sunnudagur, 2. ágúst 2009

Búlgaría norðursins, nei takk

Evrópusambandið er með alvarlega timburmenn eftir að hafa opnað gáttir sínar fyrir ríkjum á borð við Búlgaríu og Rúmeníu. Í skýrslu sem birt var fyrir tveimur vikum sagði að ríkin spilling, svindl og skipulögð glæpastarfsemi réði ríkjum.

Þegar ég las frétt þessa efnis í dagblaði um það leyti sem Ísland sótti um aðild að ESB, hélt ég mér til mikillar skelfingar að fréttin fjallaði um okkur.

Frakkar hafa farið framarlega í flokki þeirra ríkja sem eru ófúsir á að samþykkja frekari stækkun fyrr en Lissabon samkomulagið hefur tekið gildi. Þjóðverjum er lika farið að ofbjóða það sem þeir kalla ofriki smáríkja.

Um Breta þarf ekki að fara mörgum orðum. Flestir Íslendingar telja að við höfum sem þjóð verið hlunnfarin i viðskiptum okkar við Breta út af Icesave. Menn segja sem svo að fjárglæframenn hafi farið of geyst en Bretar (og Hollendingar) hljóti að deila ábyrgðinni með okkur. Margir taka svo undir málflutning Breta og Hollendinga um að íslenskir aðilar hafi hreinlega stolið sparifé í löndunum tveimur.

Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að uppruni bankasvindlsins á Íslandi verði kannað og þeir dregnir til ábyrgðar sem eiga sök. Dómstólar munu á endanum úrskurða en það er óþolandi hve mikið rannsókn hefur dregist á langinn.

Ég hef lengi hallast að því að stærsta brotalömin í íslensku réttarkerfi sé saksókn. Vitaskuld á ekki að gera yfirvöldum auðvelt fyrir að skipta um saksóknara að eki sé talað um dómara. Þess vegna er það því dapurlegra að Ríkissaksóknari skuli ekki hafa beðist lausnar eða tilfærslu í embætti vegna augljósra tengsla hans við stærsta eiganda Kaupþings. Í sumum tilfellum verður að treysta á dómgreind manna, en í þessu tilfelli brást einstaklingurinn.

Hættan er sú að litið verði á Ísland sem Búlgaríu norðursins. Það er ekki bara sspurning um réttlæti að hinn langi armur laganna grípi fjárglæframennina hreðjataki, heldur hreinlega spurning um orðstír og efnahagslega framtíð íslensu þjóðarinnar.

Ein gleðilegasta frétt undanfarinna vikna var að Icelandair ætlaði að taka upp beint áætlunarflug til Brussel. Ef svo fer fram sem horfir væri nær lægi að taka upp beint flug til Tortola.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það væri hrós fyrir okkur ef við værum kölluð Búlgaría Norðursins.
Skárra en að vera kallaður Íslendingur. Efast stórlega um að búlgarska hafi alla stjórnmálamenn í vasanum eins og raunin er hér á landi

Nafnlaus sagði...

ops
gleymdi orði.
Það á að standa búlgarska "mafían" hafi menn í vasanum

Nafnlaus sagði...

ég hef lengi talið að ástæðan fyrir því að lánveitingar til Íslands eru tregar sé sú að hér er sama kerfið við völd og áður. Þó skipt hafi verið út Sjálfstæðisflokknum, bar Samfylkingin ekki gæfu til þess að hreinsa til í embættismanna-, stjórnmálamanna og bankamanna-kerfinu. Þar af leiðir að alþjóðasamfélagið sér ekki ástæðu til að lána okkur pening nema á ofur-vöxtum við tryggingar eru litlar þar sem hér eru við stjórn efnahagsmála menn sem setja þúsundir milljarða í veðlausa hít!