fimmtudagur, 20. mars 2008

Loksins en ekki loksins, loksins

Það er fagnaðarefni að Ísland hefur gerst aðili að yfirlýsingu Evrópusambandsins “þar sem lýst er þungum áhyggjum yfir ástandinu í Tíbet og lýst yfir samúð með fjölskyldum fórnarlambanna.
Í yfirlýsingunni er þess krafist að allir aðilar sýni stillingu. Kínversk stjórnvöld eru hvött til að beita ekki valdi gegn þeim aðilum sem taka þátt í mótmælunum og mótmælendur sömuleiðis beðnir um að beita ekki ofbeldi.
Lögð er áhersla á mikilvægi tjáningarfrelsis og á réttinn til friðsamlegra mótmælaaðgerða, og kínversk stjórnvöld beðin um að bregðast við mótmælunum í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur lýðræðisins. Lýst er yfir eindregnum stuðningi við að friðsamlegar sættir náist milli kínverskra stjórnvalda og Dalai Lama og fulltrúa hans. Kína er einnig hvatt til að taka á mannréttindamálum í Tíbet.”
Þótt það sé ánægjulegt að íslenska ríkisstjórnin hafi vaknað upp af Þyrnirósarsvefni sínum er seinagangurinn hins vegar áhyggjuefni, fyrir alla þá sem tóku alvarlega þá yfirlýsingu utanríkisráðherra að mannréttindi skuli vera í forgangi í utanríkisstefnu okkar. Við látum nægja að taka undir frekar slappa yfirlýsingu ESB sem hefur verið harðlega gagnrýnd í mörgum aðildarríkjum.
Forvitnilegt væri að heyra viðbrögð við hugmyndum Bernards Kouchners, utanríkisráðherra Frakka um að ESB ríkin sniðgangi opnunarhátíð Ólympíuleikana. Munum við fara að fordæmi ESB eins og í yfirlýsingunni um Tíbet?
Auðunn Arnórsson, helsti fréttaskýrandi Fréttablaðsins um erlend málefni skrifar forystugrein sem ástæða er til að vekja athygli á.
Hann vekur athygli á herskáum yfirlýsingum á herskáum yfirlýsingum ráðamanna sem hafi lýst yfir „þjóðarstríði gegn aðskilnaðarhyggju" „upp á líf og dauða".
Auðunn kallar þessar yfirlýsingar hneyksli: “Aðalskýringin á því að fulltrúar kommúnistastjórnarinnar í „Ríki miðjunnar" skuli telja sig komast upp með þetta er sú, að þeir eru orðnir vanir því að ráðamenn erlendra ríkja stígi varlega til jarðar í samskiptum sínum við hið rísandi efnahagsundur og stórveldi.
Þróun fjölmennasta ríkis heims í átt að opnara og frjálsara samfélagi með virkari borgararéttindum er enginn greiði gerður með slíkri óttablandinni og skammtíma-viðskiptahagsmunastýrðri framkomu erlendra ráðamanna við fulltrúa hins miðstýrða kúgunarvalds í Peking, sem hikar ekki við að beita taumlausu valdi gegn vopnlausum mótmælendum og strangri ritskoðun frétta til að bæla niður óánægju með þessa sömu kúgunarstjórnarhætti.
„Sá sem ekki hefur döngun í sér til að standa fast með eigin gildum og sannfæringu, nýtur engrar virðingar í Kína," skrifar leiðarahöfundur svissneska blaðsins Neue Zürcher Zeitung um slíka framkomu vestrænna stjórnmálamanna við ráðamenn í Peking.
Þetta mættu fulltrúar íslenzka lýðveldisins líka taka til sín. Í þeim mörgu ferðum sem þeir hafa á síðustu árum farið til Kína hefur óneitanlega lítið farið fyrir því að þeir hefðu orð á mannréttindamálum eða öðrum „óþægilegum" umræðuefnum...Lærdómur stjórnmálamanna í okkar heimshluta af atburðarás síðustu daga í Tíbet ætti að vera sá, að þeim beri að standa betur í lappirnar þegar þeir hitta kínverska ráðamenn.”
Það hefði verið óskandi að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson hefði staðið í lappirnar gagnvart Hu Jintao, núverandi forseta og fyrrverandi flokksleiðtoga í Tíbet á fundi þeirra síðastliðið haust, þar sem samkvæmt fréttatilkynningu forsetaembættisins var ekki minnst á mannréttindamál. Enn er óupplýst hvort forsetinn spilaði hér sólóspil eða hvort ákvörðun var tekin um þetta í utanríkisráðuneytinu að þegja um mannréttindamál til að afla fylgis Kína við framboð Íslands til öryggisráðsins –lokahnykkinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að mati háttvirts forseta.
Þótt yfirlýsingin um Tíbet sé fagnaðarefni þarf utanríkisráðherra að bæta um betur ef stefna hennar um að setja mannréttindi í forgang í íslenskri utanríkisstefnu á að vera trúverðug. Ég treysti Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttur fyllilega til þess að leiðrétta kúrsinn og fylgja yfirlýsingunni eftir með ítarlegri hætti.
Um yfirlýsinguna segir maður, loksins með andvarpi en ekki loksins, loksins með upphrópunarmerkjum. En batnandi er mönnum best að lifa.

Engin ummæli: