fimmtudagur, 24. júlí 2008

Á ríkið að borga boð fyrir vinkonu forsetafrúar?

Boð forseta Íslands fyrir helstu auðmenn Íslands en til heiðurs dæmdri fjársvikakonu bandarískri Mörthu Stewart, hefur vakið hörð viðbrögð almennings og skyldi engan undra. Stewart var fyrir fáum árum dæmd fyrir fjársvik en hefur þess utan aðallega gert sér það til ágætis að vera uppskrifta-drottning í sjónvarpi og tíður gestur í slúðurdálkum blaða, á borð við Hello og bandarískra systurblaða.

Sumir bera þó í bætifláka fyrir Ólaf Ragnar og segja ekki nema sjálfsagt að hann bjóði dæmda fjársvika-kvendinu Mörthu Stewart til kvöldverðar með helstu auðmönnum Íslands á Bessastöðum, enda sé hún gömul vinkona Dorrit Moussaief, forsetafrúr.

Ef það er raunin að hún sé boðin sem gömul vinkona, er það þá eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur borgi brúsann?

PS Eins og bent er á í athugasemd hér að neðan var Mörthu Stewart neitað um vegabréfsáritun til Bretlands fyrir örskömmu vegna sakaskrár sinnar, fyrir minna en mánuði. Ólíkt höfumst við að: Mörthu Stewart er tekið eins og þjóðhöfðingja á Íslandi en úthýst sem glæpamanni í Bretlandi. Sjá nánar: http://www.guardian.co.uk/world/2008/jun/21/usa1

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni, þú gjörsamlega með Ólaf á heilanum. Hefur hann gert þér eitthvað?

Nafnlaus sagði...

Það er nú ekki rétt að frú Stewart hafi verið dæmd fyrir fjársvik - hún var dæmd fyrir að hindra framgang réttvísinnar, með því að ljúga að ransóknarmönnum.
Haukur

Egill Ó sagði...

Réttara er að hún var dæmd fyrir meinsæri (conspiracy), að hindra opinbera rannsókn og að ljúga að opinberum rannsóknaraðilum.

Hún hafði fengið innherjaupplýsingar um að gengi fyrirtækis sem hún átti í myndi falla og tókst því að koma í veg fyrir tap upp á 45.000 dollara með því að selja sinn hlut daginn áður en bréfin féllu í verði.

Hún gekkst árið 2006 undir dómsátt um að hún mætti ekki sitja sem stjórnarmaður í fyrirtæki næstu 5 árum þar á eftir (eða s.s. í því sem kallað er public company). Henni var ennfremur neitað um vegabréfsáritun til Bretlands á þessu ári vegna þeirra dóma sem hún hefur á bakinu.

En forsetinn er ekki að velta svona tittlingaskít fyrir sér þegar hann býður vinkonum Dorrit í veislur á vegum embættisins.

Egill Ó sagði...

Það var s.s. í ár, 2008, sem henni var neitað um vegabréfsáritunina ef það fer á milli mála.

Nafnlaus sagði...

"4 less years!" væri nýja slagorðið, ef núna væri maíbyrjun en ekki júlílok.
Fyrst Kína, svo þetta. Grrrr.
Ekki meira, takk.

Nafnlaus sagði...

það var nú svo sem fleiri dæmdum boðið í mat við þetta tækifæri......var það ekki???

flott að forsetinn sé farinn að gefa dæmdum mat á okkar kostnað, maður á að hjálpa þeim sem eiga undir högg að sækja......

Nafnlaus sagði...

Voðalega finnst mér mikið gert úr því að hún hafi verið dæmd fyrir glæp. Er hún ekki búinn að taka út sýna refsingu. Það er ótrúlegt að fólk sem er búið að taka út dóm þurfi að líða fyrir það alla ævi gera ekki allir mistök. Hefur hún bara ekki boðið þeim í mat hlýtur að eiga efni á því.

Nafnlaus sagði...

Eftir þarseinustu kosningar þar sem hann hlaut ekki meirihlutastuðning þjóðarinnar, heldur sennilega einhverja slökustu kosningu sem Íslenskur forseti hefur hlotið, er þetta bara nákvæmlega svona.

Það var reynt að vara við honum, en með réttri markaðssetningu hefur honum tekist að koma sér þannig fyrir hjá stórum hluta þjóðarinnar að hann er nú á sínu fjórða kjörtímabili.

Þannig er víst lýðræðið og við það verðum við að lifa. Það þýðir lítið að hneykslast á því núna, þó hann rækti yfirlýstan vinskap sinn við einræðisherra og glæpona. Ef fólk kærði sig ekki um það hefði það ekki átt að kjósa hann !!!.

Nafnlaus sagði...

Minni á að Íslendingar kusu dæmdan fjársvikara og svindlara á þing í síðustu þingkosningum.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þeim sem undrast þessar umræður. Það vill svo til að Ólafur býr á Bessastöðum. Það veit engin sem ræðir hér um þessa veislu hver borgaði. Og með Kínaferðinna þá fer Ólafur í boði Íslensku Ólynpíunefndarinnar sbr. www.forseti.is:"Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur þegið boð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og forseta Kína Hu Jintao um að sækja Ólympíuleikana sem verða haldnir í Peking í næsta mánuði"
Ef að menn eru að láta svona vegna Kína þá ættu þeir að hætta að skipta við fyrirtæki sem láta framleiða vörur sínar í Kína. Það er jú ekki margt sem hægt væri að kaupa. Eins þá ættu menn almennt að hætta að ferðast þangað. Ef að menn halda áfram að blanda Ólynpíuleikum svona mikið inn í málinn þá deyja þeir út fyrr en varði.

Nafnlaus sagði...

Skv. þessu má ekki bjóða Árna Johnsen til Bessastaða - við skulum halda því til haga.

Nafnlaus sagði...

,,Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?``

Rómverji

Egill Ó sagði...

Magnús, ólympíuleikarnir hafa lifað af m.a. sniðgöngu stórra þjóða í Kalda stríðinu, ætli smá umræða um hvort að það sé rétt að senda þjóðkjörna fulltrúa ríkisins sem sérlega gesti alræðisstjórnarinnar í Kína sé ekki í lagi fyrir framtíð leikanna?

Það er bæði stigs- og eðlismunur á því að forseti lýðveldisins fari í þessa ferð og þess að einkaaðilar standi í bissniss.

Nafnlaus sagði...

Sjálfkjör er afleitt. Þá sennilega herðast menn enn frekar í svona æfingum. Maður að nafni Ólafur Ragnar Grímsson sagði líka að forsetar á Íslandi ættu ekki að sitja of lengi.

Bíð sem fleiri eftir yfirlýsingu frá Bessastöðum um að þetta hafi verið einkaheimsókn svo og snobbboðið.

Nafnlaus sagði...

Forsetar Íslands a.m.k. Vigdís hafa áður þegið boð Kínverja um að sækja þá heim. Bendi líka á að Ólafur er að fara þarna í boði Ólynpíunefnda Ísland sem og Kínverja. Væri það ekki móðgun þá við Íslenska keppendur ef hann færi ekki.
Ég er einn af þeim sem held að það verði ekki framfarir í mannréttindamálum í Kína nema með auknum samskiptum við þá.