra.

Ég held að þau hafi langað til að “vera með í veislunni” sem Árni Mathiesen, fjármálaráðherra hvatti þjóðina til að taka þátt í, í alræmdri þingræðu. Skömmu eftir að hjónin fluttu til Íslands réttlætti stjórnarformaður Fortis-bankans inngrip belgíska ríkisins í málefni bankans með þeim orðum að ef ríkið hefði ekki gripið inn í hefði enn verr farið: “Við höfðum engan kost, það voru allar líkur til þess að ef ekki hefði verið gripið inn í hefði belgíska ríkið orðið gjalþrota, eins og Ísland.”

Oft höfum við Íslendingarnir í Brussel óskapast út í pólitíkina í Belgíu enda ekki nema von. Belgía er talið eitthvað spilltasta land norðurálfu og þótt víðar væri leitað.

Ég held að við Íslendingar hættum að gagnrýna belgíska vini okkar fyrir landlæga spillingu. Og við getum alveg örugglega hætt að stæra okkur af því að búa við betra pólitísku siðferði en Belgar.

Belgíska stjórnin hefur sagt af sér eftir að dómsmálaráðherra landsins Jo Vendeurzen var sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á dómara í máli sem tengdist örlögum Fortis-bankans
Hæstiréttur Belgíu (Cour de Cassation) komst að þeirri niðurstöðu að “sterkar vísbendingar” væru um afskipti ráðherrans en “engar áþreifanlegar sannanir.”

Þetta þótti nóg til þess að ráðherrann sagði af sér og ríkisstjórnin fylgdi í kjölfarið. Hér hafa ráðherrar og seðlabankastjóri orðið uppvísir að því að tala við erlenda ráðamenn af slíkri ógætni og vanþekkingu að bankakreppa breyttist í þjóðargjaldþrot.

Hér á Íslandi ætlar ríkisstjórnin í heild að sitja sem fastast þar til rannsóknarnefnd sem hún skipar sjálf, hefur skilað niðurstöðum.

Það eru sterkar vísbendingar um að margt hafi farið aflaga en einhvern vegnn segir mér svo hugur að “sterkar vísbendingar” muni ekki duga ef ekki eru “áþreifanlegar sannanir” um mistök og pólitíska ábyrgð.

Ég held að við Íslendingar þurfum ekkert lengur að sækja til Belgíu þegar ábyrgðarleysi og pólitísk spilling er annars vegar. Við erum kóngarnir.

Gleðileg jól!

föstudagur, 19. desember 2008

Of lélegir lesendur fyrir DV

Að tala tungum tveim og tala sitt með hvorri fær alveg nýja merkingu við lestur ritstjórnargreina DV að undanförnu.

Ritstjóri blaðsins hefur orðið uppvís að ósannindum og hefur ekki manndóm í sér til að standa fyrir máli sínu, heldur skýlir sér á bakvið son sinn, sem er víst meðritstjóri hans.

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni því sonurinn virðist hafa tamið sér ósiði föður síns og fer sannanlega með ósannindi.

Hann skrifar sitt hvorn leiðarann í prentútgáfu blaðsins og vefútgáfu. Og í stað þess að skammast sín, og biðjast afsökunar ræðst hann á allt og alla og rífst og skammast.

Sagt hefur verið um Ingibjörgu Sólrún réttilega: “Mikið óskaplega förum við í taugarnar á henni sem þjóð.” Sama mætti segja um þá DV feðga: Við lesendur DV eru greinilega ekki nógu góðir lesendur.


Þetta er löng tilvitnun en hér má ekki hagga orði:

“Ákveðinn hópur fólks stundar hatursáróður gagnvart blaðinu í ræðu og riti. […] Þannig var undirritaður gerður tortryggilegur í Morgunblaðinu og Kastljósinu vegna þess að gömul útgáfa af leiðara var birt á DV.is í fyrradag.
Undirritaður hafði uppfært leiðarann kvöldið áður í umbrotskerfi fyrir prentun, með þeim hætti að gagnrýni á brot fyrrverandi blaðamanns DV var tekin út, og almennum útskýringum á gildum eðlilegrar blaðamennsku bætt við. Leiðari sem fór til prentunar í blaðinu var því réttur. Eldri útgáfa var hins vegar tekin af ritstjórnarkerfi og birt fyrir mistök á vefnum morguninn eftir. Það var síðan leiðrétt, en Morgunblaðið og 20 bloggarar þess kusu að hunsa þær skýringar og halda áfram rógsherferð. Þetta geta umbrotsmenn DV staðfest, sem og starfsmaður DV.is og fréttastjóri á vakt.”

