þriðjudagur, 2. júní 2009

Tveir kínverskir sendiherar en ekki Dalai Lama

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra réttlætir þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og forseta Íslands að sniðganga heimsókn friðarverðlaunahafa Nóbels , Dalai Lama til Íslands með þvi að “Dalai Lama sé ekki þjóðhöfðingi ríkis sem Ísland eigi í stjórnmálasambandið við en hans heimsókn sé ekki á sama grunni og þegar um erlenda þjóðhöfðingja (sé)að ræða. " (Mbl.is)

Steingrímur Joð gefur með þessum orðum í skyn að allajafna sé reglan sú að ráðamenn þjóðarinnar hitti ekki að máli nema þá sem gegna álika háum stöðum í heimalandi sínu.

En stenst þetta skoðun?

Forseta Íslands má segja til hróss að forsetaembættið heldur úti prýðilegri heimasíðu www.forseti.is.

Kíkjum á nokkur dæmi af handahófi úr dagskrá forsetaembættisins. Þar kemur meðal annars í ljós að forsetinn átti tvo fundi með kínverskum sendimönnum á síðasta hálfa öðrum mánuðnum fyrir komu Dalai Lama til Íslands.

Hann hitti núverandi sendiherra Kína fyrir hálfum mánuði og hafði einnig tíma til þess að taka á móti fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi rétt í þann mund sem Dalai Lama var að koma til Íslands.

Þessu ágæta fólki er tekið á móti á Bessastöðum. Ef mér skjöplast ekki þá er þetta fólk ekki allt þjóðhöfðingjar- ekki frekar en Dalai Lama. Kíkjum á listann:

“30.5.2009

Samvinna við Kína

Forseti á fund með Wang Ronghua, fyrrum sendiherra Kína á Íslandi, um margvísleg tækifæri til að auka samvinnu Íslands og Kína á sviðum menningar, vísinda og viðskipta.

1.5. 2009
Utanríkisráðherra Sameinuðu furstadæmanna

Forseti á viðræður við utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og sendimenn hans frá Abu Dhabi um samstarf landanna, nýtingu hreinnar orku, framlag íslenskra vísindamanna til þróunar Masdarverkefnisins og tillögur Sameinuðu furstadæmanna um að höfuðstöðvar nýrrar alþjóðlegrar stofnunar í orkumálum verði í Abu Dhabi.

7.4. 2009

Samstarf við Kína

Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi Zhang Keyuan um samstarf landanna á ýmsum sviðum sem og þróun efnahagsmála í Kína og á heimsvísu.

11.3. 2009

Brahma Kumaris

Forseti ræðir við fulltrúa andlegu samtakanna Brahma Kumaris og tekur á móti kveðjum og gjöfum frá leiðtoga þeirra Dadi Janki. Starfsemi samtakanna á Íslandi hefur eflst mjög á undanförnum árum. Forseti átti á sínum tíma fund með Dadi Janki á Bessastöðum.

9.3.2009

Alþjóðasamtök Farfugla

Forseti tekur á móti framkvæmdastjórum Farfuglafélaga í ýmsum löndum, Hosteling International, sem halda þing sitt á Íslandi.

16.12. 2009

Forseti ræðir við bandaríska fræðimanninn Paul Hawken um þróun hins nýja hagkerfis, bæði á Íslandi og á heimsvísu, sjálfbærni og græna tækni. Hawken hefur verið á Íslandi í boði Bjarkar Guðmundsdóttur.”Fæst þessi skoðun Steingríms Joð staðist miðað við þær opinberu upplýsingar sem raktar eru hér að ofan?

Forsetinn hittir þannig ekki bara fyrrverandi og núverandi kínverska sendiherraheldur farfugla, utanríkisráðherra og andlega leiðtoga af aðeins minna kalíberi en Dalai Lama.

Hafa embætti ´forsætis- fjármálaráðherra- og utanríkisráðherra ef til vill hærri standard en embætti forseta?

Ég ætla þeim ekki svo illt að vilja gjöra glæpakvendinu Mörthu Stewart veislu með utrásarvíkingum á kostnað skattgreiðenda, en það er alveg ljóst að afsakanir Steingrims Joð er fráleitar og honum ekki sæmandi.

Ekkert fær hins vegar bitið á réttlætiskennd Ögmundar Jónassonar og Katrín Júlíusdóttir sýnir gamla takta með því að hitta Dalai Lama og er það vel, en hyggjum að fleiri þáttum.

Þannig væri gaman að vita hvenær heimsókn Össurs “Möltufálka” Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til heimaeyjar ránfuglsins góða var ákveðin og athuga samhengið við tilkynningu um komu Dalai Lama. Skemmtilega hentug tilviljun að Össur skuli "óvart" hafa verið að heiman.

Þarf ég að minna á að forsætis- og utanríkisráðherrar Dana, hittu baðir Dalai Lama að máli?

Jafnframt væri gaman að vita hvort fundir hans með kínverskum sendimönnum hafi verið jafn tíðir og forseta Íslands, eða fékk hann bara að vita skilaboðin símleiðis?

Og hefur einhver séð heilaga Jóhönnu? Síðast þegar sást til hennar var hun í grárri kápu og hélt á ófleygum og ryðguðum geislabaug.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það þarf að rannsaka samskipti íslands við Kína. Hálfóljóst hve mikil og hvers eðlis þau eru.

Frægt varð nú fyrir um 2 árum (mitt í svokölluðu góðæri) að ísland ætlaði að gera fríverslunarsamning við Kína fyrst ríkja.

Sumir svonefndir "Fullveldissinnar" eru enn að tala um þetta.


Ég segi: Höfum sem minnst samband við Kína. Ekkert umfram það sem talið er nauðsynlegt - þar til þeir taka til í mannréttindamálum hjá sér.

Nafnlaus sagði...

Er það rétt munað að Séð og Heyrt hafi birt myndir af gestum Forseta á tröppum Bessastaða?

Nafnlaus sagði...

Góður. Þú klikkar ekki frekar en fyrr. - Við höfum svolítið hengt okkur í fíflaganginn kringum Mörthu Stewart sem fékk að búa í forsetabústaðnum við Laufásveg. Þar fór forsetinn heldur betur fram úr öllum sínum embættisskyldum. Íslendingar eru bara lufsur og aumingjar að láta Kínverja vaða svona yfir sig.

Nafnlaus sagði...

Jæja á ekkert að tækla 100 milljónirnar sem Samfylkingin fékk á árinu 2006

Sé að þú hafðir miklar skoðanir á styrkjunum til Sjálfstæðisflokksins og varst handviss um að Framsókn hefði þegið háa styrki, allt að sjálfsögðu tengt við fyrirgreiðslupólítík og spillingu.

Tekur Samfylkingin við 25 milljónum frá Jóni Ásgeiri og 15 frá Björgúlfunum og þarf ekkert að gera í staðinn ?

Nafnlaus sagði...

"16.12. 2009

Forseti ræðir við bandaríska fræðimanninn Paul Hawken um þróun hins nýja hagkerfis, bæði á Íslandi og á heimsvísu, sjálfbærni og græna tækni. Hawken hefur verið á Íslandi í boði Bjarkar Guðmundsdóttur."

Ólafur getur meira að segja ferðast um í tíma!

Nafnlaus sagði...

Ég ætlaði nú bara að óska þér til hamingju með soninn - glæsilegt hjá honum í dag kveðja Gúna