Staksteinahöfundur Morgunblaðsins skrifaði á dögunum um knattspyrnu og rifjaði upp þekkt ummæli franska rithöfundarins Albert Camus sem skrifaði um reynslu sína sem markvarðar í knattspyrnu: „Allt sem ég þegar upp er staðið vísast lærði um siðferði og skyldur mannsins á ég íþróttinni að þakka.“
Staksteinar vitna svo í tyrkneska rithöfundinn Orhan Pamuk þar sem hann segir: “Siðferði er sennilega það síðasta sem maður gæti lært af fótbolta í dag.“
Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála Morgunblaðinu þegar það tekur undir með Pamuk og spyr “Undir hverju verður kynt þar?” en þar vísar blaðið til EM landsliða í fótbolta sem nú stendur yfir.
Þessa stundina er ég búsettur í Brussel. Nú í Evrópukeppninni og ekki síður þegar HM stóð yfir fyrir tveimur árum gjörbreyttist borgin. Við nokkrir vinnufélagar höfum gert okkur það að sið að leita uppi knæpur sem tilteknar þjóðir sækja og horfa á leiki í sjónvarpi.
Þannig eru Portúgalir, Englendingar, Þjóðverjar, Pólverjar og Ítalir mjög fjölmennir hér og mikið fjör – aðallega þegar þessar þjóðir vinna. Og Portúgalarnir breytast í Brasilíumenn þegar þeim hentar og öfugt. Á HM 2006 voru skjáir úti við og hreinustu götupartý, ekki síst í nágrenni Flagey-torgs þar sem margir Portúgalar búa. Og svo er mikið stuð þegar vel gengur hjá Afríkuþjóðum í Matonge-hverfinu sem stundum er kallað litla Kinshasa, en þær þjóðir eru auðvitað ekki með á EM.
Horfði á Ítalíu-Þýskaland í undanúrslitum HM á risaskjá í bíói ítalska sendiráðsins með ítölskum vinnufélaga. Ítalir skoruðu tvö mörk á síðustu mínútunum og ég vissi ekki fyrr en ég var hálfur út um glugga á bíl félaga míns veifandi ítölskum fána meðan hann rúntaði um miðbæ Brussel og lá á flautunni.
Horfði líka á England-Portúgal á portúgölskum bar og þar fór allt friðsamlega fram, Englendingar og Portúgalir föðmuðust að leik leiknum og tjallinn sætti sig við tapið.
Sporðrennti meira að segja pylsum og sötraði bjór í lítrakrúsum á meðan Þjóðverjar marseruðu upp í teig andstæðinganna og röðuðu inn þýsku mörkunum. Og að leik loknum sungum við Lille Marlene og enginn var sendur til Auschwitz...
Mín reynsla er sú að fótbolti sé oftar en ekki tæki til að þjappa ólíkum þjóðum saman. Jú við þekkjum öll slagsmál húlígana og það er margendurtekin klisja að tala um fótboltastríð El Salvador og Hondúras. Slíkt væri hins vegar ekki fréttefni nema vegna þess hve sjaldgæft það er. Það fara nefnilega fram þúsundir knattspyrnuleikja um allan heim á hverjum degi og langflestir fara friðsamlega fram.
Sjálfur var ég friðargæsluliði í Kosovo og þar skipulögðu íslenskir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna fótboltaæfingar og buðu vinnufélögum að mæta algjörlega án tillits til þjóðernis.
Sumum fannst það vogað hjá Íslendingunum að bjóða öllum þjóðarbrotum til leiks. En þarna léku Albanir, Serbar og Króatar saman á móti íslenskum flugumferðastjórum, slökkviliðsmönnum og bílstjórum án nokkurra erfiðleika. Og þótt þessum þjóðum verði tíðrætt um hversu ólíkar þær eru, þá er vissulega til júgslavneskur knattspyrnustíll, þar sem hæst ber frábæra boltameðferð. Við Íslendingarnir sáum alfarið um ofurkapp, skriðtæklingar og röfl við dómarann.
Nú um helgina tók ég svo í alþjóðlegu móti í Brussel þar sem við SÞ liðar öttum kappi við Evrópusambandið. Í okkar liði voru leikmenn af tíu þjóðernum og fimm til viðbótar ef klappstýrurnar eru reiknaðar með. Og ég get vissulega fullyrt að knattspyrnan hefur hrisst þessa þjóðablöndu vel saman.
Sumt kom ekki á óvart: Auðvitað var það Englendingurinn sem klikkaði á sinni spyrnu með þeim afleiðingum að við töpuðum í vítaspyrnukeppni gegn framkvæmdastjórninni!! (og það var Þjóðverji i liðinu..læra menn aldrei af reynslunni?)
Annað var óvenjulegra: Það vakti athygli í okkar liði að þar gegndu tvær norrænar konur lykilhlutverki. Ég verð að játa að það er eitthvað sérlega heillandi við að sjá glæsilega konu æða upp kantinn með sítt hár í tagli, flaksandi eyrnalokka, farðaðar varir og lakkaðar neglur og skilja eftir sig ilmvatnshjúp!
Mín spá er sú að þegar loksins verður farið að taka á ruddaskap í knattspyrnu muni kynjaskiptingu verða hætt í knattspyrnu og konur fara að hasla sér þar völl. Vissulega munu markmenn og tröllvaxnir miðverðir seint koma úr röðum kvenna, en ég sé fyrir mér liprar, teknískar kantkonur með hvíta sóla og marksæknar sóknardísir og ég þekki margar konur stærri og stæltari en Claude Makelele! Kemur röðin senn að Cristinu Ronaldinu?
mánudagur, 9. júní 2008
Friður, fótbolti og Cristina Ronaldina
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Misskilin frústreruð wannabe fótboltastjarna eru örlög þín barón góður ... +
Bara að sætta sig við það hlutskipti ...
"Have anther drink, it will make you feel better ..."
Raymond Davies
;-)
Skrifa ummæli