miðvikudagur, 12. mars 2008

Flutningsmaður tíðinda frá Peking, Moskvu og Washington?

Evrópuandstæðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir eftir viðræður við ótilgreinda sendimenn erlendra ríkja að það sé Íslandi í hag að vera Evrópuríki sem standi fyrir utan ESB. Hvaða ríki skyldu það hins vegar vera og hvaða ríkjum utan Evrópu stendur slíkur stuggur af ESB að þeir hafi sérstakar skoðanir á stöðu Íslands í okkar álfu? Ekki dettur mér í hug að væna forsetann um að toga slíkar yfirlýsingar upp úr viðmælendum sínum með töngum, hvað þá að segja ekki satt og rétt frá viðræðum við ókunna ráðamenn! Evrópusambandið þykir almennt til mikillar fyrirmyndar innan Sameinuðu þjóðanna. 40% útgjalda SÞ koma úr sjóðum ESB og aðildarríkja þess. Eru það þá þróunarríkin sem eru óánægð með að fá 56% þróunaraðstoðar frá Brussel? Og svo ljómandi ánægð með að Ísland stefni á að borga 0.35% af þjóðarframleiðslu í þróunaraðstoð frá og með næsta ári? Nú er það svo auðvitað að stórveldi út í heimi sjá ofsjónum yfir uppgangi Evrunnar á tímum hríðfallandi dollars. Bush-stjórnin er enn æf yfir því að Frakkar og Þjóðverjar skuli hafa haft rétt fyrir sér í Íraksstríðinu en þeir og Bretar rangt fyrir sér. Bush og Rumsfeld vildu deila og drottna í Evrópu en nú talar enginn lengur um “nýju” og “gömlu” Evrópu, frekar en freedom-fries. Hins vegar eru Rússar og Kínverjar æfir út í Evrópusambandið fyrir að standa vörð á mannréttindavaktinni, troða þeim um tær í Kosovo og í Darfur. Ólafur Ragnar segist hins vegar sjálfur hafa kríað stuðning út úr Kína á fundi með forseta landsins. Látum liggja milli hluta að sú yfirlýsing kunni að hafa verið málum blandið. Hitt er svo annað mál að því hefur ekki verið mótmælt af hálfu forsetaembættisins, svo mér sé kunnugt, að forsetinn nefndi ekki mannréttindamál. Var ekki Vígdís Finnbogadóttir nánast hrakin úr embætti fyrir að hafa sofnað á þeirri vakt í Peking? Merkilegt að það verður sífellt verður meiri samhljómur milli Ólafs Ragnars og fylgismanna Davíðs Oddssonar. sem kunnugt er gekk hnífurinn ekki á milli þeirra þegar líkamsræktar- og íhugunarhreyfingin Falun Gong var ofsótt að boði ráðamanna í Peking hér um árið. Viljum við láta Rauða Kína, Rússland Pútsins og Bandaríki George W. Bush ráða örlögum Íslands?
Ólafur Ragnar hefur fullt málfrelsi rétt eins og ég en það er í raun rannsóknarefni hvernig hann hefur komist upp með það að reka sína eigin utanríkisstefnu sem stundum og stundum ekki, samræmist utanríkisstefnu Íslands. Er Ólafur Ragnar ofur-utanríkisráðherra? Sættir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við að meints stuðnings Kína sé aflað með því að “gleyma” að tala um mannréttindamál?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Merkilegt hvað ESB-sinnar fara alltaf af hjörum þegar einhver er á annarri skoðun en þeir. Þetta er að verða eins og trúboð.
Tek undir með Guðfinnu Bjarnadóttur, við eigum að leggja valmöguleikana á borðið fyrir framan okkur og velja svo. Ekki ákveða að annað sé best og leita síðan að rökum fyrir því.

Það eru mörg rök fyrir því að ganga í ESB en það eru líka mörg rök fyrir því að gera það ekki.