Vá. Rökfastur Jón Trausti og þvílík frásagnargáfa! Gömul útgáfa, gamlar skoðanir. Hvaða frekja er þetta í mönnum að vera herma upp á Jón Trausta leiðarann frá í gær? Það var annar dagur, annar maður.

Hvers lags lesendur eru þetta? Hvernig er hægt að bjóða einum ritstjóra (eða ritstjóraætt) upp á þetta?

Einn af kind. One of a kind. Við skiljum bara ekki snilldina á bakvið hugmyndaflugið sem óneitanlega þarf til að ljúga og verða tvísaga eins og þeir feðgar hafa orðið uppvísir að. Án þess að skammast sín.

Ég segir hér með af mér sem lesandi DV.

Það er ekkert að ritstjórunum, það erum við lesendur sem erum ekki nógu góðir fyrir blaðið. Þeir eiga betra skilið.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Bachman, Turner, Ólafur og Össur

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar er maður sem hefur ríka réttlætiskennd. Nú þegar Íslendingar eru þúsundum saman að missa atvinnuna, húsnæðið og sjálfsvirðinguna er ekki við öðru að búast en af þessum sjálfskipaða sóma íslenskrar alþýðu, sverði og skildi, en að hann rísi upp til varnar þeim sem standa höllustum fæti á Íslandi.

Það gerir þessi mál- og ritglaðasti samtímamaður okkar með stæl á heimasíðu sinni.
Össur sem þekktur var fyrir andvökunætur sínar við tölvuna, varð svo kjaftstopp þegar gaf á bátinn hjá íslensku þjóðinni, að ekki heyrðist hósti né stuna frá honum svo vikum skipti. Og þegar Össur þegir er það eins og að mállausir menn hrópi þúsundum saman á torgum!

En nú hefur Össur fengið málið og ekki verður það af honum skafið að hann rís upp til varnar þeim sem minnst mega sín. Forseta lýðveldisins og demantadrottningunni hans.

Gefum Össuri orðið:

“Forsetinn á þessa stundina við að glíma hnitmiðað áhlaup óvildarmanna, sem á tímum þegar forbyltingin (svo!) hefur lækkað alla siðræna standarda, virðast hafa komist yfir stolin gögn úr stjórnsýslunni um bókhald þeirra hjóna. Afhverju skoðar lögreglan ekki hver stal bókhaldsgögnum forsetans? Samkvæmt því áhugaleysi virðist yfirmanni löggæslu finnast í góðu lagi þó farið sé inn í opinber skjöl sem ég hefði haldið að þyrfti sérstakan bókhaldslykil til að komast í. Kanski ríkislögreglustjóri sé farinn að virða upplýsingalögin á sinn hátt.”

Skorar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar lögregluna að skoða bókhald Baugs? FL Group? Kaupþings? Landsbankans? Greiðslur auðmanna til forsetans? Að fara í saumana á spillingu og lögbrotum sem hvarvetna blasa við í rústum útrásarinnar?

Nei, hann hefur engan áhuga á því.

Hann hefur einungis áhuga á því að komast að því hver sagði satt og rétt frá masi forsetans um ágæti íslensku útrásarinnar og mannanna sem settu lýðveldið Ísland á hausinn.

Hér má ekki hagga orði. Hér kemur íslenskur stjórnmálamaður út úr skápnum. Hann kallar sig víst jafnaðarmann og hefur eins og forsetinn verið í tveimur flokkum sem kenndu sig við ALÞÝÐU. Ekki einum heldur tveimur. Fínt skal það vera.

Stingur hann niður stílvopni til að verja fólkið sem er að missa vinnuna? Beitir hann ritsnilld sinni til að biðja alþýðumanninum griða sem er að missa húsnæðið sitt? Grípur hann til varna til að verja sparifjáreigandann sem tapaði lífeyri sínum? Er hann að verja Jóa á bolnum?

Nei, Össur er ekki að verja þetta fólk. Eina sem Össur hefur til málanna að leggja í pólitík á þeirri vargöld sem nú stendur yfir, er að verja símakostnað forsetaembættisins.

Össur og forsetinn eiga það sameiginlegt – fyrir utan að þykjast vera að vinna fyrir alþýðuna- að hafa verið háværar klappstýrur útrásarinnar. Og þeir eiga það sameiginlegt að fyrirlíta íslenskt alþýðufólk. Það gildir nefnilega það sama um þá og ágætur “Eyjarskeggi” sagði um stöllu þeirra, Ingibjörgu Sólrúnu “Mikið rosalega förum við í taugarnar á henni sem þjóð.”

Ólafur Ragnar og Össur eiga það líka sameiginlegt að hafa mikið dálæti á Bachman-Turner Overdrive: “You ain´t seen nothin´yet.”

Og ef einhver væri svo góður að opinbera hvernig Ólafur Ragnar hefur látið forsetaembættið borgað alla sína einkaneyslu, myndi það vafalaust fara í taugarnar á Össuri Skarphéðinssyni. Ef óumdeildar upplýsingar um símakostnað forsetans fara svo fyrir brjóstið á Össuri, hvað myndi hann segja ef bruðlið yrði upplýst?

Einu sinni fyrir langa löngu var stjórnmálamaður sem hét Vilmundur Gylfason. Hann hefði sagt: Löglegt en siðlaust um þá staðreynd að Össur og Ólafur Ragnar skuli kalla sig jafnaðarmenn og kenna sig við alþýðu manna.

Hver veit nema að einn góðan veðurdag muni einhver fara með trúarjátningu þessa aðdáendahóps Bachman Turner Overdrive, Björgúlfs, Baugsfeðga og Kauþings: “You ain´t seen nothin´yet.”

mánudagur, 8. desember 2008

Formlegt fullveldi er lítils virði

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins slær tóninn í baráttu Heimastjórnararms Sjálfstæðisflokksins gegn ESB aðild í ræðu sem birt er vefsíðunni amx.is nýverið.

Þar leggur hann til atlögu við Evrópusinna og ber þeim á brýn að þeir séu reiðubúnir til að afsala yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og afhenda útlendingum fullveldi þjóðarinnar.
Styrmir er hins vegar eldri en tvævetur í pólitík og hefur vaðið fyrir neðan sig og talar um að “formleg yfirráð yfir auðlindum hafsins í kringum Ísland,” myndu færast til Brussel.

Þeir sem ekki hafa fylgst náið með núönsum í Evrópuumræðunni átta sig kannski ekki á því hve mikilvægt orðið “formlega” er í þessari röksemdafærslu.

Því að það væri að mestu einungis “formlega sem eitthvað breyttist.” Styrmir gerir ekki einu sinni tilraun til að halda því fram að aðrar þjóðir eigi tilkall til veiðiréttinda í íslenskri lögsögu og er það vel að heimastjórnarmenn viðurkenni það.

En Styrmir lætur það samt hanga í lausu lofti því hann segir að í Brussel “hinar formlegu ákvarðanir teknar um hve mikið má veiða af einstökum fisktegundum, á hvernig skipum, með hvaða veiðarfærum, hvar og hvenær.”

Aftur er það “formlega” sem ákvarðanirnar verða teknar í Brussel. Styrmi viðurkennir meira að segja sjálfur að “við mundum vafalaust hafa sitthvað um það að segja, hvernig nýtingu þeirra yrði háttað.”

Íslenskir vísindamenn og stjórnvöld myndu sem fyrr gera tillögur um alla þætti varðandi veiðar og það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að hinar Evrópusambandsþjóðirnar hefðu lítið um þær að segja því þær hefðu engan rétt til veiða í íslenskri lögsögu.

“Formlega” yrðu tillögur bornar upp til samþykkis í ráðherraráði ESB en af hverju ættu ráðherrarnir að ráðskast með hvernig Íslendingar höguðu veiðum sínum, að því tilskyldu auðvitað að þeir stunduðu ekki grimmilega rányrkju?

Styrmir fullyrðir að Evrópusinnar haldi því fram að hægt sé að fá undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og byggi málstað sinn á þvi. Hann segir að slíkt séu draumórar og eingöngu skammtíma undanþágur fáist. Þar er ég algjörlega sammála honum.

