mánudagur, 20. október 2008

Kominn í bindindi

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sagði við mig í fjölmenni eftir fyrstu tvo Eyjupistlana mína: "Hvar ætlar þessi maður að fá vinnu?"

Þetta var sagt í grínu en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Nú er það svo að víða í hinum siðmenntaða heimi, þykir sjálfsagt að ráðamenn sæti gagnrýni. Heima kveinka menn sér yfir gagnrýni og enginn ber nokkurn tímann neina ábyrgð.

Viðbrögð við gagnrýni mína á viðtal við Dorrit Moussaieff hafa verið talsverð. Mikill meirihluti segir að þetta séu orð í tíma töluð. Aðrir telja hins vegar að forsetafrúin eigi að vera stikkfrí og forsetinn raunar líka.

En fúkyrðaflaumurinn og hótanirnar í minn garð vegna skrifa minna hér á Eyjunni, eru hins vegar með þeim hætti að ég sé mér engan hag í að halda þessu áfram.

Ég vil þakka lesendum lesturinn og óska útgefendum Eyjunnar til hamingju með vefsíðuna sem ég tel mikilvæga í íslenskri fjölmiðlaflóru.

PS

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa séð ástæðu til að leggja orð í belg um blogg-bindindi mitt í kommentunum. Mér finnst mjög vænt um margt sem þar hefur verið skrifað. Þeim sem finnst ég vera leiðinlegur er það guðvelkomið en hvers vegna voru þeir þá að lesa skrif mín? Nafnlausir ritsóðar dæma sig svo sjálfir.
Mér þykir hins vegar mikilvægt að leiðrétt tvennt. Mér hefur aldrei dottið í hug að taka orð Össurar bókstaflega, þetta var retórískt og meiningin einfalldega að það væri lítið á þessu að græða.
Össur er góður kunningi minn og hvarflar ekki að mér að hann vilji mér neitt illt. Og hann hefur aldrei kvartað yfir skrifum mínum enda er hann einn okkar besti Evrópusinni - og hlýtur því oft að hafa verið sammála mér.
Í öðru lagi er ég alls ekki kominn í blogg-bindindi útaf því sem skrifað er á kommentakerfinu. Mér gæti ekki verið meira sama og hárrétt sem einn bréfritari bendir á að það væri hin mesta hræsni að þola ekki slíkt.
Þær hótanir sem ég talaði eru annarar ættar og komu úr annari átt. Meira í ætt við að finna hestshaus á þröskuldinum en að vera vændur um fylleríi í kommentakerfi. (Skrifa raunar oftast á morgnana og er enn ekki farinn að drekka viskí með seríósinu.)

Og svo í lokin ég sagðist aldrei vera hættur að blogga að eilífu. Það hentar mér ekki í augnablikinu og mér finnst það ekki gaman í bili. Bindindið stendur þangað til það breytist. Þá kannski dettur maður í það aftur með stæl!

53 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Líklegast góð ákvörðun hjá þér Árni.

Þjóðin þarf öll að standa saman núna og í því fylgir einnig að gefa okkar sameiningartáknum og þjóðarleiðtogum stuðning.

Gangi þér vel á öðrum vetvangi.

Unknown sagði...

Tilhvers að gefa fólkinu með hótaninar og allt þetta kjaftæði þá ánægju að sjá þig hætta skrifum. Með því að hætta þessu þá má segja að þetta fólk hafi unnið og gagnrýnin hugsun hafi dáið ennþá meira út á Íslandi.

Gallin við Íslendinga er þessi, þeir hætta að skrifa um leið það fer að blása í móti. Slíkt gengur ekki, enda voðalega einfalt að þagga niður í harðri gagnrýni ef að viðkomandi veit að hægt er að þagga niður í viðkomandi með því einu að vera rætinn við hann.

Þetta er gallin á umræðunni á Íslandi, allir eru svo helvíti viðkvæmir og það má ekki blása á þá að þá eru þeir bara hættir að skrifa næsta áratugin eða svo.

Það kemur þessvegna ekki á óvart að gagnrýnin umræða sé svona lítil á Íslandi. Það er búið að þagga hana alla niður með árásum á þeim sem skrifa og sá sem skrifar gefur eftir og hættir.

Nafnlaus sagði...

Sumir eru pennar og hugsandi menn. Þú ert einn af þeim. Þú getur ekki annað. Það er þín náttúra. Þú verður að koma þér upp skráp.

Nafnlaus sagði...

Það er erfitt að vita hvar mörkin liggja ef maður er alltaf stilltur. Þú verður ekki sakaður um það.
Bindindi eru á hinn bóginn algeng og oft á tíðum skynsamleg viðbrögð þeirra sem hafa farið yfir strikið.

Gangi þér vel,
Dofri.

Nafnlaus sagði...

Það þýðir nú lítið að fyllast skelfingu yfir orðbragði í athugasemdum, Árni minn, sér í lagi ekki þegar maður hefur vanið sig á að hreyta ónotum og fúlyrðum í alla þá sem maður er ekki sammála eða gera ekki það sem maður vill að þeir geri. Bloggið er orðið þannig; mesta óhroðaveita samtímans.
Bloggið þitt hefur reyndar verið fróðlegt og oft á tíðum skemmtilegt, þannig að ég missi nú daglegan lestur þótt ég hafi aldeilis ekki alltaf - reyndar sjaldnast - verið sammála útlagningu þinni á samtímanum.
Eigðu góða tíma í Brussel.

Nafnlaus sagði...

Hárétt ákvörðun hjá þér Árni. Hættu.

Lesandi Eyjan.is

Nafnlaus sagði...

Fyrst hættir Baldur McQueen og svo þú. Þetta má ekki gerast. Við þurfum á að halda svona bloggurum sem kunna að segja hispurslaust skoðanir sínar á þessum stærstu málum Íslandssögunnar. Notum lýðræðið á Netinu og höldum áfram að veita aðhald.

Oddur Ólafsson sagði...

Það væri bót í máli ef menn yrðu að koma með athugasemdir undir nafni.

Ég skora á þig að halda áfram, og vona að mín gagnrýni hafi ekki talist vera fúkyrðaflaumur.

Nafnlaus sagði...

Saell,

Godir pistlar hja ther Arni, sa sidasti um Dorrit var serstaklega godur.

Vonandi tekurdu fram lyklabordid aftur fljotlega.

Kv,

Sveinn

Nafnlaus sagði...

Alger synd. Núna þurfum við fólk sem þorir. Fólk sem hangir ekki fast í flokkafrösum.

Það þarf að stinga á stórt graftarkýli á Íslandi. Það þarf kjarkað fólk til. Við getum ekki látið meðvirka fólkið þagga allt niður.

Takk fyrir góða pistla. Vona að þú hættir við að hætta.

Nafnlaus sagði...

Nei, plís ... ekki hætta!
Við græjum vinnu maður

Nafnlaus sagði...

Þegar fólk eins og þú og áðurnefndur Baldur McQueen hætta að tjá sig um samfélagið tapar þjóðin mikilvægum pólum í annars grátlega dapri lýðræðislegri umræðu.
Komdu aftur.

Nafnlaus sagði...

Blessud se minning þessa penna. Hann var beittur, rökfastur en meinfyndinn. Mikill missir.

Með von um endurskoðun...
(standa saman í þessum þrengingum)

kv.
KHH

Unknown sagði...

Sæll Árni.

Ekki hætta að skrifa pistla. Þeir hafa verið mjög fínir hjá þér og ekki of margir sem skamma útrásarvíkingana án þess að gleyma því að auðvitað bera stjórnvöld í landinu mesta ábyrgð.

Eða öfugt: Skamma stjórnvöld en gleyma ekki ábyrgð fjármálamanna?

Haltu bara áfram. Slepptu því bara að lesa kommentin. Ég hef aldrei skilið þörfina á þeim. Pistlar af þessu tagi eiga að vera til þess að setja fram sjónarmið sín, ekki annars.

Illugi Jökulsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni minn.
Hvet þig til að endurskoða þá afstöðu þína að hætta að skrifa pistla, en það er hins vegar gott að vera í bindindi.
Þú varst kannski full harður við forsetafrúna sem er naívisti og falleg sem slík og indæl.
Forsetinn þolir alveg að æpt sé að honum og það gera einnig flestir ráðamenn þó þeir eigi það til að kveinka sér. Þegar menn kveinka sér þá gerist tvennt: sá sem slær veit að hann hefur hitt og aðrir í kring geta valið hvort þeir vorkenna vælukjóanum. Held að enginn á Íslandi vorkenni vælandi ráðamönnum í dag. Það er hins vegar gott fyrir þjóðfélagið að þeir grenji svolítið og beri sig aumlega svo ekki þurfi að höggva þá.

Nafnlaus sagði...

Sorglegt að sjá einn af bestu pennum bloggheima gefast upp. Vildi óska að þú hættir ekki...

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni
Mikill missir af þínum frábæru og nærandi pistlum - ég vona svo sannarlega að þú takir aftur til við að tjá þig.
Kær kveðja
Elísabet Indra

Nafnlaus sagði...

Nei, nei. Ekki hætta, gerðu það fyrir okkur. Gerðu það fyrir okkur sem sitja hérna í skít stjórnmálamannanna.

Mæli með því að þú haldir áfram og takir fyrir að fólk geti sett athugasemdir við færslur.

Við þurfum virkilega á þér að halda á þessum tímum. Í alvöru!

Nafnlaus sagði...

Their sem hafa skodanir a Islandi fa gagnryni sem frekar ad reglu en undantekningu fara ut yfir øll mørk.
Thad er hins vegar ekki nægilega astæda fyrir thvi ad hætta ad setja skodanirnar fram thvi thad verdur ju ad halda umrædunni gangandi og hun a ekki ad vera skodanalaus og a einn veg. Thad er einungis sigur fyrir tha sem vilja stjorna thvi sem sagt er.
En tho ad eg se sidur en svo alltaf sammala thvi sem thu hefur latid fra ther fara hefur thu samt sem adur verid einn sa postur sem hefur gert eyjuna ad theim vettvangi sem hun er, nefnilega naudsynlegum thætti i florunni islensku.

Nafnlaus sagði...

Í gær vorum við að frétta af því að að hópur íslendinga sem þekkja vel til í ensku samfélagi töldu það borgaralega skyldu sína að reyna að koma sjónarmiðum íslendinga á framfæri þar í landi. Kæri Árni, gerðu það að borgaralegri skyldu þinni að halda áfram. Ekki hætta þegar mest á ríður, við þurfum að fá gagnrýna umræðu.

Nafnlaus sagði...

Ef allir hefðu nú hugsað með þessum hætti í gegn um tíðina þá er nokk víst að við teldum enn að jörðin væri flöt.

Árni hefur skrifað beitta pistla og stundum hafa menn skorið sig. En hvað með það?

Ef menn þora ekki að standa á sannfæringu sinni af ótta við að missa af einhverjum atvinnutækifærum þá er illa fyrir þjóðfélaginu komið og á vísan að róa fyrir alla þá sem kúga vilja lýðinn til hlýðni.

Þegar menn af því kaliberi sem Árni Snævarr og Baldur Mcqueen slíðra pennann þá glotta ráðamenn. Sigurmengað bros þeirra byggir undir vanmátt okkar hinna og dregur þannig úr gagnrýninni þjóðfélagsumræðu.

Ekki fleiri bindindismenn takk!

Íslendingar!
Vaknið!
Þetta er ekki eðlilegt ástand!

Unknown sagði...

Með þögn þinni fækkar sjálfstæðum röddum sem greina ástandið um eina. Það er mjög slæmt þegar einsleitni í fjölmiðlum fer vaxandi og þeir virðast ekki þjóna hagsmunum almennings heldur eigenda sinna.
Hvet þig eindregið til að endurskoða þessa ákvörðun þína og skeyta ekki um fúkyrði eða hótanir frá stuðningsmönnum ÓRG. Allt sem þú sagðir um DM í pistli þínum var réttmætt í framhaldi af sérstæðu Morgunblaðsviðtali við hana.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,
Ég tek heilshugar undir með þeim sem skora á þig að halda áfram. Þú hefur verið mikilvægur penni á Eyjunni og ekki minnkar vægi þitt við þessar aðstæður.

Orðfæri þitt er ávallt beitt og þú heggur á báðar hendur, en aldrei hef ég séð lesið pistil eftir þig sem mér hefur fundist nálægt því að fara yfir strikið.

Kreppan sem nú ríður yfir verður vonandi til þess að draga þessa litlu eyþjóð okkar inn í nútímalega stjórnsýslu þar sem opinber skoðanaskipti og ágreiningur þykir eðlilegur og nauðsynlegur hluti lýðræðislegrar umræðu. Þá verður eftirspurn eftir öflugu fólki með gagnrýna nálgun og sjálfstæða hugsun.

Vinsamlega láttu ekki vanstillta trúboða einhverra jaðarsjónarmiða slá þig útaf laginu, gerðu frekar eins og Illugi leggur til og hunsaðu commentin.

Nafnlaus sagði...

Árni, komdu þér upp skráp, hættu að lesa kommentin og skrifaðu eins og þér einum er lagið. Þér munu vafalítið bjóðast frábær atvinnutækifæri á Nýja Íslandi!! Ef ekki þá þá breytist ekki neitt hérna og Manneskjurnar sem komu okkur íslendingum í þessa stöðu hafa unnið.
Lifi Rannsóknarrétturinn, við þurfum á slíku að halda.
Leifur

Guðmundur sagði...

Er einhver ástæða til þess að láta Moggan komast upp með sína skrumskældu veröld. Oft hefur Mogginn farið út fyrir allt velsæmi og líklegast sjaldan eins og nú um helgina, þar sem hann hamast við að hvítþvo gæðinga sína. Eða Staksteinar í dag!!!

Í athugasemdum hans "Nafnlaus" er hlutunum oft snúið á haus.
Við okkur blasir í dag hvernig gæðingarnir hika ekki við að hnika til staðreyndum til þess að eins að fá frið fyrir óþægilegum athugasemdum og spurningum. Lítið á viðbrögð forsætisráðherra.

Bloggheimar hafa skapað áður óþekkt svigrúm.

Líttu á hvaða fjölmiðlar eru í boði í dag?

Nafnlaus sagði...

Þegar menn kasta skít þá verða þeir því miður að geta þolað að fá skít til baka. Kannski ættirðu eftir allt að fara í bindindi. Svo geturður skrifað.

Nafnlaus sagði...

Það var mjög misráðið af forsetaembættinu að tefla Dorrit fram á þessum alvarlegu tímum. Hún er ekki stjórnmálamaður og hefur ekkert fram að færa enda hefur hún aldrei deilt kjörum með íslensku þjóðinni, blessunin. Ég er sammála Ara Matt, gagnrýni á hana virkar ósympatísk vegna þess að hún er svo naív og mikið krútt. Þú varst kannski fullharður. Eða full húmorslaus í gagnrýni þinni.

Blessaður taktu þér smá bloggfrí. Eins og t.d. framyfir næstu helgi. Eða þar til staðan hefur skýrst eitthvað smávegis. Og mættu þá endurnærður og galvaskur aftur til leiks!

Anna

Nafnlaus sagði...

Ég hef haft ánægju af því að lesa blogg þitt og vona að þú skiptir um skoðun.

Kv. Snæbjörn

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú leiðinlegur, með vondar skoðanir og ég fagna þessari ákvörðun. Þeir sem gagnrýna harkalega verða að vera sjálfir viðbúnir gagnrýni. Það hlýtur að vera djóka að skrifa þennan pistil um Dorrit og hrökklast svo í burtu vegna "fúkyrðaflaumsins". Þú ert þó betri en Dofri sem útilokar og eyðir athugasemdum sem eru honum ekki þóknanlegar. Svona víst hann er að lesa.

Nafnlaus sagði...

Blessadur vertu ekki ad haetta! Stundum verdur folk ad hafa vit a thvi ad thegj og thad hefdi Dorrit att ad gera. Sumum islendingum sarnar thad alveg ogurlega thegar sannleikurinn er sagdur...lattu ekki kuga thig og thinar skodanir!

Nafnlaus sagði...

Sé ekki að þú þurfir að hætta að skrifa, ef þú bara hættir að drekka... það er kannski helst þannig bindindi sem þú þarft að skella þér í.

Unknown sagði...

Æ og ég sem var rétt nýbúin að uppgötva bloggið þitt. Hvernig væri að loka bara fyrir nafnlausar athugasemdir? Nafnlaust skítkast er fáum til ánægju. Taktu þér pásu ef þú þarft á því að halda en hún þarf nú kannski ekki að vera endanleg.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Vona að þú finnir kraft til að hætta ekki að blogga. Það vantar fleiri gagnrýnisraddir í samfélagið. Bloggið virðist vera eina röddin þessa dagana. Þetta er erfitt, en það er mikilvægt að einhverjir sinni þessu lykilhlutverki lýðræðis. Það er fín uppástunga að loka fyrir (eða amk. hætta að lesa) athugasemdir--sérstaklega frá nafnlausum.

Nafnlaus sagði...

Slökktu bara á þessum athugasemdum. Þær eru tilgangslausar og kjörlendi andlegra botnlanga á internetinu (eins og þessi svarhali er sjálfur dæmi um). Ég vona að þetta sé ekki endanleg ákvörðun.

Nafnlaus sagði...

Vá . sorglegt

Nafnlaus sagði...

Ég skora á þig að halda áfram. Lokaðu bara á athugasemdir eins og einhver bendir á.

Nafnlaus sagði...

Æi,æi. Landinn er jafn hörundssár sem fyrr. Þannig er það bara og ég er viss um að þú hafir vitað það fyrir. En í guðanna bænum ekki hætta að segja landanum sannleikan, það var veruleika flótti og fyrring sem kom okkur í þann vanda sem við erum í dag. Landinn þarf menn til að segja það hann hugsar en þorir ekki að segja eða leyfa sér að huga að. Þannig að í guðanna bænum ekki hafa bindindið langt.

Yðar dyggur lesandi
Magnús Bjarnason

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta algjör della og skil barasta alls ekki af hverju þú ætlar að hætta vegna þess að umfjöllun þín fær misjöfn viðbrögð

Nú, sem aldrei fyrr, þurfum á því að halda að fólk tali um það sem hefur verið þagað í hel

Skrifaðu áfram Árni Snævarr!

Nafnlaus sagði...

Blessaður Árni, haltu áfram að skrifa.

Ég set reyndar spurningarmerki við að gagnrýna Frú Dorit en mér finnst þeim mun réttara að taka Ólaf Ragnar á beinið en hann stóð nú fyrir umdeildri einkavæðingu á sínum tíma þar sem að hann rétti einum víkingnum Þormóð Ramma á Siglufirði fyrir lítið og hefur síðan ferðast og klappað látlaust fyrir útrásinni.

Ef til vill hefur Ólafur Ragnar ekki áttað sig á því að með þessu hefur hann slegið á heilbrigða efasemdir hérlendis sem erlendis og gefið útrásinni gæðastimpil sem ekki var innistæaða fyrir.

Þáttur Ólafs Ragnars er samt sem áður sára lítill samanborið við sök þeirra stjórnálamanna sem hafa setið í ráðherrastólum sl. 6 árin.

Er Össur ekki bara smeykur sjálfur um djobbið?

Nafnlaus sagði...

Það er sorglegt að þú skulir láta undan hótunum.

Ef ég skil rétt þá eru þetta ekki hótanir eða skítkast í kommentakerfi heldur annars konar hótanir.

Eina rétta hjá þér Árni er að greina frá hverjum þessar hótanir eru og hvers konar hótanir og blogga áfram út í eitt.

Því hver vinnur.... ef þú lætur undan hótunum???

Nú er ég ekki að skilja manninn sem lætur engann segja sér að halda kjafti.

Það er grafalvarlegt mál og lýðræðið fengið stórt högg ef einhverjum tekst að hóta þér til þagnar.

Nafnlaus sagði...

Sæll, Árni.

Í ummælum þínum um forsetahjónin er margt satt, þótt tónninn hefði máske mátt vera mildari.

Þegar franska byltingin skall á, þá voru frönsku konungshjónin uppnefnd "bakarahjónin". Mér sýnist þú hafa búið til frábært viðurnefni handa hæstráðendum á Bessastöðum: Klappstýrurnar.

Við eigum að hafa það hugfast að þessar íslensku klappstýrur stóðu ekki bara á hliðarlínunni, heldur voru þær virkir þátttakendur og buðu öllu ruðningsliðinu í bólið sitt. Forsetahjónin auðvelduðu með öðrum orðum útrásarguttunum með því að hampa þeim og gefa þeim "opinberan" stimpil. Nú láta þau eins og þau vilji ekki kannast við neitt.

Forsetinn er í hópi þeirra, sem bera ábyrgð - og jafnvel töluverða ábyrgð - á ástandinu. Af hverju hefðu þeir annars átt að vera í boðum á Bessastöðum, þessir jakkalakkar í jeppaleppunum?

Kveðjur - ég hvet þig eindregið til að halda áfram að blogga, en fínstilla tóninn ögn.

Rögnvaldur sagði...

Í dag er mánudagur. Þeir eru óteljandi mánudagarnir sem ég ákvað að fara í bindindi en þegar leið á vikuna skipti ég um skoðun og var kominn á húrrandi fyllerí um helgina. Nú er ég steinhættur að þjóra.
Árni, ekki gera eins og ég, þitt bindindi er ekki gott fyrir þjóðina.
Haltu áfram að blogga.

Nafnlaus sagði...

Það þykir mér mikill skaði ef þú hættir að blogga því ekki hafa margir þekkingu og þor á borð við þig. Hins vegar þykja mér komment nafnleysingja í blogginu hálfgerð plága - eða marklaus í besta falli - og skil ekki hvernig menn þola slíkt á síðum.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,
þó þú hafir sýnt mér banatilræði fyrir nokkrum árum, þá er ég löngu hættur að erfa það við þig.
Ég hef lesið hvert orð sem þú hefur skrifað, mér til andlegrar upplyftingar og mikillar skemmtunar. Sérstakt dálæti hef ég á því þegar þú híar á hinn nakta keisara okkar. Í öllum guðs bænum ekki hætta að skrifa, þess bið ég þig lengstra orða. Kjartan Valgarðsson

Nafnlaus sagði...

Ég hvet þig eindregið til að halda áfram að skrifa Árni. Ég hef lesið hverja einustu grein sem þú hefur skrifað og haft gagn og gaman af.

Þú ert sterkur málsvari Evrópusambandsins og þarf einn svoleiðis til að lemja linnulaust á þessari ríkisstjórn og þá aðallega þvergirðingshættinum í þessum Sjöllum.

Er einnig alltaf að bíða eftir þættinum sem þú gerðir um Evrópusambandið ....

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna segir thu okkur ekki hver faerdi ther hesthausinn? Ur hvada att koma thessar hotanir sem neyda okkur haefustu penna til ad haetta ad skrifa og kaefa okkur beittustu gagnrynisraddir?

Thad breytist ekkert i thessu gudsvolada landi fyrr en vid haettum ad koa med thessum sjuku valdaklikum og thorum ad koma fram og segja thad sem segja tharf. Thu hefur stadid thig manna best i thessu hlutverki.

Eg skora a thig ad greina fra thvi hver hafdi i hotunum vid thig.

Dóri Hemm

Siggi Hrellir sagði...

Ekki alltaf fara í fýlu þegar einhverjir nöldra.
Oft er þörf en nú er nauðsyn!

Kv.- Siggi Hr.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst pistillinn þinn um útlendu konuna kannski nokkuð yfirdrifinn, en efnislega var ég honum hjartanlega sammála.
En hvað þýðir hestshaus á þröskuldinum? Ég hefði getað skilið hestshaus í rúminu (Puso), en á þröskuldinum?
Er ég eini skrifarinn, sem ekki næ þessu?
Bjarni

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,

ég tek undir með flestum hérna að þú eigir að halda áfram enda nýtur þú virðingar og færð viðbrögð hjá fólki.

Mæli frekar með því að þú látir ekki þessa "handrukkara" taka þig niður og birtir frekar þessar hótanir sem þú hefur fengið og notir lögreglu til að fylgja þessum auðrekjanlegu (í flestum tilfella) hótunum eftir.

Það á engin að komast upp með að hrekja mann burt fyrir málefnalega umræðu þó hann hafi hagsmuni.

Nafnlaus sagði...

Komu einhverjar hótanir eða slíkt? Leitt að heyra, það var einmitt svo frábært að lesa bloggið þitt. Við sem elskum land okkar og þjóð megum ekki láta einhverja vitleysingja stoppa okkur í uppbyggingunni sem framundan er.
kv, ari

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,

Tek undir með öllum þeim sem hvetja þig til að halda áfram að skrifa. Hef fylgst með þér í mörg ár, sem fréttamanni og nú nýlega sem bloggara. Þú ert einn fárra í þessari grein sem mér finnst vinna heimavinnuna sína, hvort sem maður er sammála þér (sem ég reyndar er oftast) eða ekki. Við megum ekki við því nú sem þjóð að gagnrýnar raddir þagni.

Með bestu kveðju,

Sigurður

Rósa sagði...

Sæll Árni!

Hvort sem þetta var of gróft hjá þér eða ekki þá ertu nú samt góður penni.
Kannski er þetta góður leikur hjá þér að taka pásu.
Hlakka til að lesa skrif þín í framtíðinni!

Rósa - Borisar - kattarvinkona

Nafnlaus sagði...

Þótt ég sé sammála mörgu sem þú skrifar Árni, þá er annað sem hefði mátt kyrrt liggja. Svo finnst mér það einnig karlmannlegra að beina orðunum beint til forsetans.
Látum ekki reiðina ná tökum á okkur. Það er engum til gagns.