laugardagur, 1. mars 2008

Ekki einu sinni Lúx

Lítil frétt sem vakti ekki almenna athygli á Íslandi, vakti undrun mína. Ekki einu sinni Lúxemborg styður framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna! Þetta vekur nokkurn ugg enda Lúxemborg í hópi þeirra ríkja sem Ísland hefur átt mest samskipti við í áranna rás og oft vitnað til svipaðra hagsmuna ríkjanna sem smáríkja. Sjálfur hef ég undrast að varla er hægt að tala um eitt einasta dæmi um stefnumörkun þar sem reynt er að koma til móts við sjónarmið meirihluta aðildarríkjanna – þróunarríkjanna. Að þessu leyti hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir valdið miklum vonbrigðum sem utanríkisráðherra. Hún hefur ekki staðið við fyrirheit sín um að auka þróunarraðstoð en engu að síður marggefið í skyn á alþjóðavettvangi að Íslendingar séu á hraðferð í áttina að því að ná 0.7% marki SÞ. Það er rangt; það hefur ekkert nýtt verið gert í þessum efnum í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Mér er spurn hvort Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur imprað á þessu við hana? Eða hefur Þórunn gleymt tilfinningaþrunginni ræðu sem hún flutti í þinginu þar sem hún hvatti stjórnvöld til að ná þessu marki? Eða er allt gleymt sem gert var í stjórnarandstöðu? Þetta er ekki síst dapurlegt vegna þess að hækkandi orkuverð og baráttan gegn loftslagsbreytingum hefur fært Íslendingum upp í hendurna tækifæri. Talið er að öll aukning á þróunaraðstoð í heiminum frá aldamótum hafi étist upp vegna olíuverðshækkunar. Með því að gefa þróunarríkjum þekkingu okkar í að framleiða raforku úr jarðhita, gætum við haft veruleg áhrif til góðs. Slíkt yrði ekki gert á annan hátt en með því að leggja fram sannfærandi áætlun sem síðan ef rétt væri á spilunum haldið, yrði tromp í framboðinu til öryggisáðsins.

Þess í stað hafa íslenskir stjórnmálamenn- þar á meðal sumir oddvitar Samfylkingarinnar- haldið áfram að þusa um milljarðagróðavon opinberra fyrirtækja í þróunarríkjunum. Sú staðreynd að ekki einu sinni Lúxemborg ætli að kjósa Ísland í öryggisráðið er ekki góðs viti. Og málefnaleg staða okkar gagnvart þróunarríkjunum er ekki góð – níski maður Evrópu á fremur von á fylgi í furstadæminu en í bláfátækum ríkjum Afríku.

Engin ummæli: