miðvikudagur, 4. júní 2008

Tölvupóstar ekki birtir

Þórhallur Gunnarsson, dagskárstjóri hefur í tölvupósti til mín hafnað ósk minni um að við birtum tölvupóstsamskipti okkar til að almenningur geti dæmt sjálfur um ágreining okkar.

Ég hef ekki lagt í vana minn að birta einkabréf til mín í leyfisleysi og ætla ekki að byrja á því nú. Leiðinlegt fyrir mig þvi málflutningur minn í þessu máli byggir einmitt á efni þeirra.

Hins vegar hefur Þórhallur vinur minn komið með eftirfarandi eftiráskýringu: "Síðan hefur Árni Snævarr sem slíkur haldið fram þeim sjónarmiðum í umræðuþáttum að við eigum að ganga inn í Evrópusambandið. Mér fannst þess vegna nokkuð sérstakt að kaupa mynd þar sem hagsmunaaðilar fá fréttamann til þess að gera mynd sem þjónar þeirra hagsmunum. Og síðan að fjölmiðlamaðurinn sjálfur haldi fram þessum sjónarmiðum mjög ákveðið. Þá fannst mér komin skekkja á þá hlutlausu fréttamennsku sem svona umfjöllun á að sýna."

Nú er það svo að Þórhallur dagskrárstjóri sýnir á hverjum sunnudegi yfirirburðafréttaskýringarþáttinn "Silfur Egils." Stjórnandinn Egill Helgason er þar að auki mikilvirkur bloggari og hefur skoðanir á öllu; stóru sem smáu. Hann er fylgjandi ESB, skeptískur á loftslagsbreytingaumræðuna; og nánast hvar hver ruslatunna í Reykjavík sé staðsett og svo framvegis.

Sigmar Guðmundsson hægri hönd Þórhalls var líka með sitt blogg til skamms tíma á sama tíma og hann stýrði fréttaskýringaþætti.

Og man einhver eftir Gísla Marteini sem fékk mestu pólitísku kynningu sögunnar á hverju einasta laugardagskvöldi?

Egill er þjóðhetja; Sigmar næstumþvíjafngóðurogLogiBergmann og öllum líkaði vel við Gísla sjónvarpsmann, hvað sem líður hans síðara pólitíska klúðri.

Ég held að allir sanngjarnir menn sjái að Þórhallur talar tungum tveim og sitt með hvorri: sitthvað er Jón og séra Jón. Er vilji til þess að banna Agli Helga að skrifa sitt blogg? Af hverju gat Hannes Hólmsteinn sýnt sína margstyrktu þætti og haft sínar skoðanir um leið? Er "berufsverbot" hjá RÚV á fólk sem hefur skoðanir yfirleitt eða bara sumar bannaðar skoðanir?

Ég held að Þórhallur hafi satt að segja ekki hugsað þetta mál í botn. Hann hefur farið þess á leyt við mig að við hættum þessum opinberu skoðanaskiptum og ég ætla að verða við beiðni hans. Mun fleiri hafa nú þegar horft á þáttinn bæði á Stöð 2 og netinu en ég hafði gert mér nokkra von um - þökk sé þessum skoðanaskiptum

Takk Þórhallur, tilgangi mínum er náð. Bestu kveðjur í Efstaleitíð, Árni

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er frekar slök færsla hjá þér Árni. Mér finnst þú rýra eigin trúverðugleika með því að missa þig svona á netinu. Hvaða tilgangi þjónar þetta?

Hvað með það þó þeir birtu ekki þessa mynd þína, viltu frekar að fólk fái það á tilfinninguna að þú sért bitur fyrrv. fréttamaður frekar en að halda trúverðugleikanum?

Annað, þú nefnir Egil. Fólk horfir einmitt á þáttinn hans því það veit að hverju það gengur. Fólk horfir á efnið með ákveðnum gleraugum, Egill hefur skoðanir á hlutunum, það eru engar fréttir. Þú hefur ekki verið að viðra pólitískar skoðanir þínar í fjölmiðlum hingað til og því myndi almenningur líta á innlegg þitt sem hlutlæga fréttaskýringu.

Ég held að þú hafir ekki hugsað þetta mál til enda. Þetta var algjör afleikur að fara af stað með þetta á blogginu.

Kv. Þorbjörn Þórðarson

S. Kristjansson sagði...

Hvar er hægt að sjá þess heimildamynd? Ég hef mikinn áhuga á því.

Nafnlaus sagði...

Heimildarmyndina getur þú séð hérna:

http://www.visir.is/article/20080603/FRETTIR01/792782120

Nafnlaus sagði...

Aldrei hefur Þórhallur verið í miklu uppáhaldi hjá mér en ég verð nú bara að viðurkenna að hann hefur pakkað þér saman í þessum sandkassa leik.

Menn sem eru komnir á þennan aldur sem þú ert kominn á verður að kunna taka höfnun í lífinu.

Hver finnst sitt svín sætast...


Kveðja,
Örvar