föstudagur, 20. júní 2008

Hafa ber það sem skemmtilegast er

Það eru mikil forréttindi að horfa á EM landsliða í fótbolta og geta skpt á milli stöðva. Hver syngur með sínu nefi. Skipti á milli stöðva og þá aðallega á milli frönskumælandi og enskumælandi stöðva. Hef líka horft á þýskt sjónvarp en þá þarf ég aðstoð.

Englendingar eru auðvitað ekki með að þessu sinni en þess vegna geta þeir alveg einbeitt sér að sínum sérbreska skepnuskap og kaldhæðni. Ekki leiðinlegt að hlusta á Alan Hansen, Gary Lineker, Alan Shearer og Martin O´Neill í hálfleik.

En í lýsingunum kýs ég að horfa á frönsku stöðina TF1. Ekki síst til að heyra komment Arsene Wenger í "version originale". Hann er ekki margorður en glöggur og gagnorður og vel máli farinn á frönsku. Jafnvel þótt mér finnist hann alltaf vera frönskumælandi Þjóðverji enda frá Alsace (Elsass) héraði...!

Það sem vekur athygli mína er að frönsku þulirnir sjá fyllilega kost og löst á sínu liði. Þeir halda því ekki fram að Frakkar hafi átt betra skilið í keppninni. Jú jú þeir heimtuðu víti og brottrekstur þegar Hollendingur handlék boltann, en ensku skýrendurnir voru reyndar á sama máli.

Þetta minnir mig hins vegar á hvernig margir ágætir kunningjar mínir í íslenskri íþróttafréttamannastétt (vá hvað þetta er langt orð!!!) lýsa leikjum Englendinga. Þeir tala eins og heitustu ensku þjóðernissinnar. Ekki eins og BBC þulirnir, heldur blaðamenn Sun og News of the World! Ég held að stór ástæða fyrir því að ég held með Frakklandi sé þessi leiðinlega síbylja um enska landsliðið.

Svona í leiðinni: franska landsliðið var leiðinlegt og lélegt og uppskar eins og það sáði. Ég er fylgjandi létttleikandi, sókndjarfri og skemmtilegri knattspyrnu og mér er sama hvort kötturinn er hvitur eða svartur eins og Deng Xiao Ping sagði hér um árið.

Spánverjar fylla sennilega þann flokk en ég held þeir séu of "naiv" til að vinna mótið. Sagði ekki Linker að fótbolti væri leikur sem 22 leikmenn léku með einn bolta og Þjóðverjar ynnu?

Engin ummæli: