mánudagur, 3. mars 2008

Brussel þarf burgermeister

Seint verður sagt að ég sé haldinn hreinlætisbrjálæði. Raunar hef ég búið í nokkrum afar skítugum erlendum borgum ig hingað til látið mér vel líka. Á enga er hallað þótt ég nefni Pristina, höfuðborg Kosovo sem óþrifalegasta stað sem ég hef búið á. Þar til að ég settist að í Brussel. Hvergi í heiminum þykir jafn sjálfsagt að hundar skíti á gangstéttir. Persónulega sé ég ekki mun á því að hundur kúki á gangstétt og því að eigandinn geri það. Samt sem áður eru reglur og viðurlög svipuð og víðast hvar annars staðar. París var reyndar slæm hvað þetta varðar en þar eru þó gangstéttir spúlaðar nánast daglega. Mér skilst raunar að ástandið fari batnandi þar því lögreglan framfylgi reglum og sekti grimmt.
Enginn einlægur áhugamaður um hundaskít ætti að láta götuna mína í Brussel, Rue de Venise , framhjá sér fara því gatan er sannkallað Mekka þessara fræða. Ég hef grun um að hundaeigendur komi sérstaklega þangað úr nágrannabyggðalögunum, ef ekki erlendis frá –einkum og sér í lagi ef einhver niðurgangspest herjar á meltingarkerfi kvikindanna. Svo vill til að skammt frá er lögreglustöð. Nýlega sá ég hvar leðjan streymdi úr afturenda sérstaklega ógeðfellds ferfætlings beint fyrir framan nefið á lögreglumönnum sem voru að reykja fyrir utan stöðina. Sem ábyrgur borgari klagaði ég lögbrotið en löggurnar hlógu að mér og skildu allt í einu ekki neitt annað tungumál en sitt flæmska móðurmál. Þótt ótrúlegt megi virðast má með vissum rétti rekja skítinn í Brussel til tungumálaerja landsmanna. Þótt níutíu prósent Belga í Brussel séu frönskumælandi er borgin sem höfuðborg tvítyngd. Flæmingjar eru upp til hópa tvítyngdir en frönskumælandi Belgum virðist upp til hópa fyrirmunað að læra flæmsku. Árangurinn er sá að löggurnar eru Flæmingjar sem fara heim í Flæmingjaland þegar vaktinni er lokið og finnst ágætt á helvítis “Frakkana” að stíga á hundaskít kvölds og morgna. Ég vona innilega að Belgíu heyri brátt sögunni til, Brussel verði sett undir alþjóðlega stjórn og ráðinn kattþrifinn burgermeister – helst svissneskur dr MÜLLER sem myndi hreinsa almennilega til. Ordnung muss sein. Maður hefur slett þýsku af minna tilefni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ordnung muss IMMER sein.

þHefði Bingó okkar sagt hér í MR forðum.

Annars er það svo, að fróðlegt þótti mér, að aka frá Lux til Frakklands, hér um árið.

Nýlega hafði Mosel flætt en uppeftir dalnum og allar götur að Frakklandi var allt orðið hreint og flott, líkt og ekki hefði flætt, nema ef vera skyldi merkingar við brýr og hús, við sljótið, til að segja til um, hve hátt vatnsorðið var það árið.

ÞEgar komið var að frönskumælandi svæði, var allt sem hjá svínum (afsakið hve illmálgur ég er gagnvart þvi dýrakyni) skítur og rusl út um allt.

Ætli sóðaskapurinn sé eitthvað í þjóðardál frönsku mælandi?

Bara með algerlega óþolandi pólitískkt óhugsandi innlegg.