þriðjudagur, 13. maí 2008

Verndarskyldan og Myanmar

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon er orðvar og varkár maður og sannarlega þekktari fyrir erindisrekstur á bak við tjöldin en glannalegar yfirlýsingar. En nú hefur Ban gagnrýnt stjórnina í Myanmar tæpitungulaust.

Vitað er að meir en þrjátíu þúsund hafa látist í Myanmar og enn fleiri er saknað. Ein og hálf milljón manna er í hættu. Á sama tíma neitar ríkisstjórn Mynmar hjálparstarfsmönnum um vegabréfsáritannir og flugvélar með hjálpargögn þurfa að treysta á duttlunga yfirvalda til að fá að lenda. Og erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum frá flugvöllum.

“Ég vil láta í ljós þungar áhyggjur mínar og mikil vonbrigði yfir óáættanlegum hægagangi við að bregðast við þessum alvarlega vanda,” sagði Ban á blaðamannafundi í New York. “Ef meiri hjálpargögn berast ekki, er hætta á útbreiðslu farsótta sem gætu verið enn mannskæðari en sjálfur fellibylurinn.” (sjá nánar: http://www.unric.org/index.php?option=com_content&task=view&id=17066&Itemid=111)

Sameinuðu þjóðirnar hafa aðeins náð til um þriðjungs þeirra sem eiga um sárt að binda eða 270 þúsund manns. Matvælaáætlun SÞ teldi að þær matvælasendingar sem þegar hefði verið leyft að senda til landsins væri um tíundi hluti þess sem nauðsynlegt væri. Hrisgrjónabirgðir landsmanna sjálfra væru nærri því á þrotum.
Ban sagðist hafa reynt þrotlaust að ná símasambandi við Than Shwe, oddvita herforingjastjórnarinnar undanfarna daga en án árangurs.

Við þessar aðstæður er ekki að undra að rætt sé í fullri alvöru um að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða og virði stjórnvöld í Myanmar að vettugi og komi aðstoð til skila, þótt beita þurfi valdi.
Í samþykktum alheimsleiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2005 samþykktu öll aðildarríkin, þar á meðal Myanmar, grundvallarregluna um verndarskyldu: að stjórnvöldum í hverju ríki bæri að vernda íbúana fyrir td. þjóðarmorði og stríðsglæpum en ef þau létu það undir höfuð leggjast, væri það skylda og réttur alþjóðasamfélagsins að bregðast við án tillits til fullveldis ríkja.

Einar K. Guðfinsson, ráðherra segir á bloggi sínu: “Verra er varla hægt að hugsa sér. Stjórnvöld sem gera sitt til að afstýra því að þegnum þess sé bjargað frá dauða, verða varla nefnd nema hinum hrikalegustu nöfnum... Hið umtalaða alþjóðasamfélag sem stundum er ákallað af minna tilefni er bjargarlítið og afskiptalaust þegar örlög manna í einhverju lokaðasta og versta samfélags heims á í hlut.”

En hver er stefna íslenskra stjórnvalda sem vilja setjast í Öryggisráðið? Viljum við að alþjóðasamfélagið víki fullveldi Myanmar-stjórnarinnar til hliðar með skírskotun til verndarskyldunnar?

Einar K. virðist ósáttur við afskiptaleysið en hver er stefna Ingibjargar Sólrúnar?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Óábyrgar hugrenningar:
Það var eitthvað kaldhæðnislegt við það þegar Bandaríkjamenn gátu ekki varpað hjálpargögnum yfir landið vegna þess að stjórnvöld gáfu ekki leyfi.
Ef Bandaríkjamenn hefðu ætlað að ráðast inn og varpa sprengjum þá hefðu þeir ekki beðið um né beðið eftir leyfi.
Lexían er sem sagt: Ef þú ætlar að varpa mat í hausinn á fólki þarftu leyfi en ef þú ætlar að varpa sprengjum þá er í lagi að gera það í leyfisleysi.
Veröldin getur verið svo steikt.