fimmtudagur, 9. júlí 2009

Le Soir: Rausn Íslands kom Belgum á óvart

Í umræðunum sem nú standa yfir um Icesave, hefur ekki farið hátt um belgíska sparifjáreigendur sem áttu innistæður hjá Kaupþingi. Raunar má segja að mjög lítillar samúðar gæti með þeim útlendingum sem eiga um sárt að binda vegna íslenskra fjárglæfra.

Belgíska stórblaðið Le Soir hefur alla þessa viku birt greinaflokk um Kaupþingsævintýrið í Belgíu og Lúxemborg og er það forvitnileg lesning – því sjónarhóllinn er annar en við eigum að venjast.

“Kaupþingsmálið er fyrst og framst harmleikur: önnur eins ógn hefur ekki stafað að jafn mörgum belgískum sparifjáreigendum síðan í síðari heimstyrjöldinni,” segir í byrjun vandaðrar úttektar blaðsins.

Frásagnir blaðsins af umsvifum Kaupþings er forvitnileg að ýmsu leyti, hlutlæg og fordómalaus með öllu í garð okkar Íslendinga. Þannig er skýrt frá ofsóknum á hendur Íslendingum í Lúxemborg. Börnum sagt að þau yrðu rekin úr skóla í kjölfar gjaldþrots Kauþþings og nágrannar bönkuðu upp á til að reyna að fá sjónvarpstæki og íbúðir fyrir lítið.

En það sem veldur manni áhyggjum er frásögn af fundi ráðamanna í Belgíu og Lúxemborg með íslenskum ráðamönnum í tengslum við millilendingu Yves Leterme, þáverandi forsætisráðherra á Íslandi 17. október.

Að sögn Le Soir mætti af Íslands hálfu á fundinn helmingur íslensku ríkisstjórnarinnar, fulltrúar Seðlabankans og nefndar sem skipuð var til varnar bankahruninu.

Síðan segir í frásögn blaðsins: “Eftir kurteisisumræður um nauðsyn samstöðu smáríkja, snéru menn sér að alvörumálunum. Og þá gall í fulltrúa björgunarnefndar bankanna: “Allt er leyst.” Belgísku og lúxemborgísku fulltrúarnir voru steinhissa: “Hvernig ætlið þið að gera það?”. “Við ætlum að borga allt út í reiðufé”, svaraði fulltrúinn sallarólegur.

“Enn þann dag í dag,” segir okkur einn belgísk-lúxemborgísku nefndarmaðurinn, “skiljum við ekki hvers vegna fulltrúi nefndarinnar lýsti þessu yfir við okkur.”

Burtséð frá því hvaða máli þessi yfirlýsing skiptir og hver það var sem lét þessi orð falla; verður ekki framhjá því litið að þetta er dæmigert fyrir þann óprófessjónalisma sem íslensk stjórnvöld sýndu af sér í bankahruninu. Og gera kannski enn.

Sjá: http://www.lesoir.be/actualite/economie/2009-07-09/comptes-kaupthing-debloques-ici-fin-juillet-716800.shtml

8 ummæli:

Róbert Viðar Bjarnason sagði...

Það var frétt í gær um að Kaupþing væri búið að borga risaupphæðir út til innistæðueigenda og þess vegna hefði verið gengið mjög mikið á gjaldeyrisforða Seðlabankans. Er þetta ekki reiðuféð sem talað er um í þessari grein? Spurningin sem fáir hafa skoðað er hvaðan þetta reiðufé/gjaldeyrir er að koma - átti Kaupþing þetta reiðufé eða er þetta í raun að koma frá láni AGS og er á endanum líka allt að koma frá Íslenskum skattgreiðendum...

Nafnlaus sagði...

Kaupþing átti reiðuféið vegna útgreiðslna í Þýskalandi. Sjá http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/22/ekki_krona_a_rikid_vegna_edge_3/

Í Belgíu, Sviss og Lúxemborg er greitt út í kjölfar sölu á Kaupþing í Lúxemborg. Sjá http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/07/09/belgiskir_sparifjareigendur_kaupthings_fa_greitt/ Ekki fellur neitt á íslenska ríkið þar heldur.

Siggi Hrellir sagði...

Í gær skokkaði ég um Seltjarnarnesið og sá þar unglinga í garðyrkjuvinnu á víð og dreif. Enginn þeirra var þó að vinna því að það var greinilega skemmtilegra að sitja og kjafta. Ég velti því fyrir mér hvort að hér væru saman komnir framtíðarembættismenn þjóðarinnar.

Róbert Viðar Bjarnason sagði...

Nafnlaus - Ég sá frétt í gær, man ekki hvar, um að gjaldeyrisforðinn væri að lækka vegna greiðsla frá Kaupþingi út, fann núna tengil í frétt í Mogganum, blaðaútgáfu í dag sem ég hef ekki lesið sjálfur:

Lækkar gjaldeyrisforðann

Skilanefnd Kaupþings hefur hafið endurgreiðslur til innstæðueigenda bankans í Þýskalandi og þegar sent fyrirmæli um endurgreiðslu innstæðna til um 20...

http://pappir.mbl.is/index.php?s=1510&p=36402&a=141954

Vonandi er þetta ekki rétt...

Róbert Viðar Bjarnason sagði...

Hér er fréttin síðan í gær þar sem skilanefnd Kaupþings segist hafa borgað út 330 milljónir Evra í gegnum Seðlabanka Íslands og þetta hafi haft veruleg áhrif á gjaldeyrisforðann...

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4467289/2009/07/08/4

Auðvitað átti, ríkisbankinn Kaupþing þessa peninga, en þeir áttu þá í Íslenskum krónum sem síðan þurfti að breyta í Evrur. Síðan er búið að vera að segja aftur og aftur að skattgreiðendur muni ekki bera neinn kostnað af Edge - get ekki betur séð en að gjaldeyrisforðinn sem er búin til með lánum frá AGS, norrænu þjóðunum og öðrum sé allavega einhver kostnaður á þjóðarbúið...

Nafnlaus sagði...

Gamli bankinn sem er undir skilanefnd á aurinn. Ekki ríkisbankinn. Ríkisbankinn er annað fyrirtæki.

Róbert Viðar Bjarnason sagði...

Nafnlaus - Það á reyndar eftir að klára að skipta þessum banka í gamla og nýja Kaupþing...

En hver á gjaldeyrisforðann? Með þessari sömu röksemdafærslu að Edge kosti okkur ekki neitt getum við þá ekki bara prentað 720 milljarða í krónum og sent til Bretlands og Hollands í gegnum Seðlabankann og þá lendir ekki króna af IceSave á Ísland?

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki hvað þú ert að fara með þessari færslu Árni. Innistæður eru forgangskröfur. Í þrotabúi Kaupþings voru til peningar fyrir þessum forgangskröfur og þær því greiddar út. Hvaða óprófessíonalismi fyrirfinnst í því?