mánudagur, 14. júlí 2008

Bronislaw Geremek: In memorian

Það eru víst liðin nítján ár frá því að ég kom móður og másandi inn í réttarsal í Varsjá. Ég var þá í framhaldsnámi í blaðamennsku við Fondation Journalistes en Europe í París og naut þeirra forréttinda að geta ferðast um Evrópu sem hluta af starfsþjálfun.

Ég var of seinn og þegar ég kom inn í réttarsal fullan af fólki var dómarinn að lesa úrskurð um að starfsemi verkalýðs- og stjórnmálahreyfingarinnar Samstöðu skyldi leyfð á nýjan leik.

Þetta voru mikil tímamót og viðstaddir gerðu sér mætavel ljóst að hér höfðu gerst söguleg tíðindi. Brautin hafði verið rudd fyrir hringborðs-samkomulaginu pólska sem fól í sér hálffrjálsar kosningar sem Samstaða vann með yfirburðum. Kommúnistar fóru frá völdum í Póllandi og kommúnisminn hrundi eins og spilaborg í Austur-Evrópu og loks Sovétríkjunum.

Geremek átti stóran þátt í þessu samkomulagi ásamt öðrum manni sem ég kynntist í sömu ferð, Alexander Kwasniewski sem þá var æskulýðs- og íþróttaráðherra í stjórn kommúnista en varð síðar forseti Póllands.

Prófessor Bronislaw Geremek, fór fyrir Samstöðu á þessu augnabliki og tók strákhvolp frá Íslandi vel og tók ég viðtal við hann fyrir ríkisútvarpið og birti hluta af því síðan í Þjóðlífi heitnu. Hann var menntaður í París eins og ég og hafði lagt stund á miðaldasögu eins og ég hafði gert um tíma. Næst þegar ég sá Geremek var hann orðinn utanríkisráðherra Póllands.

Geremek talaði frönsku betur en Frakkar gera almennt og var mjög vinsæll í Frakklandi og ég sá hann oft í gegnum árin í umræðuþáttum í franska sjónvarpinu. Hann varð Evrópuþingmaður fyrir nokkrum árum og leiðir okkar lágu aftur saman hér í Brussel. Hann sótti fund sem skrifstofa mín hélt í samstarfi við Evrópuþingið sem fjallaði um skopmyndir og málfrelsi.

Franski skopteiknarinn Jean Plantu sem teiknar forsíðuteikningu Le Monde daglega var aðalmaðurinn á þeim fundi. Geremek lét til sín taka en fór áður en honum lauk. Plantu hafði séð mig á tali við Geremek og bað mig um að koma mynd sem hann hafði rissað upp af Geremek á meðan hann talaði til skila. Því miður lét ég þetta undir höfuð leggjast og af því verður ekki úr því sem komið er. Geremek lést í umferðarslysi í Póllandi um helgina 76 ára að aldri. Myndin horfir á mig á skrifborðinu mínu.

Engin ummæli: