Morgunblaðið skrifar athyglisverðan leiðara í dag um Kína:
“En það eru til fleiri hliðar á Kína. Það er Kína vinnuþrælkunar. Þótt í Kína ríki stjórn alþýðunnar að nafninu til er alþýðunni þrælkað út á vinnustöðum fyrir alger lágmarkslaun en ótrúlegan vinnutíma. Jafnvel forseti Íslands hefur farið til Kína og dásamað uppganginn þar án þess að líta til hægri eða vinstri og hafa orð á vinnuþrælkuninni, sem þar viðgengst.”
Þarna vitnar blaðið til heimsóknar forseta Íslands til Kína vorið 2005. Þá fór forsetinn til Kína í fararbroddi fjölmennrar viðskiptasendinefndar til landsins. Nú þremur árum síðar flytja Íslendingar minna út til Kína en til Argentínu, eins og fram kom í bloggi Andrésar Magnússonar blaðamanns á Viðskiptablaðinu.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti enn fund með Hu Jintao, forseta Kína þriðjudaginn 2. október 2007. Samkvæmt fréttatilkynningu forsetaembættisins (http://www.forseti.is/Forsida/Frettir/Ollfrettin/2374) voru mannréttindi ekki nefnd á nafn. Fyrir þremur árum lofaðist forsetinn til að ræða mannréttindamál í Kína og sagði í kjölfar fundar síns að Hu Jintao hefði boðið íslenskum almannasamtökum, stjórnmálaflokkum og verkalýðshreyfingu til Kína að ræða mannréttindamál. Hafa orðið einhverjar efndir?
Forsetinn virðist ekki hafa fitjað upp á þessu umræðuefni í viðræðunum í október. Hins vegar tryggði hann, skv. fréttatilkynningunni stuðning Kína við framboð til Öryggisráðsins. Í viðtali við Ríkisútvarpið sagði Ólafur Ragnar að framboðið væri lokaskref í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Hins vegar má færa rök fyrir því að Ísland hefði meiri áhrif sem fullgildur aðili að Evrópusambandinu en með því að vera óbreyttur félagi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í aðeins tvö ár. Ekki síst hefðum við meiri áhrif á eigin löggjöf. Er það ekki hin raunverulega nýja sjálfstæðisbarátta?
þriðjudagur, 18. mars 2008
Meiri áhrif í ESB aðild, en veru í öryggisráðinu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli