Marttii Ahtisaari á sannarlega skilið að fá friðarverðlaun Nóbels. Það er svolítið skrýtin tilfnning að hér hjá Sameinuðu þjóðunum sjá margir ástæðu til að óska mér til hamingju þar sem ég fer fyrir Norðurlandaskrifstofu á mínum vinnustað.
Þetta er gott dæmi um hvernig litið er á Norðurlönd innan Sameinuðu þjóðanna til góðs eða ills.
Og við hjá Sameinuðu þjóðunum fögnum auðvitað verðlaunum Ahtisaari enda leynist engum að hann fær þau fyrir friðarviðleitni sína í Kosovo þar sem hann var sérstakur sendimaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ekki má heldur gleyma því að hann lék lykilhlutverk í að koma á friði í Aceh í Indónesíu 2005 og hann kom raunar líka við sögu í fyrra Íraksstríðinu.
Ahtisaari er formlegur í háttum en sagður launfyndinn og skemmtilegur. Það er fyllsta ástæða til að óska Ahtisaari og vinum okkar í Finnlandi til hamingju!
Þetta er annað árið í röð sem aðili tengdur Sameinuðu þjóðunum fær friðarverðlaunin. Í fyrra var það loftslagsnefndin. Mér fannst gleymast á Íslandi að talsvert margir íslenskir vísindamenn hafa unnið með nefndinni. Og svo fannst mér ég nú líka hafa fengið Nóbelinn því ég vann fyrir nefndina í nokkra daga á ráðstefnu í Brussel!!
Spurningin er sú hvort þetta hjálpi framboði Íslands í kosningunni til öryggisráðsins.
föstudagur, 10. október 2008
Til hamingju Ahtisaari
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli