þriðjudagur, 15. júlí 2008

Timburmenn af reykingum

Fyrir nokkrum árum hitti ég ágætan vin minn venju fremur drukkinn í bænum snemma kvölds. Ég spurði hverju þetta sætti og hann kenndi því um að hann væri nýhættur að reykja og drykki því hraðar en ella. “Annars hætti ég bara að reykja því ég varð alltaf svo timbraður af reykingunum.”

Þessi saga kom upp í hugann þegar ég las um vandræðagang Björns Bjarnasonar og Þórlinds Kjartanssonar með að taka upp evruna á grundvelli EES samningsins – fjórum mánuðum eftir "tímamótayfirlýsingu" Illuga Gunnarssonar þar að lútandi.

Rétt eins og vinur minn sem kenndi sígarettunum um timburmennina, eru þessi ágætu menn í afneitun og sorglegt að horfa upp á þá neita staðreyndum. Þeir eru að vísu búnir að átta sig á því að eitthvað er að en geta enn ekki viðurkennt að það er áfengið en ekki sígaretturnar sem valda timburmönnunum. Þessir þrír viðurkenna að krónan sé ónýt en Geir H. Haarde er allt í einu hættur við dollarann og telur nú gömlu kærustuna krónuna vera sætustu stelpuna á ballinu.

Hvers á færeyska krónan að gjalda? Af hverju vill enginn taka hana upp? Hvar er Vestnorræna ráðið núna? Árni Johnsen, halló!!

En á sama tíma skilur Geir H. Haarde ekki neitt í neinu og minnir sífellt meir á Mr. Chance í ógleymanlegri skáldsögu Kozinski og kvikmyndinni Being there.

“Crisis? What Crisis?” segir Geir eins og hljómsveitin Supertramp á sínum tíma. Krónan kostaði meðalskuldarann 1.7 milljónir á síðasta ári. Það er hætt við að skuldurunum þyki álíka leiðinlegt að hlusta á afneitun Sjálfstæðismanna og mér leiðist við að hlusta á Supertramp.

Engin ummæli: