föstudagur, 17. október 2008

Lítið notað sæti til sölu

Vonandi vinnur Ísland sæti í Öryggisráðinu. Við gætum auglýst það til sölu "lítið notað". Nú eða veðsett það.

Grínlaust þá högnuðust ríkin sem sátu í ráðinu þegar Íraksstríðið var yfirvofandi, mjög á baráttu Bandaríkjanna og Frakklands.

Og það væri Íslandi mikil lyfistöng ef við næðum kjöri. Hins vegar virðist sem mikil áhersla Íslendinga á að verja sig gegn umtali um fjárhagsvanda, hafa komið mönnum mjög í opna skjöldu á Allsherjarþinginu. Í grein í New York Times furðuðu fulltrúar skítblankra Afríkuríkja sig á þessum málflutningi.

Það er mjög erfitt að átta sig á því hverjir muni styðja Ísland þegar til kastanna kemur því atkvæðagreiðslan er leynileg. Sjálfur heyrði ég eitt sinn íslenskan sendimann lofa tilteknum frambjóðanda til framkvæmdastjóra stuðningi Íslands. Þegar ég innti hann eftir því hvort þetta hefði verið ákveðið, svaraði hann: "Auðvitað ekki, en svona er diplómasían."

Þessi orð eru skrifuð þegar atkvæðagreiðslan er að hefjast. Ég vona svo sannarlega að Ísland nái kjöri, þótt ég sé ekki bjartsýnn. Er ekki allt hey í harðindum?

Engin ummæli: