sunnudagur, 24. maí 2009

Þó líði ár og öld er Björk bara best

Ég er mikill aðdáandi bloggarans Margrétar Hugrúnar Gústavsdóttur bloggara hér á Eyjunni. Tek það fram að ég er ekki einu sinni málkunnugur henni; hún er einfaldlega frumlegur og áhugaverður penni. Hún skrifar mjög skemmtilega athugasemd á bloggið sitt, þar sem hún ber saman nyju Evróvisjónstjörnuna Jóhönnu og Björk.

“Björk Guðmundsdóttir hefur unnið fleiri verðlaun fyrir tónlist en allir aðrir íslenskir tónlistarmenn. Alls 14, og þar af 52 tilnefningar m.a. Grammy og Óskarsverðlaun. Og þetta þykja almennt mun virðingarverðari keppnir en Júrótrashvision. Samt hefur aldrei verið smalað á Austurvöll. Hvernig ætli standi á þessu?.”

Þetta er býsna vel athugað hjá Margréti Hugrúnu.

Af kynnum mínum af Björk ræð ég að ef haldin yrði samkoma á Austurvelli henni til heiðurs, myndi hún ekki mæta (!) en það er aukaatriði í þessu máli. Og það er jafnframt aukaatriði að Jóhanna er frábær átján ára söngkona sem á lífið framundan og engin ástæða til að vera neikvæður í hennar garð.

Hins vegar er það mér ráðgáta hvers vegna Björk nýtur ekki sannmælis á Íslandi. Kannski er skýringin sú að þegar minnst er á náttúrvernd, evrópska samvinnu og hvalveiðar, virðist hálf þjóðin missa vitið...

Í mínu starfi á alþjóða vettvangi (ef ég má vera svo hátíðlegur) hef ég unnið að einu verkefni með Björk og hef síðan ekki haft undan að svara alls kyns beiðnum til hennar frá -stundum- heimsfrægu fólki. Ég hef að sjálfsögðu bara beint þessum tilmælum til Bjarkar en gjarnan með þeim orðum að ég sé landi hennar en ekki umboðsmaður!

En þetta er ekki bara spurning um frægð: Madonna er miklu frægari svo dæmi sé tekið. En Björk nýtur virðingar; einmitt vegna þess að hún er hún sjálf. Stundum óþolandi mikið hún sjálf, vitum við sem höfum unnið með henni. En Björk verður bara að fá að vera Björk: annars væri hún ekki Björk.

Það breytir því hins vegar ekki að við Íslendingar og forsvarsmenn okkar stofnum til veislu til að fagna býsna mörgu: Bermúdabikarnum, Jóhönnu í öðru sæti, tukthusliminum Mörthu Stewart svo ekki sé minnst á blessaða útrásarvíkingana okkar.

(Að Ásdísi Rán ógleymdri og heimsókn hennar í Playboy-setriði – skítt og lago með að Hugh Hefner hafi ekki verið heima. Hann sendi jú sínar bestu kveðjur.)

Og man einhver eftir Svölu Björgvins? Fín söngkona. Stöð 2/Skífan ætlaði á sínum tíma að gera hana að megastjörnu, gaf út diska hennar, bjo til vídeói og hélt úti heimasíðunni Svala dott com.

Þar sagði hin svala Svala frá “her shopoing with her friends Hrafnhildur and Unnur in LA” eða eitthvað álika og svo dillaði hún sér í dansatriðummeð alvöru gengjum í Kaliforníusólinni.

Hún söng vel og dansaði enn betur en sá galli var á gjöf Njarðar að hún var sæt og smart en bara ... ekkert sérstök.

En það er Björk og það erum við Íslendingar- innst inni.

Við sem búum í hinum frönskumælandi heimi sjáum í búðargluggum tvö síðustu hefti hins víðlesna timartits GEO. Í öðru er hin sólríka Katalónía á forsíðu en í nýjasta heftinu Ísland.

Það er helvítis skítaveður á hverri einustu dramatísku glæsimyndinni frá Íslandi- en sannleikurinn er bara sá að við getum aldrei logið okkur upp á alheiminn sem sólarparadís. Katalónía myndi alltaf vinna, rétt eins og Barcelona myndi alltaf vinna KR í fótbolta! Með fullri virðingu fyrir vinum mínum í hinni ástsælu fjölskyldu Baltasar Samper – okkar ágætu íslensku-katalóna!

Við eigum að leggja á sérstöðu okkar – ekki hermi-hæfileikum okkar. Páfagaukar eru ekki góð fyrirmynd. LA liðið mun alltaf rótbursta okkur í Kaliforníustuðinu, sama hvað við gerum.

Þess vegna er Björk súperstjarna en ekki Svala og ….Bjöggi pabbi. Sorrý to say so, en það breytist ekki "þó líði ár og öld."

8 ummæli:

Hlynur Þór Magnússon sagði...

Einn snilldarpistillinn enn hjá Árna ...

photo sagði...

Heyr, heyr!

Nafnlaus sagði...

Björk er listamaður - hitt fólkið sem talið var upp er dægurflugur - sitt hvor katagórían. Listamenn eru umdeildir, sem er nauðsynlegt til að vekja fólk - dægurflugur svæfa almenning.

Iceland Today sagði...

Já, takk fyrir mig :)

Unknown sagði...

"En Björk verður bara að fá að vera Björk: annars væri hún ekki Björk."

Það eru svona setningar sem gera þennan pistil svo "djúpan".

Unknown sagði...

Nákvæmlega. Fínn pistill.

Sigurbjörg sagði...

Takk fyrir góðan pistil. Því má bæta við að Björk er ekki aðeins sjálfstæð eins og þú segir og "original" sem hljómlistarmaður, heldur er hún með gagnrýna hugsun og þorir að setja fram og standa fyrir sinni gagnrýni. En gagnrýnin hugsun hefur ekki átt upp á pallborðið hjá Íslendingum almennt á undanförnum árum.
Björk er ekki bara með söngrödd sem heyrist um alla heimsbyggðina heldur einnig rödd í alþjóðasamfélaginu um ýmis umdeild málefni Íslands. Þar að auki á Björk ekkert undir íslenskum "velgjörðarmönnum" og er alsendis óháð íslensku fjármagni. Hér er enginn sem getur kippt í spotta.

Nafnlaus sagði...

Björk hélt útitónleika til að vekja athygli á náttúruvernd fyrir nokkru síðan. Tónleikarnir voru í Laugardalnum skammt frá húsdýragarðinum.

Skemmst er frá því að segja að allt grassvæðið fylltist og er það talsvert stærra en Austurvöllurinn.

En það voru að vísu öðru vísi týpur en þær sem mættu á Jóhönnu. Í þessu landi búa tvær þjóðir.

(Og kannski kom fólk til að sjá Sigurrós en ekki Björk)