Hver er stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum? Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra ítrekaði á dögunum bókun um byggingu álvers. Þórunn Sveinbjarnarson, umhverfisráðherra lýsir sig hins vegar andsnúna álverinu og segir slíkar byggingar í bága við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Sem kunnugt er standa yfir viðræður ríkja heims um að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Össur segist sannfærður um að Íslendingum verði leyft að fá enn eitt sérákvæðið. Ísland er ein ríkasta þjóð heims og toppar lista UNDP – Þróunaráætlunar SÞ yfir mestu velmegun heimi.
Munu þróunarríki fallast á það að þetta auðuga ríki fái slíka undanþágu? Viðræðurnar sem eiga að skila niðurstöðu á leiðtogafundi í árslok næsta árs í Kaupmannahöfn snúast að hluta til um að fá nokkur þróunarríki til að fallast á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeim er það þvert um geð og segja að Vesturlönd og Bandaríkin beri mesta ábyrgð á hlýnun jarðar og þeim beri að súpa seyðið af því.
Ljóst er að allt sem flækir þessar viðræður er illa séð. Hvað hefur iðnaðarráðherra fyrir sér í því að nýju íslensku “sóðaákvæði” verði tekið fagnandi? Er líklegt að Evrópusambandið fallist á það? Er líklegt að bandaríki okkar styðji stefnu okkar sem gæti grafið undan öllu samningaferlinu? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir Ísland að standa utan nýs loftslagssáttmála? Yrðum við hinn nýji “sóðalegi maður” heimsins? Myndi Evrópusambandið telja okkur tæk í sinn umhverfisvæna klúbb?
Hefur Össur hugleitt þetta?
Og hvar er formaður Samfylkingarinnar þegar forveri hennar í formannssæti og samráðherra virðist kasta stefnu flokksins um fagra Ísland fyrir róða í trausti óviss árangurs í flóknum alþjóðlegum samningum?
Hvað finnst forseta Íslands og góðvini Össurar um áherslur hans sem virðast í fullkominni andstöðu við málflutning Ólafs Ragnars til dæmis á CNN á dögunum?
Það er alveg ljóst að í þessu spili er vitlaust gefið og tími til kominn til að Samfylkingin og ríkisstjórnin marki heildstæða stefnu í stað þess að tala út og suður.
laugardagur, 28. júní 2008
Stefnulaus Samfylking
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli