miðvikudagur, 24. desember 2008

Afsögn vegna sterkra vísbendinga

Hitti vinafólk mitt, íslenskan mann og belgíska konu hans í jólösinni. Þau fluttu til Íslands í haust og þið vitið öll hvað síðan gerðist. Við gátum ekki annað en hlegið að þessari tímasetningu þeirra en þau hafa búið alla sína hjúskapartíð ytra.

Ég held að þau hafi langað til að “vera með í veislunni” sem Árni Mathiesen, fjármálaráðherra hvatti þjóðina til að taka þátt í, í alræmdri þingræðu. Skömmu eftir að hjónin fluttu til Íslands réttlætti stjórnarformaður Fortis-bankans inngrip belgíska ríkisins í málefni bankans með þeim orðum að ef ríkið hefði ekki gripið inn í hefði enn verr farið: “Við höfðum engan kost, það voru allar líkur til þess að ef ekki hefði verið gripið inn í hefði belgíska ríkið orðið gjalþrota, eins og Ísland.”

Oft höfum við Íslendingarnir í Brussel óskapast út í pólitíkina í Belgíu enda ekki nema von. Belgía er talið eitthvað spilltasta land norðurálfu og þótt víðar væri leitað.

Ég held að við Íslendingar hættum að gagnrýna belgíska vini okkar fyrir landlæga spillingu. Og við getum alveg örugglega hætt að stæra okkur af því að búa við betra pólitísku siðferði en Belgar.

Belgíska stjórnin hefur sagt af sér eftir að dómsmálaráðherra landsins Jo Vendeurzen var sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á dómara í máli sem tengdist örlögum Fortis-bankans
Hæstiréttur Belgíu (Cour de Cassation) komst að þeirri niðurstöðu að “sterkar vísbendingar” væru um afskipti ráðherrans en “engar áþreifanlegar sannanir.”

Þetta þótti nóg til þess að ráðherrann sagði af sér og ríkisstjórnin fylgdi í kjölfarið. Hér hafa ráðherrar og seðlabankastjóri orðið uppvísir að því að tala við erlenda ráðamenn af slíkri ógætni og vanþekkingu að bankakreppa breyttist í þjóðargjaldþrot.

Hér á Íslandi ætlar ríkisstjórnin í heild að sitja sem fastast þar til rannsóknarnefnd sem hún skipar sjálf, hefur skilað niðurstöðum.

Það eru sterkar vísbendingar um að margt hafi farið aflaga en einhvern vegnn segir mér svo hugur að “sterkar vísbendingar” muni ekki duga ef ekki eru “áþreifanlegar sannanir” um mistök og pólitíska ábyrgð.

Ég held að við Íslendingar þurfum ekkert lengur að sækja til Belgíu þegar ábyrgðarleysi og pólitísk spilling er annars vegar. Við erum kóngarnir.

Gleðileg jól!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf mestir og bestir í heimi.