fimmtudagur, 27. mars 2008

Ágætis byrjun og rúmlega það

Á dögunum þegar ég var heima á Íslandi varð mér hugsað til þess hvaða diska ég hefði keypt upp á síðkastið: Crosby, Stills, Nash and Young, Joni Mitchell, Herbie Hancock og (the young Turk) Nick Cave. Já, ég er gamaldags og oftast nær stoltur af því en ákvað nú samt sem áður að labba mér inn í Skífuna og kynna mér nýjasta nýtt.
Ég bað afgreiðslumanninn um að hlífa mér við mestu krúttlegheitum íslenskra poppara en benda mér á það svalasta í íslenska bransanum.
Það er skemmst frá að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Celebrating life er víst fyrsti diskur Borko (Björn nokkur Kristjánsson að ég held) en það er óhætt að segja að það sé fyllsta ástæða til að mæla með honum, ekki síst við ellismelli eins og þá sem lesa Eyjan.is. Vissulega eru ákveðin krúttleg element á þessum disk og á köflum minnir tónlistin á Múm – en það er ekki leiðum að líkjast, öðru nær. Gott ef það eru ekki Mike Oldfield áhrif þarna líka. Gildir einu, þetta er sá íslenski tónlistarmaður sem ég er spenntastur fyrir þessa dagana ásamt Valgeiri Sigurðssyni og títtnefndum Múm-verjum.
Mér er svo ánægja að bæta við þennan hóp VilHelm sem betur er þekktur sem ljúfmennið Villi Naglbítur. Lágstemmd, tilgerðarlaus og persónuleg plata þar sem andi Nick Cave, Neil Young og Leonard Cohen, jafnvel Johnny Cash svífur stundum yfir vötnum en þó fyrst og fremst persónuleiki listamannsins. Ágætis byrjun og vel rúmlega það.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mesta snilldin í íslenskri tónlist í dag er samt fyrsta plata Hjaltalín, sleepdrunk seasons.

Sigfús

Nafnlaus sagði...

líka gefin út á Akureyri

Seattle norðursins hehe!