fimmtudagur, 3. júlí 2008

Óbreytt ástand er ábyrgðarleysi

Gamall og góður kunningi minn skrifað mér lítið bréf og fann að skrifum mínum þar sem ég hvatti til stjórnarslita og kosninga. Mæltist honum vel að flestu leyti enda sjóaður í ölduróti stjórnmálanna.

Gagnrýni hans fólst í því að þingrofsheimildin væri í höndum Geirs H. Haarde. Í stað þess að uppskera kosningar með Evrópu-andófi gæti Samfylkingin hrökklast úr ríkisstjórn með stimpilinn "ábyrgðarlaus" á enninu og endað í stjórnarandstöðu. Geir gæti svo kippt VG upp í til sín eða frjálslyndum og jafnvel framsókn líka.

Ég var hins vegar ekki að skrifa pólitíska fréttaskýringu og minni líka á að ég sagðist telja ósennilegt að þetta gerðist.

Ég tel að hins vegar að Samfylkingin eigi að vinna að því öllum árum að knýja fram yfirlýsingu um aðild að Evrópusambandinu og nýta sér stuðning afla í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni sem leynt og ljóst styðja ESB aðild. Flokkurinn verður þó að vera undir það búinn að slíkt endi með stjórnarslitum/kosningum/nýrri stjórn.

Til hvers er Samfylkingin í pólitík? Til að vinna að framgangi hugsjóna sinna eða til að verma ráðherrastólana? Það má alveg saka mig um að vera naív en ég á enn pínulitla von um að það leynist kannski ekki hugsjónaglæður (það er til of mikils ætlast) heldur ábyrgðartilfnning hjá ráðamönnum flokksins.

Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk.

Þegar varað er við því að Samfylkingin geti hrökklast úr ríkisstjórn með stimpilinn "ábyrgðarlaus" á enninu og farið í stjórnarandstöðu, kann það vel að vera rétt og sama máli gegnir um möguleikann á að Geir slíti stjórnarsamstarfinu og biðli til stjórnarandstöðuflokkanna. Og vissulega er þingrofsheimildin i höndum Geirs.

Þetta er rétt til skamms tíma litið.

Minn góði gamli kunningi segir í bréfi sínu að Samfylkingin gæti farið halloka í stjórnarandstöðunni. Ég lít þvert á móti svo á að möguleikinn á stjórnarslitum án kosninga sé eitraður kaleikur sem Geir H. Haarde er réttur.

Geir þyrfti hins vegar að huga að eftirfarandi:

1. Gæti hann tekið á efnahagsmálum af nokkru viti með VG í ríkisstjórn og Ögmund Jónasson á handbremsunni? Hvað með álverin sem leysa eiga öll vandamál?

2. Hve lengi myndi slík ríkisstjórn halda? Eða öllu heldur hve lengi myndi Geir halda út að vera gísl Steingríms og Ömma?

3. Þætti Geir skemmtilegt að sitja uppi með ábyrgðina á landsstjórninni álverslaus á krepputímum með VG í óþökk atvinnulífsins, en Samfylkingin yrði með öll tromp á hendi í stjórnarandstöðu, fitnandi eins og púki á fjósbita?

4. Myndi Sjálfstæðisflokkurinn fara heill út úr slíku vonlausu stjórnarsamstarfi? Myndi draumur vinstri manna um klofinn Sjálfstæðisflokk og sterkan íslenskan jafnaðarmannaflokk að norrænum hætti rætast?

5. Skyldu spor Villa Vill ekki hræða? Er það víst að Samfylkingin yrði sökuð um ábyrgðarleysi?

Þetta er sú hætta sem blasir við Geir. Ef hann færi í stjórn með VG sem virðist nú meira að segja á móti EES! væri Geir að leika á fiðlu á meðan Reykjavík brynni.

Ég tel því að jafnvel að teknu tilliti til þess sem minn ágæti gamli kunningi bendir réttilega á, eigi Samfylkingin að keyra á Evrópumálinu nú í haust en hún verður að hafa í huga að slíkt kann einungis að skila árangri til lengri tíma litið þ.e. í næstu kosningum. Þrjú ár er þó ekki langur tími í pólitík.

Hinn kosturinn er sá að sitja í ríkisstjórn og aðhafast ekki neitt. Ég átta mig vel á því að það er gaman að ferðast til Dúbæ á fullum dagpeningum og láta einkabílstjóra skutla sér í vinnuna. Það er freistandi að gera ekki neitt.

Og ég skal í lokin viðurkenna að ég býst við að það verði niðurstaða málsins - í bili.

Eftir að ég skrifaði þessi orð las ég á Eyjunni að Björgvin G. Sigurðsson, sá öndvegishöldur, hefði verið í viðtali á Rás 2 í gær. Þótt ég hafi ekki hitt Björgvin í heilt ár að ég held, virðumst við vera mjög á sama máli.

Kannski að það sé ljós í myrkrinu!

Björgvin sagði samkvæmt Eyjunni. "Hann hefur trú á því að undirbúningur aðildar verði samstarfsverkefni núverandi ríkisstjórnarflokka innan skamms tíma. Þó forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi lýst sig andvíga aðild, þá hafi t.d. varaformaður hans opnað á málið með sínum hætti. Björgvin sagði þetta brýnasta verkefni stjórnmálanna. “Framtíðinni verður ekkert frestað lengi enn í þessum málum” Hvort það taki eitt, tvö eða þrjú ár að ná pólitískri samstöðu um málið þyrfti síðan að koma í ljós.
“Óbreytt ástand kann að reynast okkur erfitt innan nokkurra mánaða eða missera verði róttæk skref ekki tekin í þessu máli,” sagði Björgvin."

Svo mælir Björgvin samkvæmt Eyjunni – eins og talað út úr mínu hjarta. Og Eyjan lýgur ekki!!

4 ummæli:

Sverrir sagði...

Er það ekki skrýtið að eini flokkurinn sem er látinn svara fyrir stefnu sína er Samfylkingin.
Hugsjónir og varsla þeirra virðist líka bara á borðum Samfylkingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn sem í orði er á móti útþenslu ríkisins þenur það sem aldrei fyrr. Sami flokkur er meistari sætavermingar án raunverulegs árangurs í fjölda mála.
Þetta skildi þó ekki hafa eitthvað með mismunandi afstöðu þessara flokka til opinna umræðna um stefnumál að gera?

Nafnlaus sagði...

Kaffihúsaspeki - grunnt og blasir við.

Nafnlaus sagði...

Bestu spekingar heimssögunnar hafa gjarnan komið saman á kaffihúsum. Ó Árni sé snjall er óþarfi að ausa hann lofinu :)

Nafnlaus sagði...

"Landinu er að blæða út við núverandi aðstæður. Fyrirtækin eru að stöðvast vegna gjaldeyrisvanda, bankakreppu vegna bakhjarlsleysis og vaxtaokurs. Fjölskyldurnar eru að missa bíla sína og hús og matar- og bensínverð er að sliga jafnvel meðaltekjufólk."

Hvað kemur þetta ESB umsókn við ? Vildi að annars ágætur penni myndi rökstyðja mál sitt. Af hverju er betra að fara inn ? Hvað breytist ? Af hverju breytist það ? Af því bara er ekkert svar...