mánudagur, 5. maí 2008

Pottþétt þunglyndi

Vorið er loksins komið. Undanfarnir dagar hafa verið sólríkir og hitinn yfir 20 stig. Með hækkandi sól fjölgar líka tónleikunum. Flestir betri listamenn halda tónleika í Brussel eða Antwerpen og vorboðinn ljúfi að þessu sinni var sjálfur Nick Cave og hljómsveit hans the Bad Seeds.

Ég fór á tónleikana með hálfum huga því nýjasta plata hans Dig Lazarus Dig er að mínu mati ekki með hans sterkustu. Reyndar hefur mér ekki fundist hann hafa fundið fjölina sína að undanförnu þótt það séu fínir sprettir td á þarsíðustu plötu hans Abbatoir blues.

Til að gera langa sögu stutta var Cave í fínu formi og Bad Seeds sömuleiðis. Mörg laganna nutu sín betur í tónleikaútgáfunni og hreinlega spurning hvort Lazarus-diskurinn sé ekki full óslípaður og hrár. Ég held að Cave hafi spilað hvert einasta lag Lazarusar og marga gamla smelli.

Það vakti þó athygli mína að hann lék ekkert lag af No more shall we part. Tvö lög voru spiluð af Let love in; Nobody´s baby og Red right hand sem var sennilega hápunktur kvöldsins. Gríðarlega kraftmikil útsetning. Aðrir hápunktar voru Into my arms, Deanna og skemmtileg útsetning á Lýru Sísífusar – mun betri en originalinn.

Nick er snarvitlaus á sviði, hann sparkaði oftar en einu sinni í afturendann á Warren Ellis sem er að mestu búinn að leggja fiðluna á hilluna og spilar þess í stað á ýmsa furðugítara. Tveggja manna trommu- og slagverkssveit tryggir þétt sánd.

Daginn fyrir Cave hitti ég gamla kunningja á borð við Einar Örn og Sjón sem skipulögðu Smekkleysukvöld á Bozar. Aðsóknin var slök en ég hreifst af leik Steintryggs með Sigtrygg Baldursson í broddi fylkingar.

Maður getur ekki farið á Nick Cave og séð Tindersticks daginn eftir – maður yrði lagður inn á hæli með heljarinnar þunglyndi þannig að ég sleppti þeim að sinni. Það skemmtilega við það er hins vegar að ef maður leggur Cave og Tindersticks saman fær maður út Leonard Cohen en sá gamli verður hér í júlí. Ég er löngu búinn að kaupa miða! Dylan er hér fljótlega en ég er búinn að fá nóg af því að heyra hann misþyrma eigin snilldarlögum á tónleikum og ætla að sitja heima.

Hins vegar er ljóst að Cave, Tindersticks og Cohen myndu eiga mörg lög ef gefin væri út safnplatana Pottþétt þunglyndi.

En Bruce Springsteen verður svo hér í júní. Sá hann í Antwerpen fyrir jól. Gamli maðurinn rokkaði eins og vitlaus væri og E Street bandið var svakalega þétt. Steve van Zandt (sem lék í Sopranos) virðist aðallega gegna því hlutverki að vera almennur stuðbolti frekar en hann hafi mikilvægu tónlistarhlutverki að gegna.

Bestu tónleikar sem ég sá hins vegar á síðasta ári voru auk Brúsa gamla, Arcade Fire, Marisa Monte og Gotan Project. Gleðilegt rokk-sumar!

Engin ummæli: