þriðjudagur, 13. maí 2008

Samúð með Kínverjum en engin með Myanmar

Forseti Íslands segir í yfirlýsingu að jarðskjálftarnir í Kína hafi “skapað öldu samúðar og stuðnings um allan heim.”

Þessi alda “samúðar og stuðnings” hefur bersýnilega riðið yfir forsetaskrifstofuna en hér á meginlandi Evrópu er lítil umræða um þetta mál enda er Kína stórveldi sem er fullfært um að fást við náttúruhamfarir. Vissulega eru mannskæðir jarðskjálftar í Kína hörmulegir atburðir og hver sæmilegur maður finnur til með fórnarlömbunum.

Alda "samúðar og stuðnings" hefur á hinn bóginn verið auðsæ hverjum manni sem fylgist með fréttum, þegar Myanmar er annars vegar. Engum dylst að þar beinlínis hindra stjórnvöld alþjóðasamfélagið í að koma til hjálpar. Hernum er beitt með ofurhraða þegar Búdda-múnkar mótmæla gerræði, en er hvergi sjáanlegur þegar tugþúsundir manna falla.

En hvers vegna sendir forseti Íslands slíka tilkynningu í nafni íslensku þjóðarinnar? Höfum við enga samúð með íbúum Myanmar? Mannfall þar er margfalt á við Kína og möguleikar landsmanna á að glíma við vandann mun minni. Ekki bætir úr skák að stjórn herforingjanna er ekki aðeins blóðug heldur óhæf og þvælist fyrir erlendri aðstoð. Raunar eru Kínverjar helstu vinir herforingjanna í Myanmar og gætu hæglega ýtt við herforingjunum ef þeir vildu en það er önnur saga.

Hvað ræður samúð forsetans með Kínverjum og skeytingarleysi um Myanmar? Er gróðavon í viðskiptum við Kína og ef til vill öryggisráðsframboðið mælistika á samúð Íslendinga í garð þeirra sem eiga um sárt að binda?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

..og kínverjar bera ekki litla ábyrgð á ástandinu í Burma og Súdan enda helstu stuðningsaðilar ráðamanna þar og koma í veg fyrir að nokkuð sé gert gert.

Alveg óþolandi þessi sleikjuháttur íslenskra raðamanna gagnvart kínverskum stjótnvöldum.

Nafnlaus sagði...

Samúðarvísitölureikningar eru flókin fræði. Ætli það liggi ekki nærri að mannskætt rútuslys á Norðurlöndum kalli á samúðarskeyti frá Íslandi, þegar komið er sunnar í álfuna eða til Bandaríkjanna þurfa nokkur þúsund manns að missa heimili sín (amk tímabundið) og nokkrir að deyja til að fá skeytið.

Í fjarlægari heimsálfum þarf stórskjálfta eða flóðbylgjur. Líklega er til reikniformúla fyrir þetta hjá utanríkisþjónustunni - án þess að ég vilji fullyrða það.

Svo gæti nú spilað inn í hérna að Myanmar er eitt fárra ríkja sem Íslendingar hafa ekki formlegt stjórnmálasamstarf við. Gæti það spilað inní? Eru samúðarskeyti etv. bundin við ríki sem við skipst á diplómatabréfum við?