laugardagur, 5. júlí 2008

Guðfaðirinn og diplómatinn

Það sætir miklum tíðindum að þeir Einar Benediktsson og Jónas Haralz lýsi yfir stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er hins vegar ekki viss um að yngri lesendur Eyjunnar (innan við fertugt!!) átti sig á því hve mikla sögulega vigt þessir nestorar hafa.

Er ofmælt að kalla Jónas guðföður íslenskrar frjálshyggju? Ég held ekki. Hann var róttæklingur og handgenginn helstu leiðtogum Sósíalistaflokksins á fjórða áratugnum hvort sem hann taldi sig kommúnista eða ekki. Það er í rauninni áfall fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að Jónas skuli ganga Evrópusinnum á hönd því fyrst guðfaðir frjálshyggjunnar gerir þaðm, er ljóst að það er hlaupinn flótti í liðið. Big time.

Jónas og Einar eru auðvitað báðir hluti af embættismanna elítu Íslands. Það kætir mig reyndar mjög að í grein þeirra félaga i Morgunblaðinu skuli skuli varnarsamstarf Íslands og ESB tíundað sem rök fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Þannig vildi nefnilega til að fundum okkar Einars bar saman í fyrsta skipti ef ég man rétt í Brussel 1987 eða 88, allavega fyrir rúmum tveimur áratugum. Hann var þá sendiherra hjá NATO en ég hálfþrítugur blaðamaður með rauð gleraugu. Ég var í svokallaðri NATO ferð undir styrkri stjórn NATO-Manga Magnúsar Þórðarsonar heitins ásamt núverandi ritstjóra Eyjunnar og fleiri góðum mönnum.

Þá höfðu Frakkar eins og svo oft áður eitthvað verið að rifja upp gamlar hugmyndir um að efla evrópskt varnarsamstarf innan Vestur-Evrópusambandsins. Bar ég upp fyrirspurn við NATO hershöfðingja um þetta en þá bar svo við að NATO sendiherrann Einar greip fram í og sagði eitthvað á þá leið að spurning mín væri óviðeigandi því Íslendingar vildu ekkert gera sem gæti orðið til þess að brúin yfir Atlansthafið á milli Bandaríkjanna og Evrópu gliðnaði. Varð úr þessu mikil rimma.

Ég hef oft nefnt þetta sem dæmi um viðhorf elítunnar til utanríkismála. Engar umræður voru leyfðar því þær gátu ekki orðið neitt annað en vatn á myllu kölska; kommúnista og herstöðvaandstæðinga. Ef vel er að gáð hefur þetta verið leiðarljós Sjálfstæðisflokksins alla tíð eins og Íhaldsflokka alla tíð: má ekki, má ekk, má ekki. Blaðamaður mátti ekki einu sinni spyrja spurningar sem ekki var RÁÐUNEYTINU þóknanleg.

Ég tek það fram að þetta atvik hafði engin eftirmál og við Einar höfum verið góðir kunningjar síðan. Sjálfur hef ég fylgst með störfum hans í forystu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi með aðdáun. Þegar ómálað málverk eftir Hallgrím Helgason var selt á uppboði UNICEF fyrir stórfé, var það fyrsta sem mér datt í hug: Kippir Einar i kynið enda seldi nafni hans og afi eins og kunnugt er útlendingum norðurljósin!

Jónas Haralz þekki ég ekki persónulega en þekki vitaskuld orðstír hans sem bankastjóra, efnahagsráðunauts og hugmyndafræðings. Bráðum verður enginn eftir nema Davíð, Björn, Kjartan og Ragnar Arnalds auðvitað. Veit ekki um Hannes því hann hefur ekki verið jafn mikið fjarverandi í íslenskum stjórnmálum nema síðustu mánuðina fyrir kosninga en þá er hann jafnan sendur til útlanda til að fæla ekki í burtu kjósendur.

Einar og Jónas: velkomnir um borð!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er ekkert í frjálshyggjunni sem kveður á um að ekki skuli ganga í ESB, þvert á móti þá er það frjálshyggja að leggja niður tolla og leyfa frjáls viðskipti.

Það sem hins vegar vegur upp á móti er sú andúð á lýðræði sem ríkir í ESB og sú venja að breyta reglunum eftir á til að fá rétta niðurstöðu. Sameiginleg skattastefna er t.d. eitthvað sem enginn ætti að hafa áhuga á.