þriðjudagur, 25. mars 2008

Friðarstóll fyrir gamlar stjórnmálakempur

Stefán Þórarinsson, forstjóri Nýsis gagnrýnir íslenska þróunarsamvinnu harkalega í viðtali við Morgunblaðið sem vakið hefur minni athygli en skyldi. Stefán vann hjá stofnuninni um allangt skeið og hefur setið í nefnd til að vinna að úrbótum í þessum málaflokki. Hann sat eitt sinn í varastjórn stofnunarinnar en sat aðeins einn fund og var ekki boðaður á annan eftir að hafa gagnrýnd stefnu hennar!
“Mestu mistökin voru þau að gera stofnunina að einhvers konar friðarstóli fyrir gamlar stjórnmálakempur sem voru orðnar vígamóðar eftir átök stjórnmálanna. Ég er ekki að gagnrýna stjórnmálamennina sem þessari stöðu hafa gegnt en báðir eru dugnaðarforkar og góðir stjórnendur. Ég er að gagnrýna fyrirkomulagið því að með þessu er búið að taka þetta starf framkvæmdastjóra ÞSSÍ af vinnumarkaði og eyrnamerkja litlum hópi manna. Það er ekki gott fyrir ÞSSÍ og til lengdar mun þetta draga stofnunina niður og einangra hana frá þjóðinni eins og raunin hefur orðið að mínu áliti.”
Alkunna er að félag íslenskra stjórnmálaleiðtoga sló skjaldborg um Sighvat Björgvinsson þegar til stóð að reka hann í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur. Um frammistöðu gamla kratahöfðingjans segja gárungarnir: "Hann er bæði á móti þróun og samvinnu!"
Líkurnar á að Ingibjörg Sólrún stuggi við guðföður Samfylkingarinnar eru vitaskuld litlar, en almennt þykir vonlítið að nokkrar umbætur verði gerðar fyrr en gamli pólitíkusinn hverfi á brott.
En gagnrýni Stefáns snýr ekki aðeins að þessu:
„Verkefnaval ÞSSÍ ber æ meiri keim af friðþægingaraðstoð. Einkennin eru þau að um er að ræða lítil verkefni í félagslega geiranum sem hreyfa lítið við grundvallarþáttum mannlífsins. Þetta er fyrst og fremst nokkurs konar góðgerðarstarf fyrir litla hópa sem breytir litlu um þjóðfélagsþróunina hjá viðkomandi þjóð þegar til lengri tíma er litið.
Það sem við fáum út úr þessu er að við getum sagt á alþjóðavettvangi að við veitum þróunaraðstoð. Um leið sefum við huga okkar þrátt fyrir örbirgð þróunarlandanna og teljum okkur trú um að hafa lagt okkar að mörkum. En betur má ef duga skal því að við leggjum ekki nægilega orku og metnað í íslenska þróunarstarfið.“
„Yfirleitt eru þetta svo einföld verkefni að þau geta ekki mistekist. En þau hafa sáralítil áhrif og valda engum stórum breytingum í þjóðfélaginu en gagnast afmörkuðum hópum.
Það hefur litla þýðingu að gefa mönnum heilsugæslustöðvar ef þeir eru svangir og geta ekki aflað sér lífsviðurværis. Fólk verður að hafa vissu fyrir því að það eigi í sig og á áður en það fer að hugsa um önnur lífsins gæði.“
Stefán segir að Íslendingar geti komið að málum eins og orkuvinnslu úr jarðhita og fallvötnum, fiskveiðum, landbúnaði, flugmálum, ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu og almennri verslun, iðnaði og þjónustu. “Þetta hefði í för með sér meiri viðskipti við þróunarlöndin en þess óska þau helst. Kaupið framleiðslu okkar og þá vegnar okkur vel, segja menn þar. Ölmusur geta jafnvel komið í veg fyrir framfarir.“
Stefán leggur meðal annars til að bjóða út verkefni „ÞSSÍ lætur nú starfsmenn sína inna öll verk af hendi. Sárasjaldan er leitað til einkageirans. Þetta hefur leitt til þess að íslensk fyrirtæki hafa litla eða enga reynslu af verkefnum í þróunarlöndunum og eiga því mjög erfitt uppdráttar með að bjóða í verkefni sem boðin eru út af ýmsum alþjóðaþróunarbönkum svo sem NDF (Norræna þróunarsjóðnum).”
Niðurstaða Stefáns er: “Það er kominn tími til að Íslendingar hasli sér í alvöru völl á þessu sviði. Á þann hátt getum við orðið meðbræðrum okkar og -systrum í þróunarlöndunum að mestu liði.“

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Myndin þín um Evrópumálin sýndi að þú getur skoðað málin ef þú nennir, Árni. Kannski þú ættir að skoða innistæðuna á bak við ummæli Stefáns áður en þú klappar saman lófunum af hrifningu og gerir hans skoðanir að þínum. "Einkennin eru þau að um er að ræða lítil verkefni í félagslega geiranum sem hreyfa lítið við grundvallarþáttum mannlífsins. Þetta er fyrst og fremst nokkurs konar góðgerðarstarf fyrir litla hópa sem breytir litlu um þjóðfélagsþróunina hjá viðkomandi þjóð þegar til lengri tíma er litið", segir Stefán. Hverjir skyldu þeir vera, þessir litlu og gagnslausu þjóðfélagshópar? Kannaðu það Árni.
Haukur Már

Nafnlaus sagði...

Þróunaraðstoð er auðvitað nokkurs virði ef okkur líður örlítið betur :)