Að mínu mati hefur alls ekki verið sýnt fram á það hvers vegna stórfelldar undanþágur eru nauðsynlegar.

Sá munur er á okkur og Noregi að helstu fiskistofnar okkar eru veiddir innan landhelgi okkar og við eigum að litlu leyti landhelgi samliggjandi að landhelgi annara ríkja, öfugt við Norðmenn.
Okkar staða er ólík vegna þess að enginn hefur veiðireynslu hjá okkur.

Svokallaður hlutfallslegur stöðugleiki sem er kjölfesta sjávarútvegsstefnunnar tryggir þetta. Hvers vegna ættum við að þurfa undanþágu þegar einmitt sjávarútvegsstefnan tryggir helstu hagsmuni okkar?

Í Evrópuskýrslu nefndar Björns Bjarnasonar er það svo slegið út af borðinu og sagt "ólíklegt" að atkvæði yrðu látin ráða til að breyta hlutfallslega stöðugleikanum.

Að sjálfsögðu ættum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur og fá ákvæðiið um hlutfallslega stöðugleikann inn í aðildarsamninginn. Hann fengi þá þjóðréttarlega stöðu og væri ekki hægt að breyta því í óþökk Íslendinga.

Menn benda á rányrkju sem ESB ríkin hafa stundað. Það er alveg rétt. En hún er kominn til vegna of rausnarlegra kvóta og lélegs eftirlits. Hvort tveggja yrði áfram í höndum Íslendinga.
Samningar um flökkustofna færðust vissulega yfir á forræði ESB en það er ósannað mál að við bærum mjög skarðan hlut frá borði.

Menn get talað sig hása um að verja fullveldi Íslands en hvers virði var fullveldi okkar i gjaldeyrismálum?

Fullveldi hefur ekki lengur þá merkingu sem hugtakið hafði 1918. Nú deila ríki með sér fullveldi eins og til dæmis innan Evrópusambandið. Þeir sem segja að við glötum fullveldi okkar með inngöngu í ESB verða að útskýra hvers vegna 27 ríki í Evrópu hafa stigið það skref, þar á meðal Bretland, Frakkland og Þýskaland.

Styrmir: gleymdist að segja Sarkozy frá því að Frakkland væri ekki sjálfstætt ríki?

Ekkert ríki hefur hins vegar kosið að fara að dæmi Íslands og Noregs og Efta ríkjanna og láta EES samninginn nægja. Getur verið að enn einu sinni hafi komið í ljós að við Íslendingar séum ekki klárust í heimi?

Ólafur Stephensen, eftirmaður Styrmis á ritstjórastól Morgunblaðsins hefur orðað það þannig að “spurningin um sjávarútvegsmál” sé “miklu fremur tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál.”

Ríghéldum við ekki i krónuna af tillfinningalegri afstöðu til fullveldis sem átti sér engar efnahagslegar forsendur ?

Er ekki tími til kominn að við hættum að láta tilfinningarnar ráða ferðinni?

Aðild að efnahagslegu varnarbandalagi

Upptaka evru án aðildar aað ESB er tæknilega möguleg en kostnaðartölur sem hafðar eru eftir forstjóra Novators (tengdasyni Björns Bjarnasonar) eru vægast sagt ótrúverðugar svo mikil er óvissan. Hvað verður til dæmis um jöklabréfin margfrægu í íslenskum krónum? Andvirði þeirra hlaupa ekki á tugum milljarða heldur hundruðum.

Og á hvaða gengi ættum við að fastsetja evruna við íslensku krónuna? Nú er búið að fleyta henni, þótt ekki séu viðskipti með hana frjáls. Þeir sem hangið hafa á gjaldeyri sínum, neyðast nú til að flytja hann heim – einfaldlega vegna komandi áramóta og uppgjöra, segir vinur minn hagfræðingur mér. En hvað gerist eftir það?

Örmyntir sem fylgdu gömlu evrópsku myntunum frá fornu fari fylgdu inn í Evruna og sama gilti með Svartfjallaland og Kósovo. Eru það fordæmi fyrir Íslendinga? Nei segja forsvarsmenn ESB og benda á að sérmeðferð þessara ríkja eigi rætur að rekja til styrjaldarátaka og að í raun hafi þýska markið verið gjaldmiðill þessara þjóða.

Ef Ísland tæki upp evru einhliða væri slíkt dæmalaust í veraldarsögunni. Ríki hefur aldrei áður tekið upp mynt annars ríkis eða ríkjasambands í óþökk viðkomandi. Það veit engin hvaða afleiðingar slíkt hefði. Er slík áhætta það Ísland þarfnast einna helst á þessum óvissutímum? Er EES samningurinn svo traustur, eftir það sem á undan er gengið, að á þetta sé hættandi?

Og hefur reynsla síðustu mánaða ekki einmitt sýnt okkur að við þurfum bakhjarl í Seðlabanka Evrópu og ekki síður traust pólitískt bandalag við vinaþjóðir? Lánveitingar Seðlabankans undanfarið sýna að hann stendur við bakið á ESB ríkjum, meira að segja utan evrusvæðisins.

Til hvers að taka upp evruna, ef ekki fylgir með einn helsti kosturinn: að eignast bakhjarl í evrópska seðlabankanum? Og eignast hlutdeild í því fullveldi sem aðildarþjóðirnar deila með sér – Ísland ætti fulltrúa í stjórn hans.

Ein af mörgum þversögnum í máli Styrmis Gunnarssonar í ræðu sem hann flutti á fullveldisdaginn er einmitt hve fús hann virðist til að fórna enn meira fullveldi, þ.e sjálfstæðri mynt í Sýsifusar baráttu sinni við að halda okkur utan ESB í nafni þessa sama fullveldis.

Bandarísku herforingjarnir sem Styrmir studdi á sínum með ráðum og dáð í Víetnamstríðinu, orðuðu það þannig að til að bjarga tilteknu þorpi hefðu þeir þurft að eyða því. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé nákvæmlega það sem Styrmir og vinur hans Davíð Oddssonar eru að gera, á fleiri en einu sviði.

Er það ekki mergurinn málsins að við þurfum að eiga aðild að því efnahagslega- og pólitíska varnarbandalagi sem Evrópusambandið er?

föstudagur, 5. desember 2008

Bankaleynd og pólitísk fjárkúgun

Davíð Oddsson er fyndinn það verður ekki af honum skafið enda er hann orðinn heimsfrægur á gjörvöllu Fjóni eftir drottningarviðtal Bent A Koch við hann í Fjónstíðindum.

Hver nema alvöru húmoristi myndi bera við bankaleynd frammi fyrir viðskiptanefnd Alþingis og neita að útskýra ummæli sem hann lét falla í opinberri ræðu sem Seðlabankastjóri!!! Svar: ósvífinn grínkarl sem hugsar um “engan annan en sjálfan sig”, eins og góður maður sagði.

Og hver nema Davíð Oddsson myndi leyfa sér að halda fram annari eins þversögn.

Malið reis vegna þess að hann blaðraði eins og Össur Skarphéðinsson á slæmum degi og opinberaði hvert leyndarmálið á fætur öðru í ræðu á fundi sem opinn var fjömiðlum.

Ekki eins og það væri neitt nýtt því Davíð hafði áður opinberaði allar forsendur stjórnvalda í Kastljosi þar sem hann átti stóran þátt í gjaldþroti íslensku þjóðarinnar með því að guma af því að aðeins brotabrot skulda erlendis yrðu borgaðar: “Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.”

Bankaleynd?

Ef Davíð gat ekki skýrt þingnefndinni frá vitneskju sinni um orsök beitingar hryðjuverkalaganna, er hann ekki þar með að segja að hann sé endalaust búinn að rjúfa bankaleynd, bæði í Kastljósviðtalinu alræmda og ræðunni hjá Viðskiptaráði.

(Auðvitað eru milljarðatilfærslur Kaupþings sennilegasta ástæðan, en það er annað mál.)

Við værum vissulega betur stödd ef Davíð tæki bankaleynd alvarlega alltaf, ekki bara stundum.

Davíð Oddson er grínisti og hann er fyrst og fremst að gera grína að íslenskum stjórnmálamönnum sem þora ekki að svara ögrunum hans. Davíð bítur nú höfuðið af skömminni með því að hóta Geir H. Haarde að hann kljúfi Sjálfstæðisflokkinn ef hreyft verði við honum.

Var einhver að tala um pólitíska fjárkúgun?

miðvikudagur, 3. desember 2008

Stórfrétt: LÍÚ á móti ESB!

Það er ævinlega gaman að geta bent á það sem vel er gert. Til dæmis hversu þefvís fréttastofa útvarps er að varpa hulunni af því að Adolf Guðmundsson, nýr formaður LÍÚ, sé andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Eins og allir forverar hans og stjórn samtakanna frá upphafi… Ja hérna, hvar værum við ef RÚV segði okkur ekki stórfréttirnar!!??

Eftir þetta skúbb heldur svo rannsóknarblaðamennskan áfram:

Adólf segir að innganga í Evrópusambandið sé “ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og launalækkun.”

Ekki er minnst einu orði á það í fréttinni hvernig á launalækkun myndi standa en því næst segir:
“Adolf lagði áherslu á að lítið hefði farið fyrir göllunum við ESB-aðild í umræðunni. Kostirnir hefðu hins vegar óspart verið tíundaðir. Adolf sagði að samkvæmt nýjustu tölum væri 17,7% fólks undir 25 ára innan ESB án atvinnu.”

Í alvöru talað: Eru þetta frambærilegar röksemdir? Nú er mér ekki kunnugt um hvað margir undir 25 ára aldri verða atvinnulausir innan skamms. Þótt mig gruni að hér sé eitthvað málum blandið og setji fyrirvara, bendi ég á að það er ekkert sem segir að slíkt myndi gerast á Íslandi. Ekki frekar en við yrðum skáeygð við að ganga í Kína eða upp til hópa sjálfsþurftabændur ef við gengjum í Indland; eins og sumir stjórnmálamenn virðast einna helst vilja.

En þetta er ekki neitt. Adolf segir: "Það er alveg skýr afstaða LÍÚ að inn í Evrópusambandið viljum við ekki fara því þá þurfum við að afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlindinni og það kemur bara ekki til greina." Hann sagði sjávarútveg flokkaðan með landbúnaði í Evrópusambandinu og félli þar af leiðandi ekki undir frumrétt.

Fréttastofa útvarps hefur ekki fyrir því að skýra um hvað Adolf er að tala. Hann áttar sig á því að miðað við núverandi reglur hefur engin þjóð rétt á fiskveiðikvótum í íslenskri lögsögu, Íslendingar myndu sjálfir semja tillögur um skiptingu kvóta og sjá um fiskveiðieftirlit, þó vissulega þyrfti ráðherraráðið að gefa endanlegt grænt ljós.

Adolf grípur því í ógöngum sínum til þess ráðs að blanda sjávarútvegi og landbúnaði saman og þar sem það sé ekki ”frumréttur”, sé hægt að breyta reglunum okkur í óhag.

Þetta er smjörklípa að hætti Davíðs.

Adolf nefnir ekki að engin þjóð hefur lýst áhuga á að breyta ”hlutfallslega stöðugleikanum” sem myndi tryggja Íslendingum áframhaldandi yfirráð yfir eigin lögsögu. Og hvort heldur sem er vilja það mörg ríki (og framkvæmdastjórn ESB einnig) halda fast í þessa reglu að litlar sem engar líkur eru á nokkrum breytingum.

En það er sjálfsagt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Norðmenn sömdu um tryggingar fyrir slíku í aðildarsamningi sínum að ESB. Ef Íslendingar færu að dæmi þeirra, væri þar með ekki hægt að hrófla við þessu án samþykkis Íslendinga því aðildarsamningurinn hefur þjóðréttarlega stöðu.

Maður spyr sig þegar útvegsmenn halda áfram málflutningi af þessum toga, hvar eru íslenskir Evrópusinnar? Ráðherrar Samfylkingarinnar eru víst í þagnarbindindi og kann það að vera af hinu góða, miðað við frammistöðu þeirra að undanförnu. En hvers vegna í ósköpunum hefur ekki verið gerð nein tilraun til að auka þekkingu á málum ESB á Íslandi? RÚV hefur sem kunnugt er lagt stein í götu þeirra sem hafa viljað stuðla að slíku - þótt tímarnir hafi nú breyttst.

Verður bulli af þessu tagi látið ósvarað?

"...hér á eftir ræði ég við sjálfan mig.:"

Gamlir félagar mínir af Ríkisútvarpinu (ég vann þar á öndverðri síðustu öld) eru komnir í uppreisn gegn Páli Magnússyni, útvarpsstjóra og segja lok, lok og læs og allt í stáli – fréttirnar lokaðar fyrir Páli.

Ég skil vel að fólki svíði brottrekstrar og launalækkun, ekki síst í ljósi þess hve örfáum starfsmönnum eru greidd há laun.

Á hinn bóginn er Páli nauðugur einn kostur: eigið fé Ríkisútvarpsins er á þrotum og miklar líkur á að möguleikar stofnunarinnar á að sækja sér fé á auglýsingamarkað verði takmarkaðir. Ef Páll hreinsaði ekki til og nýtti sér ekki reynslu sína í að reka “Bónus” útvarps- og sjónvarpsstöðvar á einkamarkaðnum væri hann ekki að standa sig í stykkinu.

Það má svo deila um það hvort eðlilegt sé að útvarpsstjóri sé hæst launaði ríkisforstjórinn. Einfaldlega vegna þess að þess hefur hingað til hvorki sést staður í dagskrá né rekstri.

Innlend dagskrárgerð er nánast engin og það er tímanna tákn að það þyki nægja að sami maður sé yfirmaður innlendrar dagskrárgerðar, stjórnandi Kastljóssins og helsti kynnir þess að auki. Það er freistandi að draga þá ályktun að innlend dagskrárgerð sé einfaldlega ekki það tímafrek að það þurfi ekki séstakan mann til að sinna henni.

Kastljósið státar af einu best launaða starfsfólki RÚV og nýtur þess að vera nánast eina framleiðsla stofnunarinnar í sjónvarpi.

Það hlýtur hins vegar að vera RÚV umhugsunarefni að Egill Helgason skaut þeim öllum ref fyrir rass og vann tvenn Eddu verðlaun á dögunum fyrir Silfrið og Kiljuna,(var hann líka besti sjónvarpsmaður?) og hlýtur því að teljast margra manna maki.

Félag fréttamanna beitti Pál Magnússon hins vegar skemmtilegum gambít með því að afþakka fréttalestur hans. Allir vita að Páli finnst það jafn eðlilegt og að draga andann að smeygja sér inn í stofur landsmanna og fylla upp í skjáinn um kvöldmatarleytið. Páll hefur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki á síðustu áratugum en aldrei kveður hann fréttasettið. Jafnvel þegar hann var sjónvarpsstjóri Sýnar las hann fréttir á Stöð 2!


Forsendurnar fyrir því að afþakka “vinnuframlag” Páls í fréttatímum eru þó vægast sagt hæpnar eins og þær eru setta fram. – hann er jú prýðilegur fagmaður; tekur ekki krónu fyrir og sparar því aura skattgreiðenda.

Það þekkist hvergi á byggðu bóli að forstjóri fjölmiðlafyrirtækis lesi líka fréttir. Það er vissulega skringilegt að útvarpsstjóri lesi sjónvarpsfréttir, þótt það sé gaman að ímynda sér Andrés Björnsson og Vilhjálm Þ. Gíslason í fréttasetti.


Það segir sig hins vegar sjálft að ríkisútvarpið verður stundum að segja fréttir af sjálfu sér, til dæmis af hópuppsögnum útvarpsstjóra. Gefur það ekki auga leið að það skýtur skökku við að hann sjálfur sé að segja slíkar fréttir? Að hann segi fréttir og sé fréttaefni til skiptis?

Páll gæti hæglega þurft að segja: “Farið ekki langt, hér á eftir ræði ég ítarlega við sjálfan mig um stöðu RÚV á auglýsingamarkaðnum. Bara hér á RÚV!”

Það er augljóslega ekki heppilegt fyrir stofnunina að Páll sem liggur undir ámæli fyrir ofurlaun, tekur afstöðu til menningarpólitískra álitaefni og stýrir stórfyrirtæki sé jafnframt í hlutverki hlutlauss fréttalesara.

(Ekki stórmál, en pínu innlegg í debatt gamalla vinnufélaga minna og tækifæri til að lýsa samúð með því hvernig komið er fyrir RÚV, eins og svo mörgum öðrum vinnustöðum á landinu.)