miðvikudagur, 31. desember 2008

Skemmtun elítunnar hleypt upp

Það fór aldrei svo að Kryddsíld, Stöðvar 2, leiðinlegasti sjónvarpsþáttur landsins, yrði ekki fréttnæmur. Á meðan ég var á Stöð 2 var þáttturinn gagnrýndur fyrir óheyrilegan kostnað og naut lítillar sem engrar hylli meðal áhorfenda og enn minna álits fagmanna.

Sjálfum fannst mér elítisminn oft keyra úr hófi fram og fannst stundum að yfirmenn mínir væru að setja sig á sama stall og viðmælendurnir: formenn stjórnmálaflokkanna.

Ef Kryddsíldar-tildrið hefur einhvern tíman átt illa við er það einmitt núna. Síðustu fréttir af Stöð 2 eru brottrekstrar starfsmanna og blankheit eigenda. Þarf það að koma á óvart að lúxúsboð þar sem eingöngu pólítisku toppunum í þjóðfélaginu er boðið, skyldi verða skotmark mótmælenda?

Þurfti virkilega að halda partýið á Hótel Borg?

Er ekki með upplegginu verið að taka að vissu leyti afstöðu til deilna í þjófélaginu? Er einhver furða að ungt fólk í dag líti svo á að það sé sami rassinn undir þeim öllum stjórnmálamönnum, útrásarvíkingum og fjölmiðlamönnum?

Sigmundur Ernir og Edda Andrésdóttir virðast ekki hafa áttað sig á því að víglínan í íslenskum stjórnmálum, er ekki nema að hluta til á milli stjórnmálaflokkanna, á milli hægri og vinstri, heldur á milli elítunnar annars vegar og fólksins hins vegar.

Það var farið að slá í kryddsíldina. Big time.


Sigmundi Erni Rúnarssynni hefur hins vegar ævinlega verið í essinu sínu í Krýddsíldinni og þótt hún bragðgóð í meira lagi. Það eru jú ekki mörg tækifæri fyrir fjölmiðlamenn að sitja til borðs með ráðamönnum og fá sér bjór og snafs.

Vísir.is sem til skamms tíma var undir stjórn Sigmundar hefur eftir honum dramatískar lýsingar á atburðum dagsins og tíundar réttláta reiði hans í garð mótmælenda og skrílsláta þeirra. Gott ef tjáningarfrelsið var ekki fótum troðið.

Vafalaust mun Sigmundur síðan segja fréttir af þessu á Stöð 2, og sjálfsagt verða birta myndir af glóðaraugum og lemstruðum starfsmönnum. Jafnvel verður skotið inn viðtalsbútum við Sigmund jálfan. Og visir.is mun ekki láta sitt eftir liggja.

Vísir.is hefur einmitt eftir Sigmundi í dag að góðvinur okkar beggja og gamall samstarfsmaður, Egill Helgason hafi horft á hinn ánægðasti og gott ef ekki ískrað í honum af kátínu.

„Það var brotist inn og rifið niður hurðir þannig að útsendingu var hætt. Á meðan stóðu ýmsir menn fyrir utan og það hlakkaði í þeim. Þar á meðal einn þekktur spjallstjórnandi hjá Ríkisútvarpinu," segir Sigmundur við Vísi.

(Tek fram að ég er hugsanlega “ýmsir menn” því ég labbaði yfir Austurvöll þegar nokkuð var liðið á atburðarásina.)

Egill bregst hinn versti við þegar visir.is ber þetta upp á hann og kallar blaðamann visis.is öllum illum nöfnum, þar á meðal þetta: “Þú ert afskaplega óvandaður fjölmiðlamaður - lélegur.”

Að sögn Egils, þvertekur Sigmundur Ernir fyrir að hafa látið þessi orð falla við sinn eigin fjölmiðil.

Hann hlýtur þar með að taka undir orð Egils um að visir.is sé “ómerkilegur vefur,” og blaðamaður hans sé “afskaplegar óvandaður fjölmiðlamaður.”

Það er ekki gott afspurnar ef fjömiðill getur ekki einu sinni haft rétt eftir yfirmanni á eigin stassjón.

Ekki er það heldur gott ef Sigmundur Ernir hefur sagt þetta um sinn ágæta kollega Egil Helgason. Dómgreindarlaust og hallærislegt.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvarinar verður að upplýsa okkur um hið rétta í málinu. Trúverðugleikinn er í veði. Eina ferðina enn.

Gleðilegt ár!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Óskar Hrafn! segir þú Árni. Er það ekki fyrrum stjóri á visi.is sem fór niður á hnéin og bast afsökunnar að segja frétt af Jóni Ásgeir?
Kv. Páll H

Nafnlaus sagði...

Sammála! Ditto! Vel sagt!
Síldmunnur Gerlir má fara að haska sér úr fjölmiðlum, einn froðulegasti sjálfhverfasti fretmunnur fjölmiðla þessa lands, og jú þá er mikið mikið sagt. Bless bless Skítmundur.

Nafnlaus sagði...

Ég ætlaði ekki að vera nafnlaus, ég er 19:00 og nafn mitt er Kristinn Þórhallsson, bóndi og nýfæddur byltingarsinni. Lifi Nýja Ísland!

Nafnlaus sagði...

joð

Sjálfseyðingartilburðir Baugsmiðlanna ríður ekki við einteyming.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir góð skrif.

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár Árni

Það er gott að maður með fjölbreytta fjölmiðareynslu leyfir okkur að gæjast á aðeins bak við tjöldin.

Rúv, Bylgjan og Vísir skíta upp á bak með verulega óvandaða umfjöllun um friðsamleg mótmæli.

Það gleymist nefninlega að starfsmenn Stöðvar 2 hófu ryskingar við þá sem ætluðu sér inn og geta því sjálfum sér um kennt hvernig fór. Sama má segja um lögregluna sem var sérlega klaufaleg í fjarveru best gefna liðsmanns síns Geir Jóni. Lögreglan króaði þá mótmælendur af, sem inn voru komnir og létu hátt til að trufla bullið á bak við tjöldin sem stjórnmálamenninrnir skýldu sé á bak við, og hófu svo fyrirvaralausa úðun eiturefna í andlit mótmælendanna, gengu í skrokk á fólkinu og létu ófriðlega svo vægt sé til orða tekið.

Síðan er það kafli Ingibjargar Sólrúnar í leifum Kryddsíldarinnar. Hún þoldi ekki lengi við áður en hún hóf að ásaka fólk um tilburði sem hún gat engan veginn séð frá gnægtaborðinu sínu. Hún varð sér til enn meiri minnkunar fyrir ömurlega framgöngu sína.

Sigmundur Ernir dæmir sig síðan manna best sjálfur, einn og (ó)studdur. Að mínu mati er hann ekkert annað en spjátrungur og uppskafningur sem á ekkert erindi í alvöru fréttamennsku.