miðvikudagur, 26. mars 2008

Bófaflokkar slást um ránsfeng

Finnur Ingólfsson svarar skrifum Sigurðar G. Guðjónssonar þar sem hann er ásakaður um vafasama viðskiptahætti með orðagljáfri og skætingi á Visir.is. Segir hann að Sigurður G. ætti að “líta í eigin barm” þegar um umboðslaus viðskipti sé að ræða.
Fjölmiðillinn flytur þessi tíðindi athugasemdalaust, gerir enga tilraun til að útskýra ummæli Finns og alls enga til að setja málið í samhengi með því að rifja upp forsögu málsins, hvað þá að komast til botns í því. Vonandi kemur hins vegar að því að það verði gert.
Sigurður tæpir þarna á einum anganum af því máli hvernig nokkrir forkólfar framsóknar- og samvinnumanna náðu að sölsa undir sig “eigendalausum” leyfum af SÍS. Var þetta síðan notað til að fá Búnaðarbankann gefins með lygasögu um aðkomu erlends banka. Finnur Ingólfsson er vellauður maður eftir hans hlut af því sem kallað hefur verið “stærsta bankarán Íslandssögunnar”. Hann hefur hins vegar engan orðstír: myndi einhver kaupa notaðan bíl af þeim manni?
En “even the paranoid have enemies” og oft ratast kjöftugum satt á munn. Einhvern hlut hefur Sigurður G. Guðjónsson átt í baráttunni sem staðið hefur yfir um Sparisjóðina – ég þekki það þó ekki svo gjörla. Í raun er þar svipuð rússnesk einkavæðing á ferðinni og með eignir samvinnuhreyfingarinnar og ríkissjóðs.
Alkunna er að betri borgurum og starfsmönnum var boðið að gerast stofnfjáreigendur í SPRON á hreinum pólitískum forsendum. Nú lesum við fréttir um að enn einn stjórnarmaðurinn í fyrirtækinu hafi selt hlut sinn fyrir rúmlega hundrað milljónir. Hann lætur fjölmiðla ekki ná í sig, fer hlæjandi í bankann og gefur þjóðfélaginu langt nef. Fjölskylda núverandi fjármálaráðherra hefur einnig hagnast verulega á stofnfé sínu í Sparisjóði Hafnarfjarðar eða mun gera það. Borgarstjóri réð miklu um hverjum var boðað að gerast stofnfjáreigendur í SPRON. Fyrst voru það vinir Davíðs, síðan bætti Ingibjörg Sólrún sínum vinum í hópinn.
Mér dettur ekki í hug að bera saman þá sem gengust í ábyrgðir fyrir sparisjóði í árdaga við menn sem misnotuðu pólitíska aðstöðu og beittu blekkingum til að komast yfir tugi milljarða króna. En engu að síður er staðreyndin sú að ótrúlega margir hafa hagnast gríðarlega á pólítískum tengslum sínum. Ekki bara Finnur Ingólfsson, þótt hann beri höfuð og herðar yfir aðra bæði hvað varðar upphæðirnar og aðferðirnar. Stundum minna íslenskir stjórnmálaflokkar á bófaflokka sem slást um ránsfeng.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Hvaða hlutverki skyldi Kjartan Gunnarsson hafa gegnt í einkavæðingu Búnaðar- og Landsbanka? Vinur hans Davíð Oddssn skipaði hann sem fulltrúa íslenska ríkisins. Hann hefur þá átt að gæta almannahagsmuna. Ráðandi hluti í bankanum var svo seldur með mjög dularfullum hætt. Kjartan sat áfram í gegnum alla einkavæðinguma og keypti sjálfur. Eru þetta ekki hagsmunaárekstrar?

Kv,

Gestumblindi

Nafnlaus sagði...

Kjartan Gunnarsson er og hefur verið afar efnaður maður og efnaðist hann með þeim hætti sem hefur verið í aldir á okkar landi, hann erfði föður sinn af nokkuð miklum eignum. Hann jók við þær af útsjónasemi en notaði sér allsekki sína stöðu í þjóðfélaginu. ÞEtta veit ég afar vel, þar sem við erum nokkuð skyldir og er mér ljúft frá því að segja að ekkert er hægt að klína á hann sem gæti nefnst óheiðarleiki eða klíkuskap í hans þágu.

Menn í viðskiptalífinu eru sumir heiðarlegir og margir uppaldir við góða siðu. Hitt er svosem einnig til, að þar eru menn sem telja allt sitt, sem þeir ná höndum yfir, hvernig meðulum sem þeir beita.

Nægir að benda á menn sem voru fátækir fyrir örfáum árum en vita nú vart aura sinna tal.

Án þes þó, að greiða sjáanlega mikla skatta til samfélaglegra málefna.

Nafnlaus sagði...

Hlutverk Sigurðar var t.a.m. að vera blokk fyrir nafnlausa einstaklinga og fyrirtæki sem gengu harkalega í að komast yfir hluti í sparisjóðunum.